Mynd: Birgir Þór Harðarson

Áferð kjósenda íslenskra stjórnmálaflokka

Hverjir eru það sem kjósa hvaða stjórnmálaflokka? Og eiga kjósendur innan hverrar blokkar eitthvað sérstakt sameiginlegt? Kjarninn hefur fengið aðgang að miklu magni gagna úr síðustu könnunum MMR sem sýna hver líklegasta áferð meðalkjósanda hvers flokks er.

Miklar breytingar hafa orðið á íslensku stjórnmálalandslagi á undanförnum áratug. Þjóðin hefur snúið baki við kerfi sem byggði á fjórflokki, sem raðaði sér frá vinstri til hægri á hinum klassíska pólitíska skala, og svo stundum einum í viðbót sem endurspeglaði oftar en ekki stemninguna í samfélaginu á þeim tíma. 

Síðustu árin hefur fylgi fjórflokksins hrunið úr því að vera að jafnaði yfir 90 prósent í 62-65 prósent í síðustu tveimur kosningum sem fram hafa farið. Tími sterkra tveggja flokka ríkisstjórna virðist liðinn og í síðustu kosningum náðu átta flokkar á þing. Í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík í fyrra urðu þeir jafn margir, þegar Sósíalistaflokkur Íslands tók sæti Framsóknarflokksins á meðal áttflokksins. Í þeim kosningum voru heilir 16 flokkar á kjörseðlinum.

Á þessu tímabili hefur íslenskt samfélag breyst umtalsvert. Landsmönnum hefur alls fjölgað um 42.480 frá byrjun árs 2010, eða um 13,3 prósent.

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mest, en fjöldi þeirra hefur  farið úr rúmlega 20 þúsund í tæplega 47 þúsund á átta og hálfu ári. Þótt þeir hafi ekki allir kosningarétt þá breytir það miklu þegar hlutfall slíkra fer úr því að vera 6,7 prósent af heildaríbúafjölda landsins í að vera 13 prósent hans, líkt og var um mitt þetta ár. 

Aldurssamsetningin hefur líka breyst umtalsvert. Landsmönnum sem eru 0 til 29 ára hefur til að mynda fjölgað um 5,7 prósent á þessu tímabili en þeim sem eru eldri en 70 hefur fjölgað um 27 prósent. 

Þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu hefur líka fjölgað hlutfallslega og þegar suðvesturhornið er allt talið saman: Höfuðborgarsvæðið, frá Árborg, upp á Akranes og öll Suðurnesin, þá liggur fyrir að um þrír af hverjum fjórum íbúum landsins búa á því svæði. 

Hlutfall háskólamenntaðra á meðal þjóðarinnar hefur líka tekið stakkaskiptum. Í lok árs 2017 voru til að mynda 42,4 prósent þeirra sem hér bjuggu á aldrinum 25 til 64 ára með háskólapróf sem æðstu menntun. Í lok árs 2010 var það hlutfall 32,6 prósent. Hlutfall þeirra sem tilheyra sama aldurshópi sem hafa einungis lokið grunnskólaprófi hefur að sama skapi fallið úr 29,3 prósent í 22,8 prósent.

Þá hefur traust til íslenskra stofnana ekki náð sér á strik eftir að það gjörsamlega hrundi ásamt nokkrum bönkum haustið 2008, og mælist nú 18 prósent gagnvart Alþingi.

Kannanir sýna að hið nýja stjórnmálalandslag er að festa sig í sessi. Og afar líklegt verður að teljast að blokkamyndanir, þar sem flokkar með einhverja sameiginlega heildarlífssýn mynda bandalög í aðdraganda kosninga, líkt og hefur tíðkast á öðrum Norðurlöndum. 

Eins og staðan er í dag mætti segja að þær blokkir sem teiknast hafa upp séu þannig að ríkisstjórnarflokkarnir ólíku: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, myndi eina slíka, frjálslyndu miðjuflokkarnir í stjórnarandstöðu (Samfylking, Viðreisn og Píratar) aðra og Miðflokkurinn og Flokkur fólksins málefnalega þá þriðju, þótt flokkarnir tveir muni líklega aldrei geta unnið saman vegna persónulegs ágreinings sem á rætur sínar að rekja í Klausturmálinu svokallaða. 

En hverjir eru það sem kjósa þessa flokka? Og eiga kjósendur innan hverrar blokkar eitthvað sérstakt sameiginlegt? Kjarninn hefur fengið aðgang að miklu magni gagna úr síðustu könnunum MMR sem sýna hver líklegasta áferð meðalkjósanda hvers flokks er. 

Fylgi flokka mælt 12. ágúst til 16. september 2019:

  • Framsóknarflokkur 11,1 prósent
  • Sjálfstæðisflokkur 18,7 prósent
  • Samfylkingin 15,8 prósent
  • Vinstri græn 12,2 prósent
  • Píratar 11,8 prósent
  • Viðreisn 9,8 prósent
  • Flokkur fólksins 4,1 prósent
  • Miðflokkurinn 12,5 prósent
  • Sósíalistaflokkur Íslands 1,6 prósent
  • Annað 1,6 prósent

Ríkisstjórnarblokkin: Samanlagt fylgi: 41,9 prósent

D (18,7 prósent fylgi): Með háar tekjur, litlar áhyggjur af spillingu en telja efnahagsástandið gott

Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn er enn stærsti flokkur landsins þótt fylgi hans hafi fallið hratt undanfarin misseri og aldrei mælst jafn lágt í könnunum MMR og það gerir nú um stundir. Þegar niðurstöður kannana fyrirtækisins í ágúst og september eru lagðar saman kemur fram að stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn mælist 18,7 prósent.

Flokkurinn hefur sögulega verið mjög sterkur á meðal eldri kjósenda. Þannig er staðan ekki lengur og virðist sem töluverður fjöldi þeirra sem tilheyra elstu aldurshópunum hjá kjósendum hans hafi nú leitað á önnur mið, aðallega til Miðflokksins. Nú er stuðningur við flokkinn nokkuð dreifður milli aldurshópa og enginn sérstakur sem sker sig úr. 

Sama má segja um stuðning við flokkinn milli landshluta. Mestur er stuðningurinn á Vesturlandi og Vestfjörðum, þar sem 24,1 prósent kjósenda segist ætla að kjósa gamla turninn. Það vekur hins vegar athygli að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur minnst stuðnings í Suðurkjördæmi, þar sem hann sögulega hefur verið mjög sterkur. Þar hefur fylgni við flokkinn dregist hratt saman. Í maí sögðust til að mynda 26 prósent kjósenda þar styðja Sjálfstæðisflokkinn, en nú er það hlutfall 15,6 prósent. 

Það sem helst einkennir kjósendahóp Sjálfstæðisflokksins er að stuðningur við hann eykst merkjanlega eftir því sem tekjur hækka. Þannig nýtur flokkurinn minnst stuðnings í hópi þeirra sem eru með undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur, 11,9 prósent, og er með fjórða mesta fylgi allra flokka hjá þeim hópi. Stuðningurinn er hins vegar mestur hjá þeim sem eru með yfir 1,2 milljónir króna á mánuði í heimilistekjur, alls 25,4 prósent, og hjá þeim hópi er Sjálfstæðisflokkurinn langstærsti stjórnmálaflokkur landsins. 

Fyrri kannanir MMR á ýmsum álitamálum mannlegrar tilveru hafa sýnt að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafa minnstar áhyggjur allra kjósenda að spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum og minnstar áhyggjur allra að fátækt eða félagslegum ójöfnuði. Þeir eru hins vegar líklegastir allra til að telja efnahagsstöðuna á Íslandi góða, en 87 prósent kjósenda flokksins höfðu þá skoðun samkvæmt könnun sem framkvæmd var fyrr á þessu ári. Þá eru Sjálfstæðismenn líklegri en kjósendur annarra flokka til að vera fylgjandi veggjöldum. 

V (12,2 prósent fylgi) Konur, grænmetisætur sem hafa áhyggjur af hlýnun jarðar en horfa lítið á Netflix

Mynd: Vinstri græn

Flokkur forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur er sá ríkisstjórnarflokkur sem goldið hefur mest fyrir hið óvenjulega ríkisstjórnarsamstarf. Samanlagt fylgi hans í ágúst og september mælist 12,2 prósent, sem þýðir að hátt í þriðjungur af fylgi flokksins er horfinn frá síðustu kosningum.

Tölur MMR sýna að konur eru mun líklegri en karlar til að kjósa Vinstri græn. Stuðningur hans er langmestur á Norðurlandi þar sem hann mælist stærstur allra flokka með 18,4 prósent stuðning á heimaslóðum fyrrverandi formannsins Steingríms J. Sigfússonar. Eina landssvæðið utan þess þar sem fylgið er í takt við heildarfylgið er á höfuðborgarsvæðinu. Annars staðar á landinu eru Vinstri græn með eins stafa fylgi og minnst á Austurlandi, þar sem einungis 5,9 prósent kjósenda segjast styðja flokkinn. 

Flestir kjósendur Vinstri grænna eru með háskólamenntun en flokkurinn nýtur líka ágætis stuðnings á meðal þeirra sem hafa einungis lokið grunnmenntun. Lægri hluti millitekjuhópa er líklegastur til að kjósa flokkinn og það er kannski ekki óvænt tíðindi að flokkur með orðið „vinstri“ í nafninu sínu njóti minnst stuðnings hjá tekjuhæsta hópnum í samfélaginu. 

Þegar fyrri kannanir ársins, sem skoða sértækt annað en bara fylgi flokka, eru skoðaðar kemur í ljós að kjósendur Vinstri grænna voru líklegri en kjósendur annarra flokka að ætla að ferðast í sumarfríinu sínu, jafnt innanlands sem utan, langlíklegastir til að borða grænmetis- eða veganfæði, höfðu miklar áhyggjur af hlýnun jarðar og ansi hlynntir veggjöldum. Þeir voru hins vegar ólíklegastir til að vera með áskrift af Netflix eða virkt Costco aðildarkort og eru að uppistöðu mjög andvígir því að ferskt kjöt verði flutt til landsins frá öðrum löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins. 

B (11,1 prósent fylgi): Kjöt- og mjólkurneytendur á eftirlaunum af landsbyggðinni með ágætar tekjur

mynd: Bára Huld Beck

Framsóknarflokkurinn er eini ríkisstjórnarflokkurinn sem virðist hagnast á því að vera í ríkisstjórn, miðað við kannanir MMR. Þ.e. fylgi hans síðustu tvo mánuði, 11,1 prósent, er meira en það sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. 

Í ljósi þess að um rúmlega 100 ára gamlan flokk, með nokkuð íhaldssamar áherslur í mörgum málum, er að ræða á það kannski ekki að sæta tíðindum að mestan stuðnings við hann er að finna hjá kjósendum sem eru 68 ára og eldri. Innan þess hóps segjast 15,7 prósent kjósenda vera Framsóknarmenn. Minnstur er stuðningurinn hjá kjósendum undir þrítugu, þar sem einungis 8,4 prósent segjast ætla að kjósa Framsókn.

Enn minna kemur á óvart að stuðning við Flokkinn er fyrst og síðast að finna á völdum svæðum á landsbyggðinni. Þannig mælist Framsókn stærsti flokkur landsins á Austurlandi með 23,2 prósent fylgi og sá næst stærsti á Vesturlandi og á Vestfjörðum með 21,5 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu er hann hins vegar minnstur allra þeirra flokka sem mælast með mann inni á þingi og með einungis 8,3 prósent fylgi. 

Menntun virðist ekki vera breyta sem skiptir máli þegar fólk ákveður að kjósa Framsókn en það gera tekjur hins vegar. Langflestir kjósendur flokksins eru millitekju- eða hátekjufólk. Í tekjulægsta hópi landsmanna, þeim sem er með heimilistekjur undir 400 þúsund krónum á mánuði, mælist fylgi Framsóknarflokksins 5,4 prósent, eða rétt yfir fylgi Sósíalistaflokks Íslands. Alls mælast sjö flokkar með meira fylgi í þeim flokki en Framsókn, þ.e. allir hinir flokkarnir sem eiga í dag fulltrúa á Alþingi.

