Afkoma ríkissjóðs verður neikvæð um 15 milljarða í ár
Tekjur ríkissjóðs í ár verða 30 milljörðum krónum lægri en reiknað hafði verið með á fjárlögum. Útgjöld munu verða mun hærri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir, aðallega vegna aukins kostnaðar vegna atvinnuleysis sem tengist beint gjaldþroti WOW air, og milljarða greiðslna vegna ólögmætrar afturvirkar skerðingar á greiðslum til ellilífeyrisþega.
Afkoma ríkissjóðs verður neikvæð um 14,8 milljarða króna í ár. Þegar fjárlög fyrir árið 2019 voru samþykkt átti að vera umtalsverður afgangur af ríkisrekstrinum en ýmsar breytingar, bæði á tekju- og gjaldahlið rekstursins, hafa gert það að verkum að niðurstaðan verður önnur og verri.
Niðurstaðan er enn verri en gert var ráð fyrir í september, þegar fjárlagafrumvarp fyrir 2020 var lagt fram, en þá var búist við því að afkoman myndi verða neikvæð um 8,8 milljarða króna í ár.
Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, dreifði um helgina.
Tekjur 30 milljörðum lægri
Tekjur ríkissjóðs verða 30 milljörðum krónum lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Þyngst vegur að fjármagnstekjuskattur mun skila 6,2 milljörðum krónum minna í ríkiskassann en reiknað var með. Kjarninn greindi frá því í október að fjármagnstekjur landsmanna hefðu enda dregist saman úr 166 milljörðum króna árið 2017 í tæplega 138 milljarða króna í fyrra. Það er samdráttur upp á 17 prósent.
Fjármagnstekjur eru allar vaxtatekjur auk söluhagnaðar, arðs og tekna af atvinnurekstri. Skattur á fjármagnstekjur er umtalsvert lægri en á launatekjur. Fjármagnstekjuskattur var hækkaður upp í 22 prósent í byrjun árs 2018.
Þá verða tekjur ríkissjóðs vegna tekjuskattsgreiðslna lögaðila, þ.e. félaga og fyrirtækja, 5,5 milljörðum krónum lægri en reiknað var með. Á móti kemur að tekjur vegna tekjuskatts einstaklinga, þ.e. vegna launatekna, verða 1,1 milljarði krónum hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir.
Aðrar tekjur en skatttekjur lækka líka, alls um átta milljarða króna, frá því sem áður var áætlað. Arðgreiðslur frá ríkisfyrirtækjum eru þar stærsta breytan, en arðgreiðslur frá bönkum verða 7,1 milljarði krónum lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Á móti skilaði Landsvirkjun 1,5 milljarði krónum meira í arð en reiknað var með. „Að lokum má nefna að gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af sölu losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB lækki um 0,7 ma.kr. vegna tilfærslu milli ára,“ segir í fjáraukalögum.
Háar greiðslur vegna ólögmætrar skerðingar
Fjáraukalögin gera ráð fyrir að kostnaður við rekstur ríkissjóðs aukist um 14,9 milljarða króna á næsta ári. Þar ráða nokkrir stórir kostnaðarliðir mestu. Í fyrsta lagi aukast útgjöld vegna greiðslna til öryrkja og aldraðra um 7,3 milljarða króna frá fyrri áætlun. Meginþorri þeirrar upphæðar er tilkomin vegna dóms Landsréttar um ólögmæti afturvirkrar skerðingar á greiðslum til ellilífeyrisþega vegna greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Áætluð áhrif þessa dóms nema um 5,4 milljörðum króna. Í fjáraukalagafrumvarpinu segir: „Bætur voru skertar afturvirkt með lagabreytingu frá árinu 2017 þar sem verið var að leiðrétta mistök sem voru gerð við breytingu á lögum um almannatryggingar árið áður og heimila áttu skerðingu á greiðslum til ellilífeyrisþega afturvirkt um tvo mánuði. Afturvirkni laganna var dæmd ólögmæt og Tryggingastofnun ríkisins gert að greiða til baka skerðinguna ásamt dráttarvöxtum. Alls fengu 29.000 einstaklingar leiðréttingu á greiðslum ellilífeyris fyrir janúar og febrúar 2017, eða sem nemur um 190.000 kr. á hvern ellilífeyrisþega að meðaltali. “
Í fjáraukalögum er einnig verið að leiðrétta örorkubætur í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis sem varðar áhrif búsetutíma erlendis á rétt til örorkulífeyris, sem komst að þeirri niðurstöðu að lækkun greiðsluhlutfalls lífeyris vegna búsetu erlendis væri ekki í samræmi við lög. Áhrif af áliti umboðsmanns nema um 800 milljónum króna á árinu 2019 en alls hafa 320 manns fengið leiðréttingu það sem af er ári. Þá er gert ráð fyrir tæplega 1,5 milljarða króna aukningu framlaga vegna halla sjúkratryggingaliða á yfirstandandi ári, sem ekki hefur verið brugðist við með viðeigandi ráðstöfunum.
Þrot WOW air skilur eftir milljarðakostnað
Hinn stóri liðurinn sem bítur fast í ríkisreksturinn nú er aukin kostnaður vegna hærra atvinnuleysis og greiðslna úr Ábyrgðarsjóði launa, aðallega vegna gjaldþrots WOW air sem hefur aukið verulega kostnað vegna beggja liða. Atvinnuleysi stefnir í að verða 3,5 prósent í ár, en var 2,4 prósent að meðaltali í fyrra.
Í frumvarpinu er lagt til að fjárheimild til málaflokksins verði aukin um 7,6 milljarða króna. Af þeirri upphæð er gert ráð fyrir að tæplega 6,3 milljarðar króna fari í að mæta auknum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs á yfirstandandi ári. Þá er er farið fram á að tæplega 1,3 milljarðar króna fari til Ábyrgðarsjóðs launa til að mæta auknum útgreiðslum vegna gjaldþrota fyrirtækja á árinu.
Þá verða greiðslur vegna fæðingarorlofs verða rúmlega 1,1 milljarði krónum hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins en þessa aukningu má helst rekja til þess að hámarksgreiðslur hafa hækkað frá fyrra ári auk þess sem foreldrum sem taka fæðingarorlof hefur fjölgað umfram forsendur fjárlaga, sem og orlofsdögum.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði