Íbúðalánasjóður getur krafið þau félög sem virðast rekin með arðsemissjónarmið að leiðarljósi, en hafa samt sem áður sóst eftir lánum frá sjóðnum sem eiga að útiloka félög sem rekin eru í hagnaðarskyni, um ýmiskonar gögn er varða starfsemi þeirra.
Verði sjóðurinn var við að lántakar brjóti gegn skilyrðum sem gerð eru til lántakendanna þá getur hann beitt tvenns konar úrræðum gegn þeim sem gerast brotlegir. Annars vegar getur hann gjaldfellt lánin og hins vegar boðað breytingar á lánskjörum. Þetta kemur fram í svörum Íbúðalánasjóðs við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Á meðal annarra þekktra aðila sem hafa nýtt sér umrædd lán til að fjármagna kaup á ýmsum eignum er fjárfestirinn Matthías Imsland. Félag á hans vegum keypti meðal annars eignir í Vestmannaeyjum í fyrra fyrir lán sem ætluð eru óhagnaðardrifnum leigufélögum og í september síðastliðnum keypti hann fjórtán íbúða blokk á Akranesi af Heimavöllum með sömu fjármögnun. Matthías var aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur, þáverandi ráðherra húsnæðismála og þess ráðherra sem Íbúðalánasjóður heyrði undir, þegar reglugerð um þessa tegund lána var sett árið 2013.
Má ekki vera starfsemi rekin í hagnaðarskyni
Reglugerð 1042/2013 snýst um að Íbúðalánasjóður, sem er í eigu ríkisins, veiti lán til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum. Markmið reglugerðarinnar var að „stuðla að framboði á leiguíbúðum fyrir almenning á viðráðanlegum kjörum“.
Reglugerðin setur þau skilyrði að allir sem fái lán undir hatti hennar megi ekki vera reknir í hagnaðarskyni „og úr þeim má hvorki greiða arð né arðsgildi“.
Kjarninn greindi frá því í fyrrasumar að Íbúðalánasjóður hefði þá lánað alls 25 félögum 18,4 milljarða króna á grundvelli reglugerðarinnar. Langstærstur hluti lánanna fór til Heimavalla, sem skráði sig svo á markað með það yfirlýsta markmið að ætla sér að greiða arð. Auk þess höfðu Heimavellir orðið uppvísir að því að greiða umsýslufélagi tengt þáverandi stjórnarmönnum, stjórnendum og nokkrum hluthöfum, alls 480 milljónir króna í þóknanagreiðslur, meðal annars fyrir það sem var kallað „greiningu og framkvæmdir fjárfestinga“.
Eigið fé langt yfir markaðsvirði
Lykilhluthafar Heimavalla reyndu að afskrá félagið fyrr á þessu ári eftir að illa gekk að fá stóra fagfjárfesta á borð við lífeyrissjóði til að fjárfesta í því og eftir að félaginu mistókst að endurfjármagna sig í takti við fyrri áætlanir sem áttu að losa það undan arðgreiðsluhömlum.
Kauphöll Íslands hafnaði þeim tilraunum og þess í stað fóru helstu hluthafar Heimavalla í þá vegferð að selja eignir með það markmið að skila arðinum af þeim til hluthafa.
Markavirði Heimavalla í dag er rétt tæplega 13 milljarðar króna. Eigið fé félagsins, munurinn á skuldum og eignum þess, er hins vegar mun hærri tala eða 19,4 milljarðar króna miðað við síðasta birta uppgjör.
Kjarninn greindi frá því í maí síðastliðnum að samkvæmt verðmati sem Arctica Finance vann í vor, og hluti hluthafa Heimavalla höfðu aðgang að og er kyrfilega merkt trúnaðarmál, hafi komið fram að Arctica Finance hafi metið eignir Heimavalla á mun hærra verði en gert var í birtum reikningum þess. Samkvæmt því mati átti eigið fé Heimavalla að hafa átt að vera 27 milljarðar króna í vor, eða 14 milljörðum krónum meira en markaðsvirði félagsins er í dag.