Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir að fyrirtækið hafi fengið fyrirspurn um veru Íslands á gráum lista alþjóðlegu samtakanna Financial Action Task Force (FATF) þegar það var í viðræðum um fjármögnun nýverið. Vera Íslands á listanum hafi þó ekki áhrif á starfsemi eða fjármögnun Össurar þar sem að hún fari fram í gegnum erlend dótturfélög. Það væri hins vegar mjög alvarlegt mál að Ísland sé á lista sem þessum.
Jón var á meðal þátttakenda í pallborðsumræðum á morgunfundi Landsbankans í gærmorgun vegna birtingar á árlegri hagspá bankans. Þar ræddi hann meðal annars um hvað vaxtaumhverfi í heiminum og hvað vextir væru lágir. Össur væri að semja um kjör sem fyrirtækið hefði aldrei séð áður og sagði að það gæti vart verið auðvelt að reka bankakerfi við ástæður sem þessar. „Ég hef oft bent á þetta í ræðu og riti, þessa mismunun sem er vart verjandi. Að þau fyrirtæki sem geta fjármagnað sig erlendis njóti betri kjara en þau sem þurfa að fjármagna sig á Íslandi.“
Það bætist við að ef vera Íslands á gráa listanum hafi áhrif á starfsemi fyrirtækja, séu þau áhrif líka bundin við þau fyrirtæki sem geti ekki fjármagnað sig alþjóðlega. Þannig verði mismununin enn meiri.
Össur var stofnað á Íslandi árið 1971 og höfuðstöðvar þess eru á Íslandi. Fyrirtækið er hins vegar skráð í dönsku kauphöllina og bréf þess voru endanlega tekin úr viðskiptum í þeirri íslensku í desember 2017.
Gerð athugasemd við 51 atriði
Í apríl 2018 skilaði FATF, alþjóðleg samtök sem hafa það hlutverk að móta aðgerðir til að hindra að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé aftur í umferð, skýrslu um Ísland. Með því að gerast aðili að samtökunum þá skuldbatt Ísland sig til að undirgangast og innleiða þau skilyrði sem samtökin telja að þurfi að uppfyllast.
Í skýrslu FATF fékk peningaþvættiseftirlit Íslendinga falleinkunn. Alls var gerð athugasemd við 51 atriði í laga- og reglugerðarumhverfi Íslands og því hvernig við framfylgjum eftirliti með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Á meðal þess sem þar kom fram var að íslensk stjórnvöld litu ekki á rannsóknir á peningaþvætti sem forgangsmál. Þeir litlu fjármunir sem settir voru í að koma upp um, rannsaka og saksækja peningaþvætti voru þar lykilatriði. Afleiðingin var meðal annars sú að takmarkaðar skráningar höfðu verið á grunsamlegum tilfærslum á fé utan þess sem stóru viðskiptabankarnir og handfylli annarra fjármálafyrirtækja framkvæma. Þá skorti einnig á að að upplýsingum um hreyfingar á fé og eignum væri deilt með viðeigandi stofnunum í öðrum löndum.
Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á jafnvel á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki.
Íslenska ríkið brást við með allsherjarátaki. Ný heildarlög um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka voru samþykkt og fjöldi annarra laga og reglugerða voru uppfærð. Þá voru auknir fjármunir settir í mannaráðningar og kaup á kerfum til að bæta það sem FATF hafði sett út á. En það dugði ekki til.
Sett á gráa listann
Þann 18. október síðastliðinn var greint frá því að Ísland hefði verið sett á gráan lista FATF og bættist á listann ásamt Mongólíu og Simbabve. Það er ekki jafn slæmt og að vera sett á svartan lista samtakanna, lista yfir ósamvinnuþýð ríki, en getur samt sem áður haft margháttuð áhrif á starfsemi íslenskra fyrirtækja.
Eftir að tilkynnt var um að Ísland væri á listanum hafa ráðamenn hins vegar talað niður afleiðingarnar. Í tilkynningu frá stjórnvöldum sagði að áhrifin af því að Ísland væri á listanum væru óveruleg og Samtök fjármálafyrirtækja hafa haldið því fram að áhrifin á verunni á gráa listanum hafi ekki verið nein.