Orkan okkar, félagsskapur sem barist hefur gegn samþykkt þriðja orkupakkans, afhenti varaforseta Alþingis í gær áskorun um að hafna þriðja orkupakkanum. Undir hana höfðu um 16.814 manns skrifað. Orkupakkinn var samt sem áður samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða þingmanna. Einungis fimmtungur þeirra greiddi atkvæði gegn pakkanum. Söfnun undirskrifta hefur staðið yfir frá því 7. apríl.
Næsta skref samtakanna er að skora á forseta Íslands að staðfesta ekki upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn nema að sameiginlega EES-nefndin hafi veitt Íslandi undanþágu frá innleiðingu eða að íslensk þjóð hafi í þjóðaratkvæðagreiðslu fallist á að undirgangast þær skuldbindingar sem þriðji orkupakkinn felur í sér.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem undirskriftum er safnað vegna auðlindamála. Í janúar 2011 var til að mynda var blásið til slíkrar gegn sölu á HS Orku til kanadíska fyrirtækisins Magma. Þegar hún var yfirstaðin höfðu rúmlega 47 þúsund manns skrifað undir. Á þeim tíma voru það rétt um 15 prósent þjóðarinnar. Frá byrjun árs 2011 hefur íbúum á Íslandi fjölgað um 41.310. Sá fjöldi sem skrifaði undir áskorun Orkunnar okkar eru því 4,7 prósent þjóðarinnar. Ef horft er einungis á þá landsmenn sem eru 18 ára og eldri, og gert ráð fyrir því að allir sem skrifa undir listanna séu á þeim aldri, var hlutfallið í HS Orku söfnuninni tæplega 19 prósent en í undirskriftasöfnun Orkunnar okkar um sex prósent.
Árið 2015 var forseti Íslands líka hvattur til þess að koma í veg fyrir varanlega kvótasetningu á makríl á meðan að auðlindarákvæði væri ekki í stjórnarskrá. Tæplega 52 þúsund manns skrifuðu undir þá áskorun.
Þegar saga áskorana, þar sem stjórnmálamenn voru hvattir til þess að hafna ýmsum málum, er skoðuð þá á undirskriftasöfnun Orkunnar okkar ansi langt i land með að standast samanburð.
Málskotsréttur en óvissa um virkni
Þjóðaratkvæðagreiðslur eru sögulega ekki stór hluti af lýðræðishefð Íslendinga. Líkt og flest allar aðrar vestrænar þjóðir völdu Íslendingar að setja á fót fulltrúalýðræði þar sem kjörnum fulltrúum var falin ákvörðunartaka fyrir hönd þjóðarinnar. Í kjölfar upplýsingabyltingarinnar sem varð samhliða útbreiðslu internetsins jókst aðgengi almennra borgara að upplýsingum og geta þeirra til að taka upplýstar og vel ígrundaðar ákvarðanir sömuleiðis.
Í stjórnarskrá Íslands er ákvæði um málskotsrétt forseta. Ákvæðið, sem oft hefur verið kallaður öryggisventill þjóðarviljans, virkar þannig að sitjandi forseti getur synjað lögum um undirskrift og vísað þeim þannig til þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrstu 60 árin eftir sjálfstæði Íslendinga var málskotsrétturinn ónýttur. Í raun má segja að einungis einu sinni á því tímabili hafi myndast mikill þrýstingur á sitjandi forseta að beita honum.
Þrýst á forseta vegna EES
Árið 1992 tók stjórnarandstaðan á Alþingi sig saman og lagði fram þingsályktunartillögu um að aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) yrði borin undir þjóðaratkvæði. Flutningsmenn tillögunar voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Kristín Einarsdóttir, Páll Pétursson og Ragnar Arnalds.
Sumarið áður, 1991, hafði verið hrint af stað undirskriftasöfnun á landsvísu gegn aðild að EES. Þegar undirskriftirnar voru afhentar þáverandi forseta Alþingis, Salome Þorkelsdóttur, rúmu ári síðar höfðu safnast um 34 þúsund. Þetta var fyrir tíma internetsins og því voru allar undirskriftirnar handskrifaðar. Þær breyttu því þó ekki að þingið samþykkti aðildina og snérust andófsmenn hennar sér að þáverandi forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur. Eftir umhugsunarfrest ákvað Vigdís að beita ekki málskotsréttinum. Í grein eftir Baldur Þórhallsson, sem birtist í bókinni „Evrópustefna íslenskra stjórnvalda: Stefnumótun, átök og afleiðingar“, kom fram að Vigdís taldi sig hafa átt gríðarlega erfitt með að fara gegn þjóðkjörnu þingi.
Allt breytist með Ólafi Ragnari
Árið 1996 var Ólafur Ragnar Grímsson kjörinn forseti. Á svipuðum tíma var netnotkun að verða almenn og samhliða varð auðveldara fyrir fólk sem hafði sameiginlega skoðun á ákveðnum málum að ná saman og mynda fylkingar. Í maí 2004 reyndi í fyrsta sinn af alvöru á hvort Ólafur Ragnar myndi nota málskotsréttinn. Þá safnaði félagsskapur sem kallaði sig Fjölmiðlasambandið 31.752 undirskriftum á tólf dögum. Hópurinn vildi að Ólafur Ragnar myndi neita að undirrita lög um fjölmiðla sem Alþingi hafði skömmu áður samþykkt, en þau takmörkuðu eignarhald á fjölmiðlum þannig að enginn mætti eiga meira en fjórðungshlut í slíkum rekstri.
Annan dag júnímánaðar boðaði forsetinn til blaðamannafundar á Bessastöðum og tilkynnti að hann hefði ákveðið að staðfesta ekki lögin. Þar með var brotið blað í Íslandssögunni, enda í fyrsta sinn sem forseti beitti synjunarvaldi sínu.
Í yfirlýsingu Ólafs Ragnars kom meðal fram að „því miður hefur skort á samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlar eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa“.
Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar dró lögin síðar til baka og lagði fram ný. Með því var komið í veg fyrir að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Samdráttur í aðdraganda hruns
Undirskriftasafnanir um ákveðnar þjóðfélagsbreytingar urðu ekkert sérlega margar næstu árin, þrátt fyrir sett fordæmi. Doði sem fylgdi ímyndaðri velsæld útrásaráranna spilaði þar stórt hlutverk. Undirliggjandi var tilfinning um að Ísland væri bara hársbreidd frá því að verða ríkasta og besta land í heimi.
Sú undirskriftasöfnun sem vakti mesta athygli á þessum tíma var áskorun á dagblaðið DV að breyta ritstjórnarstefnu sinni sem hrint var af stað í janúar 2006. Undir hana skrifuðu 32 þúsund Íslendingar á tveimur dögum. Söfnunin var sett í gang í kjölfar þess að síðar dæmdur barnaníðingur svipti sig lífi eftir að DV hafði haft samband og greint honum frá væntanlegri umfjöllun. Sú umfjöllun hafði þó ekki verið birt þegar maðurinn tók eigið líf. Undirskriftasöfnunin leiddi til þess að þáverandi ritstjórar DV, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, sögðu upp störfum.
Hrunið hrinti af stað byltingu
Eftir hrunið sem varð haustið 2008, búsáhaldarbyltinguna sem fylgdi og háværar kröfur um breytta stjórnarhætti hafa undirskriftasafnanir notið aukinna vinsælda sem tól til að reyna að þrýsta á breytingar. Í raun varð algjör bylting á notkun þeirra til að reyna að breyta þjóðfélaginu í eina eða aðra átt.
Strax í október 2008 var sett á fót söfnun með kröfu um þingkosningar. Á nokkurra mánaða tímabili skrifuðu á sjöunda þúsund manns undir hana. Kosningar fóru síðan fram vorið 2009 og skömmu síðar var tilkynnt um að Ísland hefði náð samkomulagi í hinni svokölluðu Icesave-deilu.
Ríkisábyrgð á lögum þess efnis var samþykkt um haustið og Ólafur Ragnar skrifaði undir þau í byrjun september. Þá höfðu um tíu þúsund manns þegar skrifað undir áskorun til hans um að gera það ekki. Málið hlaut þó ekki brautargengi og samkomulag, sem í daglegu tali er oftast kallað Icesave II, var samþykkt á Alþingi í lok árs 2009.
Þann 5. janúar 2010 beitti Ólafur Ragnar málskotsréttinum í annað sinn og synjaði lögunum staðfestingar. Í rökstuðningi fyrir þeim gjörningi vísaði hann meðal annars í að honum hafi verið afhentar undirskriftir um 56 þúsund manns sem höfðu skorað á hann að taka þessa ákvörðun. Forsetinn sagðist hafa látið framkvæma stikkprufur úr listanum, enda hafði komið fram gagnrýni á að bæði Mikki mús og Andrés önd væru á honum. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fylgdi á eftir, þeirri fyrstu í lýðveldissögunni eftir beitingu málskotsréttar forseta, höfnuðu 93,2 prósent þeirra sem kusu samningnum.
Tæpu ári eftir að Icesave II var afgreitt náði ný samninganefnd undir forystu bandaríska lögmannsins Lee Buchheit nýjum samningi sem þótti mun álitlegri. Andstaðan í samfélaginu gegn því að semja um Icesave, sama hversu góður samningur lá á borðinu, var þó áfram víðtæk. Enn var hlaðið í undirskriftasöfnun og í þetta sinn söfnuðust rúmlega 37 þúsund undirskriftir. Forsetinn neitaði aftur að skrifa undir og bar fyrir sig að þjóðin hefði farið með löggjafarvaldið í þessu máli ásamt Alþingi.
Sprenging á undanförnum tveimur árum
Á 2011-2012 fjölgaði undirskriftasöfnunum gríðarlega. Í janúar 2011 var, líkt og áður sagði, blásið til slíkrar gegn sölu á HS Orku til kanadíska fyrirtækisins Magma. Þegar hún var yfirstaðin höfðu rúmlega 47 þúsund manns skrifað undir.
Skömmu síðar skráðu 41.525 sig í söfnun á vegum FÍB þar sem hugmyndum um vegatolla á þjóðvegi var mótmælt. Á svipuðum tíma skiluðu Hagsmunasamtök heimilanna Alþingi inn 37.743 undirskriftum. Yfirskrift þeirrar söfnunar var: „Í nafni almannahagsmuna krefjumst við undirrituð almennra og réttlátra leiðréttinga á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnáms verðtryggingar“. Í apríl sama ár var reynt að hrinda af stað söfnun gegn nýjum fjölmiðlalögum. Einungis fjögur þúsund manns skrifuðu undir hana áður en lögin voru samþykkt á Alþingi.
Þegar Jóni Gnarr, þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, voru afhentar undirskriftir um að halda Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni höfðu 69.802 manns skrifað undir. Sú undirskriftasöfnun, sem fór fram undir nafninu „Hjartað í Vatnsmýrinni“, var sú fjölmennasta sem ráðist hefur verið í á Íslandi á þeim tíma.
Í aðdraganda forsetakosninganna 2012 tók hópur manna sig saman og setti af stað undirskriftasöfnun til að skora á Ólaf Ragnar Grímsson að bjóða sig fram aftur. Alls skrifuðu 30.773 undir og Ólafur Ragnar gaf sig. Þegar hann tilkynnti um þessa afstöðu sína sagði hann í samtali við Morgunblaðið að „höfðað [hefði verið] með mjög skýrum hætti til mín um það að ég geti nánast ekki leyft mér að að fara af vettvangi við þessar aðstæður“.
Því er ljóst að í þessu samhengi, þar sem verið var að skora á hann, voru rúmlega 30 þúsund undirskriftir staðfesting á því að höfðað væri til forsetans með mjög skýrum hætti. Síðar á árinu var ráðist í undirskriftasöfnun til að hvetja Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, til að biðjast lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Í byrjun júní það ár höfðu 9.556 manns ritað undir þá kröfu.
Öll met slegin
Á árinu 2013 fór fjöldi undirskriftasafnanna síðan út fyrir allan þjófabálk. Stutt leit á netinu sýndi að á því ári var hlaðið í undirskriftasöfnun um verndun Mývatns, gegn niðurskurði fjárframlaga til LÍN (5.821) og með því að flytja Edward Snowden til Íslands (2.014).
Þá eru ótaldar ýmsar safnanir um að flýta hinum og þessum samgönguframkvæmdunum, til stuðnings atvinnulausum (22), gegn því að íslenskum börnum yrði skilað til erlends forráðaforeldris (2.391),til stuðnings Priyönku (1.060) og fyrir björgun Ingólfstorgs og NASA (tæplega 18 þúsund). Síðar bættist svo við áskorun á Vigdísi Hauksdóttur, þáverandi formann fjárlaganefndar, um að segja af sér (3.448), eftir að hafa, að því er virtist, hótað að skerða fjárframlög til RÚV vegna þess að fréttaflutningur þess var henni ekki að skapi.
Þrjár safnanir sem ráðist var í á því ári vöktu mesta athygli og söfnuðu flestum undirskriftum, þótt þær hafi á endanum ekki skilað neinum tilfinnanlegum árangri. Sú fyrsta var söfnun SÁÁ vegna áskorunar á stjórnvöld um að verja tíu prósent af áfengisgjaldi til að byggja upp úrræði fyrir vers settu áfengis- og vímuefnasjúklinganna og fleiri tilgreind úrræði sem heyra undir sama málaflokk. Í júní 2013 afhentu samtökin um 31 þúsund undirskriftir.
Önnur var áskorun á forseta Íslands um að synja lögum um breytingar á veiðileyfagjöldum um undirskrift. Í júlí 2013 var forsetanum afhentar 34.882 undirskriftir vegna þessa. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann skrifaði undir lögin. Samstundis var sett í gang ný undirskriftasöfnun sem bar nafnið „Áskorun til forseta Íslands um afsögn“ (1.668).
Þriðja var undirskriftasöfnun sem fram for á heimasíðunni www.lending.is og snérist um að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni. Þegar Jóni Gnarr, þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, voru afhentar undirskriftirnar höfðu 69.802 manns skrifað undir. Sú undirskriftasöfnun, sem fór fram undir nafninu „Hjartað í Vatnsmýrinni“, var sú fjölmennasta sem ráðist hafði verið í á Íslandi á þeim tíma.
Meiri þungi í söfnunum
Næsti árin hægðist umtalsvert á undirskriftasöfnunarofsa íslensku þjóðarinnar. Þ.e. fjöldi undirskriftasafnanna sem vöktu athygli hefur dregist mjög saman.
Á árinu 2014 vakti í raun einungis ein undirskriftasöfnun mikla athygli og náði að hrífa fjöldann með sér. Það var áskorun til stjórnvalda um að setja áframhald viðræðna um Evrópusambandsaðild í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem 53.555 manns skrifuðu undir.
Ýmislegt annað var reyndar reynt, án þess að það hafi náð miklu flugi. Ástþór Magnússon, fyrrum forsetaframbjóðandi, safnaði til dæmis undirskriftum um að krefjast afsagnar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem þingmanns. Alls skrifuðu 597 manns undir hana. Þá var reynt að fá íslensk stjórnvöld til að slíta stjórnmálasamstarfi við Ísrael, en einungis 6.916 skrifuðu undir þá kröfu.
Árið 2015 var sett á fót áskorun til forseta Íslands um að setja ráðstöfun á fiskveiðiauðlindinni til lengri tíma en eins árs í þjóðaratkvæðagreiðslu ætla að ná miklu flugi. Tilefnið var fyrirliggjandi frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, um að ráðstafa makrílkvóta til lengri tíma en eins árs án þess að komið væri í stjórnarskrá ákvæði sem tryggði eign þjóðarinnar á auðlindinni og að hún fengi fullt gjald fyrir afnot hennar. Aðstandendur átaksins voru Agnar K. Þorsteinsson, Bolli Héðinsson, Guðrún Pétursdóttir, Henný Hinz, Jón Sigurðsson, Jón Steinsson og Þorkell Helgason.
Þegar forseta Íslands voru afhentar undirskriftirnar í júlí 2015 voru þær orðnar 53.571. Það reyndi þó ekki á synjunarvald forsetans. Málinu var frestað og varð ekki að lögum. Makríl var síðan kvótasettur fyrr á þessu ári, 2019, með lögum. Það var gert þrátt fyrir að enn skorti á ákvæði í stjórnarskrá sem segi til um þjóðareign yfir auðlindum landsins.
Árið 2016 var hins vegar sett en eitt metið. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, stóð þá að undirskriftarsöfnun um endurreisn heilbrigðiskerfisins með því að hvetja stjórnvöld til að verja ellefu prósent af vergri landsframleiðslu til heilbrigðiskerfisins. Á þeim tíma var varið um það bil 8,7 prósentum í málaflokkinn.
Þegar Kári afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi forsætisráðherra, undirskriftalistann í lok apríl 2016 höfðu rúmlega 85 þúsund skrifað undir hann. Það gerði undirskriftasöfnun Kára að stærstu undirskriftarsöfnun Íslandssögunnar.
Ákvarðanir teknar með undirskriftalistum
Þann 20. október 2012 var kosið um hvort ýmsar tillögur stjórnlagaráðs ættu að verða lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Ein spurninganna sem þar var undir var svona: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?“. Tæplega 2/3 þeirra 72.523 manna sem svöruðu þessari spurningu gerðu það játandi. Í henni var ekki tiltekið hvaða hlutfall ætti að vera um að ræða.
Það var hins vegar gert í tillögum stjórnlagaráðs. Í 65. grein þess frumvarps sem ráðið vildi leggja fram er fjallað um málskotsrétt þjóðarinnar.
Þar stendur: „Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi, ef kjósendur hafna þeim, en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur“.
Í Alþingiskosningunum í apríl 2013 voru kosningabærir Íslendingar um 238 þúsund talsins. Það hefði því þurft um 23.800 manns til að knýja á um þjóðaratkvæðagreiðslu ef tillögur stjórnlagaráðs hefðu orðið að veruleika. Í dag er sú tala líkast til í kringum 27.000 manns og undirskriftarsöfnun Orkunnar okkar því ansi langt frá því að uppfylla það skilyrði.
Ef þetta viðmið væri í stjórnarskrá hefði hins vegar verið nóg að gera hjá íslenskum almenningi að kjósa yfir sig þjoðfélagsbreytingar. Að kjósa um eignarhald á fyrirtækjum. Um flugvelli og allskyns mál sem annaðhvort skuldbinda ríkissjóðs til fjárútláta eða skikka hann til að gefa frá sér tekjur. Frá ársbyrjun 2010 hefði íslenskur almenningur kosið um Icesave II, Icesave III, sölu á HS Orku, vegatolla, almenna skuldaniðurfellingu og afnám verðtryggingar, um að skuldbinda ríkissjóð til að eyða hluta áfengisgjalds til tilgreindra verkefna, um breytingar á veiðileyfagjaldi, um framtíð flugvallar í Vatnsmýrinni, um að áframhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu, um ráðstöfun á fiskveiðiauðlindinni til lengri tíma en eins árs og um hversu mikið af peningum ættu að renna til heilbrigðiskerfisins.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars