Mynd: 123rf.com

Tæpur helmingur alls nýs auðs sem skapast fer til ríkustu Íslendinganna

Ríkustu tíu prósent landsmanna, rúmlega 22 þúsund fjölskyldur, áttu 58 prósent af öllu eigin fé á Íslandi um síðustu áramót. Frá 2010 hefur skráður auður þeirra aukist um um 1.379 milljarða króna, en allra annarra landsmanna um 1.800 milljarða króna.

Eigið fé Íslendinga, það sem stendur eftir þegar búið er að draga skuldir frá eignum, hækkaði um 641 milljarða króna í fyrra. Það er næst mesta hækkun sem átt hefur stað í vexti á eigin fé frá því að Hagstofa Íslands hóf að halda utan um þær tölur. Metið var sett á árinu 2017 þegar eigið fé Íslendinga jókst um 760 milljarða króna.

Uppgangur síðustu ára hefur skilað því að eigið fé lands­manna, eignir þeirra þegar búið er að draga skuldir frá, hefur farið úr því að vera 1.565 millj­arðar króna í lok árs 2010 í að vera 4.744 milljarðar krókna um síðustu áramót. Hann hefur aldrei verið meiri.

Til hafa orðið 3.179 milljarðar króna í nýju eigin fé í íslensku samfélagi á þessum örfáu árum. Það hefur rúmlega þrefaldast. Af þessum milljörðum króna sem orðið hafa til frá árinu 2010 hafa 1.379 milljarðar króna farið til efstu tíu prósent landsmanna, sem telur 22.213 fjölskyldur. Það þýðir að 43 prósent alls nýs auðs hefur endað hjá þessum hópi.

Í fyrra jókst auður þessa hóps um 304 milljarða króna á á síðustu tveimur árum hefur hann vaxið um 667 milljarða króna. Tæplega önnur hver króna sem verður til í auði í íslensku efnahagslífi ratar því til ríkustu tíu prósent landsmanna.

Sá hópur átti því 58 prósent af öllu eigin fé landsmanna um síðustu áramót, eða alls 2.729 milljarða króna. Þar á meðal er helmingur alls eigin fjár í fasteignum sem til er í landinu og rúmlega helmingur allra innlána. Efsti fimmtungurinn átti samtals 3.796 milljarða króna í eigið fé um síðustu áramót. Það þýðir að 80 prósent landsmanna átti 20 prósent eiginfjár og ríkistu 20 prósentin 80 prósent þess.

Þetta kemur fram í nýjum tölum um eignir og skuldir landsmanna sem Hagstofa Íslands birti í morgun.

Eigið fé vanmetið hjá ríkum

Eigið fé ríkustu tíu prósenta landsmanna er reyndar stórlega vanmetið. Öll verðbréfaeign (hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum, eignarskattsfrjáls verðbréf, stofnsjóðseign og önnur verðbréf og kröfur) er nefnilega metin á nafnvirði, en ekki markaðsvirði.

Það þýðir að ef verðbréf í t.d. hlutafélögum hafi hækkað í verði frá því að þau voru keypt þá kemur slíkt ekki fram í þessum tölum. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur til að mynda hækkað um 21,3 prósent frá því snemma í janúar 2019 og um 40 prósent frá byrjun árs 2015. Það er enda eðli verðbréfa að þau eiga að hækka í verði. Ef það væru ekki væntingar um slíkt þá myndi enginn kaupa þau. 

Þessi hópur er líka líklegastur allra til að eiga eignir utan Íslands sem koma ekki fram í tölum Hagstofunnar, en áætlað hefur verið að íslenskir aðilar eigi hundruð milljarða króna í aflandsfélögum sem ekki sé gert grein fyrir. 

Helmingur á rúmlega allt eigið féð

Sá helmingur Íslendinga sem er með minnstu tekjurnar, alls  rúmlega 111 þúsund fjölskyldur, skuldar samanlagt meira en hann á. Það hefur þó dregið úr þeirri stöðu á undanförnum árum og skiptir þar mestu að eigið fé fasteigna hefur rúmlega þrefaldast frá árslokum 2010. Ástæðan þess er einföld: hækkandi húsnæðisverð og bætt skuldastaða. Eigið fé í fasteignum landsmanna hefur enda aukist um 2.555 milljarða króna frá árinu 2010 og er því ábyrgð fyrir 80 prósent þeirrar hækkunar sem Hagstofan skrásetur.

Sá helmingur landsmanna sem er með hæstu tekjurnar er því með jákvætt eigið fé um alls 4.851 milljarð króna, eða meira en sem nemur eigin fé þjóðarinnar allrar. 

Hlutfall og krónur

Einfaldur samanburður á eignastöðu fólks á Íslandi er flókinn. Sérstaklega vegna þess að þær hagtölur sem safnað er saman mæla ekki að öllu leyti heildareignir fólks né taka tillit til hlutdeildar þess í eignum lífeyrissjóðakerfisins. hér að ofan hefur  fyrst og síðast horft á hann út frá því hvernig krónur skiptast á milli hópa.

Sumir greinendur kjósa að horfa einungis á hlutfallstölur þegar þeir skoða slíkar tölur, og hvort ójöfnuður hafi aukist. Ef horft er á slíkar, sérstaklega á afmörkuðum tímabilum, er mjög auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að eignajöfnuður sé að minnka. 

Til að mynda áttu tíu prósent ríkustu landsmanna  86 prósent alls eiginfjár í eigu einstaklinga árið 2010. Um síðustu áramót hafði það hlutfall lækkað niður í tæplega 58 prósent og hlutfallið féll lítillega frá árinu áður. En taka verður tillit til þess að árið 2010 höfðu eignir annarra Íslendinga rýrnað mjög vegna hrunsins á meðan eignir ríkustu héldust nokkuð stöðugar í gegnum storminn.

Þegar horft er á þetta með öðrum augum, hversu stór hluti af nýjum auði fer til ríkustu tíu prósent landsmanna, þá kemur í ljós að frá árinu 2010 hefur, líkt og áður sagði, 43 prósent hans endað hjá þessum hópi.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar