Hæfisnefnd hefur metið Eirík Jónsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, hæfastan þeirra sem sóttu um laust embætti landsréttardómara, samkvæmt heimildum Kjarnans. Eiríkur var á meðal þeirra sem sóttu um stöðu landsréttardómara þegar 15 slíkar voru auglýstar til umsóknar í aðdraganda þess að millidómstigið tók til starfa. Hæfisnefnd mat Eirík þá sjöunda hæfastan af þeim sem sóttu um. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað hins vegar að taka út fjóra þeirra sem hæfisnefndin hafði metið á meðal 15 hæfustu og setja aðra, sem nefndin hafði metið minna hæfa, inn á lista yfir þá sem hún vildi skipa. Alþingi samþykkti svo lista Sigríðar.
Staða opnaðist
Einn þeirra ellefu sem voru löglega skipaðir í Landsrétt, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, sagði starfi sínu lausu í vor og greindi frá því að hann hygðist setjast í helgan stein. Því verður laus staða við réttinn frá og með komandi hausti.
Hún var auglýst og umsóknarfrestur rann út síðla í maí. Alls sóttu átta um stöðuna, þar af tveir sitjandi dómarar í Landsrétti, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir. Þau eru bæði á meðal þeirra fjögurra landsréttardómara sem hafa ekki fengið að dæma í málum frá því að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu var birt.
Hinir voru Friðrik Ólafsson varaþingmaður, Guðmundur Sigurðsson prófessor og Jónas Jóhannsson lögmaður.
Fjórir metnir
Samkvæmt heimildum Kjarnans drógu tveir umsækjendur umsókn sína til baka, Friðrik Ólafsson og Ragnheiður Bragadóttir. Hæfisnefndin mat fjóra hinna sem eftir stóðu eftir getu og reynslu og komst að þeirri niðurstöðu að Eiríkur væri hæfastur þeirra allra. Þar á eftir kom Ásmundur, svo Jón og loks Ástráður.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sitjandi dómsmálaráðherra, mun að öllum líkindum fá það verkefni að skipa í embættið. Hún hefur greint frá því opinberlega að nýr dómsmálaráðherra verði skipaður í haust.
Eiríkur og Jón höfðuðu báðir mál gegn íslenska ríkinu vegna ólögmætrar skipunar á Landsréttardómurum. Í október í fyrra komst héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að ríkið þyrfti að greiða þeim báðum bætur, Jóni fjórar milljónir króna í skaðabætur, 1,1 milljón króna í miskabætur auk þess sem ríkið greiðir 1,2 milljón króna málskostnað hans, auk þess sem dómurinn féllst á bótaskyldu ríkisins gagnvart Eiríki. Hann þurfti hins vegar að höfða skaðabótamál til að innheimta þá bótaskyldu. Eiríkur er fæddur árið 1977 og á því langa starfsævi framundan. Ljóst var að fjárhagslegt tjón hans, þar sem laun landsréttardómara eru mun hærri en núverandi laun hans, gæti orðið umtalsvert. Verði Eiríkur skipaður dómari við Landsrétt nú, líkt og hæfisnefndin leggur til, þá mun draga verulega úr því fjárhagslega tjóni sem hann getur sýnt fram á í skaðabótamáli sínu.