Þrír flokkar í stjórnarandstöðu, sem hafa unnið nokkuð náið saman á þessu kjörtímabili, skilgreina sig sem frjálslynda og eru með margar sambærilegar áherslur í sínum stefnum, mælast með samanlagt 47 prósent fylgi í könnun Maskínu. Þetta eru Samfylkingin, sem mælist með 19 prósent fylgi, og Viðreisn og Píratar, sem mælast báðir með 14 prósent stuðning.
Yrði þetta niðurstaða kosninga þá myndu þessir flokkar bæta samanlagt við sig 19 prósentustigum frá síðustu kosningum. Sameiginlega fylgi Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata mælist hins vegar einu prósentustigi minna en það gerði í könnun Maskínu sem birt var í byrjun desember 2018, þegar fylgið mældist 48 prósent.
Ekki gert ráð fyrir Sósíalistaflokknum
Ein skýringin er sú að Maskína virðist einungis spyrja um stuðning við þá átta flokka sem nú þegar eiga fulltrúa á Alþingi. Samanlagt fylgi þeirra í könnun fyrirtækisins mælist 99,9 prósent.
Í könnunum bæði Gallup og MMR hefur Sósíalistaflokkur Íslands hins vegar verið að mælast með fylgi sem gæti vel skilað honum mönnum inn á þing.Í nýjustu könnun MMR mældist sá flokkur til að mynda með meira fylgi en nokkru sinni áður, eða 5,2 prósent, og hjá Gallup mælist fylgið um þrjú prósent.
Sósíalistaflokkurinn náði manni inn í borgarstjóri Reykjavíkur árið 2018 í einu kosningunum sem flokkurinn hefur nokkru sinni tekið þátt í. Þá fékk hann 6,4 prósent atkvæða og Sanna Magdalena Mörtudóttir tók sæti í borgarstjórn fyrir hans hönd í kjölfarið.
Mikill munur á stöðu stjórnarflokka
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír, Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa allir mælst með sameiginlega mun minna fylgi í reglulegum könnunum síðustu misserin en þeir fengu þegar talið var upp úr kjörkössunum haustið 2017. Þá fengu þeir 52,8 prósent atkvæða en í nýjustu könnunum MMR og Gallup hefur það sameiginlega fylgi annars vegar mælst 38,6 prósent og hins vegar 43,1 prósent. Hvorugt myndi duga til að tryggja ríkisstjórninni áframhaldandi setu.
Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna mælist mjög svipað hjá Maskínu og það gerir hjá MMR, eða 36,7 prósent. Munurinn er vel innan skekkjumarka. Fylgi stjórnarflokkanna hefur hríðfallið frá því að könnun Maskínu sem gerð var í byrjun desember 2018 var birt, en þá mældist það 43 prósent.
Í nýjustu könnun Maskínu mælist fylgi Miðflokksins 12,1 prósent sem er svipað og það mældist hjá Gallup í desember (12,9 prósent), en heldur lægra en það mældist hjá MMR (14,3 prósent).
Ef kosið yrði í dag myndi Flokkur fólksins, samkvæmt nýjustu könnun Maskínu, verða eini flokkurinn sem á fulltrúa á þingi í dag sem myndi líklega ekki ná inn kjördæmakjörnum þingmanni, en fylgi hans mældist 4,1 prósent.
Maskína gerði könnun sína daganna 12. til 20 desember og um sextíu prósent af 914 svarendum tóku afstöðu til spurningarinnar: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“.