Hvað er það við Icelandair sem stjórnmálamenn eiga að hafa áhyggjur af?
Prófessor í hagfræði hvatti stjórnmálamenn til að fylgjast með eiginfjárstöðu Icelandair á fundi í gær. Forstjóri Icelandair sagði ummælin ógætileg. Það sem veldur þessum áhyggjum er að eiginfjárhlutfall Icelandair hefur farið hríðlækkandi á undanförnum tveimur árum.
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, kom fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í gærmorgun ásamt Ásgeiri Jónssyni, nýráðnum seðlabankastjóra til að fara yfir heilbrigði efnahagslífsins.
Myndin sem þeir drógu upp var frekar neikvæð, hið minnsta varkár. Mesta athygli vöktu orð Gylfa um að stjórnvöld ættu að fylgjast með stöðu Icelandair og hvenær eigið fé flugfélagsins væri komið á hættulegt stig. „Það má ekki veðja þjóðarbúinu á það að þeir fái bætur frá Boeing. Við vitum ekki hvenær þær koma eða hvað þær verða miklar.“
Gylfi hélt áfram og benti á að staða ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar væri erfið sem stendur. Launakostnaður væri einfaldlega of hár. „Hlutfall launa í heildartekjum fyrirtækja í ferðaþjónustu er of hátt. Þetta á við um flugfélögin. Tvö hafa farið á hausinn nú þegar og það þarf að fylgjast með því þriðja. Þetta á við um veitingastaðina og svo framvegis.“
Þau tvö sem farin eru á hausinn eru Primera Air og WOW air. Opinbert dauðastríð þeirra hófst fyrir rétt rúmlega ári síðan. Og fór fram fyrir opnum tjöldum næstu mánuðina.
Tap vegna MAX véla og eldsneytis
En hver er staða Icelandair? Félagið tapaði alls 89,4 milljónum dala, um ellefu milljörðum króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta kom fram í hálfsársuppgjöri félagsins sem birt var í í síðasta mánuði.
Þar sagði þó að heildartekjur þess hefðu aukist og launakostnaður lækkað en eldsneytiskostnaður og kostnaður vegna flugvélaleigu hækkað.
Stærsta áskorun Icelandair er sú að félagið getur ekki notað Boeing 737 MAX vélar sínar, sem hafa verið kyrrsettar frá því 12. mars, í rekstri sínum. Þær áttu til að mynda að flytja 27 prósent allra farþegar félagsins í sumar en í stað þeirra þurfti að leigja vélar og láta aðrar og eldri vélar, sem hentuðu verr til þess, fljúga ferðir sem þær áttu ekki að fara. Eldri vélarnar nota til að mynda mun meira eldsneyti en MAX vélarnar og eru því kostnaðarsamari í notkun.
Framan af ári var alltaf gert ráð fyrir því að MAX vélarnar yrðu teknar í notkun á þessu ári. Fyrst í sumar, en síðan í október. Í síðasta mánuði var svo greint frá því að Icelandair reiknaði ekki lengur með MAX vélunum á þessu ári.
Ýmislegt annað hefur unnið á móti Icelandair líka. Í byrjun þessarar viku lækkuðu bréf í félaginu til að mynda skarpt eftir að árás var gerð á olíumannvirki í Saudí-Arabíu sem leiddu af sér hækkun á heimsmarkaðsverð á eldsneyti. Eftir þá lækkun höfðu bréf í félaginu lækkað um 31 prósent frá áramótum.
Markaðsvirði Icelandair hefur hrunið á undanförnum árum. Það fór yfir 180 milljarða króna í apríl 2016 en er nú rétt rúmlega 35 milljarðar króna, að meðtaldri hlutafjáraukningu upp á 5,6 milljarða króna sem ráðist var í fyrr á þessu ári.
Gengið á eigið fé
Gylfi Zoega sagði stjórnmálamönnunum að fylgjast sérstaklega með eigin fé Icelandair, en það er það fé sem stendur eftir þegar búið er að draga skuldir frá eignum félagsins.
Eiginfjárhlutfall Icelandair var 42 prósent í byrjun árs 2018, sem sýndi að félagið var vel til þess fallið að takast á við þrengingar á þeim tíma. Það lækkaði hins vegar skarpt á árinu 2018 og var 28 prósent í lok þess. . Handbært fé félagsins lækkaði um 15,3 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins, úr um 36,9 milljörðum króna í um 21,5 milljarð króna.
Um mitt þetta ár var eiginfjárhlutfallið komið niður í 25 prósent, þrátt fyrir áðurnefnda hlutafjáraukningu upp á 5,6 milljarða króna á tímabilinu, þegar PAR Capital Management keypti 11,5 prósent nýja hluti í félaginu.
Áhætta hins opinbera vegna Icelandair er margskonar. Í fyrsta lagi er það auðvitað eina eftirstandandi flugfélag landsins sem flýgur ferðamönnum í stórum stíl til og frá landinu. Í ljósi þess að ferðaþjónusta er orðin stærsta stoðin undir íslenska efnahagskerfinu þá er Icelandair líklega kerfislega mikilvægasta fyrirtæki landsins sem stendur.
Ríkið á margþætta hagsmuni
En það eru fleiri fletir á áhættu ríkisins. Léleg rekstrarniðurstaða Icelandair í fyrra gerði það að verkum að skilmálar skuldabréfa félagsins voru brotnir. Mánuðum saman stóðu yfir viðræður við skuldabréfaeigendurna um að endursemja um flokkanna vegna þessa. Þær viðræður skiluðu ekki árangri og 11. mars síðastliðinn var greint frá því að Icelandair hefði fengið lánað 80 milljónir dala, um tíu milljarða króna, hjá innlendri lánastofnun gegn veði í tíu Boeing 757 flugvélum félagsins. Lánsfjárhæðin var nýtt sem hlutagreiðsla inn á útgefin skuldabréf félagsins.
Lánveitandinn reyndist vera ríkisbankinn Landsbankinn. Verið var að flytja hluta af fjármögnun Icelandair frá skuldabréfaeigendum og yfir á banka í eigu íslenska ríkisins vegna þess að ekki tókst að semja við þá. Hinn ríkisbankinn, Íslandsbanki, hefur líka lánað Icelandair fé, en bein ríkisábyrgð er á starfsemi beggja bankanna í gegnum eign á hlutafé.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, var ekki ánægður með ummæli Gylfa og sagði við RÚV í gær að hann undraðist þau. „Mér finnst frekar ógætilegt að aðili í þessari stöðu tali með þessum hætti um einstakt félag á opinberum vettvangi.[...]Við birtum síðast uppgjör í lok júni þar sem fram kom við erum með tæplega 30 milljarða króna í lausafé, að meðtöldum óádregnum lánalínum og yfir 50 milljarða í eigið fé. Félagið er því vel í stakk búið til að takast á við krefjandi aðstæður.“
Hverjar verða bæturnar?
Þrengingar Icelandair eru að stærstum hluta tilkomnar vegna þess að MAX vélarnar eru kyrrsettar. Félagið hafði enda þegar fengið sex slíkar afhentar og átti von á þremur til viðbótar. Augljóst er hvaða áhrif það hefur á reksturinn.
Þegar Gylfi sagði í gær að ekki væri hægt að veðja þjóðarbúinu á að Icelandair fái háar bætur frá Boeing, framleiðanda vélanna, er sú að opinberlega hefur Icelandair gefið það út að félagið ætli að krefjast 17 milljarða króna vegna kyrrsetningar á MAX-vélunum.
Ljóst er að Boeing mun greiða skaðabætur, en það liggur ekki fyrir hversu háar þær verða eða hvort viðskiptavinir þeirra, eins og Icelandair, þurfi að ráðast í langdregnar málsóknir til að sækja það fé sem þeir telja sig eiga inni hjá framleiðandanum.
Stóra spurningin er svo auðvitað þessi: Hvenær komast MAX vélarnar aftur í gagnið? Og munu farþegar vilja fljúga með þeim?
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði