Erlendir aðilar áttu samtals eignir sem metnar voru á 1.063 milljarða á Íslandi um síðustu áramót. Eigið fé erlendra aðila á Íslandi var metið á 592,5 milljarða króna og jókst um tæp 25 prósent milli ára. Það er nú meira en það hefur nokkru sinni verið frá hruni. Raunar hefur eigið fé erlendra aðila á Íslandi einungis einu sinni verið meira frá því að farið var að halda utan um það, árið 2007 þegar það var 660,5 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í nýjum tölum Seðlabanka Íslands um beina fjárfestingu. Þar segir einnig að lánastaða milli erlendra og innlendra aðila (e. inter-company loans) hafi verið 470,5 milljarðar króna í lok árs 2018. Hún hefur lækkað hratt á undanförnum árum eftir að hafa náð hámarki 2011 í 1.343 milljörðum króna.
Kunnulegar slóðir
Mestar eignir hérlendis eiga aðilar með heimilisfesti í Lúxemborg, 275 milljarða króna, og í Hollandi, 202 milljarðar króna. Þar á eftir koma erlendir einstaklingar eða félög sem skráð eru í Sviss, en slíkir eiga 202 milljarða króna á Íslandi.
Vel þekkt hefur verið árum saman að fjölmargir íslenskir einstaklingar eiga félög í ofangreindum löndum og að þau félög haldi á eignum hérlendis fyrir hönd þeirra. Því eru allar líkur á því að hluti þeirra eigna sem skráðar eru í eigu erlendra aðila á Íslandi séu í raun í eigu íslenskra einstaklinga án þess að það eignarhald birtist með skýrum hætti í gögnum íslenskra stjórnvalda.
Rúmlega helmingur eigna erlendra aðila á Íslandi, alls 604 milljarðar króna, er í fjármála- og vátryggingastarfsemi. Innan þeirrar skilgreiningar rúmast meðal annars eignir þeirra fjárfestingasjóða sem eiga stóran hlut í Arion banka og skráðum tryggingafélögum.
Raunverulegir eigendur
Kjarninn greindi frá því fyrr í þessum mánuði að allir þeir sem eiga félag á Íslandi hafa þurft, frá og með 30. ágúst 2019, að veita fyrirtækjaskrá upplýsingar um nafn, lögheimili, kennitölu, ríkisfang og eignarhlut/tegund eignarhalds. Þá þurfa allir að framvísa gögnum sem staðfesta veittar upplýsingar og sýna fram á að viðkomandi sé raunverulegur eigandi þess félags sem um ræðir.
Lagabreytingin er meðal annars til þess gerð að loka þeirri algengu feluleið að láta félög, t.d. eignarhaldsfélög eða rekstrarfélög sem héldu á eignum á Íslandi, vera í eigu erlendra félaga, sem voru síðan í eigu annarra erlendra félaga, sem voru í eigu sjóða í skattaskjólum þar sem engar eða litlar kröfur voru gerðar um skráningar og skil á gögnum. Þannig hefur verið verið hægt að fela hver raunverulegur eigandi (e. beneficial owner) félaga er.