Fimm gallar hafa fundist í 737 Max vélunum frá Boeing, við nákvæma skoðun flugmálayfirvalda í Evrópu, og standa nú líkur til þess að vélarnar verði kyrrsettar lengur en áður var talið.
Frá þessu greindi Bloomberg í gær, og vitnaði til heimildarmanna sem ekki vildu koma fram undir nafni, en ekki hefur verið greint frá þessum niðurstöðum opinberlega ennþá.
Meðal galla sem fundist hafa tengjast sjálfstýringarbúnaði og hinu svonefnda MCAS kerfi, sem á að sporna gegn ofrisi.
Ljóst þykir að viðgerðirnar verða kostnaðarsamar, bæði fyrir Boeing og ekki síður flugfélögin, sem hafa reitt sig á Max vélarnar í leiðakerfum sínum. Á meðal þeirra flugfélaga er Icelandair, en félagið hefur gefið það út að það sé nú með flota sinn til endurskoðunar, ekki síst vegna kyrrsetningar á Max vélunum.
Opinberar yfirlýsingar félagsins gera ráð fyrir kyrrsetningu í það minnsta fram til 15. september, en nú er gert ráð fyrir að mun lengri tíma muni taka að laga Max vélarnar þannig að vélarnar séu öruggar. Nú þegar hefur kyrrsetningin leitt til samdráttar í sætaframboði, og kostnaðarukningu, en ekki liggur fyrir enn hvort Boeing bæti skaðann af kyrrsetningunni.
Alþjóðleg kyrrsetning tók gildi eftir að Max vél Ethiopian Airlines hrapaði 13. mars, með þeim afleiðingum að allir um borð létust. Áður hafði Max vél hrapað 29. október í Indónesíu, með þeim afleiðingum að allir um borð létust. Samtals létust 346 í þessum tveimur slysum.