Isavia stefnir íslenska ríkinu vegna saknæmrar háttsemi dómara og vill yfir tvo milljarða
Isavia, sem er ríkisfyrirtæki hefur sent ríkislögmanni kröfubréf og fer fram á að íslenska ríkið, eigandi sinn, greiði það tjón sem fyrirtækið varð fyrir þegar kyrrsettri flugvél frá WOW air var leyft að fara frá landinu. Fyrirtækið segir héraðsdómara hafa sýnt af sér „saknæma og ólögmæta háttsemi“ sem hafi bakað sér tjón. Alls vill Isavia fá yfir tvo milljarða króna frá ríkinu í bætur.
Isavia ohf., fyrirtæki sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, mun á næstu dögum stefna eiganda sínum til greiðslu á um 2,2 milljörðum króna í skaðabætur auk vaxta sem eiga að reiknast frá 18. júlí 2019. Isavia, sem rekur með annars Keflavíkurflugvöll, sendi kröfubréf til íslenska ríkisins vegna þessa 18. október síðastliðinn. Kjarninn hefur fengið það bréf afhent á grundvelli upplýsingalaga.
Ástæðan fyrir stefnunni er óréttur sem Isavia telur sig hafa verið beitt þegar héraðsdómarinn Ástríður Grímsdóttir féllst á aðfarabeiðni Air Lease Corporation (ALC), eiganda flugvélar sem Isavia hafði kyrrsett vegna skulda WOW air við sig, um að fá vélina afhenta með úrskurði sínum í júlí 2019. Fyrirtækið telur að dómarinn hafi sýnt af sér „saknæma og ólögmæta háttsemi við úrlausn málsins.“
Í kröfubréfi Isavia segir að fyrirtækið telji að það væru „stórkostlegir efnislegir og réttarfarslegir annmarkar á úrskurði héraðsdóms“ um aðfarabeiðnina og að veilurnar í rökstuðningi dómarans í málinu „séu bæði svo alvarlegar og verulegar“ að varla sé hægt að draga aðra ályktun en það hafi verið ásetningur dómarans að aðfaraaðgerðin næði fram að ganga áður en að Landsrétti gæfist ráðrúm til að endurskoða og snúa við niðurstöðunni. Þá efast lögmaður Isavia um að dómari málsins hafi fyllilega skilið sakarefni málsins.
Farþegaþotan sem Isavia hafði kyrrsett, sem var að Airbus-gerð og hefur skráningarnúmerið TF-GPA, flaug af landi brott 19. júlí. Isavia ætlar einnig að stefna ALC vegna málsins.
Mikið uppsafnað tap WOW air
Isavia og WOW air gerðu samkomulag um það í lok september 2018, skömmu eftir að frægu skuldabréfaútboði í WOW air hafði verið lokið, hvernig félagið átti að greiða upp skuld sína við Keflavíkurflugvöll. Skuld WOW air við Isavia hafði vaxið hratt mánuðina á undan, og stóð í rúmlega milljarði króna í lok júlí 2018. Þá hafði hún tvöfaldast á rúmum mánuði.
Nokkrum vikum áður en greint var frá því að skuldabréfaútboði WOW air var gefin heimild fyrir rekstrarlánalínu og/eða yfirdráttarláni á stjórnarfundi Isavia upp á tvo milljarða króna.
Isavia taldi sig geta tryggt að skuldin fengist greidd með vegna þess að ákvæði loftferðalaga ættu að heimila fyrirtækinu að kyrrsetja vél WOW air til að tryggja greiðslu gjalda sem væru gjaldfallinn.
Þegar WOW air fór svo loks í þrot í lok mars var skuld félagsins við Isavia um tveir milljarðar króna. Vélin sem var kyrrsett fyrir greiðslu þeirrar skuldar, og WOW air hafði haft til umráða, var hins vegar ekki í eigu WOW air heldur hafði félagið leigt hana. Eigandinn var ALC og hann hafði engan áhuga á því að borga skuld WOW air til að losa vélina sína.
Deilur vegna þessa fóru víða um dómskerfið, og rötuðu loks fyrir Héraðsdóm Reykjanes sem komst á endanum að þeirri niðurstöðu að ALC þyrfti ekki að greiða allar þær skuldir WOW air gagnvart Isavia sem safnast höfðu upp heldur einungis þær skuldir sem tengdust beint þotunni sem kyrrsett var. Í úrskurði dómarans, Ástríðar Grímsdóttur, kom einnig fram að ALC væri heimilt að sækja vélina sem hafði verið kyrrsett. Henni var því flogið úr landi þann 19. júlí án þess að málarekstrinum væri lokið fyrir íslenskum dómstólum, þar sem Isavia áfrýjaði niðurstöðunni.
Fyrirgreiðslan við WOW air, og hin mislukkaða tilraun til að endurheimta hana frá ALC, skilaði því að Isavia þurfti að færa niður kröfur sínar á hið gjaldþrota flugfélag um 2,1 milljarð króna. Það var stærsta ástæðan fyrir því að Isavia tapaði rúmlega 2,5 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2019.
Ætluð saknæm og ólögmæt háttsemi
Lögmaður Isavia, Hlynur Halldórsson frá Landslögum, bendir á í kröfubréfi sem Isavia sendi til ríkislögmanns 18. október, og Kjarninn hefur fengið afhent á grundvelli upplýsingalaga, að þegar Landsréttur kvað upp úrskurð um aðfarabeiðni Isavia, eftir að málinu var áfrýjað þangað og eftir að flugvélin kyrrsetta var farin frá Íslandi, hafi kröfunum verið vísað frá. Ástæðan væri sú að hin margumþrætta aðfarargerð væri um garð gengin og Isavia ætti því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn um lögmæti aðgerðarinnar. Í niðurstöðu Landsréttar hefði hins vegar þeirri lögskýringu sem beitt var til að frelsa flugvélina hefði verið hafnað í fyrri niðurstöðu hans. Auk þess felldi hann niður málskostnað.
Hæstiréttur staðfesti síðan dóm Landsréttar 23. september.
Þess vegna vill Isavia fá bætur frá íslenska ríkinu og byggir þá kröfu fyrst og fremst á bótareglu aðfararlaga og dómstólalögum.
Isavia telur að með úrskurði sínum þann 17. júlí 2019 hafi áðurnefndur dómari við Héraðsdóm Reykjaness, sem heimilaði innsetninguna, sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við úrlausn málsins. Því beri sá dómari skaðabótaábyrgð á því fjárhagslega tjóni sem ákvörðun hans hafi valdið. Dómsmál vegna skaðabótaábyrgðar verði þó ekki höfðað gegn dómaranum persónulega, heldur aðeins gagnvart íslenska ríkinu.
Efast um að dómarinn hafi fyllilega skilið málið
Í yfirlýsingu sem fyrirtækið sendi Kjarnanum segir að það hafi dómarinn meðal annars gert með því að hunsa efnislega niðurstöðu Landsréttar varðandi kyrrsetningarákvæði loftferðalaga og með því að hafna kröfu Isavia um frestun réttaráhrifa úrskurðarins þannig að Landsréttur, og eftir atvikum Hæstiréttur, gætu tekið úrlausn héraðsdóms til endurskoðunar. „Isavia telur blasa við í ljósi undirliggjandi hagsmuna að héraðsdómur hafi átt að taka þá kröfu Isavia til greina.“
Í kröfubréfi lögmanns Isavia segir að veilurnar í rökstuðningi dómarans í málinu „séu bæði svo alvarlegar og verulegar að varla er hægt að draga aðra ályktun en það hafi verið ásetningur dómarans að aðfaraaðgerðin næði fram að ganga áður en að Landsrétti gæfist ráðrúm til að endurskoða og snúa við niðurstöðunni. Þá efast lögmaðurinn um að dómari málsins hafi fyllilega skilið sakarefni málsins í ljósi þess að hún segi í forsendum úrskurðar síns að fjárhagslegir hagsmunir ALC í málinu væru meiri en Isavia. Það sé rangt, að mati lögmanns Isavia, enda hefði frestun réttaráhrif í 6-8 vikur í viðbót einungis bakað ALC tjón upp á að 85-114 milljónir króna samkvæmt upplýsingum frá félaginu sjálfu. Það sé um 1/20 af því tjóni sem Isavia hafi orðið fyrir. „Umbjóðandi minn skilur ekki þann órétt sem hann var beittur með framangreindum úrskurði héraðsdóms.“
Telja málið hafa fordæmisgildi
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir málið ekki einungis snúast um hagsmuni vegna tapaðra fjármuna. „Málið í heild sinni hefur fordæmisgildi um hvernig við hjá Isavia högum rekstri okkar til framtíðar. Við þurfum að vita hvort við getum beitt kyrrsetningarheimild loftferðalaga áfram með þeim hætti sem við höfum gert, þ.e. kyrrsett eina flugvél fyrir heildarskuld, eða hvort nauðsynlegt verði til framtíðar að kyrrsetja allan flota flugfélaga í einu ef grípa þarf til aðgerða.“
Það breytir því þó ekki að krafa Isavia á hendur eiganda sínum, ríkinu, er upp á töluverða fjármuni, eða 1.372 milljónir króna í íslenskum krónum auk vaxta. Auk þess er farið fram á greiðslu um sex milljón evra, um 830 milljón króna. Samanlagt er því farið fram á um 2,2 milljarða króna. Um er að ræða þá upphæð sem Isavia taldi sig geta endurheimt frá ALC vegna skulda sem WOW air hafði safnað upp við sig, með því að kyrrsetja vélina og heimila ekki brottför hennar fyrr en að skuldin væri greidd.
Fyrir liggur að krafa Isavia í þrotabú WOW air yrði almenn, en ekkert mun fást greitt upp í slíkar kröfur að óbreyttu.
Fréttaskýringin hefur verið uppfærð með viðbótarupplýsingum um að krafa Isavia er hærri, um 2,2 milljarðar króna, en upphaflega kom fram.