Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað meira fylgi en nokkur annar flokkur á kjörtímabilinu og það fylgi virðist að uppistöðu hafa færst yfir til Miðflokksins. Ríkisstjórnin virðist ekki eiga nokkra raunhæfa möguleika á því að fá endurnýjað umboð en helstu stjórnarandstöðuflokkarnir eru líka ansi langt frá því að vera í stöðu til að mynda nýja ríkisstjórn. Við blasir að flokkar á þingi verði áfram að minnsta kosti átta og að það muni þurfa fjóra flokka að lágmarki til að mynda ríkisstjórn sem hefði meirihluta kjósenda á bakvið sig.
Það virðist vera að ef kosið yrði í dag kæmi ein flóknasta stjórnarkreppa sem nokkru sinni hefur opinberast upp úr kjörkössunum, miðað við kosningaætlan landsmanna í síðustu könnun MMR.
Sigurvegararnir og tapararnir
Sá flokkur sem hefur bætt við sig langmestu fylgi frá síðustu kosningum er Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hann hefur nú 5,9 prósentustigum meira fylgi en hann fékk síðast þegar talið var upp úr kjörkössunum. Fylgið hefur því aukist um 54 prósent á kjörtímabilinu.
Viðreisn hefur líka bætt við sig fylgi á síðustu tveimur árum og mælist nú með 9,7 prósent stuðning, sem er þremur prósentustigum meira en flokkurinn fékk í kosningunum 2017. Það er 45 prósent fylgisaukning.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alls tapað 7,1 prósentustigi af fylgi á þeim rúmu tveimur árum sem liðin eru frá síðustu þingkosningum. Enginn einn flokkur hefur tapað meiru fylgi á þeim tíma.
Vinstri græn fylgja þó fast á hæla samstarfsflokks síns með 6,3 prósentustiga fylgistap frá því í október 2017.
Miðjumoðið
Samfylkingin hefur bætt aðeins við sig á kjörtímabilinu þótt sú fylgisaukning sveiflist verulega í könnunum MMR. Nú mælist fylgi hennar 13,2 prósent sem er 1,1 prósentustigi meira en flokkurinn fékk 2017.
Píratar hafa sömuleiðis bætt lítillega við sig, eða 1,6 prósentustigi, frá síðustu kosningum en virðast frekar staðnaðir í kringum tíu prósent markið. Fylgi flokksins mælist nú 10,8 prósent.
Flokkur fólksins mælist svo með 6,3 prósent fylgi sem er mjög svipað og flokkurinn hennar Ingu Sæland fékk 2017 þegar 6,9 prósent atkvæða féllu honum í skaut.
Hin áhugaverðu mynstur
Það virðist blasa við að beint samhengi er á milli aukins fylgis Miðflokksins og fylgishraps Sjálfstæðisflokksins. Þ.e. Miðflokkurinn virðist hafa tekið til sín þorra þeirra 7,1 prósentustiga sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað, eða 83 prósent þess fylgis.
Því virðist nokkuð ljóst að flokkarnir tveir höfði, að minnsta kosti að hluta, til sambærilega hópa sem aðhyllast íhaldssama og þjóðernislega stefnu. Athygli vekur þó að sameiginlegt fylgi Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins nú, 34,9 prósent, er minna en sameiginlegt fylgi þeirra var í kosningunum 2017, þegar þeir fengu samtals 36,1 prósent.
Sameiginlegt fylgi þeirra tveggja er þó meira en sameiginlegt fylgi þeirra flokka stjórnarandstöðunnar sem skilgreina sig sem frjálslynda umbótaflokka: Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar. Þeir þrír flokkar myndu ná til 33,7 prósent kjósenda ef kosið yrði í dag. Það er meira en þeir fengu í síðustu kosningum en minna en þeir hafa oft áður mælst með á þessu kjörtímabili.
Erfitt að sjá ríkisstjórn í kortunum
Ljóst er að sitjandi ríkisstjórn mun eiga afar erfitt með að fá endurnýjað umboð að óbreyttu. Sameiginlegt fylgi flokkanna þriggja sem hana mynda er í lægstu lægðum um þessar mundir. Þeir njóta einungis stuðnings 38,1 prósent kjósenda. Það þýðir að rúmlega fjórði hver kjósandi hefur yfirgefið þá.
Ef litið er framhjá öllum pólitískum ómöguleika, og tekið tillit til þeirra atkvæða sem myndu falla niður dauð, væri líkast til hægt að mynda eina þriggja flokka ríkisstjórn með mjög tæpan meirihluta þingmanna úr stöðunni eins og hún er í dag. Sú ríkisstjórn myndi njóta stuðnings minnihluta landsmanna, 48,1 prósent þeirra, og innihalda þrjá stærstu flokkanna: Sjálfstæðisflokk, Miðflokk og Samfylkingu.
Ef ríkisstjórn ætlaði að byggja á því að meirihluti kjósenda væri á bakvið hana þyrfti hún alltaf að innihalda að minnsta kosti fjóra flokka.