Mynd: Bára Huld Beck

Ný ríkisstjórnarmynstur í kortunum

Sjálfstæðisflokkurinn er í frjálsu falli í könnunum MMR og hefur aldrei mælst með minna fylgi. Flokkurinn er samt stærstur allra, en möguleikar hans í ríkisstjórnarstarfi virðast ekki margir. Þeir eru þó fleiri en hjá Miðflokknum, sem er geislavirkur í íslenskri pólitík sem stendur. Líklegast er, miðað við stöðu mála nú, að reynt yrði að mynda einhverskonar afbrigði af þeirri stjórn sem stýrt hefur Reykjavík að mestu undanfarna áratugi ef kosið yrði í dag.

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn heldur áfram að tapa fylgi, sam­kvæmt könn­unum MMR. Þessi stærsti stjórn­mála­flokkur lands­ins, sem lengi gekk að um 40 pró­sent fylgi vísu, mæld­ist í fyrsta sinn með undir 20 pró­sent fylgi í könn­unum MMR í júlí síð­ast­liðn­um. Hann var á svip­uðum slóðum í ágúst en í nýj­ustu könnun fyr­ir­tæk­is­ins, sem var fram­kvæmd dag­anna 9. til 16. sept­em­ber, var fylgi hans komið niður í 18,3 pró­sent. Það er lægsta fylgi sem Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefur mælst með í könn­unum MMR.

Frá síð­ustu kosn­ing­um, þegar flokk­ur­inn fékk 25,2 pró­sent atkvæða, hefur hann tapað 6,9 pró­sentu­stig­um, eða um 27 pró­sent af fylgi sín­u. 

Þegar horft er lengra aft­ur, til kosn­ing­anna 2016, er fylgis­tapið 10,7 pró­sentu­stig. Það þýðir að 37 pró­sent af kjós­endum Sjálf­stæð­is­flokks­ins hefur yfir­gefið hann frá því að talið var upp úr kjör­köss­unum í októ­ber 2016.

Versta nið­ur­staða Sjálf­stæð­is­flokks­ins í kosn­ing­unum í sög­unni var í fyrstu þing­kosn­ing­unum sem haldnar voru eftir banka­hrun, vorið 2009. Þá fékk flokk­ur­inn 23,7 pró­sent atkvæða. Ljóst er að ef kosið yrði í dag, og nið­ur­staðan yrði í takt við nýj­ustu könnun MMR, þá myndi Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn fá sína verstu útreið nokkru sinni, en yrði samt sem áður stærsti flokkur lands­ins. ­Jafn­vel þótt að stuðst sé við efri vik­mörk í könn­un­inni þá er fylgi Sjálf­stæð­is­flokks ein­ungis 21,4 pró­sent. Ef horft er á neðri mörk könn­un­ar­innar mælist fylgið 15,2 pró­sent.

Ef sept­em­berkönnun MMR yrði nið­ur­staða kosn­inga myndu lík­leg­ast 7,6 pró­sent atkvæða falla niður dauð. Þ.e. Flokkur fólks­ins (4,0 pró­sent) myndi falla af þingi og Sós­í­alista­flokkur Íslands (2,0 pró­sent) myndi ekki ná inn. Þá sögð­ust 1,6 pró­sent svar­enda að þeir ætl­uðu að kjósa ann­að. 

Miðað við það yrðu flokk­arnir á þingi sjö, í stað átta eins og nú er. Rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir, sem standa að rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dótt­ur, gætu vænst þess að fá 29 þing­menn. Það myndi ekki duga og stjórnin yrði því fall­inn. Þar af gæti Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn búist við að fá 12, í besta falli 13, þing­menn kjörna. Það er átta til níu færri en flokk­ur­inn fékk 2016 og þremur til fjórum færri en hann hefur nú.

Vert er þó að muna að enn er rúmt eitt og hálft ár eftir af kjör­tíma­bil­inu. Og vika er langur tími í póli­tík.

Sam­fylk­ingin tapar mestu milli mán­aða

Sam­fylk­ing­in, sem átti við stofnun að verða ein­hvers­konar mót­vægis­turn við Sjálf­stæð­is­flokk­inn í íslenskum stjórn­mál­um, er langt frá þeirri stöðu sem flokk­ur­inn var í þegar hann fékk 31 pró­sent atkvæða í kosn­ing­unum 2003. 

Árið 2016 var flokk­ur­inn nálægt því að þurrkast út af þingi, fékk 5,7 pró­sent atkvæða og einn kjör­dæma­kjör­inn þing­mann, núver­andi for­mann­inn Loga Ein­ars­son. 

Síðan þá hefur flokk­ur­inn bragg­ast umtals­vert, fékk rúm­lega tvö­falt meira fylgi í kosn­ing­unum 2017 en árið áður og hefur mælst með meira fylgi en kom upp úr köss­unum þá í nán­ast öllum könn­unum MMR á þessu kjör­tíma­bili. Mest mæld­ist fylgið 19,8 pró­sent fyrir ári síðan en hefur dalað umtals­vert frá þeim tíma. Nú segj­ast 14,8 pró­sent að þeir myndu kjósa flokk­inn, en þeim fækk­aði um tvö pró­sentu­stig milli ágúst og sept­em­ber. Eng­inn einn flokkur missti meira fylgi milli mán­aða. Þessi staða myndi skila Sam­fylk­ing­unni um tíu þing­mönn­um.

Fylgi fær­ist innan blokkar

Hinir flokk­arnir á hinni sjálf­skil­greindu frjáls­lyndu miðju, Píratar og Við­reisn, taka það fylgi sem Sam­fylk­ingin tap­ar. Alls segj­ast 12,4 pró­sent kjós­enda að þeir myndu kjósa Pírata nú sem myndi þýða betri útkomu fyrir flokk­inn en í kosn­ing­unum 2017 en verri en þegar talið var upp úr kjör­köss­unum 2016, þegar Píratar fengu 14,5 pró­sent atkvæða. Það myndi lík­lega skila um átta þing­mönnum í hús.

Við­reisn nálg­ast sömu­leiðis það fylgi sem flokk­ur­inn fékk árið 2016 (10,5 pró­sent) en í dag segj­ast 10,2 pró­sent ætla að kjósa flokk­inn. Það er 52 pró­sent fleiri en kusu hann í októ­ber 2017. ­Fjöldi þing­manna Við­reisnar myndi þá vaxa upp í sjö tals­ins. Það eru jafn­margir þing­menn og flokk­ur­inn fékk í kosn­ing­unum 2016 en þremur fleiri en hann fékk síð­ast þegar kosið var.

Sam­an­lagt er fylgi þess­ara þriggja flokka, Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Við­reisn­ar, afar stöðugt. Það mælist nú 37,4 pró­sent og hefur hald­ist á þeim slóðum meira og minna allt kjör­tíma­bil­ið. Allir mæl­ast þeir með meira fylgi en þeir fengu í októ­ber 2017. Saman fengu flokk­arnir þrír 28 pró­sent þá og því um umtals­verða fylg­is­aukn­ingu blokk­ar­innar að ræða. 

For­maður Sam­fylk­ing­ar­innar sagði í við­tali við Mann­líf í jan­úar að hann vildi mynda rík­is­stjórn með Við­reisn, Pírötum og Vinstri græn­um. Það er sama mynstur og stýrir nú málum í Reykja­vík­ur­borg. Að óbreyttu, miðað við könnun MMR, gæti sá kap­all gengið upp. Flokk­arnir gætu búist við því að fá 25 þing­menn og þyrftu þá að bæta sjö við sig til að geta myndað meiri­hluta­stjórn. Þeir þing­menn eru í boði.

Fjög­urra flokka stjórn með Vinstri grænum eða Fram­sókn

Flokkur for­sæt­is­ráð­herr­ans mælist nefni­lega með 12,8 pró­sent fylgi og bætir ágæt­lega við sig milli mán­aða. Vinstri græn eru þó enn langt frá kjör­fylgi sínu, 16,9 pró­sent. Enn vantar að um fjórð­ungur kjós­enda skili sér aftur til að sá árangur verði jafn­að­ur­. ­Þing­mönnum flokks­ins myndi lík­ast til fækka um einn og verða níu. Flokk­ur­inn gæti því myndað fjög­urra flokka Reykja­vík­ur­rík­is­stjórn með ofan­greindum þremur flokkum sem hefði fimm þing­manna meiri­hluta.

Það gæti Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn lika gert. Hann virð­ist á ágætis flugi og bætir vel við sig á milli mán­aða. Alls segj­ast 11,8 pró­sent kjós­enda að þeir myndu kjósa þann flokk ef gengið yrði til kosn­inga í dag, sem er 1,1 pró­sentu­stigi meira en hann fékk í kosn­ing­unum 2017. ­Þing­manna­fjöldin yrði þó sá sami og nú, eða átta tals­ins. Hann gæti dugað til að mynda þriggja þing­manna meiri­hluta með Sam­fylk­ingu, Pírötum og Við­reisn.

Það virðast ekki margir augljósir kostir í stöðunni fyrir Bjarna Benediktsson að halda völdum miðað við stöðu mála í könnunum. En hann hefur sýnt að Sjálfstæðisflokkurinn getur náð að auka fylgi sitt á ögurstundu og komið sér í oddastöðu.
Mynd: Bára Huld Beck

Þá má ekki úti­loka að Sam­fylk­ing­in, Pírat­ar, Fram­sókn og Vinstri græn myndu skoða myndun stjórn­ar. Saman mæl­ast þessir flokkar með um 35 þing­menn og rúman meiri­hluta.

Ómögu­legt að mynda ein­hvers konar hægri stjórn

Það virð­ist erf­ið­ara að sjá stjórn­ar­mynstur sem gæti virkað í hægra hólfi stjórn­mál­anna.

Mið­flokk­ur­inn, sem var upp­haf­lega klofn­ings­fram­boð úr Fram­sókn­ar­flokkn­um, hefur bætt nákvæm­lega jafn miklu fylgi við sig og gamli móð­ur­flokk­ur­inn, eða 1,1 pró­sentu­stigi, frá síð­ustu kosn­ing­um. Alls segj­ast 12 pró­sent lands­manna að þeir myndu kjósa þann flokk sem gerir hann 0,2 pró­sentu­stigum stærri en Fram­sókn, en það er ekki mark­tækur mun­ur. Hann er því orð­inn nokkuð umsvifa­mikið afl í íhalds­samasta, og þjóð­ern­is­sinn­aðasta, hólf­inu á hægri ás stjórn­mál­anna og gæti vænst þess að fá átta þing­menn ef kosið yrði í dag, einum færri en flokk­ur­inn er með í dag. Það verður þó að taka með í dæmið að tveimur þing­menn Flokks fólks­ins gengu til liðs við Mið­flokk­inn í byrjun árs eftir að þeir voru reknir úr flokknum sem þeir voru kjörnir á þing fyrir vegna Klaust­ur­máls­ins. 

Ef ein­ungis er horft á fylgi flokka sem raða sér upp á þeim anga mætti ætla að rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks, Mið­flokks, Fram­sókn­ar­flokks og Við­reisnar væri mögu­leg. Slík myndi hafa 35 þing­menn. Miðað við nið­ur­stöðu könn­unar MMR á myndi hann geta orðið fjórða hjólið undir núver­andi rík­is­stjórn og tryggt henni meiri­hluta, en engar líkur eru á því að Vinstri græn eða Fram­sókn myndu starfa með Mið­flokknum og litlar líkur eru á sam­starfi við Sjálf­stæð­is­flokk­inn sem stend­ur, sér­stak­lega eftir deil­urnar um þriðja orku­pakk­ann.

Eng­inn hinna stjórn­ar­and­stöðu­flokk­anna hugn­ast sam­starf við Mið­flokk­inn undir nokkrum kring­um­stæð­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar