Sjálfstæðisflokkur ekki mælst minni frá hruni – Miðjan í andstöðunni nú stærri en stjórnin
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur ekki mælst lægra frá hruni, samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur ekki mælst lægra á kjörtímabilinu og frjálslynda miðjublokkin er nú stærri en ríkisstjórnin. Miðflokkurinn tekur einungis lítinn hluta þess fylgis sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa tapað á kjörtímabilinu.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur ekki mælst lægra í könnunum MMR eftir bankahrun. Það mælist nú 19 prósent en fyrri botn var 19,5 prósent fylgi í janúar 2016. Fylgi flokksins lækkar umtalsvert milli kannana, eða úr 22,1 prósent.
Þetta mikla fall í fylgi Sjálfstæðisflokks gerir það að verkum að ríkisstjórnarflokkarnir þrír mælast nú einungis með 37,7 prósent samanlagt fylgi. Þeir fengu alls 52,8 prósent atkvæða í síðustu kosningum haustið 2017 og hafa því tapað tæplega þriðjungi atkvæða sinna það sem af er kjörtímabili. Mest munar þar um minnkandi stuðning við Vinstri græna, en tæplega 40 prósent færri segjast ætla að kjósa þann flokk í dag en þá. Hjá Sjálfstæðisflokknum, sem hefur átt í miklum innanflokksátökum undanfarna mánuði vegna innleiðingar þriðja orkupakkans, hefur kjósendum fækkað um fjórðung frá haustinu 2017 og hjá Framsóknarflokknum hefur fylgið dregist saman um rúman fimmtung.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja hefur ekki mælst jafn lágt á kjörtímabilinu.
Miðflokkurinn setur persónulegt met
Sá flokkur sem hagnast mest á þessu er Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en fylgi hans hefur aldrei mælst hærra en nú í könnunum MMR, eða 14,4 prósent.
Árangur Miðflokksins er merkilegur í ljósi þess að flokkurinn hríðféll í könnunum eftir Klaustursmálið í lok síðasta árs og mældist með 5,9 prósent fylgi í desember 2018. Síðan þá hefur flokkurinn sett fram harða afstöðu í hverju málinu á fætur öðru, nú síðast í þriðja orkupakkanum. Á meðan að það mál var til umræðu í þinginu þá skilaði það Miðflokknum þó engri fylgisaukningu. Hún kom fyrst fram í nýjustu könnun MMR, sem birt var í dag, og var framkvæmd framkvæmd 4. - 17. júlí 2019. Heildarfjöldi svarenda var 2031 einstaklingur, 18 ára og eldri.
Það fylgi sem fer af Sjálfstæðisflokknum milli júní og júlímánaða virðist að mestu rata beint til Miðflokksins.
Þó er vert að benda á að fylgistap Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá síðustu kosningum, 8,5 prósentustig, er umtalsvert hærra en það sem Miðflokkurinn hefur bætt við sig frá þeim tíma, sem eru 3,5 prósentustig. Fimm prósentustig af stuðningi þeirra flokka, og heil 6,6 prósentustig af stuðningi Vinstri grænna, hafa ratað annað en til Miðflokksins.
Frjálslynda miðjublokkin með meira fylgi en stjórnin
Það annað er hin svokallaða frjálslynda miðja sem skipuð er Pírötum, Samfylkingu og Viðreisn. Innan þeirra flokka er umtalsvert samstarf á þingi og leiðtogar þeirra hafa lýst yfir vilja til samstarfs eftir næstu kosningar, enda umtalsverð samlegð í mörgum málum þeirra á milli.
Fylgi þessarar blokkar mælist nú 38,1 prósent eða meira en samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja þótt munurinn sé innan skekkjumarka. Í síðustu kosningum fengu þessir þrír flokkar 28 prósent atkvæða og því hefur stuðningur við þá aukist um 10,1 prósentustig, eða um 36 prósent. Sameiginlegt fylgi Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar hefur haldist mjög stöðugt á þessum slóðum þorra kjörtímabilsins, sérstaklega síðustu misserin, þótt að fylgið flakki aðeins á milli flokkanna þriggja.
Aðrir flokkar sem komast á blað í könnun MMR myndu ekki koma manni inn á þing að óbreyttu. Þeir eru Flokkur fólksins, sem mælist með 4,8 prósent fylgi, og Sósíalistaflokkurinn sem mælist með 4,3 prósent.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars