Um síðustu aldamót réð þrítugur maður, Lars Nørholt að nafni, sig til starfa hjá bókhaldsstofu í Kaupmannahöfn. Hann hafði stundað nám við Viðskiptaháskólann i Kaupmannahöfn, án þess þó að ljúka prófi. Hjá bókhaldsstofunni sinnti hann ýmsum verkefnum, honum líkaði starfið vel, en ætlaði sér ekki að verða einhver eilífðar augnakarl í bókhaldinu, eins og hann sagði síðar í blaðaviðtali.
Meðal þess sem Lars Nørholt hafði á sinni könnu var bókhald hjá litlu innflutningsfyrirtæki. Þetta fyrirtæki flutti inn LED ljósabúnað, en reksturinn gekk brösuglega og fyrirtækið lagði upp laupana árið 2008. Lars Nørholt sagði síðar að hann hefði í upphafi hreint út sagt ekki haft hugmynd um hvað þetta LED væri en hefði komist á snoðir um að það væri „stórt“ í Kína. „Ég komst að því að LED ljósaperur notuðu aðeins brot af orku glóperunnar og voru sagðar endast margfalt lengur. Ég sá að þarna var mitt tækifæri komið.“
Hesalight
Í ársbyrjun 2009 stofnaði Lars Nørholt, ásamt nokkrum öðrum, fyrirtækið Hesalight. Hann var frá upphafi forstjóri fyrirtækisins og potturinn og pannan í rekstrinum. Ætlunin var að kaupa perurnar í Kína en smíða annan búnað í Danmörku. Eftir að hafa kynnt sér nokkra kínverska ljósaframleiðendur náði hann samningum við stórt fyrirtæki þar í landi. Fyrsti viðskiptavinur Hesalight var útibú Superbest fyrirtækisins (síðar Meny) í smábænum Viby skammt frá Hróarskeldu. Þar var ljósabúnaðinum sem fyrir var skipt út fyrir LED búnað. Í stórri verslun eru mörg ljós og verslunarstjórinn, sem fylgdist grannt með orkunotkuninni, sá strax að rafmagnsmælirinn snerist mun hægar en hann gerði með „gömlu“ perunum.
Lars Nørholt lagði frá upphafi áherslu á að ná til fyrirtækja. Það er dýrt að skipta út ljósabúnaði en Lars Nørholt kunni ráð við því. Viðskiptavinum bauðst að borga kostnaðinn við nýju ljósin á löngum tíma, Hesalight kallaði fyrirkomulagið „pay as you save“, borgaðu það sem þú sparar. Sem sé kaupandinn borgaði Hesalight mismuninn á gamla reikningnum og þeim nýja, þangað til kaupverðið væri uppgreitt. Með þessu fyrirkomulagi þarf seljandinn (í þessu tilviki Hesalight) að ráða yfir miklu fjármagni, því tekjurnar koma hægt inn.
Hesalight gott dæmi sagði Helle Thorning-Schmidt
Hesalight naut góðs af því að á upphafsárum fyrirtækisins var mikil umræða um orkusparnað og umhverfismál í Danmörku. Fyrirtæki sem uppfylltu tiltekin skilyrði gátu fengið talsverða styrki, „grænu styrkina“ eins og Danir nefndu það. Í umræðum á danska þinginu, Folketinget, í maí 2013 nefndi Helle Thorning-Schmidt þáverandi forsætisráðherra Danmerkur Hesalight sem dæmi um vel heppnað fyrirtæki sem notið hefði góðs af græna styrknum. Fyrstu árin lifði Hesalight annars að mestu leyti á lánsfé frá Danmarks Eksportkredit, EKF. Sá banki styður við frumkvöðlastarfsemi með ýmsum hætti og aðstoðar við útvegun fjármagns. Þar kom að fyrirgreiðsla EKF dugði ekki, enda urðu samningarnir sem Hesalight gerði sífellt stærri.
Í viðtali við viðskiptablaðið Finans í nóvember 2015 sagði Lars Nørholt að vöxtur fyrirtækisins væri hreint ótrúlegur. Til að afla rekstrarfjár brá Hesalight á það ráð að selja fjárfestingaskuldabréf, samtals að upphæð 562 milljónir danskra króna (tæpir 12 milljarðar íslenskir). Nokkrir lífeyrissjóðir voru meðal kaupenda. Talsmaður eins þeirra sagði síðar að ástæða kaupanna hefði verið að Lars Nørholt hefði greint frá því að mjög stórir samningar væru ,,í pípunum“, meðal annars við kaffihúsakeðjuna Starbucks. Lars Nørholt hefði sýnt pappíra (sem síðar kom í ljós að voru heimatilbúnir) þar sem fram kom að samingurinn við Starbucks væri uppá 49 milljónir evra (7,6 milljarða íslenska).
Fellur á glansmyndina
Í mars árið 2016 birti danska viðskiptablaðið Børsen greinaflokk um Hesalight fyrirtækið. Í fyrstu greininni var sagt frá því að í kynningarefni Hesalight væru stórfyrirtækin Novo Nordisk og Arla meðal viðskiptavina, þau væru „lykilviðskiptavinir“. Í viðtölum við blaðamenn Børsen neituðu talsmenn þessara fyrirtækja að hafa átt nokkur viðskipti við Hesalight. Umfjöllun Børsen vakti mikla athygli og nú fóru fleiri danskir fjölmiðlar að fjalla um Hesalight. Lars Nørholt réð fyrrverandi fjölmiðlaráðgjafa (spindoktor) Anders Fogh Rasmussen, fyrrum forsætisráðherra, til starfa en það breytti engu. Umfjöllun fjölmiðla hélt áfram og sífellt kom fleira misjafnt í ljós.
Glansmyndin hrökk í sundur
Eftirlitsstofnun danska atvinnuvegaráðuneytisins tók Hesalight til sérstakrar skoðunar í maí 2016. Sú skoðun leiddi í ljós að hjá fyrirtækinu var síður en svo allt í lagi. Vægast sagt. Lífeyrissjóðirnir sem keypt höfðu skuldabréfin fyrrnefndu kröfðust þess að fá peninga sína til baka. 18. nóvember 2016 var Hesalight lýst gjaldþrota.
Rannsókn og réttarhöld
Umfangsmikil rannsókn dönsku lögreglunnar leiddi margt athyglisvert í ljós. Í stuttu máli sagt stóð ekki steinn yfir steini í rekstri Hesalight. Svindl á svindl ofan sagði eitt dönsku blaðanna. Lars Nørholt bjó ásamt eiginkonu sinni í stóru einbýlishúsi við Hróarskeldufjörðinn á Sjálandi, ók um á Porche og átti að minnsta kosti tvo aðra bíla, sem að sögn Børsen voru ekki af ódýrara taginu. Hann átti ennfremur að minnsta kosti tvö stór hús á Majorka. Réttarhöldin fyrir Bæjarrétti Hróarskeldu hófust í september árið 2018 og dómur féll í janúar 2019. Í niðurstöðu dómsins sagði að Lars Nørholt hefði dregið sér rúmar 400 milljónir króna (8,4 milljarðar íslenskir) úr sjóðum Hesalight.
Lars Nørholt var dæmdur í sjö ára fangelsi, 15 milljóna króna sekt (312 milljónir íslenskar) og missti jafnframt rétt til að reka fyrirtæki, ævilangt. Ennfremur var hann, ásamt fjórum öðrum fyrrverandi starfs- og stjórnarmönnum Hesalight, dæmdur til að greiða þrotabúi fyrirtækisins 200 milljónir króna (4,3 milljarðar íslenskir).
Lars Nørholt áfrýjaði dóminum samstundis.
Dómur Eystri-Landsréttar
Fyrir Bæjarrétti Hróarskeldu krafðist ákæruvaldið átta ára fangelsisdóms yfir Lars Nørholt. Niðurstaðan var eins áður sagði sjö ára fangelsi. 2. apríl síðastliðinn staðfesti Eystri-Landsréttur þann dóm en taldi hinsvegar að fjársvikin væru mun umfangsmeiri en Bæjarrétturinn hefði komist að. Svikin hefðu, segir í niðurstöðu Eystri-Landsréttar, numið 600 milljónum króna (12,6 milljarðar íslenskir).
Einn maður hefur áður hlotið svo þungan dóm í Danmörku fyrir fjársvik. Það var Stein Bagger framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins IT-Factory. Sá dómur féll árið 2009.