Tveir lífeyrissjóðir, Almenni lífeyrissjóðurinn og Birta, bjóða nú upp á verðtryggða breytilega vexti sem eru undir tveimur prósentum. Almenni lífeyrissjóðurinn býður upp á bestu slíku vextina, eða 1,84 prósent, og lánar sjóðsfélögum sínum sem greitt hafa í sjóðinn síðustu þrjá mánuði fyrir allt að 70 prósent af kaupverði. Birta, sem er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins, lánar hins vegar þeim sjóðsfélögum sem greitt hafa í sjóðinn síðustu þrjá mánuði fyrir allt að 65 prósent af kaupverði á 1,97 prósent verðtryggðum breytilegum vöxtum.
Verðbólga er sem stendur 3,1 prósent.
Á leið fyrir dómstóla
Ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna um að hækka vextina og því hvernig þeir eru ákveðnir reyndist afdrifarík vegna þess að stjórn VR, sem tilnefnir helming stjórnarmanna í sjóðnum, ákvað að leggja fram tillögu í fulltrúaráði VR um að afturkalla umboð allra stjórnarmanna í lífeyrissjóðnum. Ástæðan var sögð algjör trúnaðarbrestur milli stjórnarmanna sem VR skipar og stjórnar félagsins vegna ákvörðunar sjóðsins um að hækka breytilega verðtryggða vexti sem sjóðsfélögum bjóðast til húsnæðiskaupa um tæp tíu prósent.
Umboðið var afturkallað á fundi sem haldinn var í fulltrúaráðinu fimmtudaginn 20. júní með 20 atkvæðum gegn tveimur.
Fjármálaeftirlitið greip hins vegar inn í þá atburðarás og komst að þeirri ákvörðun 3. júlí síðastliðinn að stjórnarmenn sem tilkynntir voru til þess í mars síðastliðnum væru enn gildandi stjórnarmenn.
Óverðtryggðir vextir komnir undir fimm prósent
Þrátt fyrir að hafa hækkað ódýrustu verðtryggðu vexti sem sjóðurinn býður sjóðsfélögum sínum upp á þá hefur Lífeyrissjóður verzlunarmanna lækkað fasta óverðtryggða vexti sína mjög skarpt. Um miðjan síðasta mánuð var tilkynnt um að þeir myndu fara úr 6,12 prósentum í 5,14 prósent, sem þýðir um 16 prósent lækkun.
Eftir þá breytingu eru þeir vextir hagstæðustu föstu óverðtryggðu vextir sem standa íslenskum íbúðarkaupendum til boða. Birta býður hins vegar upp á betri breytilega óverðtryggða vexti til þeirra sjóðsfélaga sem uppfylla skilyrði til lántöku. Þeir geta fengið allt að 65 prósent af kaupverði á 4,85 prósent vöxtum hjá þeim sjóði. Sú breyting átti sér stað í byrjun júlí.