„Stærstu einstöku efnahagsaðgerðir sögunnar“
Aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar felst aðallega í að Seðlabankinn geti veitt ábyrgðir fyrir lánum til fyrirtækja upp á tugi milljarða króna, heimila frestun á greiðslum opinberra gjalda, afnema gisináttaskatt, lækka bankaskatt og greiða út barnabótaauka. Þá á að leyfa fólki að nota séreignarsparnað sinn. Aðgerðarpakkinn er metinn á 230 milljarða króna.
Þetta eru stærstu einstöku efnahagsaðgerðir sögunnar,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, þegar formenn ríkisstjórnarflokkanna kynntu aðgerðarpakka fyrir atvinnulíf og heimili í landinu vegna efnahagsáhrifa kórónuveirunnar.
Hann sagði okkur standa frammi fyrir tvíþættri áskorun, heilbrigðisvá og efnahagsvanda. „Til þess að takast á við þessa tvíþættu áskorun þarf að vinna saman. Þær aðgerðir sem við kynnum hér í dag miða fyrst og fremst að því að verja störf fólks og tryggja þannig afkomu heimilanna.“ Það væri betra að gera of mikið en að gera of mikið. Umfang aðgerðanna eru metin á 230 milljarða króna og Bjarni sagði að þetta væru aðgerðir án hliðstæðu. Af þeirri upphæð eru í kringum 60 milljarðar króna bein innspýting úr ríkissjóði.
Ein helsta aðgerðin er að veita fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja. Þetta verður gert þannig að ríkis semur við Seðlabanka Íslands um að færa lánastofnunum aukin úrræði til að veita viðbótarfyrirgreiðslu til fyrirtækja, í formi brúarlána, sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna yfirstandandi aðstæðna. Seðlabankinn mun þannig veita ábyrgðir til lánastofnana sem þær nýta til að veita viðbótarlán upp að um 70 milljarða króna. Aðalviðskiptabankar fyrirtækja munu veita þessa fyrirgreiðslu og aðgerðin er í heild metin á um 80 milljarða króna að teknu tilliti til aukinnar útlánagetu banka vegna lækkunar á bankaskatti, sem mun aukast um tæplega 11 milljarða króna. Hún kemur til viðbótar við svigrúmið sem Seðlabankinn hefur þegar gefið, sem nemur um 350 milljörðum með lækkum sveiflujöfnunaraukans síðastliðinn miðvikudag.
Aðgerðarpakkinn samanstendur að tveimur frumvörpum sem koma inn í þingið í dag. Annað er svokallaður bandormur en hitt er fjáraukalagafrumvarp.
Fresta gjalddögum og greiða út barnabótaauka
Í fyrra frumvarpinu, sem ber nafnið „frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru“, eru lagðar til nokkrar aðgerðir.
Sú fyrsta er að fresta gjalddaga staðgreiðslu og tryggingargjalds á tímabilinu 1. apríl til 1. desember ef fyrirtæki getur mætt ákveðnum skilyrðum. Þau eru að um minnsta kosti þriðjungs samdrátt sé um að ræða í rekstrartekjum fyrirtækis yfir heilan mánuð samanborið við sama mánuð árið 2019, að tekjufallið hafi leitt af sér rekstrarörðugleika (einkum horft til stöðu eigin fjár og lausafjárstöðu) og að rekstrarörðugleikarnir séu tímabundnir og því hafi hafi ekki verið til staðar varanlegur fjárhagsvandi áður en til tekjufallsins kom.
Miðað við ákveðnar forsendur um nýtingu er áætlað að þessi aðgerð geti frestað greiðslu á tekjum ríkissjóðs og sveitarfélaga um 33 til 100 milljarða króna á tímabilinu. Hlutföllin verða þannig að 57 prósent höggsins lendir á ríkissjóði en 43 prósent á sveitarstjórnum.
Þá fær fjármála- og efnahagsáðherra heimild til að fella niður eða lækka fyrirframgreiðslu á tekjuskatti atvinnurekstrar vegna síðasta árs fram í lok október.
Greiddur verður út sérstakur barnabótaauki upp á 40 þúsund krónur fyrir hvert barn sem foreldri eða foreldrar sem eru með undir 11,1 milljón krónur í sameiginlegar tekjur, og 20 þúsund krónur til þeirra sem eru með tekjur yfir þeim mörkum.
Tollafgreiðslugjald verður niðurfellt sem mun kosta Skattinn um 600 milljónir króna í tekjur á árunum 2020 og 2021. Í fimmta lagi á að fjölga gjalddögum aðflutningsgjalda.
Heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt til byggjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis verður útvíkkuð og nú verður heimild sett inn um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna heimilisaðstoðar. Þetta mun gera þeim sem kaupa slíka þjónustu geti fengið 100 prósent virðisaukaskatt endurgreiddan. Í sjöunda lagi verður sett inn heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt til mannúðar- og líknafélaga, íþróttafélaga og björgunarsveita, landssamtaka björgunarsveita og slysavarnadeilda vegna byggingar, endurbóta og viðhalds á mannvirkjum.
Gistináttaskattur afnumin og opnað á nýtingu séreignar
Tillaga átta miðar að því að afnema gistináttaskatt tímabundið, eða út næsta ár. Ríkið verður af tæplega 1,6 milljarða króna á næsta tveimur árum vegna þessa, út frá einhverjum forsendum sem eru ekki gefnar upp í skjölunum sem lýsa frumvarpinu.
Í níunda lagi verður úttekt séreignasparnaði upp að tólf milljónum króna út þetta ár. Sú heimild gerir einstaklingum því kleift að ganga á eigin sparnað, en margir gera það nú þegar og nýta skattfrjálst til að greiða niður húsnæðislán sín.
Bankaskattur verður lækkaður hraðar en áður var áætlað, og fer niður í 0,145 prósent strax á næsta ári. Þetta mun hafa neikvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs upp á 10,6 milljarða króna.
Sveitarfélög fá líka heimild til að víkja tímabundið frá fjármálareglum sínum. Þeim verður líka veitt heimild til að fresta gjalddögum fasteignagjalda hjá fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi.
Í fjáraukafrumvarpinu verður fjármála- og efnahagsráðherra veitt heimild til að ráðast í tímabundið fjárfestingaátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu með „arðbærum fjárfestingum sem auka eftirspurn eftir vinnuafli“. Hann mun líka fá heimild til að auka hlutafé í opinberum hlutafélögum í því skyni að auka fjárfestingagetu þeirra. Það gæti til að mynda átt við orkufyrirtæki eða Isavia. Íslandsstofu verður gert kleift að ráðstafa 1,5 milljarði króna í markaðsátak til stuðnings íslenskrar ferðaþjónustu. Þá munu allir landsmenn fá stafrænt gjafabréf til að ferðast innanlands, og áætluð áhrif þess eru 1,5 milljarðar króna.
Ríkissjóður fær líka auknar lántökuheimildir til að fjármagna aðgerðirnar.
Kemur til viðbótar við hlutabætur
Þegar er búið að samþykkja lög um hlutabætur sem greiddar verða tímabundið úr Atvinnuleysistryggingasjóði, og hefur það markmið að viðhalda ráðningarsambandi hjá fyrirtækjum sem eru nú með litlar eða engar tekjur. Samkvæmt því mun Atvinnuleysistryggingasjóður greiða frá 25 prósent og allt að 75 prósent af launum þeirra sem gera slíka samninga.
Aðrar lykilbreytur eru að hámark á heildartekjum þeirra sem gera samninga er 700 þúsund krónur og hver og einn getur fengið allt að 90 prósent af núverandi heildarlaunum upp að því þaki. Þá verður launalægsta hópnum tryggð full afkoma og þeir sem eru með laun undir 400 þúsund krónum á mánuði munu geta fengið þau að öllu leyti áfram, þrátt fyrir samninginn. Þetta úrræði mun verða í gildi til 1. júní.
Kostnaður ríkissjóðs vegna hlutabótalaganna ræðst á því hversu margir muni nýta sér úrræðið. Ásmundur Einar sagði í fréttum Stöðvar 2 á fimmtudag að „það fjármagn sem fer í þetta [fer] mjög mikið upp og má gera ráð fyrir því að það verði á bilinu tólf til tuttugu milljarðar, eftir því hversu margir nýta sér úrræðið.“Miðað við kostnaðarmat ráðuneytisins, sem Kjarninn hefur undir höndum, þá var Ásmundur Einar þar að gefa sér að á bilinu 20 til 30 þúsund landsmenn myndu gera samninga um skert starfshlutfall og nýta sér greiðslur úr Atvinnutryggingasjóði á móti. Þá myndu greiðslur, á ofangreindum forsendum, verða 12,8 til 19,2 milljarðar króna.
Verði bjartsýnasta sviðsmynd ráðuneytisins að veruleika, sem gerir ráð fyrir að fimm þúsund manns sækist eftir hlutabótum, mun kostnaðurinn hins vegar verða mun lægri, eða 3,2 milljarðar króna yfir umrætt tveggja og hálfs mánaðar tímabil. Verði sú svartasta raunin munu 50 þúsund manns leita eftir samningum við vinnuveitendur um að fá hluta launa sinna greidda úr Atvinnuleysistryggingasjóði á næstu mánuðum. Samtals mun kostnaðurinn, frá 15. mars til 31. maí, þá nema 32 milljörðum króna.
Aðgerðir Seðlabankans þegar kynntar
Fjármálastöðugleikanefnd og peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákváðu á miðvikudag að grípa til frekari aðgerða vegna efnahagslegra áhrif af útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Vextir voru lækkaðir í annað sinn á skömmum tíma og nú niður í 1,75 prósent, eða um 0,5 prósentustig. Það þýðir að stýrivextir hafa því lækkað um 2,75 prósentustig frá því í maí síðastliðnum þegar yfirstandandi vaxtalækkunarferli hófst.
Auk þess ákvað fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákveðið að aflétta tveggja prósenta kröfu um sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki og verður hann því núll prósent.
Þetta losar um 350 milljarða króna fyrir viðskiptabankana til að lána til viðskiptavina sinna.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði