Mynd: Birgir Þór Harðarson

Áferð kjósenda íslenskra stjórnmálaflokka

Hverjir eru það sem kjósa hvaða stjórnmálaflokka? Og eiga kjósendur innan hverrar blokkar eitthvað sérstakt sameiginlegt? Kjarninn hefur fengið aðgang að miklu magni gagna úr síðustu könnunum MMR sem sýna hver líklegasta áferð meðalkjósanda hvers flokks er.

Miklar breyt­ingar hafa orðið á íslensku stjórn­mála­lands­lagi á und­an­förnum ára­tug. Þjóðin hefur snúið baki við kerfi sem byggði á fjór­flokki, sem rað­aði sér frá vinstri til hægri á hinum klass­íska póli­tíska skala, og svo stundum einum í við­bót sem end­ur­spegl­aði oftar en ekki stemn­ing­una í sam­fé­lag­inu á þeim tíma. 

Síð­ustu árin hefur fylgi fjór­flokks­ins hrunið úr því að vera að jafn­aði yfir 90 pró­sent í 62-65 pró­sent í síð­ustu tveimur kosn­ingum sem fram hafa far­ið. Tími sterkra tveggja flokka rík­is­stjórna virð­ist lið­inn og í síð­ustu kosn­ingum náðu átta flokkar á þing. Í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum í Reykja­vík í fyrra urðu þeir jafn margir, þegar Sós­í­alista­flokkur Íslands tók sæti Fram­sókn­ar­flokks­ins á meðal átt­flokks­ins. Í þeim kosn­ingum voru heilir 16 flokkar á kjör­seðl­in­um.

Á þessu tíma­bili hefur íslenskt sam­fé­lag breyst umtals­vert. Lands­mönnum hefur alls fjölgað um 42.480 frá byrjun árs 2010, eða um 13,3 pró­sent.

Erlendum rík­is­borg­urum hefur fjölgað mest, en fjöldi þeirra hef­ur  farið úr rúm­lega 20 þús­und í tæp­lega 47 þús­und á átta og hálfu ári. Þótt þeir hafi ekki allir kosn­inga­rétt þá breytir það miklu þegar hlut­fall slíkra fer úr því að vera 6,7 pró­sent af heildar­í­búa­fjölda lands­ins í að vera 13 pró­sent hans, líkt og var um mitt þetta ár. 

Ald­urs­sam­setn­ingin hefur líka breyst umtals­vert. Lands­mönnum sem eru 0 til 29 ára hefur til að mynda fjölgað um 5,7 pró­sent á þessu tíma­bili en þeim sem eru eldri en 70 hefur fjölgað um 27 pró­sent. 

Þeim sem búa á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hefur líka fjölgað hlut­falls­lega og þegar suð­vest­ur­hornið er allt talið sam­an: Höf­uð­borg­ar­svæð­ið, frá Árborg, upp á Akra­nes og öll Suð­ur­nes­in, þá liggur fyrir að um þrír af hverjum fjórum íbúum lands­ins búa á því svæð­i. 

Hlut­fall háskóla­mennt­aðra á meðal þjóð­ar­innar hefur líka tekið stakka­skipt­um. Í lok árs 2017 voru til að mynda 42,4 pró­sent þeirra sem hér bjuggu á aldr­inum 25 til 64 ára með háskóla­próf sem æðstu mennt­un. Í lok árs 2010 var það hlut­fall 32,6 pró­sent. Hlut­fall þeirra sem til­heyra sama ald­urs­hópi sem hafa ein­ungis lokið grunn­skóla­prófi hefur að sama skapi fallið úr 29,3 pró­sent í 22,8 pró­sent.

Þá hefur traust til íslenskra stofn­ana ekki náð sér á strik eftir að það gjör­sam­lega hrundi ásamt nokkrum bönkum haustið 2008, og mælist nú 18 pró­sent gagn­vart Alþingi.

Kann­anir sýna að hið nýja stjórn­mála­lands­lag er að festa sig í sessi. Og afar lík­legt verður að telj­ast að blokka­mynd­an­ir, þar sem flokkar með ein­hverja sam­eig­in­lega heild­ar­lífs­sýn mynda banda­lög í aðdrag­anda kosn­inga, líkt og hefur tíðkast á öðrum Norð­ur­lönd­um. 

Eins og staðan er í dag mætti segja að þær blokkir sem teikn­ast hafa upp séu þannig að rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir ólíku: Sjálf­stæð­is­flokk­ur, Fram­sókn­ar­flokkur og Vinstri græn, myndi eina slíka, frjáls­lyndu miðju­flokk­arnir í stjórn­ar­and­stöðu (Sam­fylk­ing, Við­reisn og Pírat­ar) aðra og Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins mál­efna­lega þá þriðju, þótt flokk­arnir tveir muni lík­lega aldrei geta unnið saman vegna per­sónu­legs ágrein­ings sem á rætur sínar að rekja í Klaust­ur­mál­inu svo­kall­aða. 

En hverjir eru það sem kjósa þessa flokka? Og eiga kjós­endur innan hverrar blokkar eitt­hvað sér­stakt sam­eig­in­legt? Kjarn­inn hefur fengið aðgang að miklu magni gagna úr síðust­u könn­unum MMR sem sýna hver lík­leg­asta áferð með­al­kjós­anda hvers flokks er. 

Fylgi flokka mælt 12. ágúst til 16. sept­em­ber 2019:

  • Fram­sókn­ar­flokkur 11,1 pró­sent
  • Sjálf­stæð­is­flokkur 18,7 pró­sent
  • Sam­fylk­ingin 15,8 pró­sent
  • Vinstri græn 12,2 pró­sent
  • Píratar 11,8 pró­sent
  • Við­reisn 9,8 pró­sent
  • Flokkur fólks­ins 4,1 pró­sent
  • Mið­flokk­ur­inn 12,5 pró­sent
  • Sós­í­alista­flokkur Íslands 1,6 pró­sent
  • Annað 1,6 pró­sent

Rík­is­stjórn­ar­blokk­in: Sam­an­lagt fylgi: 41,9 pró­sent

D (18,7 pró­sent fylg­i): Með háar tekj­ur, litlar áhyggjur af spill­ingu en telja efna­hags­á­standið gott

Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er enn stærsti flokkur lands­ins þótt fylgi hans hafi fallið hratt und­an­farin miss­eri og aldrei mælst jafn lágt í könn­un­um MM­R og það gerir nú um stund­ir. Þegar nið­ur­stöður kann­ana fyr­ir­tæk­is­ins í ágúst og sept­em­ber eru lagðar saman kemur fram að stuðn­ingur við Sjálf­stæð­is­flokk­inn mælist 18,7 pró­sent.

Flokk­ur­inn hefur sögu­lega verið mjög sterkur á meðal eldri kjós­enda. Þannig er staðan ekki lengur og virð­ist sem tölu­verður fjöldi þeirra sem til­heyra elstu ald­urs­hóp­unum hjá kjós­endum hans hafi nú leitað á önnur mið, aðal­lega til Mið­flokks­ins. Nú er stuðn­ingur við flokk­inn nokkuð dreifður milli ald­urs­hópa og eng­inn sér­stakur sem sker sig úr. 

Sama má segja um stuðn­ing við flokk­inn milli lands­hluta. Mestur er stuðn­ing­ur­inn á Vest­ur­landi og Vest­fjörð­um, þar sem 24,1 pró­sent kjós­enda seg­ist ætla að kjósa gamla turn­inn. Það vekur hins vegar athygli að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn nýtur minnst stuðn­ings í Suð­ur­kjör­dæmi, þar sem hann sögu­lega hefur verið mjög sterk­ur. Þar hefur fylgni við flokk­inn dreg­ist hratt sam­an. Í maí sögð­ust til að mynda 26 pró­sent kjós­enda þar styðja Sjálf­stæð­is­flokk­inn, en nú er það hlut­fall 15,6 pró­sent. 

Það sem helst ein­kennir kjós­enda­hóp Sjálf­stæð­is­flokks­ins er að stuðn­ingur við hann eykst merkj­an­lega eftir því sem tekjur hækka. Þannig nýtur flokk­ur­inn minnst stuðn­ings í hópi þeirra sem eru með undir 400 þús­und krónur í heim­il­is­tekj­ur, 11,9 pró­sent, og er með fjórða mesta fylgi allra flokka hjá þeim hópi. Stuðn­ing­ur­inn er hins vegar mestur hjá þeim sem eru með yfir 1,2 millj­ónir króna á mán­uði í heim­il­is­tekj­ur, alls 25,4 pró­sent, og hjá þeim hópi er Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn langstærsti stjórn­mála­flokkur lands­ins. 

Fyrri kann­anir MMR á ýmsum álita­málum mann­legrar til­veru hafa sýnt að kjós­endur Sjálf­stæð­is­flokks­ins hafa minnstar áhyggjur allra kjós­enda að spill­ingu í fjár­málum og/eða stjórn­málum og minnstar áhyggjur allra að fátækt eða félags­legum ójöfn­uði. Þeir eru hins vegar lík­leg­astir allra til að telja efna­hags­stöð­una á Íslandi góða, en 87 pró­sent kjós­enda flokks­ins höfðu þá skoðun sam­kvæmt könnun sem fram­kvæmd var fyrr á þessu ári. Þá eru Sjálf­stæð­is­menn lík­legri en kjós­endur ann­arra flokka til að vera fylgj­andi veggjöld­um. 

V (12,2 pró­sent fylgi) Kon­ur, græn­metisætur sem hafa áhyggjur af hlýnun jarðar en horfa lítið á Net­flix

Mynd: Vinstri græn

Flokkur for­sæt­is­ráð­herr­ans Katrínar Jak­obs­dóttur er sá rík­is­stjórn­ar­flokkur sem goldið hefur mest fyrir hið óvenju­lega rík­is­stjórn­ar­sam­starf. Sam­an­lagt fylgi hans í ágúst og sept­em­ber mælist 12,2 pró­sent, sem þýðir að hátt í þriðj­ungur af fylgi flokks­ins er horf­inn frá síð­ustu kosn­ing­um.

Tölur MMR sýna að konur eru mun lík­legri en karlar til að kjósa Vinstri græn. Stuðn­ingur hans er lang­mestur á Norð­ur­landi þar sem hann mælist stærstur allra flokka með 18,4 pró­sent stuðn­ing á heima­slóðum fyrr­ver­andi for­manns­ins Stein­gríms J. Sig­fús­son­ar. Eina lands­svæðið utan þess þar sem fylgið er í takt við heild­ar­fylgið er á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Ann­ars staðar á land­inu eru Vinstri græn með eins stafa fylgi og minnst á Aust­ur­landi, þar sem ein­ungis 5,9 pró­sent kjós­enda segj­ast styðja flokk­inn. 

Flestir kjós­endur Vinstri grænna eru með háskóla­menntun en flokk­ur­inn nýtur líka ágætis stuðn­ings á meðal þeirra sem hafa ein­ungis lokið grunn­mennt­un. Lægri hluti milli­tekju­hópa er lík­leg­astur til að kjósa flokk­inn og það er kannski ekki óvænt tíð­indi að flokkur með orðið „vinstri“ í nafn­inu sínu njóti minnst stuðn­ings hjá tekju­hæsta hópnum í sam­fé­lag­in­u. 

Þegar fyrri kann­anir árs­ins, sem skoða sér­tækt annað en bara fylgi flokka, eru skoð­aðar kemur í ljós að kjós­endur Vinstri grænna voru lík­legri en kjós­endur ann­arra flokka að ætla að ferð­ast í sum­ar­frí­inu sínu, jafnt inn­an­lands sem utan, lang­lík­leg­astir til að borða græn­met­is- eða vegan­fæði, höfðu miklar áhyggjur af hlýnun jarðar og ansi hlynntir veggjöld­um. Þeir voru hins vegar ólík­leg­astir til að vera með áskrift af Net­flix eða virkt Costco aðild­ar­kort og eru að uppi­stöðu mjög and­vígir því að ferskt kjöt verði flutt til lands­ins frá öðrum löndum innan Evr­ópska efna­hags­svæð­is­ins. 

B (11,1 pró­sent fylg­i): Kjöt- og mjólk­ur­neyt­endur á eft­ir­launum af lands­byggð­inni með ágætar tekjur

mynd: Bára Huld Beck

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er eini rík­is­stjórn­ar­flokk­ur­inn sem virð­ist hagn­ast á því að vera í rík­is­stjórn, miðað við kann­anir MMR. Þ.e. fylgi hans síð­ustu tvo mán­uði, 11,1 pró­sent, er meira en það sem flokk­ur­inn fékk í síð­ustu kosn­ing­um. 

Í ljósi þess að um rúm­lega 100 ára gamlan flokk, með nokkuð íhalds­samar áherslur í mörgum mál­um, er að ræða á það kannski ekki að sæta tíð­indum að mestan stuðn­ings við hann er að finna hjá kjós­endum sem eru 68 ára og eldri. Innan þess hóps segj­ast 15,7 pró­sent kjós­enda vera Fram­sókn­ar­menn. Minnstur er stuðn­ing­ur­inn hjá kjós­endum undir þrí­tugu, þar sem ein­ungis 8,4 pró­sent segj­ast ætla að kjósa Fram­sókn.

Enn minna kemur á óvart að stuðn­ing við Flokk­inn er fyrst og síð­ast að finna á völdum svæðum á lands­byggð­inni. Þannig mælist Fram­sókn stærsti flokkur lands­ins á Aust­ur­landi með 23,2 pró­sent fylgi og sá næst stærsti á Vest­ur­landi og á Vest­fjörðum með 21,5 pró­sent. Á höf­uð­borg­ar­svæð­inu er hann hins vegar minnstur allra þeirra flokka sem mæl­ast með mann inni á þingi og með ein­ungis 8,3 pró­sent fylg­i. 

Menntun virð­ist ekki vera breyta sem skiptir máli þegar fólk ákveður að kjósa Fram­sókn en það gera tekjur hins veg­ar. Lang­flestir kjós­endur flokks­ins eru milli­tekju- eða hátekju­fólk. Í tekju­lægsta hópi lands­manna, þeim sem er með heim­il­is­tekjur undir 400 þús­und krónum á mán­uði, mælist fylgi Fram­sókn­ar­flokks­ins 5,4 pró­sent, eða rétt yfir fylgi Sós­í­alista­flokks Íslands. Alls mæl­ast sjö flokkar með meira fylgi í þeim flokki en Fram­sókn, þ.e. allir hinir flokk­arnir sem eiga í dag full­trúa á Alþingi.

Það verður seint sagt að Fram­sókn­ar­fólk standi ekki undir staðalí­mynd­inni sem oft­ast er dregin upp af því. Í könn­unum MMR á þessu ári hefur komið í ljós að Fram­sókn­ar­fólk er lang­lík­leg­ast til að borða rautt kjöt (73 pró­sent þeirra gerir það) og deilir topp­sæt­inu í mjólk­ur­vöru­neyslu með klofn­ings­flokknum Mið­flokkn­um. Þá er það sá hópur kjós­enda sem er mest á móti inn­flutn­ingi á fersku kjöti til lands­ins. Þar er því haldið mik­illi tryggð við íslenska land­bún­að­ar­fram­leiðslu. 

Það er hins vegar ólík­legra en flestir kjós­end­ur, þó ekki all­ir, til að hafa ekki miklar áhyggjur af hlýnun jarðar og hefur einna minnstar áhyggjur af stöðu heil­brigð­is­þjón­ustu. Þá eru kjós­endur Fram­sóknar ólík­leg­astir allra til að vera á Face­book.

Frjáls­lynda miðju­blokk­in: Sam­an­lagt fylgi: 37,4 pró­sent

S (15,8 pró­sent fylg­i): Eldra fólk sem borðar mik­inn fisk, er ekki á Snapchat en fannst skaupið fyndið

Mynd: Berglaug Perla

Sjálfstitl­aður jafn­að­ar­manna­flokkur Íslands er næst stærsti flokkur lands­ins sam­kvæmt flestum skoð­ana­könn­un­um. Fylgið sam­kvæmt síð­ustu tveimur könnum MMR er 15,8 pró­sent, sem er rétt rúm­lega helm­ingur besta árang­urs flokks­ins í kosn­ingum í sögu hans, en umtals­vert betri staða en haustið 2016, þegar hann fékk rétt yfir fimm pró­sent atkvæða og ein­ungis einn kjör­dæma­kjör­inn þing­mann.

Konur eru lík­legri til að kjósa Sam­fylk­ing­una en karlar og stuðn­ingur við flokk­inn eykst eftir því sem fólk eld­ist. Ef ein­ungis 68 ára og eldri væru með kosn­inga­rétt væri Sam­fylk­ingin stærsti flokkur lands­ins. Í þeim ald­urs­hópi segj­ast 21,8 pró­sent að þeir myndu kjósa Sam­fylk­ing­una. Yngri fólk er hins vegar ólík­legra til að kjósa hana og í ald­urs­hópnum 30-49 ára, sem öllu jafna er einn fyr­ir­ferða­mesti hópur sam­fé­lags­ins hverju sinni, er Sam­fylk­ingin fimmti stærsti flokk­ur­inn. Af þeim sem myndu ná inn á þing mæl­ast ein­ungis Við­reisn og Mið­flokk­ur­inn með minni stuðn­ing í þeim ald­urs­hópi. 

Stuðn­ingur við flokk­inn er nokkuð dreifður um landið en þó áber­andi minnstur á Vest­ur­landi og Vest­fjörðum og mestur á Aust­ur­landi, þar sem Sam­fylk­ing­in, með 19,4 pró­sent stuðn­ing, mælist stærsti flokkur lands­ins. Tekjur virð­ast ekki vera ráð­andi breyta í því hvort fólk styðji Sam­fylk­ing­una eða ekki. Stuðn­ing­ur­inn er nokkuð jafn óháð því hvort veskið sé þungt eða létt. 

Kjós­endur Sam­fylk­ing­ar­innar eru lík­leg­astir allra til að borða mik­inn fisk og hafa umfram aðra breytt hegðun sinni á ein­hvern hátt til að lág­marka áhrif sín á umhverfi og loft­lags­breyt­ingar á síð­ustu tólf mán­uð­um. Það kemur ekki mikið á óvart þegar horft er til þess að 96 pró­sent kjós­enda flokks­ins hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af hlýnun jarð­ar.

Sam­fylk­ing­ar­fólk er ólík­leg­ast allra til að vera á sam­fé­lags­mið­ilnum Snapchat, rúmur þriðj­ungur þess telur efna­hags­stöðu Íslands vera slæma og það er óánægð­ast allra kjós­enda með þá kjara­samn­inga sem Efl­ing og VR gerðu við Sam­tök atvinnu­lífs­ins í apr­íl. Þá eru jafn­að­ar­menn­irnir sá hópur kjós­enda sem þú getur síst búist við að fái sér kok­teilsósu með pizzu en átta af hverjum tíu þeirra fannst Ára­mótaskaupið frekar eða mjög gott. 

P (11,8 pró­sent fylg­i): Ungt fólk með lágar tekj­ur, án háskóla­mennt­unar en fær sér kok­teilsósu með pizzu

Mynd: Facebook-síða þingflokks Pírata

Píratar mæl­ast með 11,8 pró­sent fylgi sam­kvæmt með­al­tali síð­ustu tveggja kann­ana MMR, sem er meira en flokk­ur­inn fékk í síð­ustu kosn­ing­um, en mun minna en þegar Píratar fóru með him­in­skautum í könn­unum árið 2016 og mæld­ust með á fjórða tug pró­sentu­stiga fylgi.

Píratar eru klár­lega flokkur unga fólks­ins og sá flokkur sem nýtur mest stuðn­ings allra hjá kjós­endum undir þrí­tugu, en 18 pró­sent lands­manna í þeim ald­urs­flokki styðja Pírata. Stuðn­ing­ur­inn er líka umtals­verður hjá fólki á aldr­inum 30 til 49 og þar mæl­ast Píratar næst stærsti flokkur lands­ins, á eftir Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Þegar kemur að fólki yfir 50 ára þá dalar fylgið skarpt og hjá 68 ára og eldri mælist stuðn­ingur við Pírata ein­ungis þrjú pró­sent. 

Stuðn­ing­ur­inn er líka bund­inn við ákveðin land­svæði (höf­uð­borg­ar­svæð­ið, Suð­ur­landið og Vest­ur­land/Vest­firði) sem ætla má að sé þétt­býlið á suð­vest­ur­horni lands­ins að uppi­stöð­u. 

Píratar eru líka vin­sælli hjá þeim sem eru ekki með háskóla­menntun og mæl­ast næst stærsti flokkur lands­ins hjá þeim kjós­endum sem eru með lægstu heim­il­is­tekj­urn­ar. Í fullu sam­ræmi við það þá er tekju­hæsti hóp­ur­inn lang ólík­leg­astur til að kjósa Pírata, en af þeim flokkum sem mæl­ast með mann inni á þingi er ein­ungis Vinstri græn með minna fylgi á meðal þeirra sem best hafa það fjár­hags­lega á Íslandi.

Píratar eru lík­legir til að vilja ferð­ast í sum­ar­frí­inu sínu, 61 pró­sent þeirra er á Instagram og 80 pró­sent er með áskrift að Net­fl­ix. Þeir hafa líka mestar áhyggjur allra af spill­ingu í fjár­málum og/eða stjórn­málum á Íslandi (71 pró­sent) og til að fá sér kok­teilsósu með pizzu, en tæpur þriðj­ungur Pírata er opinn fyrir þeim sam­runa. 



C (9,8 pró­sent fylg­i): Karl­ar, með góða mennt­un, háar tekj­ur, búa í höf­uð­borg­inni og hlusta á Spotify

Mynd: Aðsend

Í síð­ustu tveimur könn­unum MMR mælist fylgi Við­reisnar sam­tals 9,8 pró­sent. Það er meira en flokk­ur­inn fékk 2017 en minna en hann fékk árið 2016. 

Fáir flokkar tala með jafn afger­andi hætti til ákveð­inna hópa í sam­fé­lag­inu en ná nán­ast ekk­ert til ann­arra, og Við­reisn. Þannig eru karlar til að mynda mun lík­legri til að kjósa Við­reisn en kon­ur. Stuðn­ingur við flokk­inn er mestur hjá yngstu kjós­end­unum en minnkar svo jafnt og þétt upp ald­urs­stig­ann og hjá elsta kjós­enda­hópnum mæl­ast ein­ungis Píratar með minna fylgi á meðal þeirra flokka sem eiga full­trúa á þingi í dag. 

Stuðn­ingur við Við­reisn er nán­ast ein­vörð­ungu bund­inn við höf­uð­borg­ar­svæð­ið. Um 87 pró­sent aðspurðra sem segj­ast ætla að kjósa flokk­inn búa þar, en vert er að taka fram að svæðið er líka það lang­fjöl­menn­asta á land­inu. Mjög erfitt er að sjá að Við­reisn myndi ná inn kjör­dæma­kjörnum þing­manni í öðrum kjör­dæmum en þeim þremur sem þar er að finna ef kosið yrði í dag. Við­reisn mælist með minnst fylgi utan höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins af öllum flokkum sem mæl­ast inni eins og stend­ur. Það væri helst á Suð­ur­landi sem mögu­leiki er að ná inn manni með smá við­bót. 

Kjós­enda­hópur Við­reisnar heldur áfram að vera nokkuð eins­leitur þegar aðrar breytur eru skoð­að­ar. Flokk­ur­inn talar mjög vel til háskóla­mennt­aðra en nán­ast ekk­ert til þeirra sem eru ein­ungis með grunn­skóla­próf. Sömu sögu er að segja þegar tekju­hópar eru skoð­að­ir. Áhugi tekju­lægsta hóps­ins á Við­reisn er sá næst minnsti á meðal þeirra flokka sem eiga full­trúa á þingi, á eftir Fram­sókn. Stuðn­ing­ur­inn eykst síðan sam­hliða tekjum og mælist mestur (15,9 pró­sent) á meðal þeirra sem eru með yfir 1,2 millj­ónir króna í heim­il­is­tekjur á mán­uði. Ein­ungis Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn mælist með meira fylgi hjá þeim tekju­hópi.

Kjós­endur Við­reisnar eru allra kjós­enda lík­leg­astir til að vera not­endur af tón­list­ar­veit­unni Spotify (69 pró­sent) og að hámhorfa á Net­flix (84 pró­sent með áskrift). Þeir voru líka ánægð­astir allra með und­ir­skrift síð­ustu kjara­samn­inga. 

Við­reisn­ar­fólk hefur hins vegar mestar áhyggjur allra af stöðu heil­brigð­is­þjón­ustu í land­inu, það hefur einna mestan áhuga allra á hús­næð­is­málum og þungar áhyggjur af lofts­lags­breyt­ing­um. 

Lík­lega kemur það lítið á óvart að kjós­endur Við­reisnar eru mest fylgj­andi inn­flutn­ingi á fersku kjöti til lands­ins (68 pró­sent þeirra hafa þá skoð­un) enda flokkur sem leggur áherslu á frelsi í alþjóða­við­skiptum og aukið sam­starf við Evr­ópu.

Hin blokk­in: Sam­eig­in­legt fylgi: 16,6 pró­sent

M (12,5 pró­sent fylg­i): Gam­alt fólk af Suð­ur­landi með grunn­skóla­menntun og lágar tekjur og virkt Costco-kort 

Mynd: Miðflokkurinn

Sá flokkur sem er mest afger­andi kjós­enda­hóp­inn er Mið­flokk­ur­inn. Það ætti ekki að koma mikið á óvart, enda póli­tísk stefna hans að vera oft afar afger­andi í mjög umdeildum mál­um. Sam­an­lagt mæld­ist fylgi Mið­flokks­ins 12,5 pró­sent í könn­unum MMR í ágúst og sept­em­ber. Það er meira fylgi en flokk­ur­inn fékk í einu kosn­ing­unum sem hann hefur tekið þátt í haustið 2017.

Upp­gangur Mið­flokks­ins hafði fyrst áhrif á gengi Fram­sókn­ar­flokks­ins, enda um klofn­ings­brot úr þeim flokki að ræða, en síðan þá virð­ist flokk­ur­inn fyrst og síð­ast taka fylgi frá Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Mið­flokk­ur­inn virð­ist tala skýrt til íhalds­sama og þjóð­ern­is­lega arms Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Það sést vel á þeim breyt­ingum sem orðið hafa á fylgi flokk­anna tveggja í ákveðnum ald­urs­hópum og á ákveðnum land­svæð­um. Þar sem Mið­flokk­ur­inn fer upp, þar dalar Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn í takt. 

Mið­flokkur er flokkur karla. Rúm­lega tveir af hverjum þremur kjós­endum hans eru af því kyni. Kynja­mun­ur­inn er ekki jafn afger­andi hjá neinum öðrum flokki. Mið­flokk­ur­inn er líka flokkur eldri kjós­enda. Í ald­urs­hópnum 50 til 67 ára er hann t.d. næst vin­sæl­asti flokkur lands­ins, á eftir Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Hjá fólki undir þrí­tugu mælist fylgi hans hins vegar 7,9 pró­sent. 

Mið­flokk­ur­inn er lands­byggð­ar­flokk­ur. Ef kjós­endur á Suð­ur­landi réðu Íslandi einir væri Mið­flokk­ur­inn stærsti flokkur lands­ins, með fjórð­ung atkvæða. Á Aust­ur­landi er hann næst stærsti flokk­ur­inn, ein­ungis gamli móð­ur­flokk­ur­inn Fram­sókn er þar stærri. Á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, þar sem stærstur hluti kjós­enda býr, er fylgi Mið­flokks­ins hins vegar vel undir heild­ar­fylgi, eða 9,6 pró­sent. 

Því minni sem æðsta menntun er, því lík­legri er við­kom­andi til að kjósa Mið­flokk­inn. Hann nýtur raunar mest stuðn­ings allra flokka hjá þeim kjós­enda­hópi sem hefur mest lokið grunn­skóla­námi, en 17,4 pró­sent þeirra eru á Mið­flokksvagn­in­um. Þegar kemur að þeim sem lokið hafa háskóla­námi mælist Mið­flokk­ur­inn hins vegar með minnst fylgi allra flokka sem næðu inn manni á þing miðað við núver­andi stöðu í könn­un­um. Ein­ungis 6,1 pró­sent þeirra myndu kjósa flokk­inn. 

Sömu sögu er að segja af því þegar tekjur eru skoð­að­ar. Mið­flokk­ur­inn nýtur mest fylgis allra flokka hjá þeim sem eru með undir 400 þús­und krónur á mán­uði í heim­il­is­tekj­ur, en 16,6 pró­sent þess hóps styðja flokk­inn. Fylgi hans hjá öðrum tekju­hópum mælist undir heild­ar­fylg­i. 

Mið­flokks­fólk er sá kjós­enda­hópur sem reynd­ist lík­leg­astur til að ætla ekk­ert að ferð­ast í sum­ar­frí­inu sínu sam­kvæmt könn­unum MMR. Ein­ungis um þriðj­ungur kjós­enda hans not­ast við Spotify og þeir eru allra kjós­enda ólík­leg­astir til að vera virkir á Instagram, þar sem sama hlut­fall, þriðj­ung­ur, er með skráðan aðgang. Þá eru kjós­endur Mið­flokks­ins ólík­leg­astir allra kjós­enda að hafa breytt hegðun sinni á ein­hver hátt til að lág­marka áhrfi sín á umhverfi og loft­lags­mál síð­ast­liðið ár. Það er kannski ekki skrýtið vegna þess að Mið­flokks­fólk hefur minnstar áhyggjur allra af hlýnun jarð­ar, en ein­ungis 39 pró­sent þeirra hafa slík­ar. Þá hafa kjós­endur flokks­ins minnstar áhyggjur allra kjós­enda af hús­næð­is­mál­u­m. 

Mið­flokks­fólk er hins vegar mjög hrifið af því að neyta mjólk­ur­vara og deila topp­sæt­inu þar með Fram­sókn­ar­kjós­end­um. Þeir voru líka mjög á móti þriðja orku­pakk­an­um, mest allra á móti upp­töku veggjalda og allra kjós­enda lík­leg­astir til að vera með virkt Costco aðild­ar­kort. Þeim fannst hins vegar Ára­mótaskaupið minnst fynd­ið, og um 56 pró­sent kjós­enda Mið­flokks­ins taldi það hafa verið frekar eða mjög slakt. 

F (4,1 pró­sent fylg­i): Lág­tekju­fólk með grunn­skóla­menntun sem hefur áhyggjur af fátækt og félags­legum jöfn­uði

Mynd: Bára Huld Beck

Flokkur fólks­ins hefur meira og minna mælst tölu­vert undir kjör­fylgi allt þetta kjör­tíma­bil og sam­kvæmt síð­ustu tveimur könn­unum MMR á hann ansi langt í land með að ná inn manni ef kosið væri í dag. Fylgið mælist ein­ungis 4,1 pró­sent. 

Það er mark­tækt mest hjá kjós­endum yfir 68 ára aldri, enda hefur flokk­ur­inn talað mjög máli eldri borg­ara í sinni póli­tík. Stuðn­ing­ur­inn virð­ist algjör­lega bund­inn við Höf­uð­borg­ar­svæðið og Norð­ur­land en er vart mæl­an­legur í öðrum lands­hlut­um. Flokk­ur­inn myndi lifa stöð­ugu og góðu lífi ef ein­ungis þeir sem mest hafa lokið grunn­skóla­námi kysu til þings, en þar nýtur hann 9,8 pró­sent stuðn­ings. Ein­ungis eitt pró­sent þeirra sem lokið hafa háskóla­námi styðja Flokk fólks­ins. 

Sömu sögu er að segja þegar skoð­aðar eru tekju­breyt­ur. Flokkur fólks­ins er með meira fylgi en Fram­sókn, Vinstri græn og Við­reisn hjá lægsta tekju­hópnum og er ekki langt frá Sjálf­stæð­is­flokknum þar. Stuðn­ing­ur­inn lækkar hins vegar skarpt strax í næsta tekju­hópi og er vart mæl­an­legur hjá þeim heim­ilum sem eru með yfir 800 þús­und krónur á mán­uði í heild­ar­tekj­ur. 

Kjós­endur flokks­ins voru mjög á móti þriðja orku­pakk­anum þegar hann var til umræðu á þingi og eru auk þess allra kjós­enda lík­leg­astir til að telja að efna­hags­staðan á Íslandi sé slæm. Þeir hafa líka mestar áhyggjur af fátækt og félags­legum ójöfn­uði og eru upp­tekn­astir allra af stöðu hús­næð­is­mála. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar