Ýmislegt bendir til þess að sú heimsskipun sem hefur verið viðvarandi frá lokum seinni heimsstyrjaldar sé jafnvel tekin að riðlast. Skil milli austurs og vesturs eru orðin óljósari og í Bandaríkjunum er nú stjórn sem gagnrýnir óspart sína hefðbundnu bandamenn í Vestur-Evrópu en virðist tilbúin til samstarfs við alræðisöfl annarra landa. Þessi þróun er eitthvað sem Íslendingar þurfa að fylgjast grannt með en hver var annars staða Íslands í áðurnefndri heimsskipan?
Í bók sinni, Liberal Leviathan. The Origins, Crisis and Transformation of the American World Order, setur bandaríski stjórnmálafræðingurinn G. John Ikenberry fram kenningu um „ameríska heimsskipun“ eða einhverskonar „amerískt kerfi“. Kenning Ikenberrys snýst um það, að í kjölfar hins hræðilega hildarleiks sem heimsstyrjöldin síðari var og einnig í ljósi þess að sú hugmyndafræðilega og geopólitíska gjá sem var á milli Sovétríkjanna og Vesturveldanna skapaði alvarlega togstreitu, hafi Bandaríkin og bandamenn þeirra greint nauðsyn þess að koma á einhvers konar kerfi. Kerfi þetta átti að vera tvíþætt: Í fyrsta lagi skyldi það vera vörn gegn alræðisríkjum eins og Sovétríkjunum og Kína og auk þess skyldi þetta kerfi stuðla að efnahagslegri uppbyggingu vesturlanda en mörg þeirra ríkja, sérstaklega í Evrópu, voru afar illa stödd eftir heimsstyrjöldina.
Að frumkvæði Bandaríkjanna var sett á laggirnar alþjóðlegt kerfi. Í stað þess að eitt ríki væri ráðandi forysturíki var einblínt á samvinnu og lagagerðir. Þetta var opið, lýðræðislegt kerfi. Í raun voru þetta tvö kerfi í einu. Annað þeirra var hernaðarlegt og tengdist baráttunni gegn Sovétríkjunum. Stofnun NATO er augljóslega hluti af því kerfi. Það snerist ekki um beina atlögu heldur var stefnan meira fyrirbyggjandi og byggðist upp á herstöðvum og bandalögum sem áttu að halda óvininum í skefjum. Hitt kerfið var eiginlega innan í hernaðarkerfinu, frjálslyndara, frekar efnahagslegt og byggðist upp á opnum mörkuðum og viðskiptum. Hluti af því var stofnun hinna ýmsu bandalaga eins og t.d. GATT og átti þetta að festa bandalagsríkin í samstarfinu. Þetta kerfi varð ekki til á einni nóttu og var þannig skellt fram tilbúið til notkunar. Það þróaðist smátt og smátt.
Gagnstætt því sem margir kunna að halda þá ætluðu Bandaríkin sér ekkert endilega að verða alls ráðandi í þessu samstarfi. Þau ætluðust frekar til þess að bandalagsríkin fylgdu þessari stefnu og byggðu sjálf upp sinn efnahag og stjórnkerfi. Sameiginlegir hagsmunir myndu þá sjá til þess að þessi lýðræðisríki myndu sigla samsíða inn í framtíðina. Skipanir áttu ekki að koma að ofan heldur var um að ræða opið samstarf lýðræðisríkja. Bandaríkin urðu þó afgerandi forystuafl í þessu samstarfi og, samkvæmt Ikenberry, þá urðu efnahagsmál, stjórnarhættir og skuldbindingar þar í landi, kjarninn í starfi Vesturlanda.
Fyrir hvern þann sem eitthvað þekkir til sögu samskipta Bandaríkjanna og Íslands frá lokum heimsstyrjaldarinnar liggur það nokkuð í augum uppi að Ísland var hluti af hinu ameríska heimskerfi. Að ýmsu leyti má segja að Íslendingar hafi verið fyrsta Evrópuþjóðin sem tengdist Bandaríkjunum á þennan hátt, því bandarískur her kom hingað mörgum mánuðum áður en Japan réðst á Perluhöfn á Hawaii í desember 1940.
Bandaríkin, sem þá var enn hlutlaust ríki, tók við „vernd“ Íslands, af Bretum. Að vissu leyti má halda því fram að skuldbinding Bandaríkjanna um hervernd Íslands sumarið 1941 hafi, á óbeinan hátt, verið fyrsta skrefið sem þau tóku sem þátttakendur í heimsstyrjöldinni. Allt frá árinu 1941 hafa Bandaríkjamenn því verið Íslendingum meira og minna innan handar, bæði efnahagslega og hernaðarlega. Ísland var Bandaríkjamönnum sérstaklega mikilvægt. Það er vestlægasta ríki Evrópu, einhverskonar útvörður í norðri og Churchill á að hafa kallað landið nokkurs konar „ósökkvandi flugmóðurskip“.
