Aðsend mynd

Tæknin gefi fólki falska nánd

Nýlega kom út pólsk/íslensk heimildarmynd þar sem sviðsljósinu er beint að pólskum innflytjendum á Íslandi og ættmennum og vinum þeirra í heimalandinu. Kjarninn spjallaði við leikstjórann um hugmyndina á bakvið myndina, samskipti milli fólks á tímum gríðarlegra tæknibreytinga og hvernig það er að aðlagast íslensku samfélagi.

Ástæður þess að fólk pakkar saman haf­urtaski sínu og flytur til ann­ars lands eru eins margar og fólkið er margt. Það getur verið að leita að nýjum ævin­týrum, ann­ars konar reynslu eða far­sæld – til lengri eða styttri tíma. Á bak við hverja ein­ustu mann­eskju er annar heimur og tekur hver og einn með sér ákveð­inn menn­ing­ar­arf frá staðnum þaðan sem það kom. Þar er jafn­framt fólk sem teng­ist þeim fjöl­skyldu- og vina­böndum sem það reynir að halda í.

Stundum á þetta til að gleym­ast í umræðu um inn­flytj­endur og er rétt hægt að ímynda sér áhrifin á þá sem komið hafa hingað til lands og þá sem eftir verða heima. Í sumar varð sá merki áfangi að Pól­verjar náðu 20 þús­unda íbúa mark­inu á Íslandi og kemur því ný pólsk/­ís­lensk heim­ild­ar­mynd, In Touch, eftir Pawel Ziem­ilski með áhuga­verða vinkla inn í inn­flytj­enda­um­ræð­una en myndin var frum­sýnd í lok októ­ber í Bíó Para­dís.

Verða að láta raf­ræn sam­skipti nægja

Myndin hefur verið ein­stak­lega vin­sæl á kvik­mynda­há­tíðum víða um heim og hlotið fjölda verð­launa, þar á meðal dóm­nefnd­ar­verð­laun á IDFA, einni virt­ustu heim­ild­ar­mynd­ar­há­tíð í heimi og aðal­verð­launin á Skjald­borg, þar sem dóm­nefndin sagði hana „hríf­andi, úthugs­að, djarft og frum­legt verk.”

In Touch fjallar um fólk frá smá­bænum Stary Juchy í Pól­landi og teng­ingu þeirra við fjöl­skyldu­með­limi sína á Íslandi. Þriðj­ungur íbúa hvarf til starfa á Íslandi og þeir sem eftir eru, flestir af eldri kyn­slóð­inni, halda í von­ina um að börn þeirra og barna­börn snúi einn dag­inn til baka.

Í milli­tíð­inni, verða þau að láta raf­ræn sam­skipti hlýja sér um hjarta­rætur þar sem mörg þús­und kíló­metrar skilja þau að.

For­vit­inn að vita meira

Pawel ZiemilskiPawel Ziem­ilski, leik­stjóri mynd­ar­inn­ar, segir í sam­tali við Kjarn­ann að hug­myndin að henni hafi komið fyrir algjöra til­vilj­un. „Ég vann í litlu þorpi í Norð­aust­ur-Pól­landi þar sem 100 manns búa og stundum heyrði ég fólk tala um að það ætti skyld­menni á Íslandi. Mér þótti það mjög ein­kenni­legt – ég þekkti engan Pól­verja sem bjó á Íslandi á þessum tíma. Ég varð mjög for­vit­inn að vita meira og eftir smá rann­sókn­ar­vinnu fann ég stærra þorp þar sem ég heyrði sögu af íslenskum manni sem árið 1979 hitti pólska stelpu og gift­ist henni tveimur árum seinna. Þá fóru hjólin að snú­ast í þessu litla þorpi, en margir þaðan fóru í fram­hald­inu að flytja til Íslands.“

Hann segir að honum hafi þótt þetta mjög áhuga­vert en til að byrja með hafi honum ekki dottið í hug að gera kvik­mynd um þetta mál­efni.

In Touch
Aðsend mynd

Allt gott orðið til vegna til­vilj­ana

Seinna eftir örlaga­ríkan fund með vini sínum Hauki Hrafns­syni, sem var í raun eini Íslend­ing­ur­inn sem hann þekkti, fóru hjólin að snú­ast. Haukur hringdi í hann nokkrum mán­uðum seinna og stakk upp á því að gera kvik­mynd um mál­efn­ið. Svo varð úr en Haukur er einmitt einn af fram­leið­endum In Touch.

Ziem­ilski segir að honum líki það þegar til­vilj­anir ráði för. „Ég hafði til að mynda enga reynslu varð­andi inn­flytj­enda­mál í Pollandi svo það var ekki endi­lega áhugi fyrir því sem rak mig út í þessa sér­stöku kvik­mynda­gerð. Allt gott sem komið hefur fyrir mig í líf­inu hefur orðið til vegna til­vilj­ana.“

Það tók Ziem­ilski aftur á móti langan tíma að finna sína eigin rödd. „Í langan tíma vissi ég ekki um hvað myndin ætti að fjalla. Af hverju ætti ég að gera þessa mynd? Það er mjög mik­il­vægt í kvik­mynda­gerð að gera sér grein fyrir því. Í byrjun þegar ég var ein­ungis að fjalla um inn­flytj­enda­málin þá fann ég mig ekki en þegar verk­efnið fór að snú­ast um sam­skipti þá varð það að mín­u,“ segir hann.

Ef fólk lærir ekki tungu­málið verður það jað­ar­sett

Frá árinu 1996 hafa flestir erlendir rík­­is­­borg­­ara sem búsettir hafa verið hér á landi verið frá Pól­landi. Þann 1. jan­úar 1996 bjuggu 1.038 ein­stak­l­ingar sem ann­að hvort fædd­ust í Pól­landi eða voru með pólskt rík­­­is­­­fang hér á landi en í ágúst 2019 voru þeir orðnir 20.146. ­Fjöldi Pól­verja hér á landi hefur því rúm­­lega tutt­ugu­fald­ast á 20 árum.

Ziem­ilski segir að Ísland sé stór­feng­legt land fyrir marga Pól­verja. „Ég tel að það sé vegna þess hve Ísland er frjáls­lynt land og að Íslend­ingar gefa Pól­verjum tíma til að aðlag­ast. Aftur á móti held ég að það komi alltaf að þeim tíma­punkti þar sem því ljúki. Það er ef fólk lærir ekki tungu­málið þá verði það jað­ar­sett,“ segir hann.

Rekast á ákveðið gler­þak

„Fyrir flest pólskt fólk er það frá­bært hversu mikil virð­ing er borin fyrir ein­földum störfum en hér í Pól­landi er oft litið niður á þau störf. Launin eru mikið betri á Íslandi en það er erfitt að lifa á launum fyrir sömu störf hér. En þetta snýst ekki ein­ungis um pen­inga, heldur einnig um þessa virð­ingu.

Ég hef aftur á móti heyrt frá pólsku fólki að það hafi síðar meir – eftir að hafa verið um tíma á Íslandi – rek­ist upp í ákveðið gler­þak,“ segir hann.

Þegar Pól­verjar hafi unnið sig upp í fyr­ir­tækjum þá hafi þeir ekki fengið sömu tæki­færi og Íslend­ing­ar. Þá hafi mátt greina ákveðna gremju hjá sum­um.

Í raun að auka fjar­lægð­ina

Aðal­á­hersla heim­ild­ar­mynd­ar­innar eru sam­skipti milli fólks, hvernig fólk tekst á við sam­bönd milli fjar­lægra landa og hvernig það reynir að nota tækn­ina, Skype, Face­book eða síma, til að brúa þetta bil.

„Sú hug­mynd að tæknin færi fólk saman – geri það nán­ara – er slag­orð sem við notum öll. Á vissan hátt kom mér á óvart eftir að hafa gert kvik­mynd­ina að hún gerir það aftur á móti ekki,“ segir Ziem­ilski.

Honum finnst eins og tæknin gefi fólki falska nánd, plati fólk til að halda að það sé að verða nán­ara með því að nota hana. „Að í raun erum við að auka fjar­lægð­ina á milli okk­ar. Þetta er svo skrítið að á vissan hátt má líta á það þannig að tækni­fram­farir þýði ekki fram­farir í sam­skipt­um. Þvert á móti geti það snú­ist upp í and­hverfu sína.“

Falskt frelsi

Ziem­ilski talar um þetta sem ákveðna þver­sögn og seg­ist í raun ekki vita hvort þessi þver­sögn sé svona í raun­inni, þar sem tæknin er enn ný.

Hugs­an­lega taki tíma að aðlag­ast tækn­inni og að ein­hverjum tíma liðnum muni sam­skiptin öðl­ast meiri dýpt í fram­hald­inu. Hann spyr sig í því sam­hengi hvort sam­skipti verði alltaf eins grunn og raun ber vitni í gegnum tækn­ina og hvort ekki verði hægt að nota hana til að skyr­kja sam­bönd í stað­inn.

„Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort við teljum okkur trú um að tæknin lagi sam­skiptin eða hvort tæknin hrein­lega geri það.“ Hann bendir á að ákveð­inn áróður sé rek­inn fyrir því að „við séum frjáls­ari“ með til­komu nýrrar tækni, til að mynda með sam­fé­lags­miðla­notk­un. Hann telur að notkun sam­fé­lags­miðla sé í raun ekki til þess fallin að frelsa fólk.

Deila í raun ekki reynslu

„Fyrst þegar ég hugs­aði um litla þorpið sem „Skype“-þorp þá hlaut svo að vera að sam­skiptin væru áhuga­verð. Hug­myndin um að þau byggðu sam­skipti sín upp í gegnum fjar­búnað á net­inu var spenn­andi en svo kom í ljós að þau deildu í raun ekki sam­eig­in­legra reynslu. Jú, þau deildu mikið af upp­lýs­ingum hvert með öðru en það fór ekki saman við til­finn­inga­lega hugs­un. Það fer heldur ekki saman við að deila reynslu. Að upp­lifa hluti sam­an. Við segjum að þessi sam­skipti hjálpi okkur að deila reynslu en af ein­hverjum ástæðum þá fer þetta ekki sam­an,“ segir hann.

Hann telur að það að vera saman á staðn­um, bara að lík­am­arnir séu á sama stað, leiði af sér allt önnur sam­skipti. Við notum önnur tákn til að koma hugs­unum frá okkur þegar lík­am­inn er til stað­ar. „Þetta kom mér veru­lega á óvart, þetta með sam­eig­in­lega reynslu og sam­skipti í gegnum hana.“

Sem dæmi tek­ur Ziem­ilski ­sam­talið sem hann á við blaða­mann Kjarn­ans en það fór fram í gegnum síma. Ef blaða­maður og við­mæl­andi eru í sama rými skap­ist önnur dýnamík og við­talið verði öðru­vísi en í gegnum síma.

Jú, blaða­maður tekur undir það, enda er alltaf betra að hitta mann­eskj­una í eigin per­sónu. Annað and­rúms­loft skap­ast og ann­ars konar nánd ... það verður annar konar reynsla.

Hvað fram­tíðin ber í skauti sér getur Ziem­ilski lítið um það sagt. „Ég geri mér enga grein fyrir því hvað mun ger­ast varð­andi sam­skipti í fram­tíð­inni með nýrri tækni. Ég kann líka við að vita ekki,“ segir hann að lok­um. For­vitnin reki hann áfram.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiInnlent