Tók U-beygju í lífinu eftir örmögnun en er komin aftur „heim“ á gjörgæsluna
„Ég stend á öxlum risa,“ segir Laufey Steindórsdóttir hjúkrunarfræðingur um endurkomu sína á gjörgæsludeild Landspítalans og hið færa fagfólk sem þar starfar. Laufey vaknaði einn morguninn nýverið og fann að hún ætti að skrá sig í bakvarðasveitina. „Ég hlustaði á hjarta mitt sem er minn besti vegvísir og það sagði að þetta væri það sem mér væri ætlað að gera.“
Eitt sinn hjúkrunarfræðingur – ávallt hjúkrunarfræðingur. Nú er rétti tíminn til að leggja hönd á plóg. Það var með stolti og mikilli gleði í hjarta sem ég kom á dögunum til baka á gjörgæsludeildina í Fossvogi eftir 10 ára fjarveru,“ segir Laufey Steindórsdóttir hjúkrunarfræðingur. Með skráningu í bakvarðasveit heilbrigðiskerfisins hafi leið hennar aftur legið „heim“.
Þegar Laufey vaknaði einn morguninn nýverið fann hún skýrt að hún ætti að skrá sig í bakvarðasveitina. „Ég hlustaði á hjarta mitt sem er minn besti vegvísir og það sagði að þetta væri það sem mér væri ætlað að gera,“ segir hún í samtali við Kjarnann. „Svo var hringt í mig og ég spurð hvar ég vildi starfa og ég sagði strax að ég vildi fara aftur á gjörgæsluna.“
Gjörgæsluhjúkrun er flókin og sérhæfð. Á gjörgæsludeild liggur fólk sem er alvarlega veikt, er jafnvel í öndunarvél og þarf stöðugt eftirlit. Laufey hafði reynslu og þekkingu til starfsins. Hún þurfti upprifjun og aðlögun en var svo til í slaginn. „Á gjörgæsludeildinni eru allir með sérþekkingu á sínu sviði; læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og ræstingarfólk. Bara allir.“
Hún fann til auðmýktar er hún mætti „á gólfið“, innan um framúrskarandi starfsfólk gjörgæslunnar. „Þannig að ég stend á öxlum risa,“ segir hún um endurkoma sína.
Laufey útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 2002 og hóf þá störf á bráðamóttöku Landspítalans. Hún flutti svo til Svíþjóðar og fór í framhaldsnám í bráða- og gjörgæsluhjúkrun á Karolinska-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Árið 2008 flutti hún aftur heim til Íslands og byrjaði að vinna á gjörgæsludeildinni í Fossvogi.
Laufey og eiginmaður hennar, Ingvar Hákon Ólafsson heila- og taugaskurðlæknir, eiga fjórar dætur. Í mörg ár voru þau bæði í vaktavinnu í krefjandi störfum og að samræma einkalíf og starf var mikil áskorun. Álagið á heimilið var mikið þar sem yngsta dóttir þeirra glímdi við mikinn svefnvanda. Aðstæðurnar voru nánast óyfirstíganlegar, að sögn Laufeyjar.
Árið 2013 segist hún hreinlega hafa örmagnast á líkama og sál eftir langvarandi svefnleysi og streitu. „Ætli megi ekki segja að við höfum lent í stormi lífsins,“ segir hún um ástandið þegar hún lítur í baksýnisspegilinn. Hún hætti störfum á Landspítalanum og ákvað að beina allri athygli sinni inn á við og að því að hlúa að fjölskyldunni.
Ákvörðunina tók Laufey, eins og allt sem hún tekur sér fyrir hendur, föstum tökum. Hún hóf mikla sjálfsvinnu og lærði að kenna hugleiðslu og jóga. „Ég tók algjöra U-beygju í lífinu. Ég fann í kjölfarið mikla þörf fyrir að færa starfsfólki Landspítalans þessi verkfæri sem ég hafði lært, þessa djúpslökun og hugleiðslu.“
Í maí á síðasta ári stofnaði Laufey ásamt Rebekku Rós Þorsteinsdóttur svæfingahjúkrunarfræðingi og jógakennara heimasíðuna Kyrrðarjóga.is. Undanfarin tvö ár hafa þær stöllur boðið starfsmönnum spítalans, sem alla jafna eru undir miklu álagi, að koma í hugleiðslu- og djúpslökunartíma á vinnustaðnum. „Ég hef aldrei yfirgefið Landspítalann, hjarta mitt mun alltaf slá þar, þetta er minn staður og mitt fólk.“
Laufey hefur staðið utan við gjörgæsluna í áratug og horft með lotningu á starfið sem þar fer fram. „Ég hef alltaf haldið góðum tengslum við deildina því þarna er baklandið mitt. Fólkið mitt. Og nú á þessum tímum þá kristallast allt þetta sem ég hef upplifað og verið að tala um hvert sem ég fer: Starfið sem unnið er á gjörgæsludeildinni í Fossvogi er ekkert annað en magnað.“
Margir hjúkrunarfræðingar og aðrir starfsmenn sem vinna á gjörgæslunni hafa unnið þar í tíu, tuttugu ár og jafnvel lengur. „En þessir einstaklingar gefa ekkert eftir. Þeir vinna sínar vaktir og taka svo aukavaktir sem þarf til að koma til móts við aðstæður sem geta skapast á deildinni.“
Þetta er fólkið sem stendur ávallt sína plikt, segir Laufey, hvort sem það er mótvindur eða meðvindur í samfélaginu og efnahagslífinu. „Þau eru þarna á sínum stað, tilbúin að gera allt sem þau geta til að bjarga lífi.“
Þegar Laufey hóf fyrst störf á gjörgæslunni var hún undir verndarvæng hjúkrunarfræðings sem hún segist hafa fylgt hvert fótspor. Hún lærði svo smám saman á flókið og tæknilegt umhverfi deildarinnar. „Ég fékk dásamlegar móttökur á sínum tíma frá öllu því öfluga fólki sem þar starfar.“
Aðstæður á gjörgæslunni eru síbreytilegar og starfsfólkið þar ávallt undir það búið að bregðast við nýjum, óvæntum og krefjandi verkefnum. Skjólstæðingar gjörgæslu þurfa vöktun allan sólarhringinn, mínútu fyrir mínútu, nótt sem nýtan dag. Fyrir vikið getur álagið orðið gríðarlegt og reynt bæði á starfsfólkið sem og aðstandendur. „Mín reynsla er sú að starfsfólkið er alltaf boðið og búið að rétta fram hjálparhönd og aðstoða hvern þann sem á þarf að halda. Nú á tímum COVID-19 hefur það svo sannarlega komið í ljós hvers þau eru megnug.“
Þegar Laufey snéri svo aftur til starfa í gegnum bakvarðasveit heilbrigðiskerfisins nýlega var henni tekið opnun örmum. „Starfsfólkið þarna er greinilega með meistaragráðu í umburðarlyndi,“ segir hún full þakklætis.
Svo skemmtilega vildi til að Laufey hefur nú aftur fengið að vinna með leiðbeinanda sínum og lærimóður, Guðlaugu Traustadóttur, Lullu. „Hún er ein af þessum hetjum hjúkrunar sem við hin lítum upp til.“
Þrátt fyrir að það sé sérstaklega mikið álag á gjörgæsludeildinni nú á tímum faraldurs COVID-19 segir Laufey að allt gangi eins og vel smurð vél. „Þetta ástand er auðvitað engu líkt. Deildin hefur stækkað dag frá degi og nýtt starfsfólk komið inn. Samtakamátturinn og samstaðan hjá öllu starfsfólkinu er ótrúlega mikil. Það er eins og þetta fólk verði bara öflugra þegar svona ástand skellur á.“
Það gerist ekki í tómarúmi og af tilviljun að starfið á deildinni haldi áfram af krafti við þessar óvæntu aðstæður. Til þess þarf öfluga leiðtoga á öllum sviðum. Einn þeirra er Ólöf S. Sigurðardóttir, deildarstjóri gjörgæslunnar.
„Ég get ekki fundið nógu sterk orð um hana Ólöfu,“ segir Laufey, dregur djúpt inn andann og heldur svo áfram: „Hún er einfaldlega mögnuð kona og sérlega vönduð manneskja. Hún er ekki bara flinkur stjórnandi heldur mikill leiðtogi. Hún er fyrirmynd í svo mörgu; frábær yfirmaður og hjúkrunarfræðingur, góð móðir og félagi. Hafandi svona skipstjóra í brúnni þá er ekkert að óttast.“
En hvernig er að koma aftur til starfa á þessum tímum, inn í þetta ástand?
„Fyrir einhverja gæti það verið mjög stressandi en ég hef unnið vel heimavinnuna mína síðustu ár, eflt sjálfa mig og bætt mig sem manneskju.“
Um tíma glímdi Laufey við ofsakvíða sem hún hafði þróað með sér um árabil vegna álags. „Í dag upplifi ég engan kvíða að ganga inn í þessar aðstæður, alls engan. Það kom mér svolítið á óvart. En ég veit að ég er að gera mitt besta við að hjúkra þessum skjólstæðingum og að starfsfólkið er umburðarlynt og tekur manni eins og maður er. Ég finn að ég er í öruggum höndum þessa frábæra fagfólks.“
Og kannski er Laufey komin til að vera á deildinni. „Það á eftir að koma í ljós,“ segir hún létt í bragði. „Ég hef byggt mig vel upp, finn innri kyrrð og ró og jafnvægi. Og það nýtist mér rosalega vel núna í þessum aðstæðum.“
Þeir sem velja að vinna við hjúkrun eru margir hverjir að svara ákveðinni köllun, segir Laufey. Fólk fórni ýmsu þegar það velur sér þennan starfsvettvang. Hún segist þó ekki sjá eftir því, ekki eitt augnablik. „En þó að þetta sé köllun, starf sem við sinnum af hugsjón og ástríðu, þá verðum við að hafa laun í samræmi við þetta álag og það verður að vera svigrúm í vinnuumhverfinu svo að hjúkrunarfræðingurinn gangi ekki of nærri sinni eigin heilsu. Vaktavinna er þess eðlis að hundrað prósent vinna, 40 stundir á viku eða þar um bil, getur algjörlega klárað orkuna. Ég virkilega vona að nú verði hjúkrunarfræðingar metnir að verðleikum og fái laun í samræmi við sitt framlag. Það ætti engum að dyljast lengur hvað þetta starf er mikilvægt.“
Kjarabarátta hjúkrunarfræðinga snýst að sögn Laufeyjar nefnilega ekki eingöngu um álagsauka, hún snýst um að hækka grunnlaunin og draga úr fjölda vinnustunda í fullri vinnu. „Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að álagið sem fylgir þessu starfi, þar sem þú ert með líf fólks í höndunum, nótt sem dag, það getur gengið nærri heilsu starfsmannsins. Stytting vinnuvikunnar er því mikið hagsmunamál fyrir hjúkrunarfræðinga í vaktavinnu.“
Grunnstoð starfa í heilbrigðisþjónustu – hornsteinninn – er að hlúa að öðrum. „Þegar fram líða stundir og faraldurinn verður að baki þá verður það þetta sem vegur þyngst og mun skilja hvað mest eftir sig í hugum okkar og hjörtum. Að við höfum hlúð hvert að öðru. Ég segi stundum að við séum að fylgja hvert öðru heim – hvert svo sem heim er. Það á vel við núna.“
Laufey segist viss um að heimsbyggðin muni draga einhvern lærdóm af ástandinu sem heimsfaraldurinn hefur skapað á ýmsum sviðum tilverunnar. „Þetta er svo stórt – svo miklu stærra en nokkuð annað. Ég er sannfærð um að þetta muni hafa varanleg áhrif á okkar gildismat, áherslur og verðmætamat. Sönn verðmæti eru fólgin í því að hlúa að öðrum ekki síður en okkur sjálfum.“