Það hefði einfaldlega verið meiri háttar afleikur af Bandaríkjunum að huga ekki að Íslandi og gera það að bandamanni. Ísland varð því fljótt hluti af þessu heimskerfi, jafnvel þótt að þorri landsmanna hafi flestir verið fylgjandi hlutleysi. Að sósíalistum undanskildum sáu flestir stjórnmálamenn sér hag í því að snúast á sveif með Bandaríkjunum og bandalagsríkjum þeirra í Evrópu. Það sjónarmið var byggt á raunsæi varðandi alþjóðleg samskipti og stjórnmál á árunum eftir stríðið.. Flestir töldu það einnig mikið ábyrgðarleysi að hafa landið varnarlaust.
Stefán Jóhann Stefánsson forsætisráðherra var sérlega andvígur hlutleysisstefnu og hugnaðist illa að Ísland gæti orðið „afskiptalaus einstæðingur“ í hinum hrollköldu norðurhöfum. Mögulega var það heimsstyrjöldin síðari sem endanlega opnaði augu Íslendinga fyrir því að landið þeirra var orðið geysilega mikilvægt í hernaðarlegu tilliti og að augu stórveldanna myndu alltaf beinast að því. Hlutleysisstefna var, að margra mati, einfaldlega óraunsæ í hinu alþjóðlega umhverfi eftir heimsstyrjöldina.
Ísland var eitt af stofnríkjum NATO 1949 og gerði árið 1951 varnarsamning við Bandaríkin. Þar með var Ísland bundið í sambönd hins ameríska heimskerfis. Auk þess naut Ísland Marshall-aðstoðar eftir stríðið en öfugt við flest Evrópuríki sem voru þá efnahagslega ein rjúkandi rúst, hafði Ísland frekar hagnast á veru breska og bandaríska herliðsins. Bandaríkin beittu einnig áhrifamætti sínum hjá t.d. Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum til að Íslendingar fengju lán, þó landið uppfyllti ekki alltaf öll skilyrði til þess. Jafnvel þótt vinstri stjórn næði völdum á Íslandi þá breyttist lítið hvað þessi samskipti varðar.
Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar sem tók við völdum 1956 hafði það sem markmið að losna við herinn en af ýmsum ástæðum reyndist það illgerlegt. Í fyrsta lagi var erfitt efnahagsástand á Íslandi og aðstoð að vestan því kærkomin. Sú staða kann að hafa ráðið mestu um þá staðreynd að vinstri stjórnin gekk ekki harðar fram í því að reka herinn af höndum sér. Hafa ber í huga að vald Bandaríkjanna var svo mikið að nær vonlaust var að fá lán nokkurs staðar án þeirra samþykkis. Skipti þá engu þó sendinefndir Íslands færu um víðan völl, m.a. til V-Þýskalands, Frakklands og Alþjóðabankans. Í öðru lagi var ýmislegt að óttast í alþjóðamálum. Íhlutun Sovétmanna í Ungverjalandi í nóvember 1956 og Súes-deilan sama ár, sýndu að brugðið gat til beggja vona hvað heimsfriðinn varðaði.
Eins og áður sagði þá hefur núverandi Bandaríkjaforseti gagnrýnt bandalagsríki á vesturlöndum og krafist þess að þau taki meiri þátt í NATO-starfinu. Honum virðist vaxa í augum hve miklum fjármunum Bandaríkin veita í bandalagið, miðað við lönd á borð við t.d. Frakkland og Þýskaland. Engri gagnrýni hefur þó verið beint að Íslendingum og óvíst að svo verði. Það fer nefnilega ekki á milli mála að NATO telur Ísland enn vera gífurlega mikilvægan þátttakanda í NATO-samstarfi. Í árslok 2017 samþykkti Bandaríkjastjórn til dæmis háa fjárveitingu til uppbyggingar mannvirkja á Keflavíkurflugvelli. Í mars sama ár, var haldinn opinn fundur í Norræna húsinu, á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og norska sendiráðsins á Íslandi. Þar tóku m.a. til máls John Andreas Olsen og Per Orik Solli, foringjar í norska flughernum og Dr. Alarik Fritz, fræðimaður við Center for Naval Analysis. Ekki fór á milli mála að NATO, ekki síst Noregur, telja Ísland enn vera sérlega mikilvægan aðila og legu landsins jafn hernaðarlega mikilvæga og áður.