Birgir Þór Harðarson

Sívaxandi söfnuður kaþólsku kirkjunnar

Kaþólski söfnuðurinn hefur vaxið gífurlega hratt hér á landi á síðustu árum. Kaþólska kirkjan er í dag annað stærsta trúfélag landsins með yfir 14.400 einstaklinga skráða í söfnuðinn. Þessa aukn­ingu má rekja beint til gríðarlegrar fjölgunar erlendra rík­­is­­borg­­ara á Íslandi, en stærstu hóp­­arnir sem hingað flytja koma frá löndum þar sem kaþ­ólska kirkj­an er sterk.

Á nán­ast hverjum sunnu­degi fyllist Landa­kots­kirkja út að dyrum í fjórum sunnu­dags­messum kaþ­ólsku kirkj­unn­ar. Mess­urnar fara fram á þremur ólíkum tungu­málum og á blíð­viðr­is­dögum má stundum sjá fólk fylgj­ast með messum fyrir utan kirkj­una því það kemst ekki fyrir inn­i. 

Skrán­ingar í kaþ­ólsku kirkj­una hafa nærri fjór­fald­ast á síð­ustu 20 árum og í dag eru rúm­lega 14 þús­und manns skráðir í kirkj­una. Prestur innan kaþ­ólsku kirkj­unnar telur þó að kaþ­ólikkar á Íslandi séu mun fleiri, eða hátt í 30 þús­und manns. Kirkjan sæk­ist því eftir fleiri skrán­ingum í söfn­uð­inn en trú­fé­lög fá greidd sókn­ar­gjöld frá rík­inu fyrir hvern skráðan ein­stak­ling.

Þessi aukn­ing í kaþ­ólska söfn­uð­inum hefur átt sér stað sam­hliða mik­illi fjölgun erlendra rík­­­is­­­borg­­­ara á Íslandi, en stærstu hóp­­­arnir sem hingað flytja koma frá löndum þar sem staða kaþ­ólsku kirkj­unnar er sterk. Þar munar mest um Pól­verja, sem eru fjöl­­­menn­­asti hópur erlendra rík­­­is­­­borg­­­ara hér á landi.

Íhalds­söm og rót­gróin við­horf kaþ­ólsku kirkj­unnar gagn­vart sam­kyn­hneigðum og sjálfs­á­kvörð­un­ar­rétti kvenna yfir eigin lík­ama eru vel þekkt og er íslenskur angi kaþ­ólsku kirkj­unnar engin und­an­tekn­ing. Kaþ­ólska kirkjan mót­mælti bæði frum­varpi stjórn­valda um hjóna­bönd sam­kynja para árið 2010 og þung­un­ar­rofs­frum­varpi stjórn­valda í vor.

Kaþ­ólska kirkjan telur sig hins vegar ekki hljóta mik­inn hljóm­grunn hjá stjórn­völdum hér á landi og væri kirkjan til í að hafa meiri áhrif. 

Kaþ­ólska kirkjan á Íslandi

Fyrir níu­tíu árum, árið 1929, var Dóm­kirkja Krists kon­ungs eða Landa­kots­kirkja líkt og flestir þekkja hana sem, vígð á Landa­kots­hæð. For­víg­is­maður að bygg­ingu kirkj­unn­ar, Mart­einn Meu­len­berg, var í fram­hald­inu vígður í emb­ætti fyrsta kaþ­ólska bisk­ups­ins á Íslandi eftir siða­skipt­i. 



Landa­kots­kirkja var lengi vel stærsta kirkja lands­ins og var Meu­len­berg spurður hvort að kirkjan væri ekki full­stór fyrir svo lít­inn söfn­uð, sem taldi þá um 130 manns. Meu­len­berg svar­aði þá að innan fárra ára mundi eng­inn tala um hvað kirkjan væri stór heldur fremur spyrja hvers vegna hann hefði ekki látið byggja enn stærri kirkju. 



Lengi fram eftir öld­inni fjölg­aði hins vegar hægt í kaþ­ólska söfn­uð­inum á Íslandi. Árið 1960 taldi söfn­uð­ur­inn um hálft pró­sent þjóð­ar­innar og árið 1994 um 1 pró­sent. Fjölga tók þó hraðar í kirkj­unni í kringum ald­ar­mótin og nú telur söfn­uð­ur­inn um 4 pró­sent lands­manna eða alls 14.408 manns þann 1. októ­ber 2019. Á tæp­lega 20 árum bætt­ust um tíu þús­und manns við kaþ­ólska söfn­uð­inn hér land­i. 



Fleiri Pól­verjar á Íslandi en íbúar Reykja­nes­bæjar

Þessi gríð­ar­lega fjölgun í kaþ­ólsku kirkj­unni á síð­ustu árum má að miklu leyti rekja til mik­illar fjölg­unar erlendra rík­is­borg­ara hér á landi. Í byrjun októ­ber á þessu ári voru alls 48.287 erlendir rík­is­borg­arar búsettir hér á landi. Þeim hefur fjölgað um nærri tíu þús­und manns á aðeins einu og hálfi ári. 

Frá árinu 1996 hafa flestir erlendir rík­­is­­borg­­arar sem búsettar hafi verið hér á landi verið frá Pól­landi. Fjöldi Pól­verja hér á landi hefur rúm­­lega 20 fald­ast á 20 árum. Þann 1. jan­úar 1999 bjuggu 1.038 ein­stak­l­ingar sem ann­að hvort fædd­ust í Pól­landi eða voru með pólskt rík­­­is­­­fang hér á landi en þann 1. októ­ber 2019 voru þeir orðnir 20.370 sem þýðir að rúm­lega 40 pró­sent allra erlendra rík­is­borg­ara sem búa hér á landi eru upp­runa­lega frá Pól­landi. Næst stærsti hóp­ur­inn eru Lit­háar en alls eru hér um 4.500 ein­stak­lingar með lit­háískt rík­is­fang. 

Séra Jakob Rolland, prestur kaþ­ólsku kirkj­unnar í Reykja­vík, stað­festir í sam­tali við Kjarn­ann að hinn miklu vöxtur kaþ­ólska söfn­uð­ar­ins sé vissu­lega til­komin vegna mik­illar fjölg­unar inn­flytj­enda hér á landi. Bæði Pól­verjar og Lit­háar koma frá löndum þar sem kaþ­ólsk trú er ríkj­andi og segir Jakob Pól­verja vera stærsta hóp­inn sem sæki í kaþ­ólsku kirkj­una hér á landi. Flest börn sem ganga í fyrsta skipti til alt­aris hjá kirkj­unni, eða ferm­ast innan kaþ­ólsku kirkj­unn­ar, eru sömu­leiðis pólsk. Jakob segir að Fil­ippsey­ingar séu einnig fjöl­mennir innan safn­að­ar­ins.

Séra Jakob Rolland, prestur kaþólsku kirkjunnar í Reykjavík.
Birna Stefánsdóttir

Nú rúmar kirkjan varla fjöld­ann 

Sam­hliða því að söfn­uð­ur­inn hér landi hefur stækkað þá hefur fjölgun í komum ferða­manna til lands­ins einnig haft áhrif á fjölda þeirra sem sækja kaþ­ólskar kirkjur hér á landi. Séra Jakob bendir á að ef tvær millj­ónir ferða­manna heim­sæki Íslandi á hverju ári þá megi búast við því að 300 til 400 þús­und af þeim séu kaþ­ólikkar og að margir hverjir sæki kirkju. 

Sú kirkja sem hefur hvað mest fundið fyrir aukn­ing­unni er Landa­kots­kirkja, en hún rúmar varla lengur þann mikla fjölda sem sækir messur í hverri viku. Á hverjum degi er boðið upp á messur á íslensku og um hverja helgi eru alls fimm sunnu­dags­messur á þremur tungu­mál­um: íslensku, ensku og pólsku. Á tíma­bili var einnig messað á spænsku. Þó ekki sé talið í kirkj­unni telur Jakob að minnsta kosti þús­und manns sæki hana hverja helgi. Á sumrin eru þeir mun fleiri. 

Vaxtar kaþ­ólsku kirkj­unnar gætir þó um allt land. Alls eru átta kaþ­ólskar sóknir á Íslandi en fyrir rúmum þrjá­tíu árum voru aðeins tvær. Kaþ­ólskar kirkjur eða kapellur má finna í Reykja­vík (við Landa­kot og í Breið­holt­i), á Ásbrú, á Stykk­is­hólmi, á Ísa­firði, á Akur­eyri, á Dal­vík, á Egils­stöð­um, á Reyð­ar­firði og í Höfn. Enn fremur stendur til að reisa kirkju á Sel­fossi og hefur kaþ­ólska kirkjan fengið vil­yrði fyrir lóð þar. Hingað til hefur aðeins verið húskapella á Sel­fossi og verði kirkja byggð þá bæt­ist við níunda sóknin hér á landi.

Þriðj­ungur þjóðar utan þjóð­­kirkju

Þeim sem eru skráðir í þjóð­­kirkj­una hefur fækkað jafnt og þétt á und­an­­förnum árum, þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað umtals­vert. Undir lok síð­ustu aldar voru um 90 pró­sent lands­manna skráðir í þjóð­kirkj­una. Nú eru 231.684 ein­stak­l­ingar skráðir í þjóð­­­kirkj­una eða um 64 prósent landsmanna. Það þýðir að rúm­­lega þriðj­ungur lands­­manna er ekki skráður í hana, eða um 130 þúsund manns.

Á árinu 2010 sagði sig met fjöldi úr þjóðkirkjunni þegar ásak­­­anir um þöggun þjóð­­­kirkj­unnar yfir meintum kyn­­­ferð­is­­­glæpum Ólafs Skúla­­­son­­­ar, fyrr­ver­andi bisk­­­ups, voru settar fram. Þá fækk­­­aði um 4.242 í þjóð­­­kirkj­unni á einu ári.

Flestir þeirra sem standa utan ríkis­kirkj­unnar eru utan trú- og lífs­skoð­un­ar­fé­laga eða um 25 þús­und manns. Þá hefur skráningum í Siðmennt, Ásatrúarfélagið og í kaþólsku kirkjuna einnig fjölgað verulega á síðustu árum.

Því fleiri skrán­ing­ar, því hærri sókn­ar­gjöld

Kaþ­ólska kirkjan hefur kallað eftir því að söfn­uð­ur­inn skrái sig í kaþ­ólsku kirkj­una á Íslandi hjá Þjóð­skrá til að hjálpa kirkj­unni að vaxa og dafna. Séra Jakob segir að raunin sé sú að mun fleiri kaþ­ólikkar séu búsettir á Íslandi en skráðir eru í söfn­uð­inn. Hann telur að fjöldi skráðra í Þjóð­skrá nái aðeins yfir um helm­ing kaþ­ólska söfn­uð­ar­ins og senni­lega séu hátt í þrjá­tíu þús­und kaþ­ólikkar á Íslandi.

Trú- og lífs­skoð­un­ar­fé­lög hér á landi fá sókn­ar­gjöld greidd fyrir hvern skráðan ein­stak­ling, 16 ára og eldri. Á árinu 2018 greiddi ríkið 931 krónur á mán­uði á hvern ein­stak­ling í hverju félagi fyrir sig. Kaþ­ólska kirkjan fékk rúmar 108 millj­ónir vegna sókn­ar­gjalda í fyrra. Það skiptir því tölu­verðu máli hversu margir eru skráðir í söfn­uð­inn en sókn­ar­gjöld eru einu greiðsl­urnar sem Kaþ­ólska kirkjan fær frá rík­in­u. 

Aðspurður segir Jakob að fjár­mögnun kirkj­unnar komi að hluta til frá sókn­ar­gjöldum en einnig frá sam­skotum og gjöfum frá ein­stak­ling­um. Auk þess fái kirkjan hjálp frá ýmsum stofn­unum kaþ­ólsku kirkj­unnar erlend­is. Til að mynda hafi bisk­ups­stofa kaþ­ólsku kirkj­unnar í Reykja­vík verið byggð með hjálp stofn­un­ar­innar Bon­i­fati­uswerk í Þýska­landi. Sú stofnun hefur í fjölda ára­tuga styrkt kirkjur bæði á Norð­ur­slóðum og í Aust­ur-­Evr­ópu. 

Jakob segir jafn­framt að kaþ­ólska kirkjan á Íslandi fái ekki fjár­magn frá Vatík­an­inu heldur sé það öfugt. Söfn­uð­ur­inn safni fjár­magni til að hjálpa Vatík­an­inu þar sem það sé fjár­þurfi.

Vilja meiri hljóm­grunn hjá stjórn­völdum

Kaþ­ólska kirkjan hefur fengið hátt í þrjá­tíu umsagna­beiðnir frá Alþingi á síð­ustu tíu árum þar á meðal um tvö tíma­móta laga­frum­vörp. Kirkjan skil­aði bæði inn umsögn um frum­varp um breyt­ingar á hjú­skap­ar­lögum sem heim­il­aði gift­ingu tveggja ein­stak­linga af sama kyni og umsögn um þung­un­ar­rofs­frum­varpið sem sam­þykkt var í maí þessu ári. Kaþ­ólska kirkjan mót­mælti báðum frum­vörp­unum í umsögnum sín­um. 

Séra Jakob segir að honum þyki rödd kaþ­ólsku kirkj­unnar fá lít­inn hljóm­grunn hjá stjórn­völd­um. „Ég fór einu sinni sjálfur í alls­herj­ar­nefnd út af laga­frum­varpi um hjóna­bönd sam­kyn­hneigðra. Þeir hlust­uðu á mig en ber­sýni­lega var þetta bara forms­at­riði hjá þeim til að geta sagt: Við hlustum líka á kaþ­ólska kirkju. Mér varð nokkuð ljóst að þeir hefðu engan áhuga á að heyra hvað kaþ­ólska kirkjan er að hugs­a,“ segir Jak­ob.

Aðspurður um hvort að kaþ­ólska kirkjan vilji hafa meiri áhrif á stjórn­mál á Íslandi nú þegar kaþ­ólikkar eru að verða sífellt fjöl­menn­ara afl á Íslandi segir Jakob svo vera. „Sjón­ar­mið okk­ar, sér­stak­lega hvað varðar mál þjóð­fé­lags­ins eru ekki endi­lega trú­mál heldur bara almenn þjóð­fé­lags­mál sem skipta kirkj­una máli. Því við viljum vernda lífið og standa fyrir mann­rétt­ind­um. Þá skiptir máli að röddin okkar heyr­is­t,“ segir Jak­ob. 

Ef tvær konur koma til okkar og vilja giftast þá segi ég: Því miður það gengur ekki hjá okkur. Ef þær segja þá ætlum við að kæra ykkur, þá segi ég: Gerðu það. Ef ég fer fangelsi, þá fer ég í fangelsi en það breytir engu um mína afstöðu.

Afstaða gagn­vart hjóna­böndum sam­kynja para ekki að fara breyt­ast

Aðspurður um hvort að bisk­ups­dæmin aðlag­ist að ein­hverju leyti að þeim löndum sem þau hafi aðsetur í svarar Jak­ob: „Já og nei. Ef maður talar um þjóð­fé­lags­mál sem eru á yfir­ráða­svæði stjórn­valda þá er kirkjan auð­vitað með í ráðum og reynir að fylgj­ast með og styðja. Til dæmis núna um vernd umhverf­is, þá er kirkjan mjög mikið með. Aftur móti ef það snýst um brot á mann­rétt­indum og grund­vallar gildum mann­legs lífs, þá stendur kirkjan bara eins og einn klettur sama hvar það ger­ist í heim­in­um. Þá er það sjálfur páf­inn sem tjáir sig fyrir hönd kirkj­unnar í þessum málum og við tökum und­ir.“

Hann segir jafn­framt að í raun­inni skipti íslensk lög engu máli þegar kemur að hjóna­bandi sam­kynja para þar sem trú kaþ­ólsku kirkj­unnar segir þeim að þannig hjóna­band sé ein­fald­lega ekki mögu­legt. „Ef tvær konur koma til okkar og vilja gift­ast þá segi ég: Því miður það gengur ekki hjá okk­ur. Ef þær segja þá ætlum við að kæra ykk­ur, þá segi ég: Gerðu það. Ef ég fer fang­elsi, þá fer ég í fang­elsi en það breytir engu um mína afstöð­u,“ segir Jak­ob.

Metfjölgun erlendra rík­is­borg­ara

Erlendum rík­is­borg­urum sem setjast að á Íslandi hefur fjölg­að gífurlega á örfáum árum. Þeir voru alls 48.287 í byrjun þessa október á þessu ári og hefur fjölgað um tæplega 4.100 á síðustu tíu mánuðum.

Á árunum 2017 og 2018 átti sér stað met­fjölgun erlendra rík­is­borg­ara sem koma hingað til lands til að búa hér. Á því tíma­bili fjölg­aði þeim um alls 13.930, eða um tæp 46 pró­sent.

Ástæðan er sú að á Íslandi var mik­ill efna­hags­upp­gangur og mik­ill fjöldi starfa var að fá sam­hliða þeim upp­gangi, sér­stak­lega í þjón­ustu­störfum tengdum ferða­þjón­ustu og í bygg­inga­riðn­aði. Nú þegar hag­kerfið er farið að kólna og störfum fækkar í þessum tveimur geirum þá hefur samhliða því dregið úr þeim fjölda erlendra rík­is­borg­ara sem sækja hingað til lands.

Boða ekk­ert umburð­ar­lyndi gagn­vart kyn­ferð­is­brot­um 

Ásak­anir á hendur kaþ­ólskum prestum og öðrum starfs­mönnum kirkj­unnar um kyn­ferð­is­brot gegn börnum hafa verið gegn­um­gang­andi víða um heim á síð­ustu ára­tug­um. Ísland hefur ekki farið var­hluta af málum sem þessum en á annan tug ein­stak­linga greindu frá grófu kyn­ferð­is­of­beldi sem þau urðu fyrir í Landa­kots­skóla af hendi prests og starfs­manns þar á árunum 1954 til 1990. 

Rann­sókn­ar­nefnd kaþ­ólsku kirkj­unnar gaf út skýrslu um við­brögð stofn­un­ar­innar við ásök­un­unum í nóv­em­ber árið 2012 en nið­ur­staða nefnd­ar­innar var að starfs­menn innan kirkj­unnar hefðu van­rækt skyldur sínar og dæmi voru um að til­raunir hafi verið gerðir til að þagga ásak­an­irnar nið­ur­.  

Aðspurður um hvort að kaþ­ólska kirkjan hafi sett sér ein­hverja stefnu þegar kemur að kyn­ferð­is­brotum segir Jakob að stefna páfans um ekk­ert umburð­ar­lyndi gagn­vart kyn­ferð­is­brotum gildi líka hér.

 „Við fylgjum almennri stefnu kaþ­ólsku kirkj­unnar og páf­inn er mjög skýr í þessum mál­um. Hann segir að nú séum við komin í núll umburð­ar­lyndi og það gildir líka hérna. Svo er páf­inn líka búin að feta mjög mik­il­væg skref, þar er kirkjan í raun­inni leið­andi á þessu sviði, með því að gera það að skyldu innan kirkj­unnar að til­kynna brot á hvaða stigi sem er,“ segir Jakob og útskýrir að þá sé verið að tala um innan kirkj­unn­ar. Auk þess þurfi að til­kynna stjórn­völdum sam­kvæmt reglum og lögum hvers lands ef upp kemur grunur um brot. 

Jakob segir að það sé nefnd starf­andi innan kaþ­ólsku kirkj­unnar sem fólk getur leitað til sem og yfir­völd utan bisk­ups­dæm­is­ins, til að mynda sendi­herra­nefnd páfans á Norð­ur­löndum og í Róm. „Við erum reyndar að ein­hverju leyti enn þá að móta allar þessar regl­ur. Þessi nýju lög frá páfa komu í fyrra og því er þetta enn í ein­hverju leyti í mót­un. Við viljum auð­vitað bara fylgja með eins og á að ger­a,“ segir Jak­ob.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBirna Stefánsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar