Er greinarhöfundur var ungur þá voru orðin „fasisti“ og „nasisti“ iðulega eitthvað sem maður tengdi við fortíðina. Af og til bárust fréttir um öfgahópa hér og þar en á áttunda og níunda áratug bar mun meira á vinstri sinnuðum hópum sem vildu tafarlausar breytingar og svifust einskis til að fá sínu fram. Tími öfga-hægrihópa virtist liðinn. Nú er breyting á og uppgangur svokallaðra „popúlískra“ stjórnmálaflokka í Evrópu ber þess glöggt vitni. Málfar þessara hópa minnir á ýmsan máta á tungutak fasista.
Lögð er áhersla á verndun þjóðernis og varað við ýmsum jaðarhópum, t.d. sígaunum og innflytjendum sem séu í raun sníkjudýr í samfélaginu. Samfara þessu hafa ýmsar persónur sem virtust í raun gleymdar, verið dregnar fram í dagsljósið að nýju. Í Ungverjalandi t.d. hafa menn sem börðust gegn kommúnistum og voru lengi álitnir illmenni og föðurlandssvikarar, verið hafnir á nýjan stall sem hetjur. Ein einkennilegasta persóna, sem á sínum tíma var í mikils metum hjá nokkrum öfga-hægri hópum er Savitri Devi og hefur nafn hennar tekið að birtast hér og þar í þessari umræðu, ekki síst í Grikklandi.
Maximiani Portas, sem seinna breytti nafni sínu í Savitri Devi, fæddist árið 1905 í Frakklandi. Móðir hennar var ensk en faðirinn grísk-ítalskur. Það varð fljótt ljóst að stúlkan var bráðgreind, hún átti á endanum eftir að næla sér í tvær masters-gráður, klára doktorsritgerð í heimsspeki og ná tökum á fjölda tungumála, þar á meðal íslensku. Hún var mjög þrjósk, viljasterk og fór strax sínar eigin leiðir. Umhyggja fyrir dýrum varð fljótt öllu yfirsterkari og hún gerðist grænmetisæta aðeins barn að aldri. Hún fann í raun fyrir mun meiri tengslum við dýr en menn. Í þessu minnir hún nokkuð á manninn sem hún átti eftir að dýrka meira en nokkurn annan: Adolf Hitler. Sem unglingur kom hún til Grikklands og heillaðist fljótt af þjóðernissinnum þar. Evrópa var þá í upplausn eftir hörmungar fyrri heimsstyrjaldar.
Savitri kenndi Vesturlöndum um þann hrylling og taldi Grikkland og Þýskaland frekar fórnarlömb en gerendur í þeim hildarleik. Hún fylltist einnig óbeit á gyðingum sem hún var sannfærð um að væru tengdir við ill öfl og ynnu að því að sundra þjóðum sem þráðu sameiningu. Hún aðhylltist því nasisma um leið og sú stefna fór að láta á sér kræla í Evrópu. Áhugi hennar var þó frekar heimspekilegur en pólitískur og Portas ákvað að heimsækja Indland, enda var það grunnhugmynd í nasismanum að „Aríar“ væru æðri öðrum kynþáttum og að þeir kæmu upprunalega frá Indlandi, eða því svæði. Á Indlandi komst hún fljótt í kynni við þarlenda þjóðernissinna, hún heillaðist af baráttu þeirra og tók hindúatrú. Hún breytti nafni sínu í Savitri Devi sem mætti þýða sem „sólgyðja“. Hún varð enn sannfærðari um að heimsvaldastefna Bretlands og annarra Evrópuríkja, væri af hinu illa og varð einnig mjög fráhverf kristindómi. Í hennar huga var kristni and-arísk trú.
Er veröldin steyptist í það ófriðarbál sem við köllum nú seinni heimsstyrjöld, tók Devi auðvitað einarða afstöðu með öxulveldunum. Ásamt eiginmanni sínum Asit Mukherji, sem var engu minni nasisti en hún, heimsóttu þau oft hersveitir bandamanna í Indlandi. Þau þóttust ætla að „skemmta“ hermönnum en voru í raun að reyna að safna upplýsingum sem þau komu seinna til japanska hersins. Adolf Hitler gegndi mikilvægu hlutverki í heimsspeki Savitri Devi. Hún taldi fyrst að hann væri endurholdgun guðsins Vishnu en við fall foringjans breytti hún þeirri skoðun og taldi að hann hefði þó verið mikill spámaður og forboði þess að Vishnu mun brátt endurholdgast og binda enda á „Kali Yuga“, eða hina myrku öld nútímans sem einkennist af illsku, spillingu og fláræði. Þetta myrkur mun á endanum gleypa sig sjálft og gullöld mun rísa á ný með endurkomu Vishnu.
Tap öxulveldanna í stríðinu var skiljanlega mikið áfall fyrir Savitri Devi og hún ákvað að heimsækja fjarlægan og eyðilegan stað sem hún hafði ekki komið til áður. Þar vildi hún hugleiða og komast í samband við móður jörð til að ná áttum á ný. Hún valdi að fara til Íslands og kom hingað árið 1947. Hún varð sér úti um tjald og ferðaðist um landið. Eina nótt hrökk hún upp við ægilegan hávaða og rauk út úr tjaldinu til að að sjá hvað væri á seyði. Við henni blasti sjón sem hafði gífurleg áhrif á hana: Fallega fjallið Hekla, sem hún hafði tjaldað nálægt, var byrjað að gjósa. Þó niðadimmt væri þá var umhverfið baðað rauðgulri birtu og jörðin skalf undir fótum hennar. Savitri Devi settist niður og hlustaði á reiðilestur fjallsins. Eftir nokkra stund tók hún eftir því að fjallið virtist gefa frá sér hljóð eins og „AUM“ en það er í hindúatrú talið vera það hljóð sem heyrðist er veröldin var sköpuð. Savitri Devi varð þarna fyrir gífurlegri upplifun. Jörðin sjálf hafði talað til hennar.
Eftir þessa hughreystingu frá Heklu var Savitri Devi full eldmóðs og fór rakleiðis til Þýskalands. Þar hófst hún handa við að blása fólki byr í brjóst og dreifði m.a. bæklingum þar sem upprisa Aríanna var boðuð og endað með kunnuglegri kveðju: „Heil Hitler!“. Vart þarf að koma á óvart að þessar aðgerðir fóru misvel í fólk og ekki síst hernámsyfirvöld bandamanna í Þýskalandi. Bretar handtóku hana umsvifalaust og í prísundinni kynntist hún fólki sem deildi skoðunum hennar. Þar á meðal var fyrrum flughetjan Hans-Ulrich Rudel en enginn hermaður Þjóðverja í stríðinu fékk jafn margar orður og hann. Rudel kynnti Devi fyrir ýmsum fyrrum nasistum sem bjuggu í útlegð víða vegar um heiminn. Hún ferðaðist víða og átti gistingu vísa hjá þessu fólki. Meðal annars gisti hún um tíma í Madrid hjá Otto Skorzeny, fyrrum SS-foringja sem frægastur er fyrir að hafa bjargað Mussolini úr fangelsi. Eitt áhugaverðasta vináttusamband hennar var við Francoise Dior, frænku tískumógúlsins Cristian Dior en ýmsir telja að samband þeirra hafi verið meira en bara vinátta.
Savitri Devi lést í október 1982. Hún var jörðuð við hlið ameríska fasistaleiðtogans George Lincoln Rockwell. Um tíma leit út fyrir að hún yrði öllum gleymd en nafn hennar hefur birst ítrekað undanfarin ár á spjallborðum og miðlum þeirra sem, eins og Savitri Devi, trúa því að nasisminn muni rísa á ný, sterkari en nokkru sinni fyrr.