Birgir Þór Harðarson

Sívaxandi söfnuður kaþólsku kirkjunnar

Kaþólski söfnuðurinn hefur vaxið gífurlega hratt hér á landi á síðustu árum. Kaþólska kirkjan er í dag annað stærsta trúfélag landsins með yfir 14.400 einstaklinga skráða í söfnuðinn. Þessa aukn­ingu má rekja beint til gríðarlegrar fjölgunar erlendra rík­­is­­borg­­ara á Íslandi, en stærstu hóp­­arnir sem hingað flytja koma frá löndum þar sem kaþ­ólska kirkj­an er sterk.

Á nánast hverjum sunnudegi fyllist Landakotskirkja út að dyrum í fjórum sunnudagsmessum kaþólsku kirkjunnar. Messurnar fara fram á þremur ólíkum tungumálum og á blíðviðrisdögum má stundum sjá fólk fylgjast með messum fyrir utan kirkjuna því það kemst ekki fyrir inni. 

Skráningar í kaþólsku kirkjuna hafa nærri fjórfaldast á síðustu 20 árum og í dag eru rúmlega 14 þúsund manns skráðir í kirkjuna. Prestur innan kaþólsku kirkjunnar telur þó að kaþólikkar á Íslandi séu mun fleiri, eða hátt í 30 þúsund manns. Kirkjan sækist því eftir fleiri skráningum í söfnuðinn en trúfélög fá greidd sóknargjöld frá ríkinu fyrir hvern skráðan einstakling.

Þessi aukning í kaþ­ólska söfn­uð­inum hefur átt sér stað sam­hliða mik­illi fjölgun erlendra rík­­is­­borg­­ara á Íslandi, en stærstu hóp­­arnir sem hingað flytja koma frá löndum þar sem staða kaþ­ólsku kirkj­unnar er sterk. Þar munar mest um Pól­verja, sem eru fjöl­­menn­asti hópur erlendra rík­­is­­borg­­ara hér á landi.

Íhaldssöm og rótgróin viðhorf kaþólsku kirkjunnar gagnvart samkynhneigðum og sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama eru vel þekkt og er íslenskur angi kaþólsku kirkjunnar engin undantekning. Kaþólska kirkjan mótmælti bæði frumvarpi stjórnvalda um hjónabönd samkynja para árið 2010 og þungunarrofsfrumvarpi stjórnvalda í vor.

Kaþólska kirkjan telur sig hins vegar ekki hljóta mikinn hljómgrunn hjá stjórnvöldum hér á landi og væri kirkjan til í að hafa meiri áhrif. 

Kaþólska kirkjan á Íslandi

Fyrir níutíu árum, árið 1929, var Dómkirkja Krists konungs eða Landakotskirkja líkt og flestir þekkja hana sem, vígð á Landakotshæð. Forvígismaður að byggingu kirkjunnar, Marteinn Meulenberg, var í framhaldinu vígður í embætti fyrsta kaþólska biskupsins á Íslandi eftir siðaskipti. 


Landakotskirkja var lengi vel stærsta kirkja landsins og var Meulenberg spurður hvort að kirkjan væri ekki fullstór fyrir svo lítinn söfnuð, sem taldi þá um 130 manns. Meulenberg svaraði þá að innan fárra ára mundi enginn tala um hvað kirkjan væri stór heldur fremur spyrja hvers vegna hann hefði ekki látið byggja enn stærri kirkju. 


Lengi fram eftir öldinni fjölgaði hins vegar hægt í kaþólska söfnuðinum á Íslandi. Árið 1960 taldi söfnuðurinn um hálft prósent þjóðarinnar og árið 1994 um 1 prósent. Fjölga tók þó hraðar í kirkjunni í kringum aldarmótin og nú telur söfnuðurinn um 4 prósent landsmanna eða alls 14.408 manns þann 1. október 2019. Á tæplega 20 árum bættust um tíu þúsund manns við kaþólska söfnuðinn hér landi. 


Fleiri Pólverjar á Íslandi en íbúar Reykjanesbæjar

Þessi gríðarlega fjölgun í kaþólsku kirkjunni á síðustu árum má að miklu leyti rekja til mikillar fjölgunar erlendra ríkisborgara hér á landi. Í byrjun október á þessu ári voru alls 48.287 erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi. Þeim hefur fjölgað um nærri tíu þúsund manns á aðeins einu og hálfi ári. 

Frá árinu 1996 hafa flestir erlendir rík­is­borg­arar sem búsettar hafi verið hér á landi verið frá Pól­landi. Fjöldi Pól­verja hér á landi hefur rúm­lega 20 faldast á 20 árum. Þann 1. jan­úar 1999 bjuggu 1.038 ein­stak­lingar sem ann­að hvort fædd­ust í Pól­landi eða voru með pólskt rík­­is­­fang hér á landi en þann 1. október 2019 voru þeir orðnir 20.370 sem þýðir að rúmlega 40 prósent allra erlendra ríkisborgara sem búa hér á landi eru upprunalega frá Póllandi. Næst stærsti hópurinn eru Litháar en alls eru hér um 4.500 einstaklingar með litháískt ríkisfang. 

Séra Jakob Rolland, prestur kaþólsku kirkjunnar í Reykjavík, staðfestir í samtali við Kjarnann að hinn miklu vöxtur kaþólska söfnuðarins sé vissulega tilkomin vegna mikillar fjölgunar innflytjenda hér á landi. Bæði Pólverjar og Litháar koma frá löndum þar sem kaþólsk trú er ríkjandi og segir Jakob Pólverja vera stærsta hópinn sem sæki í kaþólsku kirkjuna hér á landi. Flest börn sem ganga í fyrsta skipti til altaris hjá kirkjunni, eða fermast innan kaþólsku kirkjunnar, eru sömuleiðis pólsk. Jakob segir að Filippseyingar séu einnig fjölmennir innan safnaðarins.

Séra Jakob Rolland, prestur kaþólsku kirkjunnar í Reykjavík.
Birna Stefánsdóttir

Nú rúmar kirkjan varla fjöldann 

Samhliða því að söfnuðurinn hér landi hefur stækkað þá hefur fjölgun í komum ferðamanna til landsins einnig haft áhrif á fjölda þeirra sem sækja kaþólskar kirkjur hér á landi. Séra Jakob bendir á að ef tvær milljónir ferðamanna heimsæki Íslandi á hverju ári þá megi búast við því að 300 til 400 þúsund af þeim séu kaþólikkar og að margir hverjir sæki kirkju. 

Sú kirkja sem hefur hvað mest fundið fyrir aukningunni er Landakotskirkja, en hún rúmar varla lengur þann mikla fjölda sem sækir messur í hverri viku. Á hverjum degi er boðið upp á messur á íslensku og um hverja helgi eru alls fimm sunnudagsmessur á þremur tungumálum: íslensku, ensku og pólsku. Á tímabili var einnig messað á spænsku. Þó ekki sé talið í kirkjunni telur Jakob að minnsta kosti þúsund manns sæki hana hverja helgi. Á sumrin eru þeir mun fleiri. 

Vaxtar kaþólsku kirkjunnar gætir þó um allt land. Alls eru átta kaþólskar sóknir á Íslandi en fyrir rúmum þrjátíu árum voru aðeins tvær. Kaþólskar kirkjur eða kapellur má finna í Reykjavík (við Landakot og í Breiðholti), á Ásbrú, á Stykkishólmi, á Ísafirði, á Akureyri, á Dalvík, á Egilsstöðum, á Reyðarfirði og í Höfn. Enn fremur stendur til að reisa kirkju á Selfossi og hefur kaþólska kirkjan fengið vilyrði fyrir lóð þar. Hingað til hefur aðeins verið húskapella á Selfossi og verði kirkja byggð þá bætist við níunda sóknin hér á landi.

Þriðj­ungur þjóðar utan þjóð­­kirkju

Þeim sem eru skráðir í þjóð­­kirkj­una hefur fækkað jafnt og þétt á und­an­­förnum árum, þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað umtals­vert. Undir lok síð­ustu aldar voru um 90 pró­sent lands­manna skráðir í þjóð­kirkj­una. Nú eru 231.684 ein­stak­l­ingar skráðir í þjóð­­­kirkj­una eða um 64 prósent landsmanna. Það þýðir að rúm­­lega þriðj­ungur lands­­manna er ekki skráður í hana, eða um 130 þúsund manns.

Á árinu 2010 sagði sig met fjöldi úr þjóðkirkjunni þegar ásak­­­anir um þöggun þjóð­­­kirkj­unnar yfir meintum kyn­­­ferð­is­­­glæpum Ólafs Skúla­­­son­­­ar, fyrr­ver­andi bisk­­­ups, voru settar fram. Þá fækk­­­aði um 4.242 í þjóð­­­kirkj­unni á einu ári.

Flestir þeirra sem standa utan ríkis­kirkj­unnar eru utan trú- og lífs­skoð­un­ar­fé­laga eða um 25 þús­und manns. Þá hefur skráningum í Siðmennt, Ásatrúarfélagið og í kaþólsku kirkjuna einnig fjölgað verulega á síðustu árum.

Því fleiri skráningar, því hærri sóknargjöld

Kaþólska kirkjan hefur kallað eftir því að söfnuðurinn skrái sig í kaþólsku kirkjuna á Íslandi hjá Þjóðskrá til að hjálpa kirkjunni að vaxa og dafna. Séra Jakob segir að raunin sé sú að mun fleiri kaþólikkar séu búsettir á Íslandi en skráðir eru í söfnuðinn. Hann telur að fjöldi skráðra í Þjóðskrá nái aðeins yfir um helming kaþólska söfnuðarins og sennilega séu hátt í þrjátíu þúsund kaþólikkar á Íslandi.

Trú- og lífsskoðunarfélög hér á landi fá sóknargjöld greidd fyrir hvern skráðan einstakling, 16 ára og eldri. Á árinu 2018 greiddi ríkið 931 krónur á mánuði á hvern einstakling í hverju félagi fyrir sig. Kaþólska kirkjan fékk rúmar 108 milljónir vegna sóknargjalda í fyrra. Það skiptir því töluverðu máli hversu margir eru skráðir í söfnuðinn en sóknargjöld eru einu greiðslurnar sem Kaþólska kirkjan fær frá ríkinu. 

Aðspurður segir Jakob að fjármögnun kirkjunnar komi að hluta til frá sóknargjöldum en einnig frá samskotum og gjöfum frá einstaklingum. Auk þess fái kirkjan hjálp frá ýmsum stofnunum kaþólsku kirkjunnar erlendis. Til að mynda hafi biskupsstofa kaþólsku kirkjunnar í Reykjavík verið byggð með hjálp stofnunarinnar Bonifatiuswerk í Þýskalandi. Sú stofnun hefur í fjölda áratuga styrkt kirkjur bæði á Norðurslóðum og í Austur-Evrópu. 

Jakob segir jafnframt að kaþólska kirkjan á Íslandi fái ekki fjármagn frá Vatíkaninu heldur sé það öfugt. Söfnuðurinn safni fjármagni til að hjálpa Vatíkaninu þar sem það sé fjárþurfi.

Vilja meiri hljómgrunn hjá stjórnvöldum

Kaþólska kirkjan hefur fengið hátt í þrjátíu umsagnabeiðnir frá Alþingi á síðustu tíu árum þar á meðal um tvö tímamóta lagafrumvörp. Kirkjan skilaði bæði inn umsögn um frumvarp um breytingar á hjúskaparlögum sem heimilaði giftingu tveggja einstaklinga af sama kyni og umsögn um þungunarrofsfrumvarpið sem samþykkt var í maí þessu ári. Kaþólska kirkjan mótmælti báðum frumvörpunum í umsögnum sínum. 

Séra Jakob segir að honum þyki rödd kaþólsku kirkjunnar fá lítinn hljómgrunn hjá stjórnvöldum. „Ég fór einu sinni sjálfur í allsherjarnefnd út af lagafrumvarpi um hjónabönd samkynhneigðra. Þeir hlustuðu á mig en bersýnilega var þetta bara formsatriði hjá þeim til að geta sagt: Við hlustum líka á kaþólska kirkju. Mér varð nokkuð ljóst að þeir hefðu engan áhuga á að heyra hvað kaþólska kirkjan er að hugsa,“ segir Jakob.

Aðspurður um hvort að kaþólska kirkjan vilji hafa meiri áhrif á stjórnmál á Íslandi nú þegar kaþólikkar eru að verða sífellt fjölmennara afl á Íslandi segir Jakob svo vera. „Sjónarmið okkar, sérstaklega hvað varðar mál þjóðfélagsins eru ekki endilega trúmál heldur bara almenn þjóðfélagsmál sem skipta kirkjuna máli. Því við viljum vernda lífið og standa fyrir mannréttindum. Þá skiptir máli að röddin okkar heyrist,“ segir Jakob. 

Ef tvær konur koma til okkar og vilja giftast þá segi ég: Því miður það gengur ekki hjá okkur. Ef þær segja þá ætlum við að kæra ykkur, þá segi ég: Gerðu það. Ef ég fer fangelsi, þá fer ég í fangelsi en það breytir engu um mína afstöðu.

Afstaða gagnvart hjónaböndum samkynja para ekki að fara breytast

Aðspurður um hvort að biskupsdæmin aðlagist að einhverju leyti að þeim löndum sem þau hafi aðsetur í svarar Jakob: „Já og nei. Ef maður talar um þjóðfélagsmál sem eru á yfirráðasvæði stjórnvalda þá er kirkjan auðvitað með í ráðum og reynir að fylgjast með og styðja. Til dæmis núna um vernd umhverfis, þá er kirkjan mjög mikið með. Aftur móti ef það snýst um brot á mannréttindum og grundvallar gildum mannlegs lífs, þá stendur kirkjan bara eins og einn klettur sama hvar það gerist í heiminum. Þá er það sjálfur páfinn sem tjáir sig fyrir hönd kirkjunnar í þessum málum og við tökum undir.“

Hann segir jafnframt að í rauninni skipti íslensk lög engu máli þegar kemur að hjónabandi samkynja para þar sem trú kaþólsku kirkjunnar segir þeim að þannig hjónaband sé einfaldlega ekki mögulegt. „Ef tvær konur koma til okkar og vilja giftast þá segi ég: Því miður það gengur ekki hjá okkur. Ef þær segja þá ætlum við að kæra ykkur, þá segi ég: Gerðu það. Ef ég fer fangelsi, þá fer ég í fangelsi en það breytir engu um mína afstöðu,“ segir Jakob.

Metfjölgun erlendra rík­is­borg­ara

Erlendum rík­is­borg­urum sem setjast að á Íslandi hefur fjölg­að gífurlega á örfáum árum. Þeir voru alls 48.287 í byrjun þessa október á þessu ári og hefur fjölgað um tæplega 4.100 á síðustu tíu mánuðum.

Á árunum 2017 og 2018 átti sér stað met­fjölgun erlendra rík­is­borg­ara sem koma hingað til lands til að búa hér. Á því tíma­bili fjölg­aði þeim um alls 13.930, eða um tæp 46 pró­sent.

Ástæðan er sú að á Íslandi var mik­ill efna­hags­upp­gangur og mik­ill fjöldi starfa var að fá sam­hliða þeim upp­gangi, sér­stak­lega í þjón­ustu­störfum tengdum ferða­þjón­ustu og í bygg­inga­riðn­aði. Nú þegar hag­kerfið er farið að kólna og störfum fækkar í þessum tveimur geirum þá hefur samhliða því dregið úr þeim fjölda erlendra rík­is­borg­ara sem sækja hingað til lands.

Boða ekkert umburðarlyndi gagnvart kynferðisbrotum 

Ásakanir á hendur kaþólskum prestum og öðrum starfsmönnum kirkjunnar um kynferðisbrot gegn börnum hafa verið gegnumgangandi víða um heim á síðustu áratugum. Ísland hefur ekki farið varhluta af málum sem þessum en á annan tug einstaklinga greindu frá grófu kynferðisofbeldi sem þau urðu fyrir í Landakotsskóla af hendi prests og starfsmanns þar á árunum 1954 til 1990. 

Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar gaf út skýrslu um viðbrögð stofnunarinnar við ásökununum í nóvember árið 2012 en niðurstaða nefndarinnar var að starfsmenn innan kirkjunnar hefðu vanrækt skyldur sínar og dæmi voru um að tilraunir hafi verið gerðir til að þagga ásakanirnar niður.  

Aðspurður um hvort að kaþólska kirkjan hafi sett sér einhverja stefnu þegar kemur að kynferðisbrotum segir Jakob að stefna páfans um ekkert umburðarlyndi gagnvart kynferðisbrotum gildi líka hér.

 „Við fylgjum almennri stefnu kaþólsku kirkjunnar og páfinn er mjög skýr í þessum málum. Hann segir að nú séum við komin í núll umburðarlyndi og það gildir líka hérna. Svo er páfinn líka búin að feta mjög mikilvæg skref, þar er kirkjan í rauninni leiðandi á þessu sviði, með því að gera það að skyldu innan kirkjunnar að tilkynna brot á hvaða stigi sem er,“ segir Jakob og útskýrir að þá sé verið að tala um innan kirkjunnar. Auk þess þurfi að tilkynna stjórnvöldum samkvæmt reglum og lögum hvers lands ef upp kemur grunur um brot. 

Jakob segir að það sé nefnd starfandi innan kaþólsku kirkjunnar sem fólk getur leitað til sem og yfirvöld utan biskupsdæmisins, til að mynda sendiherranefnd páfans á Norðurlöndum og í Róm. „Við erum reyndar að einhverju leyti enn þá að móta allar þessar reglur. Þessi nýju lög frá páfa komu í fyrra og því er þetta enn í einhverju leyti í mótun. Við viljum auðvitað bara fylgja með eins og á að gera,“ segir Jakob.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBirna Stefánsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar