Í dag eru liðin nákvæmlega tvö ár frá því að síðustu kosningar til Alþingis fóru fram, en þær voru 28. október 2017.
Kosningarnar voru aðrar kosningarnar sem haldnar voru á einu ári, en til þeirra beggja var boðað í kjölfar hneykslismála. Fyrst vegna Panamaskjalanna 2016 og síðan vegna Uppreist-æru málsins og meintrar leyndarhyggju þáverandi dómsmálaráðherra og forsætisráðherra vegna þess.
Í kjölfar þeirra var mynduð mjög óvenjuleg ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, sem varð um leið önnur konan í Íslandssögunni til að gegna embætti forsætisráðherra.
Ríkisstjórnin er óvenjuleg vegna þess að hún er mynduð frá vinstri, yfir miðju og til hægri og samanstendur af flokkum, sérstaklega Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki, sem ekki er sýnilegt á stefnuskrám að eigi mikið sameiginlegt. Aðstæður þóttu hins vegar kalla á stöðugleika í stjórnmálaástandinu, að mati þeirra sem komu ríkisstjórninni á koppinn, í ljósi þess að ríkisstjórn hefur ekki klárað kjörtímabil með meirihluta á þingi frá því að ríkisstjórn undir forsæti Geirs H. Haarde gerði það vorið 2007. Það kjörtímabil voru forsætisráðherrarnir samt sem áður þrír, því auk Geirs leiddu Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um tíma.
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkað um rúman þriðjung
Í verki hefur ríkisstjórnin verið nokkuð íhaldssöm, sérstaklega þegar kemur að kerfisbreytingum, sem hafa ekki verið miklar. Efnahagsaðstæður hafa hins vegar verið góðar sem hafa gerð það að verkum að ríkisstjórnin hefur getað aukið framlög til helstu málaflokka umtalsvert án þess að ráðast í neinar grundvallarbreytingar á kerfum stjórnkerfisins.
Fljótt tók þó að fjara undan þeim stuðningi og hann hefur ekki mælst yfir 50 prósent frá því um miðjan júní 2018. Í síðustu könnun MMR, sem sýndi stuðninginn seinni hluta október og var birt síðastliðinn föstudag, kom fram að 42,2 prósent landsmanna styddi ríkisstjórnina. Um 37 prósent af stuðningi hennar, rúmur þriðjungur, er horfinn.
Hún hefur þurft að takast á við nokkur flókin málefni. Vandi flugfélagsins WOW air, sem endaði í gjaldþroti í lok mars, og loðnubrestur höfðu þau áhrif að búist er við samdrætti í hagkerfinu á árinu 2019. Það breytir því þó ekki að fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár er mesta eyðslufrumvarp sögunnar og búist er við því að útgjöld ríkisins fari yfir eitt þúsund milljarða króna. Á meðal þess sem þar verður fjármagnað eru miklar fjárfestingar í innviðauppbyggingu, meðal annars samgönguúrbótum.
Ríkisstjórnin þurfti einnig að takast á við krefjandi kjaradeilur þar sem ný, hérská og róttæk verkalýðsforysta lét mikið til sín taka. Það tókst að landa kjarasamningum við stærstan hluta vinnumarkaðarins í byrjun apríl, í skugga gjaldþrots WOW air, með mikilli aðkomu ríkisvaldsins sem lofaði margháttuðum aðgerðum til að liðka fyrir kjarasamningsgerðinni. Sá aðgerðarpakki fékk nafnið lífskjarasamningarnir.
Ríkisstjórnin stóð líka frammi fyrir því að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hennar, Sigríður Á. Andersen, hefði skipað fjóra dómara af þeim 15 sem voru upphaflega skipaðir í Landsrétt með ólögmætum hætti. Sigríður þurfti að segja af sér embætti dómsmálaráðherra vegna málsins.
Þá hafa verið væringar vegna akstursgreiðslna þingmanna, Klausturmálsins svokallaða og svo auðvitað hinar langdregnu umræður um þriðja orkupakkann, urðu málþófi Miðflokksins að bráð.
Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur tapað mestu
En hvaða áhrif hefur þróun stjórnmálanna haft á fylgi flokkanna á þingi? Eins og er mælast fjórir flokkar með meira fylgi en þeir fengu í síðustu kosningum, sem fóru fram fyrir nákvæmlega tveimur árum í dag, samkvæmt síðustu könnun MMR.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka tapað umtalsverðu fylgi. Hann fékk 25,2 prósent haustið 2017 en mælist nú með 21,1 prósent fylgi, sem er þó meira en undanfarna mánuði þegar fylgið hefur verið undir 20 prósentustigum. Alls hafa því 4,1 prósentustig yfirgefið Sjálfstæðisflokkinn. Ef kosið yrði í dag, og niðurstaða nýjustu könnunar MMR yrði það sem kæmi upp úr kjörkössunum, þá myndi vera um að ræða verstu kosninganiðurstöður flokksins í sögu hans. Sjálfstæðisflokkurinn myndi samt sem áður vera stærsti flokkur landsins.
Framsóknarflokkurinn er sá stjórnarflokkur sem heldur helst sínu. Flokkurinn fékk 10,7 prósent í kosningunum 2017 en mælist nú með slétt tíu prósent.
Fjórir flokkar bætt við sig
Sá flokkur sem hefur bætt við sig mestu fylgi það sem af er kjörtímabili er Viðreisn. Flokkurinn fékk 6,7 prósent atkvæða í október 2017 en mælist nú með slétt tíu prósent stuðning. Fylgið hefur því aukist um 3,3 prósentustig, eða 49 prósent.
Fylgi Samfylkingarinnar hefur lika aukist umtalsvert, eða úr 12,1 í 15,3 prósent. Fylgisaukningin er því upp á 3,2 prósentustig, eða 26,4 prósent. Sá flokkur mælist nú sá næst stærsti á landinu og hefur haldið þeirri stöðu þorra kjörtímabilsins samkvæmt könnunum.
Miðflokkurinn hefur líka náð að auka fylgi sitt ágætlega og mælist nú með 13,5 prósenta stuðning, en fékk 10,9 prósent atkvæða 2017. Það er aukning upp á 2,6 prósentustig eða tæp 24 prósent. Þá rauk Flokkur fólksins upp í síðustu könnun MMR og mældist með átta prósent fylgi. Það er 1,1 prósentustigi meira en flokkur Ingu Sæland fékk árið 2017, sem þýðir aukningu upp á 16 prósent.
Þá er kominn fram á sjónarsviðið Sósíalistaflokkur Íslands. Eins og staðan er í dag segjast 2,9 prósent kjósenda styðja hann, sem myndi þó ekki duga inn á þing. Auk þess segja 0,9 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa annað en ofangreinda níu flokka, og því myndu 3,5 prósent atkvæða falla niður dauð. Fyrir tveimur árum síðan var hlutfall þeirra sem kusu aðra flokka en þá sem náðu inn 1,5 prósent.