Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að tapa fylgi, samkvæmt könnunum MMR. Þessi stærsti stjórnmálaflokkur landsins, sem lengi gekk að um 40 prósent fylgi vísu, mældist í fyrsta sinn með undir 20 prósent fylgi í könnunum MMR í júlí síðastliðnum. Hann var á svipuðum slóðum í ágúst en í nýjustu könnun fyrirtækisins, sem var framkvæmd daganna 9. til 16. september, var fylgi hans komið niður í 18,3 prósent. Það er lægsta fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með í könnunum MMR.
Frá síðustu kosningum, þegar flokkurinn fékk 25,2 prósent atkvæða, hefur hann tapað 6,9 prósentustigum, eða um 27 prósent af fylgi sínu.
Þegar horft er lengra aftur, til kosninganna 2016, er fylgistapið 10,7 prósentustig. Það þýðir að 37 prósent af kjósendum Sjálfstæðisflokksins hefur yfirgefið hann frá því að talið var upp úr kjörkössunum í október 2016.
Versta niðurstaða Sjálfstæðisflokksins í kosningunum í sögunni var í fyrstu þingkosningunum sem haldnar voru eftir bankahrun, vorið 2009. Þá fékk flokkurinn 23,7 prósent atkvæða. Ljóst er að ef kosið yrði í dag, og niðurstaðan yrði í takt við nýjustu könnun MMR, þá myndi Sjálfstæðisflokkurinn fá sína verstu útreið nokkru sinni, en yrði samt sem áður stærsti flokkur landsins. Jafnvel þótt að stuðst sé við efri vikmörk í könnuninni þá er fylgi Sjálfstæðisflokks einungis 21,4 prósent. Ef horft er á neðri mörk könnunarinnar mælist fylgið 15,2 prósent.
Ef septemberkönnun MMR yrði niðurstaða kosninga myndu líklegast 7,6 prósent atkvæða falla niður dauð. Þ.e. Flokkur fólksins (4,0 prósent) myndi falla af þingi og Sósíalistaflokkur Íslands (2,0 prósent) myndi ekki ná inn. Þá sögðust 1,6 prósent svarenda að þeir ætluðu að kjósa annað.
Miðað við það yrðu flokkarnir á þingi sjö, í stað átta eins og nú er. Ríkisstjórnarflokkarnir, sem standa að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, gætu vænst þess að fá 29 þingmenn. Það myndi ekki duga og stjórnin yrði því fallinn. Þar af gæti Sjálfstæðisflokkurinn búist við að fá 12, í besta falli 13, þingmenn kjörna. Það er átta til níu færri en flokkurinn fékk 2016 og þremur til fjórum færri en hann hefur nú.
Vert er þó að muna að enn er rúmt eitt og hálft ár eftir af kjörtímabilinu. Og vika er langur tími í pólitík.
Samfylkingin tapar mestu milli mánaða
Samfylkingin, sem átti við stofnun að verða einhverskonar mótvægisturn við Sjálfstæðisflokkinn í íslenskum stjórnmálum, er langt frá þeirri stöðu sem flokkurinn var í þegar hann fékk 31 prósent atkvæða í kosningunum 2003.
Árið 2016 var flokkurinn nálægt því að þurrkast út af þingi, fékk 5,7 prósent atkvæða og einn kjördæmakjörinn þingmann, núverandi formanninn Loga Einarsson.
Síðan þá hefur flokkurinn braggast umtalsvert, fékk rúmlega tvöfalt meira fylgi í kosningunum 2017 en árið áður og hefur mælst með meira fylgi en kom upp úr kössunum þá í nánast öllum könnunum MMR á þessu kjörtímabili. Mest mældist fylgið 19,8 prósent fyrir ári síðan en hefur dalað umtalsvert frá þeim tíma. Nú segjast 14,8 prósent að þeir myndu kjósa flokkinn, en þeim fækkaði um tvö prósentustig milli ágúst og september. Enginn einn flokkur missti meira fylgi milli mánaða. Þessi staða myndi skila Samfylkingunni um tíu þingmönnum.
Fylgi færist innan blokkar
Hinir flokkarnir á hinni sjálfskilgreindu frjálslyndu miðju, Píratar og Viðreisn, taka það fylgi sem Samfylkingin tapar. Alls segjast 12,4 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa Pírata nú sem myndi þýða betri útkomu fyrir flokkinn en í kosningunum 2017 en verri en þegar talið var upp úr kjörkössunum 2016, þegar Píratar fengu 14,5 prósent atkvæða. Það myndi líklega skila um átta þingmönnum í hús.
Viðreisn nálgast sömuleiðis það fylgi sem flokkurinn fékk árið 2016 (10,5 prósent) en í dag segjast 10,2 prósent ætla að kjósa flokkinn. Það er 52 prósent fleiri en kusu hann í október 2017. Fjöldi þingmanna Viðreisnar myndi þá vaxa upp í sjö talsins. Það eru jafnmargir þingmenn og flokkurinn fékk í kosningunum 2016 en þremur fleiri en hann fékk síðast þegar kosið var.
Samanlagt er fylgi þessara þriggja flokka, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar, afar stöðugt. Það mælist nú 37,4 prósent og hefur haldist á þeim slóðum meira og minna allt kjörtímabilið. Allir mælast þeir með meira fylgi en þeir fengu í október 2017. Saman fengu flokkarnir þrír 28 prósent þá og því um umtalsverða fylgisaukningu blokkarinnar að ræða.
Formaður Samfylkingarinnar sagði í viðtali við Mannlíf í janúar að hann vildi mynda ríkisstjórn með Viðreisn, Pírötum og Vinstri grænum. Það er sama mynstur og stýrir nú málum í Reykjavíkurborg. Að óbreyttu, miðað við könnun MMR, gæti sá kapall gengið upp. Flokkarnir gætu búist við því að fá 25 þingmenn og þyrftu þá að bæta sjö við sig til að geta myndað meirihlutastjórn. Þeir þingmenn eru í boði.
Fjögurra flokka stjórn með Vinstri grænum eða Framsókn
Flokkur forsætisráðherrans mælist nefnilega með 12,8 prósent fylgi og bætir ágætlega við sig milli mánaða. Vinstri græn eru þó enn langt frá kjörfylgi sínu, 16,9 prósent. Enn vantar að um fjórðungur kjósenda skili sér aftur til að sá árangur verði jafnaður. Þingmönnum flokksins myndi líkast til fækka um einn og verða níu. Flokkurinn gæti því myndað fjögurra flokka Reykjavíkurríkisstjórn með ofangreindum þremur flokkum sem hefði fimm þingmanna meirihluta.
Það gæti Framsóknarflokkurinn lika gert. Hann virðist á ágætis flugi og bætir vel við sig á milli mánaða. Alls segjast 11,8 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa þann flokk ef gengið yrði til kosninga í dag, sem er 1,1 prósentustigi meira en hann fékk í kosningunum 2017. Þingmannafjöldin yrði þó sá sami og nú, eða átta talsins. Hann gæti dugað til að mynda þriggja þingmanna meirihluta með Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn.
Þá má ekki útiloka að Samfylkingin, Píratar, Framsókn og Vinstri græn myndu skoða myndun stjórnar. Saman mælast þessir flokkar með um 35 þingmenn og rúman meirihluta.
Ómögulegt að mynda einhvers konar hægri stjórn
Það virðist erfiðara að sjá stjórnarmynstur sem gæti virkað í hægra hólfi stjórnmálanna.
Miðflokkurinn, sem var upphaflega klofningsframboð úr Framsóknarflokknum, hefur bætt nákvæmlega jafn miklu fylgi við sig og gamli móðurflokkurinn, eða 1,1 prósentustigi, frá síðustu kosningum. Alls segjast 12 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa þann flokk sem gerir hann 0,2 prósentustigum stærri en Framsókn, en það er ekki marktækur munur. Hann er því orðinn nokkuð umsvifamikið afl í íhaldssamasta, og þjóðernissinnaðasta, hólfinu á hægri ás stjórnmálanna og gæti vænst þess að fá átta þingmenn ef kosið yrði í dag, einum færri en flokkurinn er með í dag. Það verður þó að taka með í dæmið að tveimur þingmenn Flokks fólksins gengu til liðs við Miðflokkinn í byrjun árs eftir að þeir voru reknir úr flokknum sem þeir voru kjörnir á þing fyrir vegna Klausturmálsins.
Ef einungis er horft á fylgi flokka sem raða sér upp á þeim anga mætti ætla að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks, Framsóknarflokks og Viðreisnar væri möguleg. Slík myndi hafa 35 þingmenn. Miðað við niðurstöðu könnunar MMR á myndi hann geta orðið fjórða hjólið undir núverandi ríkisstjórn og tryggt henni meirihluta, en engar líkur eru á því að Vinstri græn eða Framsókn myndu starfa með Miðflokknum og litlar líkur eru á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn sem stendur, sérstaklega eftir deilurnar um þriðja orkupakkann.
Enginn hinna stjórnarandstöðuflokkanna hugnast samstarf við Miðflokkinn undir nokkrum kringumstæðum.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars