Mynd: Úr safni.

FME upplýsir ekki um hvort það sé að skoða varnir þriggja banka gegn peningaþvætti

Þrjár athuganir standa yfir á á vegum Fjármálaeftirlitsins á aðgerðum eftirlitsskyldra aðila gegn peningaþvætti. Eftirlitið svarar því ekki hvort verið sé að athuga Landsbankann, Íslandsbanka og Kviku, en það hefur þegar opinberað niðurstöðu sína á athugun á Arion banka. Sú athugun leiddi í ljós fjölmargar brotalamir.

Fjár­mála­eft­ir­litið (FME) vill ekki svara því hvort yfir standi athugun á aðgerðum Lands­bank­ans, Íslands­banka og Kviku banka gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka. Það seg­ist þó hafa fram­kvæmt tæp­lega 20 athug­anir hjá til­kynn­ing­ar­skyldum aðilum sem lúta eft­ir­liti stofn­un­ar­innar frá árinu 2017 og nú standi yfir þrjár slíkar athug­an­ir. Það kunni að vera að gagn­sæ­istil­kynn­ingar verði birtar vegna þeirra athug­ana innan tíð­ar. 

Kjarn­inn greindi frá því 31. maí síð­ast­lið­inn að FME hefði fram­kvæmt athugun á aðgerðum Arion banka gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka. Slík athugun á Arion banka hófst í októ­ber 2018 og leiddi til þess að eft­ir­litið gerði marg­hátt­aðar athuga­semdir við brotala­mir hjá bank­anum í jan­úar 2019. 

Nið­ur­staða athug­unar FME á Arion banka var birt 29. maí síð­ast­lið­inn, rúmum fjórum mán­uðum eftir að nið­ur­staða athug­un­ar­innar lá fyr­ir. Það var gert að beiðni Arion banka sem vildi fá að bregð­ast við úrbóta­kröfum áður en nið­ur­staðan yrði gerð opin­ber. Bank­inn seg­ist hafa brugð­ist við öllum úrbóta­kröf­um. FME vill ekki svara því hvaða tímara­mma Arion banka var settur til að koma á úrbót­u­m. 

Í athugun FME á Arion banka kom meðal ann­ars fram að bank­inn hefði hefði ekki metið með sjálf­­stæðum hætti hvort upp­­lýs­ingar um raun­veru­­lega eig­endur við­­skipta­vina væru réttar og full­nægj­andi og að þær upp­­lýs­ingar hafi ekki verið upp­­­færðar með reglu­­legum hætti, líkt og lög um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­­­mögnun hryðju­verka gerðu ráð fyr­­ir. Eft­ir­litið gerði einnig athuga­­semd um að Arion banki hefði ekki sinnt rann­­sókn­­ar­­skyldu sinni í til­­viki erlends við­­skipta­vin­­ar, það taldi að reglu­bundið eft­ir­lit bank­ans með við­­skipta­vinum hafi ekki full­nægt kröfum laga um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­­­mögnun hryðju­verka né að verk­lag í tengslum við upp­­­færslu á upp­­lýs­ingum um við­­skipta­vini hafi ekki verið full­nægt. Þá taldi FME að skýrslur Arion banka um grun­­sam­­legar og óvenju­­legar færslur hefðu ekki verið full­nægj­andi.

Slakar varnir og kröfur um úrbætur

Kjarn­inn hefur fjallað ítar­­lega um slakar varnir Íslend­inga gegn pen­inga­þvætti und­an­farin mis­s­eri. Í byrjun jan­úar greindi Kjarn­inn frá því að í fyrra­vor hafi Ísland fengið aðvör­un. Annað hvort myndu stjórn­­völd þar taka sig til og inn­­­leiða almenn­i­­legar varnir gegn pen­inga­þvætti og fjár­­­mögnun hryðju­verka eða landið myndi verða sett á lista alþjóð­­legu sam­tak­anna Fin­ancial Act­ion Task ­Force (FATF) um ósam­vinn­u­þýð ríki.

Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strang­­ari kröfur til lands­ins og aðila sem þar búa um hvers konar fjár­­­mála­­starf­­semi, stofnun úti­­­búa, dótt­­ur­­fé­laga og umboðs­­skrif­­stofa og jafn­­vel útgáfu aðvar­ana um að við­­skipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á pen­inga­þvætti.

Í ljósi þess að nið­ur­staða athug­unar FME á Arion banka hafði verið birt, og að í henni hafi komið fram að bank­inn hafi ekki haldið uppi full­nægj­andi vörnum gegn pen­inga­þvætti, þá sendi Kjarn­inn fyr­ir­spurn til FME og spurði hvort verið væri að skoða stöðu pen­inga­þvætt­is­varna hjá öðrum íslenskum bönk­um. Líkt og áður sagði þá vill eft­ir­litið ekki svara því til hvort slíkar athug­anir standi yfir né hvað þær hafi leitt í ljós. 

Í svari FME við fyr­ir­spurn Kjarn­ans segir að eft­ir­litið hafi, í ljósi þeirra úrbótakrafna sem settar voru fram af hendi FATF, lagt auk­inn þunga í verk­efni tengd vörnum gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka á und­an­förnum árum. „Í því sam­bandi hefur verið fram­kvæmt áhættu­mat á öllum til­kynn­ing­ar­skyldum aðilum og hefur eft­ir­lit verið við­haft í sam­ræmi við það mat, fræðsla hefur verið efld til muna (með fræðslu­efni og fræðslu­fund­um) auk þess sem fjöldi og gæði athug­ana hafa auk­ist.“

Frá árinu 2017 og til dags­ins í dag hafi verið fram­kvæmdar tæp­lega 20 athug­anir hjá til­kynn­ing­ar­skyldum aðilum sem lúta eft­ir­liti stofn­un­ar­inn­ar. „Þá standa nú yfir þrjár athug­anir en í sam­ræmi við heim­ildir í lögum og gagn­sæ­is­stefnu Fjár­mála­eft­ir­lits­ins kann stofn­unin innan tíðar að birta gagn­sæ­istil­kynn­ingar vegna þeirra athug­ana. Fleiri athug­anir eru einnig fyr­ir­hug­aðar á næstum mán­uð­um. Þær athug­anir sem hafa verið fram­kvæmdar og standa nú yfir hafa tekið mið af þeim athuga­semdum sem FATF gerði í skýrslu sinn­i.“

Skýrslan ýtti við málum hér­lendis

Skýrsla FATF ýtti veru­­lega við málum hér­­­lend­­is. Það þurfti að bregð­­ast við þessum athuga­­semdum hratt, auk þess sem fyrir lá að fjórða ­pen­inga­þvætt­is­til­skipun ­Evr­­ópu­­sam­­bands­ins yrði tekin upp í samn­ingnum um Evr­­ópska efna­hags­­svæðið (EES) í des­em­ber 2018.

Starfs­hópur á vegum dóms­­mála­ráð­herra var því settur í að semja frum­varp um heild­­ar­end­­ur­­skoðun á lögum um pen­inga­þvætti og fjár­­­mögnun hryðju­verka.

Sú vinna skil­aði því að Sig­ríður Á. And­er­sen, þáver­andi dóms­­mála­ráð­herra, lagði fram frum­varp um ný heild­­ar­lög 5. nóv­­em­ber síð­­ast­lið­inn. Málið var afgreitt frá efna­hags- og við­­skipta­­nefnd 12. des­em­ber og síð­­­ari tvær umræður kláraðar dag­inn án ann­­arra ræð­u­halda en Brynjars Níels­­son­­ar, sem mælti fyrir nefnd­­ar­á­liti um málið sem full­­trúar alla flokka skrif­uðu und­­ir.

Frum­varpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þing­­manna þann sama dag. Þau tóku gildi þann 1. jan­úar 2019.

Í grein­­ar­­gerð með frum­varp­inu sagði að nauð­­syn­­legt yrði að fara í heild­­ar­end­­ur­­skoðun á gild­andi lögum þar sem gera þarf veru­­legar úrbætur á lög­­unum til að upp­­­fylla þær lág­­marks­­kröfur sem gerðar eru á alþjóða­vett­vangi.

Enn á eftir að koma í ljós hvort að hertar aðgerðir Íslend­inga muni duga FATF. Þrátt fyrir að sá frestur sem gefin hafði verið fyrir úrbætur hafi runnið út í júní þá hefur ekk­ert verið gefið upp um hvort úrbætur Íslands hafi verið nægj­an­leg­ar.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar