Heimsmarkaðsverð á olíu ekki lægra síðan 2002 – Verð á lítra hér lækkað um nokkrar krónur
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur verið í frjálsu falli á síðustu vikum. Frá áramótum hefur það lækkað um 68 prósent. Á Íslandi hefur viðmiðunarverð á seldum bensínlítra lækkað um 3,4 prósent frá því um miðjan janúar. Á móti hefur krónan fallið um 15,5 prósent gagnvart dal, en viðskipti með eldsneyti fara fram í þeim gjaldmiðli.
Heimsmarkaðsverð á Brent hráolíu féll í gær um tíma niður fyrir 22 dali á tunnu, en enda daginn í 22,15 dölum á tunnu. Þann 21. febrúar síðastliðinn var það 58,5 dalir og hefur því lækkað um 62 prósent á rúmum mánuði.
Þegar miðað er við stöðuna í byrjun árs, þegar tunnan kostaði 68,6 dali, þá hefur verðið lækkað um rúmlega tvo þriðju.
Verðið á Brent hráolíu hefur ekki verið lægra frá árinu 2002. Verð á hráolíu í Bandaríkjunum er komið vel undir 20 dali á tunnu og greinendur virðast flestir sammála um að lækkunarhrinan sé ekki yfirstaðin. Hún muni halda áfram í apríl.
Ástæðan fyrir þessum miklu lækkum eru tvíþættar. Sú fyrri er miklu minni eftirspurn, meðal annars vegna þess að flugferðir hafa að mestu verið aflagðar. Raunar er um að ræða mesta samdrátt í eftirspurn á olíu sem átt hefur sér stað, nokkru sinni.
Hin ástæðan er ákvörðun Sádí-Arabíu, stærsta olíuframleiðanda í heimi, í byrjun mánaðar að stórauka framleiðslu sína í stað þess að draga úr henni til að reyna að ná verðum aftur upp. Þetta gerður Sádar til að meðal annars vegna þess að ekki náðist samkomulag við Rússa um að þeir myndu takmarka olíuframleiðslu sína.
Sádí-Arabía getur framleitt olíu fyrir miklu minni tilkostnað en flest önnur ríki og er því í stöðu til að taka á sig slíkan skell í verði. Áhrifin á framleiðslu í Bandaríkjunum, Kanada, Kína og Noregi eru hins vegar mikil, þar sem sársaukamörkin í kostnaði við framleiðslu þar eru mun hærri.
Viðviðunarverð þokast hægt niður á við hérlendis
Þessi gríðarlega lækkun hefur sannarlega ekki skilað sér í eldsneytisverð á Íslandi enn sem komið er. Viðmiðunarverð á bensíni hefur lækkað um 3,4 prósent frá miðjum janúar 2020 og fram í miðjan yfirstandandi marsmánuð. Viðmiðunarverðið var 217,1 krónur á lítra í janúar en var 209,8 krónur á lítra 15. mars síðastliðinn.
Þetta má sjá í nýlega birtri Bensínvakt Kjarnans sem unnin er í samvinnu við Bensínverð.is.
Bensínverð var á mjög svipuðum slóðum um miðjan janúar og það var á sama tíma fyrir ári, þegar bensínlítrinn kostaði að jafnaði 215,5 krónur. Gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal hækkaði lítillega á árinu 2019, en það gengi hefur umtalsverð áhrif á þróun eldsneytisverðs hérlendis þar sem að innkaup á eldsneyti fara fram í dölum.
Á þessu ári hefur gengi krónunnar fallið hratt, alls um 15,5 prósent, gagnvart dal. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hins vegar fallið um 68 prósent það sem af er ári, líkt og áður var rakið. Hin mikla lækkun á olíuverði skiptir miklu máli í þeirri þróun hérlendis að þótt krónan hafi fallið hratt þá hefur verðbólga ekki látið á sér kræla. Þvert á móti hefur hún hjaðnað.
Algengasta verð lækkað lítið
Þegar horft er á verðþróun hjá hverju fyrirtæki fyrir sig frá því um síðustu áramót þá hefur verðið lækkað langmest hjá Costco. Þar var verðið í byrjun janúar 198,8 krónur á lítra en er nú 180,9 krónur á lítra. Verðið hefur því lækkað um níu prósent.
Næst ódýrasta bensínið er á völdum stöðvum Orkunnar, þar sem það er 193,8 krónur, og á völdum Atlantsolíu og ÓB, þar sem það er 193,9 krónur á lítra.
Dýrast er verðið á ýmsum stöðvum Orkunnar, sérstaklega á landsbyggðinni, þar sem það er 222,6 krónur. Skammt utan kemur algengasta verð hjá N1 og Atlantsolíu, á sumum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu en flestum á landsbyggðinni, þar sem það er 221,9 krónur á lítra.
Algengasta verðið hjá N1, sem rekur flestar eldsneytisstöðvar allra á landinu, hefur lækkað um átta prósent á þessu ári.
Vert er að taka fram að tölurnar um verð hjá hverjum eldsneytissala fyrir sig eru aðeins nýrri en viðmiðunarverðið í Bensínvaktinni og miða við framsett verð 29. mars eins og það er birt í samanburðartöflu á síðunni Aurbjörg.is.
Hlutur ríkisins í hverjum lítra 57,7 prósent
Íslenska ríkið tekur til sín stóran hluta af hverjum seldum lítra af bensíni. Þannig fór 21,02 prósent af verði hans um miðjan mars í sérstakt bensíngjald, 13,4 prósent í almennt bensíngjald og 3,93 prósent í kolefnisgjald. Þá er ótalið að 19,35 prósent söluverðs er virðisaukaskattur.
Samanlagt fór því 121,05 krónur af hverjum seldum lítra til ríkisins, eða 57,7 prósent. Hæstur fór hlutur ríkisins í 60,26 prósent í júlí 2017.
Bensínvakt Kjarnans reiknar einnig út líklegt innkaupsverð á bensíni út frá verði á lítra til afhendingar í New York í upphafi hvers mánaðar frá bandarísku orkustofnuninni EIA og miðgengi dollars gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði frá Seðlabanka Íslands.
Í þessum útreikningum kann að skeika nokkru á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu, skammtímasveiflna á markaði o.s.frv. Nákvæmara væri að miða við verð á bensíni til afhendingar í Rotterdam, en verðupplýsingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagnaveitum. Mismunur á verði í New York og Rotterdam er þó yfirleitt mjög lítill.
Líklegt innkaupsverð í síðustu birtu Bensínvakt var 50,6 krónur á lítra. Um miðjan janúar var það 57 krónur á lítra.
Hlutfall olíufélaga fer lækkandi
Bensínvaktin reiknar loks út hlut olíufélags í hverjum seldum lítra sem afgangsstærð þegar búið er að greina aðra kostnaðarliði, líkt og farið er yfir hér að ofan. Hlutur olíufélaga, þ.e. álagningin sem fer í þeirra vasa, er nú að minnsta kosti 38,85 krónur á hvern seldan bensínlítra. Í maí 2017 fengu olíufélögin, til samanburðar, 41,74 krónur í sinn hlut af hverjum seldum lítra.
Olíufélögin taka nú að minnsta kosti 18,52 prósent af hverjum seldum olíulítra, sem er með því lægra sem þau hafa tekið til sín á undanförnum árum.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði