Á fundi norrænu utanríkisráðherranna sem fram fór í dag var ákveðið að fela Birni Bjarnasyni, fyrrverandi dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra, að skrifa nýja skýrslu um eflingu norræns samstarfs í utanríkis- og öryggismálum. Við sama tilefni skrifaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra undir samkomulag við Noreg annars vegar og við Danmörku og Færeyjar hins vegar um afmörkun landgrunns á Ægisdjúpi og sat fund norrænu þróunarmálaráðherranna.
Þetta kemur fram í frétt á vef stjórnarráðsins.
Í skýrslunni sem Björn hefur valist til að skrifa verða gerðar tillögur um hvernig megi þróa samstarf Norðurlandanna enn frekar. Auk þess ræddu utanríkisráðherrarnir stöðuna í Sýrlandi og samskiptin við Rússland auk loftslagsmála og útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Fyrsti áfanginn í þessari vinnu var stöðuskýrsla sem forstöðumenn norrænu alþjóðastofnananna unnu og afhentu fyrr á þessu ári um framkvæmd tillagna úr skýrslu Thorvald Stoltenberg frá 2009.
Stutt er síðan að Björn leiddi starfshóp á vegum utanríkisráðuneytisins sem skilaði af sér skýrslu um EES-samninginn. Sú skýrsla var birt 1. október síðastliðinn. Auk Björns skipuðu þær Kristrún Heimisdóttir og Bergþóra Halldórsdóttir starfshópinn. Hægt er að lesa helstu niðurstöður hennar hér.