Neytendastofa hefur birt ákvörðun þess efnis að Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), tveir stærstu lífeyrissjóðir landsins, hafi ekki mátt breyta því hvernig verðtryggðir breytilegir vextir hluta húsnæðislána sjóðsfélaga þeirra voru reiknaðir út. Það hafi verið í andstöðu við ákvæði eldri laga um neytendalán.
Alls hefur ákvörðun Neytendastofu áhrif á öll lán með verðtryggða breytilega vexti sem gefin voru út frá ársbyrjun 2001 til apríl 2017 og varðar vaxtagreiðslur frá maí 2019. Um er að ræða átta prósent af öllum sjóðsfélagslánum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna en ekki liggur enn fyrir hversu mikil áhrifin eru á LSR.
Í frétt á vef Lífeyrissjóðs verzlunarmanna segir að gert sé ráð fyrir því, með fyrirvara um nánari skoðun, kostnaður sjóðsins vegna þessa sé innan við 30 milljónir króna, eða að meðaltali um tíu þúsund krónur á hvert lán.
Breyttu því hvernig vextir voru ákveðnir
Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna tók þá ákvörðun 24. maí síðastliðinn að hækka vexti á breytilegum verðtryggðum húsnæðislánum úr 2,06 prósent í 2,26 prósent frá og með ágústbyrjun 2019. Samhliða var ákveðið að hætta að að láta ávöxtunarkröfu ákveðins skuldabréfaflokks stýra því hverjir vextirnir eru og í stað þess myndi stjórn sjóðsins ákveða þá.
Í frétt sem birtist á vef Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna í dag segir að stjórnin miði við „ávöxtunarkröfu virks flokks verðtryggðra ríkisskuldabréfa að viðbættu álagi sem samanstendur af álagi með tilliti til sértryggðra skuldabréfa, seljanleikaálags, uppgreiðsluálags og umsýsluálags“ við ákvörðun vaxta nú.
Stjórn LSR tilkynnti um breytingar á vaxtaendurskoðun 31. maí 2019 og að vextir á verðtryggðum breytilegum lánum yrðu 2,20 prósent frá 1. júní sama ár.
Töldu breytingarnar ekki standast
Einhverjir sjóðsfélagar töldu þetta illa standast og sendu ábendingar til Neytendastofu.
Hún komst svo að þeirri niðurstöðu þann 19. desember 2019 að Lífeyrissjóður verzlunarmanna og LSR hefðu brotið gegn ákvæðum tveggja eldri lagabálka, frá 1994 og 2013, um neytendalán með „ófullnægjandi upplýsingum í skilmálum um það við hvaða aðstæður vextir breytist eða skilyrði við breytingu á vöxtum, eftir því sem við á.“ Ákvarðanir Neytendastofu voru hins vegar fyrst birtar í dag, 6. janúar.
Í ákvörðununum tveimur segir enn fremur samhljóða: „Neytendastofa telur að breytingar sem gerðar hafa verið á vöxtum lánanna frá útgáfu skuldabréfanna hafi, heilt yfir, verið til hagsbóta fyrir neytendur enda hafa vextir lækkað verulega á gildistímanum. Í ljósi þessara kringumstæðna telur Neytendastofa að eins og hér stendur sérstaklega á verði stofnunin að ákveða aðgerðir vegna brotsins ekki eingöngu með hliðsjón af meðalhófs- og jafnræðisreglu stjórnslislulaga heldur einnig hagsmunum neytenda. Með tilliti til þessa og í ljósi skyringa og afstöðu lífeyrissjóðsins, telur Neytendastofa eins og málum er hér háttað ekki tilefni til frekari aðgerða t.d. með almennu banni eða fyrirmælum. Eftir stendur að hver neytandi getur leitað úrlausnar vegna skilmála í hans samningi, eins og tilefni er til, hjá lífeyrissjóðnum og, eftir atvikum, til sjálfstæðrar úrskurðanefndar eða dómstóla sem tekið getur á einkaréttarlegri kröfu vegna brots.“
Hafði afdrifaríkar afleiðingar
Ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna um að hækka vextina á verðtryggðu lánunum hafði afdrifaríkar afleiðingar innan stjórnar sjóðsins. Stjórn VR, sem tilnefnir helming stjórnarmanna í sjóðnum, ákvað að leggja fram tillögu í fulltrúaráði VR um að afturkalla umboð allra stjórnarmanna í lífeyrissjóðnum. Ástæðan var sögð algjör trúnaðarbrestur milli stjórnarmanna sem VR skipar og stjórnar félagsins vegna ákvörðunar sjóðsins um að hækka breytilega verðtryggða vexti sem sjóðsfélögum bjóðast til húsnæðiskaupa um tæp tíu prósent.
Eftir umtalsverða rekistefnu tóku nýir stjórnarmenn á vegum VR sæti í stjórn sjóðsins í lok ágúst síðastliðins. Síðan þá hafa vextirnir sem ollu stjórnarskiptunum, á breytilegum verðtryggðum lánum, hins vegar ekki haggast.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir á Facebook-síðu sinni í dag að Fjármálaeftirlitið hafi átt að taka á málunum með sama hætti og Neytendastofa gerði í stað þess að hlutast til um aðgerðir stjórnar VR um að skipta úr stjórnarmönnum sínum í stjórn lífeyrissjóðsins. „Það hafa löngum verið vinnubrögð og viðhorf lífeyrissjóðanna að breiða yfir og gera lítið úr málum ef það kemur stjórnendum eða ímynd sjóðanna illa. Ég fer fram á afsökunarbeiðni frá FME og Lífeyrissjóði Verslunarmanna til formanns og stjórnar VR vegna málsins.“
Þá liggur það fyrir að Lífeyrissjóður Verslunarmanna braut lög samkvæmt úrskurði Neytendastofu um þá ákvörðun sjóðsins...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Monday, January 6, 2020
Kominn út fyrir þolmörk
Í október greindi Kjarninn frá því að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði breytt lánareglum sínum þannig að skilyrði fyrir lántöku voru þrengd mjög og hámarksfjárhæð láns var lækkuð um tíu milljónir króna. Hámarkslán er nú 40 milljónir króna. Þá ákvað sjóðurinn að hætta að lána nýjum lántakendum verðtryggð lán á breytilegum vöxtum.