Eldri og tekjulægri kjósendur flýja Sjálfstæðisflokk og fara til Miðflokks
Miðflokkurinn mælist stærsti flokkurinn á Suðurlandi og Austurlandi en er með minnst fylgi á höfuðborgarsvæðinu, þar sem tveir af hverjum þremur kjósendum búa. Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst eftir því sem tekjur eru hærri en fylgi Miðflokks lækkar að sama skapi eftir því sem pyngjan er þyngri.
Eldri og tekjulægri kjósendur og kjósendur á Suðurlandi virðast vera þeir hópar sem eru að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn og lýsa yfir stuðningi við Miðflokkinn. Þetta má sjá í ítarlegri greiningu á fylgi flokkar úr síðustu könnun MMR sem tekin hefur verið saman fyrir Kjarnann.
Nýjasta könnun fyrirtækisins sýndi heildarfylgi Sjálfstæðisflokksins í 19,0 prósentum, sem er lægsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í könnunum MMR frá upphafi, og Miðflokkinn með 14,4 prósent fylgi, sem er það mesta sem hann hefur nokkru sinni mælst með hjá fyrirtækinu.
Í könnunum MMR í maí og júní, þar sem samanlagður fjöldi svara var 1.914 og 1.529 tóku afstöðu, sögðust samanlagt 26 prósent kjósenda á Suðurlandi sem svöruðu ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Í könnun MMR sem gerð var daganna 4. til 17. júlí, þar sem svarendur voru 2.031 og 1.573 tóku afstöðu, mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins í þeim hluta landsins 18,4 prósent og hafði dregist verulega saman á nokkrum vikum. Fylgi Miðflokksins í landshlutanum eykst hins vegar gríðarlega og mælist flokkurinn nú langstærstur innan þess. Í maí og júní sögðust alls 12,2 prósent aðspurðra ætla að kjósa Miðflokkinn en í nýjustu könnuninni sögðust 28 prósent kjósenda á Suðurlandi ætla að gera það.
Miðflokkurinn rýkur upp í vinsældum hjá eldri kjósendum
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sögulega verið mjög sterkur á meðal eldri kjósenda og í maí og júní mældist hann með mest fylgi allra flokka hjá kjósendum 60 ára og eldri, eða 21,1 prósent. Stuðningur hans hjá þeim aldurshópi hefur hins vegar dalað mikið og í júlí mældist hann 15,8 prósent.
Nú eru það Miðflokkurinn og Samfylkingin sem njóta mestra vinsælda hjá Íslendingum yfir 60 ára en báðir flokkar mældust með 21,5 prósent fylgi í júlí. Það er mjög svipuð niðurstaða hjá Samfylkingunni og síðustu kannanir á undan sýndu en mikillar aukningar gætir hjá Miðflokknum. Í maí og júní sögðust 12,2 prósent kjósenda í aldurshópnum 60 ára og eldri ætla að kjósa flokkinn en í júlí var sú tala komin upp í 21,5 prósent, líkt og áður segir.
Fylgi Sjálfstæðisflokks hjá tekjulágum helmingast
Þeir flokkar sem höfðuðu mest til tekjulægstu hópa samfélagsins, þeirra sem eru með 400 þúsund krónur eða minna á mánuði í heimilistekjur, voru í maí og júní Píratar (22,1 prósent), Vinstri græn (18,5 prósent) og Sjálfstæðisflokkur (15,3 prósent).
Á þessu hefur orðið mikil breyting á. Píratar eru enn sterkastir í tekjulægsta hópnum (20,3 prósent) en Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn, sem sitja saman í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum, hafa tapað miklu fylgi innan hans. Nú mælist stuðningur við Vinstri græn á meðal þeirra sem eru með 400 þúsund krónur á mánuði eða minna 11,1 prósent en stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn nánast helmingast og mælist nú 8,5 prósent. Af þeim flokkum sem eru á þingi mælist einungis Framsókn (3,1 prósent) og Viðreisn (7,2 prósent) með minna fylgi í þessum tekjuhópi en Sjálfstæðisflokkur. Ef einungis hann myndi kjósa myndi Sósíalistaflokkur Íslands (9,2 prósent) einnig fá meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn.
Miðflokkurinn, sem mældist með 9,5 prósent fylgi í aldurshópnum í maí og júní, mælist hins vegar nú næst stærstur innan hans með 16,6 prósent fylgi.
Það er einnig athyglisvert að fylgi Sjálfstæðisflokks eykst með hækkandi tekjum, og er mest (26,3 prósent) á meðal þeirra kjósenda þar sem heimilistekjur eru hærri en 1.200 þúsund krónur á mánuði. Þróunin er þveröfug hjá Miðflokknum. Þar er fylgið mest hjá tekjulægsta hópnum, en lækkar síðan jafnt og þétt eftir því sem tekjur aukast og er minnst hjá þeim sem eru með yfir 1.200 þúsund krónur á mánuði, eða 8,9 prósent.
Heildarfylgi allra flokka samkvæmt könnun MMR sem gerð var 4. til 17. júlí:
- Sjálfstæðisflokkurinn 19,0 prósent
- Píratar 14,9 prósent
- Miðflokkur 14,4 prósent
- Samfylkingin 13,5 prósent
- Vinstri græn 10,3 prósent
- Viðreisn 9,7 prósent
- Framsóknarflokkurinn 8,4 prósent
- Flokkur fólksins 4,8 prósent
- Sósíalistaflokkur Íslands 4,3 prósent
Viðreisn sterk á höfuðborgarsvæðinu
Miðflokkurinn bætti allra flokka mest við sig í heildarfylgi milli mánaða, eða 3,7 prósentustigum. Hann bætti við sig fylgi í öllum landshlutum og er nú stærsti flokkur landsins á bæði Suðurlandi (28 prósent) og Austurlandi (26 prósent), samkvæmt mælingum MMR.
Flokkurinn er með minnst fylgi á því svæði þar sem flestir landsmenn búa, höfuðborgarsvæðinu. Alls eru tveir af hverjum þremur kjósendum búsettir þar. Á svæðinu er Sjálfstæðisflokkurinn sterkastur (19,0 prósent) og Píratar, sem mælast næst stærsti flokkur landsins með 14,9 prósent, sækja þorra síns fylgis þangað (16,8 prósent). Miðflokkurinn mælist sjötti stærsti flokkurinn á höfuðborgarsvæðinu með 10,8 prósent fylgi. Bæði Samfylkingin og Viðreisn mælast með meira fylgi þar en á landsvísu og í tilfelli Viðreisnar munar umtalsverðu. Heildarfylgi þess flokks mælist 9,4 prósent en ef kjósendur höfuðborgarsvæðisins væru einir um að kjósa myndi það skila Viðreisn 12,4 prósent atkvæða.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars