Ivan Burkni

Ætti Ísland að taka þátt í Belti og braut?

Þátttaka í kínverska innviða- og fjárfestingaverkefninu Belti og braut stendur öllum ríkjum til boða. Ákveði íslensk stjórnvöld að taka þátt í verkefninu gæti það aukið aðgengi að innviðafjárfestingu, en verkefnið er þó afar umdeilt.

Inn­viða- og fjár­vest­inga­verk­efnið Belti og braut (kínv. 一带一路, e. Belt and Road Ini­ti­ati­ve) er verk­efni sem ein­kennt hefur utan­rík­is­stefnu Kína frá árinu 2013 undir stjórn for­seta lands­ins, Xi Jin­p­ing. Með Belti og braut er vísað til hinnar fornu Silki­leiðar sem tengdi Kína við umheim­inn og vill Xi Jin­p­ing end­ur­vekja hana undir for­merkjum Beltis og braut­ar. Belti og braut – eða Silki­leið 21. ald­ar­innar – skipt­ist í stuttu máli í svo­kall­aðan silki­veg eða „belti“ á landi, til dæmis í formi lestar­teina og hrað­brauta. Hinn hlut­inn er silki­leið á sjó eða „braut“ – til dæmis í formi hafna sem þar að auki tengir Kína við umheim­inn. 

Verk­efnið er afar víð­feðmt og nær frá Kína til Evr­ópu og Aust­ur-Afr­íku, auk þess sem það nær til fjöl­margra Asíu­ríkja. Að minnsta kosti 68 ríki hafa skrifað undir þátt­töku í verk­efn­inu og saman mynda ríkin um 40 pró­sent lands­fram­leiðslu heims­ins. 

Hnatt­væð­ing horn­steinn verk­efn­is­ins

Yfir­lýst mark­mið verk­efn­is­ins eru að auka sam­skipti um stefnu­mótun milli ríkja, auð­velda við­skipti og versl­un, styrkja vega­sam­göng­ur, auka gjald­eyr­is­við­skipti og styrkja sam­skipti þjóða. Því má segja að aukin hnatt­væð­ing og sam­þætt­ing sé horn­steinn verk­efn­is­ins.

Til að mynda er bygg­ing lestar­teina frá Shang­hai, í gegnum Kasakstan og Rúss­land sem munu að lokum enda í London, fram­kvæmd undir for­merkjum Beltis og braut­ar. Lestar­tein­arnir verða 12.000 kíló­metra lang­ir. 

Svo virð­ist sem allt sem við­kemur innviðum eða fjár­fest­ingum tengt Kína falli nú undir for­merki Beltis og braut­ar. Ekki eru það ein­ungis hafn­ir, járn­brautir og lest­ir, heldur einnig net­kerfi. Því gæti verið erfitt að greina á milli þess sem áður hefur verið byggt upp eða komið á fót en sé nú sagt vera undir for­merkjum Beltis og brautar og svo þess sem var ákveðið frá upp­hafi að væri hluti af verk­efn­inu.

Myndin sýnir áætlun kínverskra stjórnvalda um Belti og braut.
Mynd: Straits Times Graphics

Norðurslóðir nú hluti af Belti og braut

Á norðurslóðum er búist við aukinni skipaumferð eftir því sem ís á svæðinu bráðnar. Að sigla frá Kína til Evrópu í gegnum þennan heimshluta myndi stytta flutningstíma til muna sé miðað við núverandi flutningaleiðir. Þar með getur fjárhagslegur hvati að flytja vörur um svæðið myndast.

Í janúar 2018 gáfu kínversk stjórnvöld út sína fyrstu norðurslóðastefnu. Í henni segjast þau vilja gera norðurslóðir hluta af Silkiveginum á ís (kínv. 冰上丝绸之路) eða Silkivegi norðurslóða og þar með hluta af Belti og braut. Enn fremur titla kínversk stjórnvöld Kína sem „nærríki norðurslóða“ (kínv. 近北极国家) í stefnu sinni.

Jin Zhi­ji­an, sendi­herra Kína á Íslandi, segir í skrif­legu svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans að íslensk stjórn­völd séu opin fyrir þátt­töku í Belti og braut. Íslensk stjórn­­völd hafa þó ekki mótað sér end­an­­lega afstöðu til verk­efn­is­ins, að því er fram kemur í svari utan­­­rík­­is­ráðu­­neyt­is­ins við fyr­ir­­spurn Kjarn­ans. Í svar­inu segir að ráðu­­neytið hafi haft málið til skoð­unar í því augna­miði að greina hvað í fram­tak­inu felist og hvað aðild eða teng­ing við það gæti þýtt fyrir íslenska hags­mun­i.

Umdeilt fram­tak

Margir hafa þó gagn­rýnt verk­efnið og telja sumir að kín­versk stjórn­völd vilji nota það til þess að auka stjórn­mála­leg áhrif sín í heim­in­um. Banda­ríkin eru eflaust það ríki sem er opin­ber­lega hvað mest mót­fallið verk­efn­inu. Bæði vara­for­seti Banda­ríkj­anna, Mike Pence, og utan­rík­is­ráð­herra, Mike Pompeo, hafa gagn­rýnt fram­takið og sagt það varpa ríkjum í skulda­gildru. Gagn­rýnendur vísa einnig oft til aðstæðna Srí Lanka í því sam­hengi.

Í suð­ur­hluta Srí Lanka hafa kín­versk fyr­ir­tæki einka­leigu­rétt til 99 ára á höfn sem kölluð er Hamban­tota höfn­in. Það er vegna þess að stjórn­völd í Srí Lanka gátu ekki greitt skuld sína við kín­versku fyr­ir­tækin sem byggðu höfn­ina.

Banda­ríkja­menn hafa jafn­framt gagn­rýnt skil­mála sem ýmsar þjóðir hafa geng­ist við þar sem kín­versk rík­is­fyr­ir­tæki standi að bygg­ing­unni eða lán undir for­merkjum Beltis og brautar með það að skil­yrði að kaupa vörur frá kín­verskum fyr­ir­tækj­um.

Lyk­il­banda­menn Banda­ríkj­anna, til að mynda Ísra­el, Suð­ur­-Kórea og Fil­ipps­eyj­ar, eru meðal þátt­töku­ríkja Beltis og brautar og virð­ast Banda­ríkin nú vera komin í sam­keppni við Belti og braut. Banda­ríkin komu nýlega á lögum um alþjóð­lega þró­un­ar­fjár­fest­ingar – sem kall­ast á ensku The BUILD Act – sem minnir að mörgu leyti á hið kín­verska verk­efni.

Fleiri lönd hik­andi við að taka þátt

Emmanuel Macron, for­seti Frakk­lands, hefur einnig gagn­rýnt verk­efn­ið. Hann hefur lagt áherslu á að Belti og braut eigi ekki að vera „ein­stefnu­veg­ur“ – það er að Kína geti ein­ungis fjár­fest í öðrum ríkjum – heldur ættu þátt­töku­ríki einnig að geta fjár­fest í Kína. Stjórn­völd þar í landi ættu ekki að not­færa sér Belti og braut til þess að ná yfir­ráðum yfir öðrum löndum og gera þátt­töku­ríki und­ir­gefin því. 

Evrópa og Belti og braut

Alls hafa 17 Evrópulönd skrifað undir viljayfirlýsingu um þátttöku í Belti og braut. Áður var talað um 16+1 löndin í því samhengi, það er að segja þau 16 Mið- og Austur-Evrópuríki sem taka þátt, auk Kína (+1). Nú væri þó réttara að tala um 17+1 þar sem nýlega bættist Ítalía í hópinn.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett fram sína eigin áætlun til þess að bæta samgöngur og innviði í Asíu ásamt því að vera nú komin með erlenda fjárfestingaráætlun í Afríku. Því virðist Evrópusambandið, líkt og Bandaríkin, vera orðið að eins konar keppinaut Kína í þessum málefnum.

Hin nýskipaða breska ríkisstjórn virðist jákvæð gagnvart Belti og braut. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði nýju ríkisstjórn sína vera fylgjandi Kína. „Við erum afar hrifin af Belti og braut. Við höfum mikinn áhuga á hvað Xi forseti er að gera,“ sagði hann daginn sem hann hóf störf sín sem forsætisráðherra.

Einnig eru margir innan Evrópusambandsins jákvæðir gagnvart verkefninu. Maroš Šefčovič, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði til að mynda að Evrópusambandið vildi vinna að samhljómi sambandsins með Belti og braut.

Á ráð­stefnu um Belti og braut árið 2017 neit­uðu Bret­land, Frakk­land og Þýska­land að skrifa undir þátt­töku í verk­efn­inu vegna þess að þau töldu ekki nógu skýrt hvernig útboðum á fram­kvæmdum í tengslum við Belti og braut yrði hátt­að.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, eru báðir mjög gagnrýnir á Belti og braut.
Mynd: EPA

Kín­versk stjórn­völd hafa ávallt neitað fyrir að Belti og braut sé leið þeirra til að ná yfir­ráðum yfir öðrum ríkj­um. Þau leggja áherslu á að Belti og braut sé verk­efni þar sem allir græði (kínv. 共赢, e. win-win), auk þess séu ásak­anir um að verk­efnið sé skulda­gildra óhróður sem kín­versk stjórn­völd vísi á bug.

Hvað græða þátt­töku­ríki á Belti og braut?

Þátt­taka í verk­efn­inu er sem stendur öllum ríkjum opin. Mörg þátt­töku­ríki fagna verk­efn­inu vegna auk­inna kín­verskra fjár­fest­inga þar sem mörg hver þeirra hafi þörf á að byggja upp inn­viði sína, til dæmis hafn­ir, lestar­teina, hrað­brautir eða flug­velli.

Enn fremur gæti þátt­taka aukið hraða við­skipta á milli þátt­töku­ríkj­anna við Kína og önnur lönd og þar með verið löndum til bóta. Tals­menn verk­efn­is­ins segja að það geti gert ríkjum kleift að þróa hag­kerfi sín og jafn­vel dregið úr fátækt

Varð­andi hvað þátt­taka myndi þýða fyrir Ísland og hvaða breyt­ingar það hefði í för með sér segir Jin Zhi­ji­an, sendi­herra Kína á Íslandi í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans, að Belti og braut geti þjónað sem nýr vett­vangur og veitt kín­versk-­ís­lenskri sam­vinnu ný tæki­færi. Þátt­taka Íslands myndi styrkja tengsl á milli land­anna. Með stuðn­ingi Beltis og braut­ar, AIIB og Silki­vegs­sjóðs­ins gætu Kína og Ísland unnið betur saman með því að byggja tengsla­net á sjó, lofti og á net­inu, auk þess að byggja inn­viði fyrir ferða­menn, koma á sigl­inga­leiðum um Silki­veg norð­ur­slóða, beinu flugi og 5G sam­skipta­kerfi.

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, segir Belti og braut geta eflt vöxt tvíhliða viðskipta á vörum og þjónustu á milli landanna og aukið tvíhliða fjárfestingar.
Mynd: úr safni

Sendi­herr­ann segir að þátt­taka Íslands gæti aukið sam­vinnu í við­skipta­lífi og verslun á milli land­anna tveggja. Það sé vegna þess að hag­vöxtur í Kína er stór hluti heims­hag­kerf­is­ins og þurfi kín­verski mark­að­ur­inn nú að mæta auk­inni eft­ir­spurn á vörum, þar á meðal á vörum frá Ísland­i. 

„Með batn­andi lífs­kjörum kjósa fleiri og fleiri Kín­verjar að ferð­ast utan land­stein­anna. Ísland hefur hlotið auk­inn fjölda kín­verskra ferða­manna árlega sem hefur aukið þjón­ustu­við­skipti á Íslandi. Á sama tíma gæti Belti og braut stutt við frí­versl­un­ar­samn­ing land­anna okkar tveggja sem myndi efla vöxt tví­hliða við­skipta á vörum og þjón­ustu og sam­vinnu í net­verslun og auka tví­hliða fjár­fest­ing­ar,“ segir sendi­herr­ann.

Hvað græðir Kína á Belti og braut?

Kín­versk stjórn­völd eru undir for­merkjum Beltis og brautar að fjár­festa í innviðum ann­arra ríkja til þess að vinna að mark­miðum verk­efn­is­ins og auð­velda allan inn- og útflutn­ing. Með auk­inni inn­viða­bygg­ingu í bæði nær- og fjær­ríkjum Kína mun flutn­ings­geta aukast og þar með gætu við­skipti Kína við önnur ríki auk­ist.

Ýmsir fræði­menn hafa bent á að kín­versk stjórn­völd vilji gera Kína tækni­vædd­ara og auka þróun ýmissa hér­aða rík­is­ins. Einka­neyslu þurfi einnig að auka til að halda uppi hag­vexti rík­is­ins og verk­efnið muni enn fremur styrkja gjald­miðil rík­is­ins. Aðrir telja að verk­efnið sé að mestu stra­tegískt, til að mynda í Ind­lands­hafi. Stærra net hafna í haf­inu tryggi Kína aðgengi að sjó­leiðum sem sé bráð­nauð­syn­legt fyrir ríki eins og Kína sem byggir sinn efna­hag á útflutn­ingi.

Sex billjón Banda­ríkja­dala

Með Belti og braut er lögð áhersla á sam­eig­in­legan ávinn­ing Kína og þeirra ríkja sem taka þátt í Belti og braut, að því er kemur fram í svari Jin Zhi­ji­an, sendi­herra Kína á Íslandi. „Belti og braut ein­blínir á sam­hæfða stefnu, inn­viða­tengsl, óhindruð við­skipti, fjár­hags­lega sam­þætt­ingu og sterk­ari tengsl fólks. Verk­efnið leit­ast eftir opinni, grænni og hreinni þró­un,“ segir Jin. 

Viðskiptamagn á milli Kína og landa sem eru hluti af Belti og braut er meira en sex billjón Bandaríkjadala og fjárfestingar meira en 80 milljarðar Bandaríkjadala

Sendi­herr­ann segir að verk­efnið hafi fengið mik­inn með­byr og stuðn­ing alþjóða­sam­fé­lags­ins. „Í dag hefur Kína skrifað undir sam­starfs­samn­inga á grund­velli Beltis og brautar við 127 ríki og 29 alþjóð­legar stofn­an­ir. Við­skipta­magn á milli Kína og landa sem eru hluti af Belti og braut er meira en sex billjón Banda­ríkja­dala og fjár­fest­ingar meira en 80 millj­arðar Banda­ríkja­dala.“

Raf­rænn Silki­vegur mögu­leiki

„Kína og Ísland geta einnig eflt sam­vinnu sína í fram­leiðslu á snjall­tækni, raf­rænum efna­hag og verndun hug­verka­rétt­inda, kannað nýja tækni, ný form og leiðir til við­skipta, ásamt því að styrkja sam­vinnu með stór gagna­sett, skýja­tækni og upp­bygg­ingu snjallra borga,“ segir Jin.

Ísland gæti fengið aukið aðgengi að fleiri mörk­uðum með þátt­töku í Belti og braut, sam­kvæmt sendi­herr­an­um. „Að því leyti getur háþróuð tækni Íslands í jarð­varma kom­ist á stærri vett­vang þegar hún er sam­einuð fjár­magni og mark­aði landa í Belti og braut,“ segir hann. 

Hver áhrif þátt­taka Íslands í verk­efn­inu yrðu á stjórn­mála­legt sam­band ríkj­anna tveggja telur Jin að þátt­taka Íslands í Belti og braut myndi vissu­lega vera tví­hliða sam­skiptum Kína og Íslands hag­stæð. Ríkin gætu þannig dýpkað sam­vinnu sína með aðstoð Beltis og braut­ar.

Ég vona og trúi að íslensk stjórnvöld ákveði að taka þátt í Belti og braut í nákominni framtíð. Mig langar ekki að sjá Ísland missa af stórum tækifærum sem Belti og braut skapar

Varð­andi hverjar afleið­ing­arnar yrðu fyrir Ísland ef það kysi að taka ekki þátt í Belti og braut segir Jin: „Ég vona og trúi að íslensk stjórn­völd ákveði að taka þátt í Belti og braut í nákominni fram­tíð. Mig langar ekki að sjá Ísland missa af stórum tæki­færum sem Belti og braut skap­ar.“

Fjár­fest­ing í innviðum setið á hak­anum

Heiðar Guð­jóns­son, for­maður Efna­hags­ráðs norð­ur­skauts­ins og for­stjóri Voda­fone og Stöðvar 2, segir í sam­tali við Kjarn­ann ýmsa kosti vera fyrir Ísland við þátt­töku í Belti og braut, meðal ann­ars aðgangur að gríð­ar­legu fjár­magni til að byggja upp inn­viði. Þá séu kost­irnir sér­stak­lega miklir fyrir skipa­fé­lög, verk­taka og flug­fé­lög sem felist í flutn­inga­tengdum innviðum og gagna- og vöru­flutn­ing­um. 

Heiðar Guðjónsson, formaður Efnahagsráðs norðurskautsins og forstjóri Vodafone og Stöðvar 2.
Mynd: Kjartan Þorbjörnsson

„Inn­viðir á Íslandi eru tak­mark­aðir og miðað við hvað landið er ríkt hefur fjár­fest­ing í innviðum setið á hak­an­um,“ segir Heið­ar. „Ís­land var í fyrnd­inni þjón­ustu­mið­stöð fyrir verslun á norð­ur­slóð­um. Hafnir á Íslandi eru íslausar árið um kring og er Ísland eina norð­ur­slóða­land­ið, auk Nor­egs, með slíkar hafn­ir,“ segir hann. Íslend­ingar ættu jafn­framt að nýta þau tæki­færi sem hljót­ast með auknum flutn­ingum á norð­ur­slóðum og ætti landið að vera þjón­ustu­mið­stöð í Atl­ants­hafi.

Að Kínverjar séu að öðlast yfirráð í löndum sem þeir fjárfesta í er fjarstæðukennt

Heiðar segir mik­il­vægt að þátt­taka í Belti og braut sé á for­sendum heima­manna, þannig að lög­sagan sé skýr. „Að Kín­verjar séu að öðl­ast yfir­ráð í löndum sem þeir fjár­festa í er fjar­stæðu­kennt,“ segir hann. 

Með eða á móti ekki eina leiðin

Heiðar bendir á að Ísland hafi ekki ein­ungis þessa tvo kosti; að taka ann­að­hvort þátt eða ekki. Þriðji kost­ur­inn sé að fara að fyr­ir­mynd Finna, það er að skrifa ekki undir þátt­töku, heldur gera sér­samn­inga við kín­versk stjórn­völd um verk­efni sem rúm­ast til hliðar við Belti og braut. Þannig gangi Finnar ekki beint inn í heild­ar­verk­efni Beltis og brautar heldur geri sér­samn­inga um sér­stök verk­efni.

Hann segir að Norð­ur­löndin hafi enn ekki gerst form­legir aðilar að Belti og braut, en að Finn­land sé að fá gríð­ar­lega fjár­fest­ingu í sína inn­viði. „Finn­land er með verk­efni að byggja neð­an­sjáv­ar­göng frá Helsinki til Tallin að verð­mæti 15 millj­arða evra þar sem bæði Kín­verjar og Evr­ópu­sam­bandið eru fyr­ir­ferða­mikil innan þess verk­efn­is.“

„Annað verk­efni er fjár­fest­ing upp á 3 til 5 millj­arða evra fyrir járn­braut frá Rovaniemi til Kirkenes. Þar eru bæði kín­verskir aðilar og Evr­ópu­sam­bandið að fjár­festa,“ segir Heið­ar. „Þessi fjár­fest­ing, að búa til sam­gönguæð frá Kirkenes til Finn­lands og tengja beint við Evr­ópu, skiptir Finna gríð­ar­lega miklu máli. Það er dæmi um verk­efni sem Kín­verjar taka mik­inn þátt í,“ segir hann.

Heiðar bendir á að Finnar leggi nú jafn­framt sæstreng Norð-Aust­ur­leið­ina, þar sem streng­ur­inn fari norður fyrir Síberíu og niður til Japan og Kína. „Ef Kín­verjar byggja inn­viði í Finn­landi þá hafa þeir ekki lög­sögu þar. Þeir eru að taka áhættu með því að fjár­festa í land­inu. Þeir þurfa að haga sér í sam­ræmi við lög og reglur í við­kom­andi landi, ann­ars er hætta á að inn­viðir séu þjóð­nýtt­ir.“

Ameríkanar vilja alls ekki að við skrifum upp á svona samninga við Kína. Nú er kapphlaup hafið um uppbyggingu innviða á norðurslóðum

„Am­er­ík­anar vilja alls ekki að við skrifum upp á svona samn­inga við Kína. Nú er kapp­hlaup hafið um upp­bygg­ingu inn­viða á norð­ur­slóð­u­m,“ segir Heið­ar. „Banda­ríkin reyna að stilla mönnum upp, segja „við eða þeir.“ Bretar hafa hins vegar sótt sér tæki­færi í því að semja bæði til aust­urs og vest­ur­s,“ segir hann og bætir því við að hann telji að Íslend­ingar ættu ekki að skipa sér í ákveðið lið. Far­sæl­ast væri að eiga við­skipti til bæði aust­urs og vest­urs.

Hverjir eru val­kostir Íslands?

Íslandi stendur til boða að taka þátt í Belti og braut. Í raun er því ekk­ert til fyr­ir­stöðu og geta íslensk stjórn­völd ákveðið sína stefnu gagn­vart verk­efn­inu. Þátt­taka gæti aukið fjár­fest­ingar á Íslandi og auð­veldað upp­bygg­ingu inn­viða, einnig gæti þátt­taka greitt leið fyrir við­skiptum við Kína og styrkt almenn sam­skipti við fjöl­menn­asta ríki heims. 

Því er ljóst að efna­hags­legur hagur gæti orðið af þátt­töku í verk­efn­inu en hins vegar gæti þátt­taka haft ýmsar ófyr­ir­séðar stjórn­mála­legar afleið­ingar fyrir Ísland. Ákveði íslensk stjórn­völd að taka þátt í Belti og braut væri skyn­sam­legt að hafa öll ákvæði skýr hvað varðar fjár­fest­ingar og fram­kvæmd­ir, til að mynda að hafa skýrt kveðið á um hvernig útboðum sé hátt­að. Jafn­framt er mik­il­vægt að stíga var­lega til jarðar og rýna ítar­lega í hverjar afleið­ingar þátt­töku yrðu fyrir land og þjóð.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGuðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar