Tillaga um rammaáætlun verður lögð fram í óbreyttri mynd
Þrettán virkjanakostir í orkunýtingar- og biðflokki tillögunnar myndu falla innan marka fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs. Heimila á nýjar virkjanir innan hans en með strangari skilyrðum. „Klárlega málamiðlun,“ segir umhverfisráðherra.
Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, þriðji áfangi rammaáætlunar, verður lögð fram á Alþingi í febrúar. Um óbreytta tillögu er að ræða frá því að hún var fyrst lögð fram af Sigrúnu Magnúsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra, þingveturinn 2015-2016 og síðar af Björt Ólafsdóttur 2016-2017.
Í tillögunni eru samtals þrettán virkjanakostir í orkunýtingarflokki og biðflokki sem falla innan marka fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs. Í drögum að frumvarpi um garðinn, sem nú eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, er lagt til að innan hans verði leyfðar þær virkjanir sem verði í nýtingaflokki 3. áfanga rammaáætlunar. Áfram yrði svo opið fyrir þann möguleika að virkjanir í biðflokki færist yfir í orkunýtingarflokk og komi þar með til framkvæmda síðar meir. Í báðum tilvikum yrðu skilyrði fyrir nýjum virkjunum innan garðsins þó strangari en þau eru almennt í dag.
„Þetta náttúrlega passar ekki saman,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, í samtali við Kjarnann. „Það er vart hægt að vera með starfsemi innan þjóðgarðs, eins og hann er skilgreindur í okkar náttúruverndarlögum, sem þjónar ekki markmiðum hans. Ef markmið hans er vernd náttúru þá gefur auga leið að ekki er hægt að vera með risastór ný mannvirki innan hans marka.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, var framkvæmdastjóri Landverndar er hún gaf álit sitt á tillögunni árið 2017. Þar var lögð sérstök áhersla á að allar virkjunarhugmyndir á miðhálendi Íslands færu í verndarflokk og þar yrði stofnaður þjóðgarður.
Í samtali við Kjarnann nú segir hann að „klárlega“ sé um málamiðlun að ræða. „Ef að ég réði einn þá myndi ég kjósa að það yrði ekki um frekari virkjanir inni á miðhálendinu. Það eru líka margir sem myndu vilja virkja margt af því sem þarna er lagt til að verði verndað, eins og Skjálfandafljót, Jökulsárnar í Skagafirði og Skaftá. Ég er í þeirri stöðu núna að bera ábyrgð á því að reyna að klára þessa rammaáætlun og ég tek þá ábyrgð mjög alvarlega. Ekki síst vegna þess að ég held að náttúruverndin sé betur stödd ef að við stöndum vörð um ferli rammaáætlunar til að komast að niðurstöðu um þessi mál.“
Nokkrir nýir virkjanakostir
Í þingsályktunartillögunni, sem nú verður lögð fram í þriðja sinn, er lagt til að setja nokkra nýja virkjanakosti í nýtingarflokk, m.a. Austurgilsvirkjun á Vestfjörðum og Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun í Þjórsá.
„Í þessari tillögu er svo Skrokkalda í nýtingarflokki, svæði sem er akkúrat í miðju Íslands,“ bendir Auður á. Hún segir að sú virkjun „yrði hræðilegt sár“ í landinu. Skrokkölduvirkjun, sem Landsvirkjun hefur hug á að reisa, yrði á Sprengisandi, mitt á milli Hofsjökuls og Vatnajökuls.
Í rökstuðningi í tillögunni um að setja hana í nýtingarflokk segir m.a. að hún yrði á miðhálendinu „en þar sem nú þegar er búið að gera miðlunarlón (Hágöngulón), stíflur og tilraunaborholur er ekki lengur um óraskað svæði að ræða“. Mannvirki virkjunarinnar yrðu að mestu neðanjarðar og því lítt sýnileg, að frátöldu hlaðhúsi, spenni og 1 km löngum skurði vestan við núverandi Sprengisandsleið. Þá segir í greinargerð virkjunaraðila að raforkan yrði flutt með jarðstreng.
Hvað tillögur að verndun svæða varðar segir Auður að vissulega séu stórir sigrar að nást í náttúruvernd. „Í Skjálfandafljóti eru til dæmis Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafoss sem eru gífurlega fallegir og myndu samkvæmt þessu njóta verndar fyrir virkjanahugmyndum sem uppi hafa verið.“
Standa beri vörð um rammaáætlun
„Ég tel það gríðarlega mikilvægt að við stöndum vörð um rammaáætlunina sem stjórntæki,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við Kjarnann.
„Það er ekki æskilegt að mínu mati að hún leysist í sundur og við förum aftur að nálgast virkjanamál með þeim hætti að það þurfi að takast á við eina og eina virkjun í einu. Það væri ekki gott fyrir neinn. Það er betra að hafa einhvern fyrirsjáanleika. Auðvitað munum við alltaf deila um ákveðnar hugmyndir, hvort sem þær lenda í nýtingarflokki eða verndarflokki. En ég tel það mikilvægt að klára þetta mál. Ég hef því ákveðið að leggja tillöguna fram á þingi í samræmi við niðurstöðu verkefnastjórnarinnar á sínum tíma.“
Hvað er rammaáætlun?
Á heimasíðu rammaáætlunar segir: Í náttúru Íslands er margs konar auð að finna. Má þar nefna óbyggð víðerni, jarðhita og vatnsmiklar ár, eldfjöll og sandauðnir, skóga og gróskumikil votlendi, vind, veðurofsa og þögn. Ásókn í þessar auðlindir af hálfu ýmissa hópa er mikil og vaxandi. Oft skarast hagsmunir þessara hópa og hefur það leitt til ágreinings um nýtingu landsins.
Rammaáætlun er verkfæri til að greiða úr þessum ágreiningi, og jafnframt samheiti yfir ákveðin lög, ferli og aðferðafræði sem hafa þróast samstíga gegnum tíðina til þess að leysa þetta verkefni á sem farsælastan hátt.
Spurður hvort að honum finnist rammaáætlun þá gott stjórntæki segist hann alltaf hafa sagt að hún væri mikilvægt stjórntæki sem flokki virkjanakosti eftir ákveðnum forsendum. „En hún er ekki gallalaus,“ segir hann og bendir á að hið umtalaða 10 MW viðmið sé t.d. eitthvað sem hann vilji endurskoða. Stærð virkjunar segi langt frá því alla söguna um umhverfisáhrif hverrar framkvæmdar fyrir sig. Virkjunum rétt undir 10 MW, sem þá þurfa ekki að fara í gegnum ferli rammaáætlunar, hefur fjölgað síðustu ár.
Hann segist ekki sannfærður um að stærðarviðmið sé heppilegasta leiðin. „Einhver ein tala, um ákveðið mörg megawött, er það endilega rétti mælikvarðinn? Ég tel að það séu frekar áhrifin sjálf sem skipti mestu. Við þurfum að skoða það með opnum huga að finna betra fyrirkomulag.“
Lína dregin í sandinn
Hvernig rímar það við hugmyndir þínar um Hálendisþjóðgarð að yfir tugur virkjanakosta í nýtingar-eða biðflokki samkvæmt tillögunni séu innan marka hans?
„Í drögunum að frumvarpi um hálendisþjóðgarð er ákveðin stefna lögð til fyrir virkjanakosti innan hálendisþjóðgarðs. Við erum með þessar leikreglur sem rammaáætlunin er og Alþingi hefur sett. Við erum samkvæmt henni að flokka í nýtingu og vernd og svo í bið þær hugmyndir sem við þurfum frekari upplýsingar um. Við þurfum hins vegar þegar um þjóðgarð er að ræða að draga einhverja línu í sandinn. Við getum ekki til framtíðar litið alltaf verið að skoða nýja virkjanakosti innan þessa svæðis. Þess vegna er í frumvarpsdrögunum gert ráð fyrir því að lína verði dregin í sandinn við þennan 3. áfanga rammaáætlunar sem verður lagður fram á þingi nú í febrúar ásamt frumvarpinu um hálendisþjóðgarðinn.“
Samkvæmt frumvarpsdrögunum verður heimilt að ráðast í þær virkjanahugmyndir sem falla munu í nýtingarflokk í 3. áfanga nú að undangengnu mati á umhverfisáhrifum og lögbundnum leyfisveitingum. „Þó með þeim formerkjum að þær virkjanir hafi lágmarks rask í för með sér og lágmarks sýnileika á yfirborði.“ Skrokkölduvirkjun er eini nýi virkjanakosturinn innan marka fyrirhugaðs þjóðgarðs sem er í nýtingarflokki samkvæmt tillögunni.
Að sama skapi verður samkvæmt drögunum leyfilegt að þær hugmyndir sem enda í biðflokki nú geti verkefnastjórn tekið til skoðunar í næstu áætlunum sínum. „En vegna þess að við erum innan þjóðgarðs þá gildi um þær strangari skilyrði en nú er.“ Líta þurfi m.a. til þess hvort virkjanakostur er á röskuðu eða óröskuðu svæði. „Síðan verður ekki hægt að koma fram með nýjar tillögur innan þessa svæðis.“
Málamiðlun að sögn ráðherrans
Guðmundur Ingi segir að þingsályktunartillagan sé „klárlega málamiðlun“ enda séu mjög skiptar skoðanir um virkjanamál og náttúruvernd í samfélaginu. „En þarna værum við að búa til ferli og kerfi sem mun veita meiri vernd heldur en að er í dag.“
Þingsályktunartillagan um verndun og nýtingu landsvæða verður lögð fram á þinginu í febrúar. Í þeim mánuði er einnig stefnt á að leggja fram frumvarp um hálendisþjóðgarð. Umsagnafrestur um drög þess frumvarps er til 15. janúar.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Skipulagsstofnun dregur fram kosti Miðleiðar að Fjarðarheiðargöngum
-
30. desember 2022Áskorun til þingmanna: Takið þátt í Veganúar!
-
30. desember 2022Árið sem Íslendingar hentu minna af fötum en kínverskur tískurisi hristi upp í hlutunum
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
29. desember 2022Vindmyllur við Lagarfoss þurfa í umhverfismat
-
28. desember 2022Vilja nota kopar á kvíar í Arnarfirði – eitrað og jafnvel skaðlegt segir Hafró
-
26. desember 2022Framtíðin er núna