Ársreikningar stjórnmálaflokka sem skilað er inn til Ríkisendurskoðunar fást ekki afhentir í heild sinn, þrátt fyrir að lög um fjármál stjórnmálaflokka, sem kveða á um að ársreikningar skuli birtir í heild sinni, hafi tekið gildi 1. janúar síðastliðinn. Ástæðan er sú að í nýju lögunum er ákvæði sem tiltekur að birting ársreikninga í heild sinni komi ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári, eða 2020.
Því mun Ríkisendurskoðun einungis birta útdrátt úr reikningunum vegna ársins 2018 líkt og verið hefur hingað til og stofnunin telur sér ekki fært að afhenda Kjarnanum ársreikningana í heild sinni.
Það er fyrsta árið í rekstri flokkanna frá því að framlög til þeirra úr ríkissjóði voru hækkuð um 127 prósent, að tillögu sex flokka sem sæti eiga á Alþingi. Framlög úr ríkissjóði til flokkanna átta á þingi áttu að vera 286 milljónir króna í fyrra en urðu 648 milljónir króna eftir að sú ákvörðun var tekin. Einu flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins.
Vantar fullnægjandi skil frá tveimur
Stjórnmálaflokkar landsins eiga að skila inn ársreikningum sínum til Ríkisendurskoðunar fyrir 1. október ár hvert. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hafa allir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi skilað reikningi nema Flokkur fólksins auk þess sem undirritaður reikningur hefur ekki borist frá Pírötum. Ekki er hægt að fá svör við því hvort að allir flokkarnir sem hafa skilað gerðu það fyrir 1. október þar sem starfsmaðurinn sem tekur við reikningunum er ekki við sem stendur.
Ríkisendurskoðun á svo að birta útdrátt úr þessum reikningum samkvæmt gildandi lögum um fjármál stjórnmálaflokka. Í fyrra var búið að birta slíkan útdrátt fyrir fjóra flokka þann 15. október og útdrátt úr reikningi allra flokka nema Sjálfstæðisflokks þann 12. nóvember. Engin útdráttur hefur verið birtur enn sem komið er vegna ársins 2018 á heimasíðu Ríkisendurskoðunar. Í svari við fyrirspurn Kjarnans til Ríkisendurskoðunar segir að verið sé að skoða reikningana og fara yfir lista lögaðila og einstaklinga sem styrktu flokkana á kosningaári. „Það vill þannig til að á sama tíma er verið að bæta aðgang okkar að ársreikningaskrá Ríkisskattstjóra sem mun auðvelda það eftirlit en hefur aðeins tafið birtingu í ár. Um leið og því verkefni lýkur verða útdrættir ársreikninga sem ekki er athugasemd gerð við, eða þarfnast ekki frekari skýringa, birtur á vef okkar.“
Ný lög samþykkt í fyrra
Ný lög um fjármál stjórnmálaflokka voru samþykkt á Alþingi í desember í fyrra. Á meðal breytinga sem þau lög fela í sér eru að stjórnmálaflokkar mega nú taka á móti hærri framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Hámarksframlagið var 400 þúsund krónur en var hækkað í 550 þúsund krónur.
Auk þess var sú fjárhæð sem einstaklingur þarf að gefa til að vera nafngreindur í ársreikningum viðkomandi flokka eða frambjóðenda hækkuð úr 200 þúsund krónum í 300 þúsund krónur.
Þá var ákveðið að láta stjórnmálaflokkanna skila ársreikningum sínum til ríkisendurskoðanda fyrir 1. nóvember ár hvert í stað 1. október líkt og nú er. Sú grundvallarbreyting fylgdi með að Ríkisendurskoðun mun hætta að birta takmarkaðar upplýsingar úr reikningum flokkanna, svokallaðan útdrátt, og birtir þess í stað ársreikninganna í heild sinni áritaða af endurskoðendum.
Þessi breyting á hins vegar ekki að taka gildi fyrr en á næsta ári, þrátt fyrir að nýju lögin séu þegar komin í gagnið.
Telja sig ekki mega afhenda reikninga
Kjarninn óskaði eftir því að fá ársreikninga þeirra stjórnmálaflokka sem hafa þegar skilað inn reikningum í heild sinni afhenta. Það væri í anda þeirra laga sem nú gilda. Ríkisendurskoðun synjaði þeirri beiðni.
Synjunin er rökstudd meðal annars með því að þótt að ný lög um fjármál stjórnmálaflokka hafi öðlast gildi 1. janúar síðastliðinn þá komi fram í þeim að ákvæði sem varði breytt reikningsskil og upplýsingaskyldu flokka ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári. Ríkisendurskoðun beri „að fara eftir þeim lögum við birtingu upplýsingar vegna rekstrarársins 2018 alveg óháð því hvort samþykktur hafi verið annar birtingarmáti sem taki til síðari reikningsára.“