Það verður seint sagt að Framsóknarfólk standi ekki undir staðalímyndinni sem oftast er dregin upp af því. Í könnunum MMR á þessu ári hefur komið í ljós að Framsóknarfólk er langlíklegast til að borða rautt kjöt (73 prósent þeirra gerir það) og deilir toppsætinu í mjólkurvöruneyslu með klofningsflokknum Miðflokknum. Þá er það sá hópur kjósenda sem er mest á móti innflutningi á fersku kjöti til landsins. Þar er því haldið mikilli tryggð við íslenska landbúnaðarframleiðslu. 

Það er hins vegar ólíklegra en flestir kjósendur, þó ekki allir, til að hafa ekki miklar áhyggjur af hlýnun jarðar og hefur einna minnstar áhyggjur af stöðu heilbrigðisþjónustu. Þá eru kjósendur Framsóknar ólíklegastir allra til að vera á Facebook.

Frjálslynda miðjublokkin: Samanlagt fylgi: 37,4 prósent

S (15,8 prósent fylgi): Eldra fólk sem borðar mikinn fisk, er ekki á Snapchat en fannst skaupið fyndið

Mynd: Berglaug Perla

Sjálfstitlaður jafnaðarmannaflokkur Íslands er næst stærsti flokkur landsins samkvæmt flestum skoðanakönnunum. Fylgið samkvæmt síðustu tveimur könnum MMR er 15,8 prósent, sem er rétt rúmlega helmingur besta árangurs flokksins í kosningum í sögu hans, en umtalsvert betri staða en haustið 2016, þegar hann fékk rétt yfir fimm prósent atkvæða og einungis einn kjördæmakjörinn þingmann.

Konur eru líklegri til að kjósa Samfylkinguna en karlar og stuðningur við flokkinn eykst eftir því sem fólk eldist. Ef einungis 68 ára og eldri væru með kosningarétt væri Samfylkingin stærsti flokkur landsins. Í þeim aldurshópi segjast 21,8 prósent að þeir myndu kjósa Samfylkinguna. Yngri fólk er hins vegar ólíklegra til að kjósa hana og í aldurshópnum 30-49 ára, sem öllu jafna er einn fyrirferðamesti hópur samfélagsins hverju sinni, er Samfylkingin fimmti stærsti flokkurinn. Af þeim sem myndu ná inn á þing mælast einungis Viðreisn og Miðflokkurinn með minni stuðning í þeim aldurshópi. 

Stuðningur við flokkinn er nokkuð dreifður um landið en þó áberandi minnstur á Vesturlandi og Vestfjörðum og mestur á Austurlandi, þar sem Samfylkingin, með 19,4 prósent stuðning, mælist stærsti flokkur landsins. Tekjur virðast ekki vera ráðandi breyta í því hvort fólk styðji Samfylkinguna eða ekki. Stuðningurinn er nokkuð jafn óháð því hvort veskið sé þungt eða létt. 

Kjósendur Samfylkingarinnar eru líklegastir allra til að borða mikinn fisk og hafa umfram aðra breytt hegðun sinni á einhvern hátt til að lágmarka áhrif sín á umhverfi og loftlagsbreytingar á síðustu tólf mánuðum. Það kemur ekki mikið á óvart þegar horft er til þess að 96 prósent kjósenda flokksins hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af hlýnun jarðar.

Samfylkingarfólk er ólíklegast allra til að vera á samfélagsmiðilnum Snapchat, rúmur þriðjungur þess telur efnahagsstöðu Íslands vera slæma og það er óánægðast allra kjósenda með þá kjarasamninga sem Efling og VR gerðu við Samtök atvinnulífsins í apríl. Þá eru jafnaðarmennirnir sá hópur kjósenda sem þú getur síst búist við að fái sér kokteilsósu með pizzu en átta af hverjum tíu þeirra fannst Áramótaskaupið frekar eða mjög gott. 

P (11,8 prósent fylgi): Ungt fólk með lágar tekjur, án háskólamenntunar en fær sér kokteilsósu með pizzu

Mynd: Facebook-síða þingflokks Pírata

Píratar mælast með 11,8 prósent fylgi samkvæmt meðaltali síðustu tveggja kannana MMR, sem er meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum, en mun minna en þegar Píratar fóru með himinskautum í könnunum árið 2016 og mældust með á fjórða tug prósentustiga fylgi.

Píratar eru klárlega flokkur unga fólksins og sá flokkur sem nýtur mest stuðnings allra hjá kjósendum undir þrítugu, en 18 prósent landsmanna í þeim aldursflokki styðja Pírata. Stuðningurinn er líka umtalsverður hjá fólki á aldrinum 30 til 49 og þar mælast Píratar næst stærsti flokkur landsins, á eftir Sjálfstæðisflokknum. Þegar kemur að fólki yfir 50 ára þá dalar fylgið skarpt og hjá 68 ára og eldri mælist stuðningur við Pírata einungis þrjú prósent. 

Stuðningurinn er líka bundinn við ákveðin landsvæði (höfuðborgarsvæðið, Suðurlandið og Vesturland/Vestfirði) sem ætla má að sé þéttbýlið á suðvesturhorni landsins að uppistöðu. 

Píratar eru líka vinsælli hjá þeim sem eru ekki með háskólamenntun og mælast næst stærsti flokkur landsins hjá þeim kjósendum sem eru með lægstu heimilistekjurnar. Í fullu samræmi við það þá er tekjuhæsti hópurinn lang ólíklegastur til að kjósa Pírata, en af þeim flokkum sem mælast með mann inni á þingi er einungis Vinstri græn með minna fylgi á meðal þeirra sem best hafa það fjárhagslega á Íslandi.

Píratar eru líklegir til að vilja ferðast í sumarfríinu sínu, 61 prósent þeirra er á Instagram og 80 prósent er með áskrift að Netflix. Þeir hafa líka mestar áhyggjur allra af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum á Íslandi (71 prósent) og til að fá sér kokteilsósu með pizzu, en tæpur þriðjungur Pírata er opinn fyrir þeim samruna. 


C (9,8 prósent fylgi): Karlar, með góða menntun, háar tekjur, búa í höfuðborginni og hlusta á Spotify

Mynd: Aðsend

Í síðustu tveimur könnunum MMR mælist fylgi Viðreisnar samtals 9,8 prósent. Það er meira en flokkurinn fékk 2017 en minna en hann fékk árið 2016. 

Fáir flokkar tala með jafn afgerandi hætti til ákveðinna hópa í samfélaginu en ná nánast ekkert til annarra, og Viðreisn. Þannig eru karlar til að mynda mun líklegri til að kjósa Viðreisn en konur. Stuðningur við flokkinn er mestur hjá yngstu kjósendunum en minnkar svo jafnt og þétt upp aldursstigann og hjá elsta kjósendahópnum mælast einungis Píratar með minna fylgi á meðal þeirra flokka sem eiga fulltrúa á þingi í dag. 

Stuðningur við Viðreisn er nánast einvörðungu bundinn við höfuðborgarsvæðið. Um 87 prósent aðspurðra sem segjast ætla að kjósa flokkinn búa þar, en vert er að taka fram að svæðið er líka það langfjölmennasta á landinu. Mjög erfitt er að sjá að Viðreisn myndi ná inn kjördæmakjörnum þingmanni í öðrum kjördæmum en þeim þremur sem þar er að finna ef kosið yrði í dag. Viðreisn mælist með minnst fylgi utan höfuðborgarsvæðisins af öllum flokkum sem mælast inni eins og stendur. Það væri helst á Suðurlandi sem möguleiki er að ná inn manni með smá viðbót. 

Kjósendahópur Viðreisnar heldur áfram að vera nokkuð einsleitur þegar aðrar breytur eru skoðaðar. Flokkurinn talar mjög vel til háskólamenntaðra en nánast ekkert til þeirra sem eru einungis með grunnskólapróf. Sömu sögu er að segja þegar tekjuhópar eru skoðaðir. Áhugi tekjulægsta hópsins á Viðreisn er sá næst minnsti á meðal þeirra flokka sem eiga fulltrúa á þingi, á eftir Framsókn. Stuðningurinn eykst síðan samhliða tekjum og mælist mestur (15,9 prósent) á meðal þeirra sem eru með yfir 1,2 milljónir króna í heimilistekjur á mánuði. Einungis Sjálfstæðisflokkurinn mælist með meira fylgi hjá þeim tekjuhópi.

Kjósendur Viðreisnar eru allra kjósenda líklegastir til að vera notendur af tónlistarveitunni Spotify (69 prósent) og að hámhorfa á Netflix (84 prósent með áskrift). Þeir voru líka ánægðastir allra með undirskrift síðustu kjarasamninga. 

Viðreisnarfólk hefur hins vegar mestar áhyggjur allra af stöðu heilbrigðisþjónustu í landinu, það hefur einna mestan áhuga allra á húsnæðismálum og þungar áhyggjur af loftslagsbreytingum. 

Líklega kemur það lítið á óvart að kjósendur Viðreisnar eru mest fylgjandi innflutningi á fersku kjöti til landsins (68 prósent þeirra hafa þá skoðun) enda flokkur sem leggur áherslu á frelsi í alþjóðaviðskiptum og aukið samstarf við Evrópu.

Hin blokkin: Sameiginlegt fylgi: 16,6 prósent

M (12,5 prósent fylgi): Gamalt fólk af Suðurlandi með grunnskólamenntun og lágar tekjur og virkt Costco-kort 

Mynd: Miðflokkurinn

Sá flokkur sem er mest afgerandi kjósendahópinn er Miðflokkurinn. Það ætti ekki að koma mikið á óvart, enda pólitísk stefna hans að vera oft afar afgerandi í mjög umdeildum málum. Samanlagt mældist fylgi Miðflokksins 12,5 prósent í könnunum MMR í ágúst og september. Það er meira fylgi en flokkurinn fékk í einu kosningunum sem hann hefur tekið þátt í haustið 2017.

Uppgangur Miðflokksins hafði fyrst áhrif á gengi Framsóknarflokksins, enda um klofningsbrot úr þeim flokki að ræða, en síðan þá virðist flokkurinn fyrst og síðast taka fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Miðflokkurinn virðist tala skýrt til íhaldssama og þjóðernislega arms Sjálfstæðisflokksins. Það sést vel á þeim breytingum sem orðið hafa á fylgi flokkanna tveggja í ákveðnum aldurshópum og á ákveðnum landsvæðum. Þar sem Miðflokkurinn fer upp, þar dalar Sjálfstæðisflokkurinn í takt. 

Miðflokkur er flokkur karla. Rúmlega tveir af hverjum þremur kjósendum hans eru af því kyni. Kynjamunurinn er ekki jafn afgerandi hjá neinum öðrum flokki. Miðflokkurinn er líka flokkur eldri kjósenda. Í aldurshópnum 50 til 67 ára er hann t.d. næst vinsælasti flokkur landsins, á eftir Sjálfstæðisflokknum. Hjá fólki undir þrítugu mælist fylgi hans hins vegar 7,9 prósent. 

Miðflokkurinn er landsbyggðarflokkur. Ef kjósendur á Suðurlandi réðu Íslandi einir væri Miðflokkurinn stærsti flokkur landsins, með fjórðung atkvæða. Á Austurlandi er hann næst stærsti flokkurinn, einungis gamli móðurflokkurinn Framsókn er þar stærri. Á höfuðborgarsvæðinu, þar sem stærstur hluti kjósenda býr, er fylgi Miðflokksins hins vegar vel undir heildarfylgi, eða 9,6 prósent. 

Því minni sem æðsta menntun er, því líklegri er viðkomandi til að kjósa Miðflokkinn. Hann nýtur raunar mest stuðnings allra flokka hjá þeim kjósendahópi sem hefur mest lokið grunnskólanámi, en 17,4 prósent þeirra eru á Miðflokksvagninum. Þegar kemur að þeim sem lokið hafa háskólanámi mælist Miðflokkurinn hins vegar með minnst fylgi allra flokka sem næðu inn manni á þing miðað við núverandi stöðu í könnunum. Einungis 6,1 prósent þeirra myndu kjósa flokkinn. 

Sömu sögu er að segja af því þegar tekjur eru skoðaðar. Miðflokkurinn nýtur mest fylgis allra flokka hjá þeim sem eru með undir 400 þúsund krónur á mánuði í heimilistekjur, en 16,6 prósent þess hóps styðja flokkinn. Fylgi hans hjá öðrum tekjuhópum mælist undir heildarfylgi. 

Miðflokksfólk er sá kjósendahópur sem reyndist líklegastur til að ætla ekkert að ferðast í sumarfríinu sínu samkvæmt könnunum MMR. Einungis um þriðjungur kjósenda hans notast við Spotify og þeir eru allra kjósenda ólíklegastir til að vera virkir á Instagram, þar sem sama hlutfall, þriðjungur, er með skráðan aðgang. Þá eru kjósendur Miðflokksins ólíklegastir allra kjósenda að hafa breytt hegðun sinni á einhver hátt til að lágmarka áhrfi sín á umhverfi og loftlagsmál síðastliðið ár. Það er kannski ekki skrýtið vegna þess að Miðflokksfólk hefur minnstar áhyggjur allra af hlýnun jarðar, en einungis 39 prósent þeirra hafa slíkar. Þá hafa kjósendur flokksins minnstar áhyggjur allra kjósenda af húsnæðismálum. 

Miðflokksfólk er hins vegar mjög hrifið af því að neyta mjólkurvara og deila toppsætinu þar með Framsóknarkjósendum. Þeir voru líka mjög á móti þriðja orkupakkanum, mest allra á móti upptöku veggjalda og allra kjósenda líklegastir til að vera með virkt Costco aðildarkort. Þeim fannst hins vegar Áramótaskaupið minnst fyndið, og um 56 prósent kjósenda Miðflokksins taldi það hafa verið frekar eða mjög slakt. 

F (4,1 prósent fylgi): Lágtekjufólk með grunnskólamenntun sem hefur áhyggjur af fátækt og félagslegum jöfnuði

Mynd: Bára Huld Beck

Flokkur fólksins hefur meira og minna mælst töluvert undir kjörfylgi allt þetta kjörtímabil og samkvæmt síðustu tveimur könnunum MMR á hann ansi langt í land með að ná inn manni ef kosið væri í dag. Fylgið mælist einungis 4,1 prósent. 

Það er marktækt mest hjá kjósendum yfir 68 ára aldri, enda hefur flokkurinn talað mjög máli eldri borgara í sinni pólitík. Stuðningurinn virðist algjörlega bundinn við Höfuðborgarsvæðið og Norðurland en er vart mælanlegur í öðrum landshlutum. Flokkurinn myndi lifa stöðugu og góðu lífi ef einungis þeir sem mest hafa lokið grunnskólanámi kysu til þings, en þar nýtur hann 9,8 prósent stuðnings. Einungis eitt prósent þeirra sem lokið hafa háskólanámi styðja Flokk fólksins. 

Sömu sögu er að segja þegar skoðaðar eru tekjubreytur. Flokkur fólksins er með meira fylgi en Framsókn, Vinstri græn og Viðreisn hjá lægsta tekjuhópnum og er ekki langt frá Sjálfstæðisflokknum þar. Stuðningurinn lækkar hins vegar skarpt strax í næsta tekjuhópi og er vart mælanlegur hjá þeim heimilum sem eru með yfir 800 þúsund krónur á mánuði í heildartekjur. 

Kjósendur flokksins voru mjög á móti þriðja orkupakkanum þegar hann var til umræðu á þingi og eru auk þess allra kjósenda líklegastir til að telja að efnahagsstaðan á Íslandi sé slæm. Þeir hafa líka mestar áhyggjur af fátækt og félagslegum ójöfnuði og eru uppteknastir allra af stöðu húsnæðismála. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar