Mynd: 123rf.com

Tæpur helmingur alls nýs auðs sem skapast fer til ríkustu Íslendinganna

Ríkustu tíu prósent landsmanna, rúmlega 22 þúsund fjölskyldur, áttu 58 prósent af öllu eigin fé á Íslandi um síðustu áramót. Frá 2010 hefur skráður auður þeirra aukist um um 1.379 milljarða króna, en allra annarra landsmanna um 1.800 milljarða króna.

Eigið fé Íslend­inga, það sem stendur eftir þegar búið er að draga skuldir frá eign­um, hækk­aði um 641 millj­arða króna í fyrra. Það er næst mesta hækkun sem átt hefur stað í vexti á eigin fé frá því að Hag­stofa Íslands hóf að halda utan um þær töl­ur. Metið var sett á árinu 2017 þegar eigið fé Íslend­inga jókst um 760 millj­arða króna.

Upp­gangur síð­ustu ára hefur skilað því að eigið fé lands­­manna, eignir þeirra þegar búið er að draga skuldir frá, hefur farið úr því að vera 1.565 millj­­arðar króna í lok árs 2010 í að vera 4.744 millj­arðar krókna um síð­ustu ára­mót. Hann hefur aldrei verið meiri.

Til hafa orðið 3.179 millj­arðar króna í nýju eigin fé í íslensku sam­fé­lagi á þessum örfáu árum. Það hefur rúm­lega þre­fald­ast. Af þessum millj­örðum króna sem orðið hafa til frá árinu 2010 hafa 1.379 millj­arðar króna farið til efstu tíu pró­sent lands­manna, sem telur 22.213 fjöl­skyld­ur. Það þýðir að 43 pró­sent alls nýs auðs hefur endað hjá þessum hópi.

Í fyrra jókst auður þessa hóps um 304 millj­arða króna á á síð­ustu tveimur árum hefur hann vaxið um 667 millj­arða króna. Tæp­lega önnur hver króna sem verður til í auði í íslensku efna­hags­lífi ratar því til rík­ustu tíu pró­sent lands­manna.

Sá hópur átti því 58 pró­sent af öllu eigin fé lands­manna um síð­ustu ára­mót, eða alls 2.729 millj­arða króna. Þar á meðal er helm­ingur alls eigin fjár í fast­eignum sem til er í land­inu og rúm­lega helm­ingur allra inn­lána. Efsti fimmt­ung­ur­inn átti sam­tals 3.796 millj­arða króna í eigið fé um síð­ustu ára­mót. Það þýðir að 80 pró­sent lands­manna átti 20 pró­sent eig­in­fjár og rík­istu 20 pró­sentin 80 pró­sent þess.

Þetta kemur fram í nýjum tölum um eignir og skuldir lands­manna sem Hag­stofa Íslands birti í morg­un.

Eigið fé van­metið hjá ríkum

Eigið fé rík­ustu tíu pró­senta lands­manna er reyndar stór­lega van­met­ið. Öll verð­bréfa­eign (hluta­bréf í inn­lendum og erlendum hluta­fé­lög­um, eign­ar­skatts­frjáls verð­bréf, stofn­sjóðs­eign og önnur verð­bréf og kröf­ur) er nefni­lega metin á nafn­virði, en ekki mark­aðsvirði.

Það þýðir að ef verð­bréf í t.d. hluta­fé­lögum hafi hækkað í verði frá því að þau voru keypt þá kemur slíkt ekki fram í þessum töl­um. Úrvals­vísi­tala Kaup­hallar Íslands hefur til að mynda hækkað um 21,3 pró­sent frá því snemma í jan­úar 2019 og um 40 pró­sent frá byrjun árs 2015. Það er enda eðli verð­bréfa að þau eiga að hækka í verði. Ef það væru ekki vænt­ingar um slíkt þá myndi eng­inn kaupa þau. 

Þessi hópur er líka lík­leg­astur allra til að eiga eignir utan Íslands sem koma ekki fram í tölum Hag­stof­unn­ar, en áætlað hefur verið að íslenskir aðilar eigi hund­ruð millj­arða króna í aflands­fé­lögum sem ekki sé gert grein fyr­ir. 

Helm­ingur á rúm­lega allt eigið féð

Sá helm­ingur Íslend­inga sem er með minnstu tekj­urn­ar, alls  rúm­lega 111 þús­und fjöl­skyld­ur, skuldar sam­an­lagt meira en hann á. Það hefur þó dregið úr þeirri stöðu á und­an­förnum árum og skiptir þar mestu að eigið fé fast­eigna hefur rúm­lega þre­fald­ast frá árs­lokum 2010. Á­stæðan þess er ein­föld: hækk­andi hús­næð­is­verð og bætt skulda­staða. Eigið fé í fast­eignum lands­manna hefur enda auk­ist um 2.555 millj­arða króna frá árinu 2010 og er því ábyrgð fyrir 80 pró­sent þeirrar hækk­unar sem Hag­stofan skrá­set­ur.

Sá helm­ingur lands­manna sem er með hæstu tekj­urnar er því með jákvætt eigið fé um alls 4.851 millj­arð króna, eða meira en sem nemur eigin fé þjóð­ar­innar allr­ar. 

Hlut­fall og krónur

Ein­faldur sam­an­burður á eigna­stöðu fólks á Íslandi er flók­inn. Sér­stak­lega vegna þess að þær hag­tölur sem safnað er saman mæla ekki að öllu leyti heild­ar­eignir fólks né taka til­lit til hlut­deildar þess í eignum líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins. hér að ofan hef­ur  fyrst og síð­ast horft á hann út frá því hvernig krónur skipt­ast á milli hópa.

Sumir grein­endur kjósa að horfa ein­ungis á hlut­falls­tölur þegar þeir skoða slíkar töl­ur, og hvort ójöfn­uður hafi auk­ist. Ef horft er á slík­ar, sér­stak­lega á afmörk­uðum tíma­bil­um, er mjög auð­velt að kom­ast að þeirri nið­ur­stöðu að eigna­jöfn­uður sé að minnka. 

Til að mynda áttu tíu pró­sent rík­ustu lands­manna  86 pró­sent alls eig­in­fjár í eigu ein­stak­linga árið 2010. Um síð­ustu ára­mót hafði það hlut­fall lækkað niður í tæp­lega 58 pró­sent og hlut­fallið féll lít­il­lega frá árinu áður. En taka verður til­lit til þess að árið 2010 höfðu eignir ann­arra Íslend­inga rýrnað mjög vegna hruns­ins á meðan eignir rík­ustu héld­ust nokkuð stöðugar í gegnum storm­inn.

Þegar horft er á þetta með öðrum aug­um, hversu stór hluti af nýjum auði fer til rík­ustu tíu pró­sent lands­manna, þá kemur í ljós að frá árinu 2010 hef­ur, líkt og áður sagði, 43 pró­sent hans endað hjá þessum hópi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar