Mörgum sem fylgjast með dönskum stjórnmálum er í fersku minni „byltingartilraunin“ á flokksþingi Venstre árið 2014. Aðalpersónur þeirrar orustu voru þeir Lars Løkke Rasmussen og Kristian Jensen, sem þá eins og nú gegna formennsku og varaformennsku í flokknum.
Venstre var á þessum tíma í stjórnarandstöðu, stjórn Helle Thorning-Schmidt formanns flokks Jafnaðarmanna tók við stjórnartaumunum eftir kosningar árið 2011. Venstre hafði þá setið óslitið í stjórn frá árinu 2001, síðustu tvö árin undir stjórn Lars Løkke Rasmussen.
Nærbuxnamálið
Skömmu eftir áðurnefndan fréttamannafund kom upp mál sem mikið var fjallað um í dönskum fjölmiðlum og sumir kölluðu „nærbuxnamálið“. Þá varð uppvíst að Venstre (sem þrátt fyrir nafnið er hægri miðjuflokkur) hefði borgað „allt frá hatti oní skó“, þar á meðal nærbuxur fyrir formanninn. Dagblöðin gerðu stólpagrín að þessu máli og sögðu að oft liti Lars Løkke frekar út fyrir að hafa fengið lánuð jakkaföt af afa sínum en vera í splunkunýju jakkasetti úr dýrustu verslun landsins. Í kjölfar þessara mála dvínuðu vinsældir Lars Løkke og hann, sem hafði verið vinsælasti stjórnmálamaður Danmerkur, var skyndilega orðinn sá óvinsælasti, og það styttist í kosningar.
Byltingartilraunin í Óðinsvéum
3. júní 2014 hélt miðstjórn Venstre fund í Ráðstefnuhöllinni í Óðinsvéum. Andstæðingar Lars Løkke hugðust nota þetta tækifæri og velta honum úr sessi og gera varaformanninn Kristian Jensen að formanni. Lars Løkke sagði síðar frá því að hann hafi verið þess fullviss að formannstíð sinni lyki á þessum fundi. Litlir kærleikar voru með honum og Kristian Jensen varaformanni og Lars Løkke mátti ekki til þess hugsa að sjá hann í formannsstólnum. Ef til kæmi ætlaði Lars Løkke að tefla fram Søren Gade fyrrverandi varnarmálaráðherra, hann hafði látið af þingmennsku árið 2010.
Løkkesstjórnin 2015 - 2019
Eftir þingkosningarnar 2015 tók minnihlutastjórn Venstre við völdum og sat út kjörtímabilið. Lars Løkke varð forsætisráðherra og Kristian Jensen fyrst utanríkisráðherra og síðar fjármálaráðherra. Í upphafi var Venstre einn í stjórninni, en síðar gengu tveir minni flokkar til liðs við stjórnina, sem þó var áfram minnihlutastjórn. Á þessum árum var mikill uppgangur í dönsku efnahagslífi en stjórnin var með „aftursætisbílstjóra“ sem miklu réði.
Þetta var Danski þjóðarflokkurinn, sem eftir kosningarnar 2015 varð næst fjölmennastur á þingi, stærri en Venstre, en vildi ekki eiga aðild að ríkisstjórn. Í kosningunum 2019 galt Danski Þjóðarflokkurinn afhroð og þótt Venstre héldi fylgi sínu, og bætti raunar lítillega við sig, féll ríkisstjórnin. Í aðdraganda kosninganna sagði Lars Løkke eitthvað á þá leið að kannski væri kominn tími til að hugsa dönsk stjórnmál uppá nýtt. Til dæmis hvort hægt væri að mynda stjórn yfir miðjuna, eins og hann komst að orði. Hann gæti vel hugsað sér að kanna þann möguleika hvort Venstre og Jafnaðarmenn gætu staðið saman að ríkisstjórn. Þetta vakti takmarkaða hrifningu margra flokksmanna Venstre og Mette Frederiksen leiðtogi Jafnaðarmanna og núverandi forsætisráðherra vísaði slíkum hugmyndum á bug.
Ólgan innan Venstre
Eftir kosningarnar sl. vor (2019) fannst ýmsum innan Venstre nauðsynlegt að líta í eigin barm, meta stöðu og framtíðarstefnu flokksins. Þegar uppvíst varð að flokksformaðurinn Lars Løkke hefði gefið í skyn að hann gæti ef til vill hugsað sér starf hjá Evrópusambandinu mátu sumir flokksmenn það svo að kannski væri hans formannstími brátt liðinn. Þótt ekkert yrði úr þessum Evrópudraumi Lars Løkke, eins og sumir danskir fjölmiðlar komust að orði, varð þetta til þess að raddir um breytingar urðu nú háværari.
Síðastliðinn mánudag (5. ágúst) fór fram þingflokksfundur hjá Venstre. Fundarefnið var kosning í stjórn þingflokksins. Lars Løkke lagði mikla áherslu á að Inger Støjberg fyrrverandi ráðherra innflytjendamála fengi sæti í stjórninni, en henni var hafnað í kosningu sem fram fór á fundinum. Þessi niðurstaða og ýmislegt fleira varð til þess að opinbera þann klofning sem upp er kominn í flokknum. Ekki varð viðtal dagblaðsins Berlingske við varaformanninn Kristian Jensen, tveim dögum eftir þingflokksfundinn, til að bæta úr skák. Þar vísaði hann hugmyndum flokksformannsins um hugsanlega stjórn með Jafnaðarmönnum á bug og sagði þessa yfirlýsingu hafa komið sér á óvart. Í viðtalinu, sem vakti mikla athygli, sagði Kristian Jensen margt um flokkstarfið, mistök sem gerð hefðu verið og hvert bæri að stefna.
Fyrir tveim dögum var haldinn annar þingflokksfundur hjá Venstre, svokallað sommermøde. Löng hefð er fyrir slíkum fundum þar sem línur flokksins varðandi þingstörfin á komandi þingi eru lagðar. Af fregnum að dæma ríkti ekki sátt og samlyndi á þessum fundi. Claus Hjort Frederiksen, fyrrverandi ráðherra og einn helsti áhrifamaður flokksins, sagði þar berum orðum að Kristian Jensen ætti að segja af sér sem varaformaður. Það gengi ekki að varaformaður flokksins talaði með þessum hætti gegn formanninum. Kristian Jensen dró ekki yfirlýsingar sínar til baka en sagði að kannski hefði hann átt að ræða þetta á flokksfundum en ekki í blaðaviðtali. Og lýsti yfir stuðningi við Lars Løkke sem flokksformann.
Stjórnmálaskýrendur dönsku fjölmiðlanna segja Kristian Jensen hafa verið niðurlægðan á fundinum. Hann eigi hinsvegar marga stuðningsmenn og margir innan Venstre telji að sá klofningur sem greinilega sé uppi innan flokksins eigi einungis eftir að aukast.
Venstre flokkurinn sé nú í miklum vanda, klofinn í herðar niður (orðalag Berlingske) og líklegt megi telja að nú fari í hönd uppgjörstímabil í flokknum. Hluti af lausinni hljóti að felast í að skipta um „karlinn í brúnni“. Lars Løkke hefur hinsvegar ekki sýnt á sér neitt fararsnið.