Skil íslenskra fyrirtækja á ársreikningum sínum til fyrirtækjaskráar hafa batnað mjög á undanförnum árum samhliða því að viðurlög við því að skila þeim ekki á tíma hafa verið hert verulega. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp sem mun veita ársreikningaskrá heimild til að fella niður álagðar stjórnvaldssektir vegna vanskila á ársreikningi á félög sem hefur verið slitið. Þannig verða félög sem eru ekki í neinni eiginlegri starfsemi hreinsuð út af skrá án þess að óuppgerð stjórnvaldssektin vegna vanskila á ársreikningi standi í vegi fyrir slitum.
Enn er málum þó þannig háttað á Íslandi að almenningur, fjölmiðlar og aðrir áhugasamir þurfa að greiða fyrir aðgang að ársreikningum fyrirtækja sem dregur úr getu þeirra til að veita aðhald.
Skil voru óásættanleg
Árið 2007 voru 30.308 félög skilaskyld í landinu og af þeim skiluðu 15,4 prósent ársreikningum fyrir 1. september, sem er síðasti skiladagur ár hvert samkvæmt lögum. Alls skiluðu undir 60 prósent félaga í landinu ársreikningum áður en það ár var liðið sem þýðir að fjögur af hverjum tíu félögum ákváðu frekar að greiða sektir en að skila inn ársreikningum sínum. Sum skiluðu þeim bara alls ekki. Ár eftir ár.
Árið 2015 var staðan orðin umtalsvert betri, en samt ekki nógu góð. Þriðjungur þeirra 35.895 félaga sem áttu að skila inn ársreikningi skiluðu honum inn fyrir lok ágústmánaðar líkt og lög gera ráð fyrir. Heilt yfir skiluðu þó um 85 prósent félaga reikningum inn til ríkisskattstjóra áður en árið 2015 var á enda.
Árið 2016 voru viðurlög við því að skila ársreikningum seint eða alls ekki hert umtalsvert með lagabreytingu. Tilgangurinn var að bæta skil en einnig að sporna gegn kennitöluflakki og auka gagnsæi.
Viðurlögin, stjórnvaldssekt upp á 600 þúsund krónur auk þess sem sem ársreikningaskrá getur krafist skipta á búi þeirra sem ekki fara að lögum um rétt skil, hafa verið notuð. Vegna reikningsársins 2016 sektaði ársreikningaskrá 4.557 félög. Þar af hafa 1.631 félög ekki staðið skil á ársreikningi en eru þó enn skráð í fyrirtækjaskrá, og falla því undir það ákvæði laga sem heimilar slit þeirra.
Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp sem mun veita ársreikningaskrá heimild til að fella niður álagðar stjórnvaldssektir vegna vanskila á ársreikningi á félög sem hefur verið slitið. Þannig verða félög sem eru ekki í neinni eiginlegri starfsemi hreinsuð út af skrá án þess að óuppgerð stjórnvaldssektin vegna vanskila á ársreikningi standi í vegi fyrir slitum.
Gjaldtaka enn hindrun
Það þarf þó að gera fleira til að koma málum sem snúa að ársreikningum í lag. Á síðustu þremur þingum hefur verið lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um ársreikningi og lögum um hlutafélög sem eiga að fela í sér að aðgangur að ársreikningaskrá og hlutafélagaskrá verði gjaldfrjáls.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins hefur ætið verið Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. Meðflutningsmenn hans hafa verið aðrir þingmenn Pírata, Andrés Ingi Jónsson, nú utan flokka, og Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar.
Tilgangur frumvarpsins er að bæta löggjöf sem samþykkt var árið 2017 sem varðaði aukinn aðgang að fyrirtækjaskrá. Í því fólst að almenningur fékk aðgang að fyrirtækjaskrá án gjaldtöku. Sú lagabreyting fól þó ekki í sér að aðgengi að gögnum þeirrar skrár, sem er að finna í hlutafélaga- og ársreikningaskrá, yrði án gjaldtöku. Því skipti lagabreytingin litlu máli fyrir þá sem þurfa að sækja slíkar upplýsingar starfs síns vegna.
Breytingartillögurnar hafa hingað til ekki hlotið afgreiðslu. Litlar sem engar líkur eru á því að það muni nást í gegn áður en yfirstandandi þingi verður slitið.
Hefur aðallega áhrif á tvo aðila
Það að veita almenningi, fjölmiðlum og öðrum áhugasömum aðilum gjaldfrjálsan aðgang að ársreikningaskrá og eftir atvikum öðrum gögnum sem skilað er inn til fyrirtækjaskráar um starfsemi fyrirtækja, myndi aðallega hafa rekstrarleg áhrif á tvo aðila: fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og einkafyrirtækið Creditinfo.
Ríkisskattstjóri sagði að ef fyrirhugaðar lagabreytingar fram að ganga þá væri æskilegt að veitt yrði heimild til að setja reglugerð um afmörkun þeirra upplýsinga sem veita ætti gjaldfrjálst aðgengi að og framkvæmd hins rafræna aðgengis. „Hvort heldur átt er við einstakar uppflettingar almennings eða aðgang fyrirtækja að gagnagrunnum eða afritun einstakra skráa vegna úrvinnslu upplýsinga.“
Taldi ekki óeðlilegt að greitt væri fyrir
Í umsögn ríkisskattstjóra kom fram að 106 milljónir króna af þeim 133,7 milljónum króna sem stofnunin hafði í tekjur af því að selja upplýsingar úr hlutafélaga- og ársreikningaskrá á árinu 2017 hefði komið frá miðlurum. Þ.e. fyrirtækjum sem kaupa upplýsingarnar og endurselja þær til viðskiptavina.
Stærsta fyrirtækið á þeim markaði er Creditinfo. Það skilaði einnig inn umsögn um frumvarpið. Þar sagði m.a. að upplýsingarnar væru fyrst og fremst nýttar af atvinnulífinu. „Kaupendur upplýsinganna eru að langmestu leyti fjármálafyrirtæki, lögmenn, endurskoðendur og aðrir þátttakendur í viðskiptalífinu. Framangreindir aðilar hafa hagsmuni af því að afla upplýsinganna í tengslum við ákvarðanatökur og ekki óeðlilegt að þeir sem nota upplýsingarnar greiði fyrir slíkar upplýsingar með gjöldum sem lögð eru á skv. heimild í lögum, í stað þess að almannafé verði nýtt til að standa straum af kostnaði við rekstur skránna.“
Ekki væri séð að það takmarkaði aðgang almennings að upplýsingum úr framangreindum skrám að greitt væri sanngjarnt gjald fyrir öflun þeirra að mati Creditinfo, enda væri væntanlega í flestum tilfellum um að ræða öflun á einstaka upplýsingum fremur en að þörf sé á öflun viðamikilla skráa. „Það ætti þó helst við í tilfelli fræðimanna en skoða mætti afhendingu gagna til slíkra aðila sérstaklega, sem þá tilgreindu í hvaða tilgangi þörf væri á viðamiklum skrám, hvernig þær yrðu nýttar og hvernig meðferð persónuupplýsinga yrði tryggð. Magnafsláttur í gjaldskrá væri hugsanlegur í slíkum tilfellum.“
Auk þeirra hópa sem Creditinfo nefndi í sinni umsögn eru þó ýmsir aðrir sem sækja slíkar upplýsingar. Meðal annars fjölmiðlar, en í upplýsingum hlutafélaga- og ársreikningaskrár er að finna allar helstu upplýsingar um rekstur og eignarhald fyrirtækja landsins auk upplýsinga um allar breytingar sem verða t.d. í fjármögnun þeirra og stjórnarskipan.
Hulu svipt af raunverulegum eigendum
Auk þeirra breytinga sem ráðist hefur verið í á lagaumhverfi vegna ársreikningaskila tók gildi mjög ný lög í sumar sem setja þær kvaðir á alla lögaðila að upplýsa hverjir raunverulegir eigendur (e. beneficial owner) þeirra eru. Nú þegar þurfa allir sem stofna ný félög að gera grein fyrir því og stefnt er að því að allir sem skráðir eru hjá fyrirtækjaskrá verði að gera grein fyrir því hver raunverulegur eigandi þeirra er fyrir 1. mars 2020. Lagabreytingin er liður í auknum vörnum Íslands gegn peningaþvætti, en Ísland var sem kunnugt er sett á svokallaðan gráan lista alþjóðlegu samtakana FATF vegna ónógra slíkra varna fyrr á þessu ári.
Þessi breyting, sem er risastórt gagnsæisskref, tengist eðlilega þeim breytingum sem þrýst hefur verið á um gjaldfrjálst aðgengi að ársreikninga- og fyrirtækjaskrá. Fjölmiðlar, og eftir atvikum aðrir sem þurfa að nálgast upplýsingar um hverjir eigi í raun fyrirtæki sem hafa getað falið eignarhald sitt fram til þessa, munu leika lykilhlutverk í að veita það aðhald sem þarf til þess að allar framangreindar lagabreytingar þjóni tilgangi sínum.