Þegar fyrsta tilfelli áður óþekkts veirusjúkdóms var greint í lok síðasta árs hófst þegar örvæntingarfull leit að lækningu. Fljótlega var ljóst að sýkingin var óvenjulega smitandi og lífshættuleg og í öllum hornum heims voru ljósin kveikt á rannsóknarstofum allan sólarhringinn og vísindamenn störðu á veiruna skæðu í smásjám dagana langa, ákveðnir í að finna leið til að afvopna hana.
Leit þeirra hefur þegar skilað ákveðnum árangri. Jafnvel einstökum í sögulegu tilliti. Aðeins fjórum mánuðum eftir að veiran uppgötvaðist eru þegar hafnar klínískar rannsóknir á nýjum bóluefnum og lyfjameðferðum. Beri þær ávöxt gætum við færst hratt nær því að komast frá þeim vanda sem COVID-19 hefur skapað.
Tæplega áttatíu rannsóknir á nýjum bóluefnum eru hafnar. Hefðbundna leiðin við þróun bóluefna er að nota veiklaða útgáfu af veirunni sem því er ætlað að veita vörn gegn, nógu líka þeirri upprunalegu svo að ónæmiskerfið telji sig þekkja hana, nái að verjast henni og koma í veg fyrir sýkingu. Fara þarf hægt og varlega í slíkum rannsóknum því hætta er á því að veiklaða veiran sé ekki eins skaðlaus og vonast var eftir.
En í heimsfaraldri liggur okkur á. Og því er reynt að beita öðrum aðferðum við þróun bóluefnis til að flýta fyrir. Flestar þær rannsóknir sem nú er unnið að fara því ekki þessa hefðbundnu leið. Þær eru byggðar á þeirri hugmynd að ónæmiskerfið þurfi ekki að standa andspænis allri veirunni til að hefja leiftursókn gegn sýkingu. Það þurfi aðeins ákveðinn hluta úr henni, prótínið sem myndar „kórónu“ hennar eða alls ekkert, heldur aðeins upplýsingar úr erfðalykli hennar. Í þessum nýstárlegu rannsóknum skiptir sköpum að erfðaefni veirunnar hafi verið raðgreint, líkt og Íslensk erfðagreining gerir nú.
En ef bóluefni finnst eða lyf sem virka, er þá víst að allir jarðarbúar muni hafa að því jafnan aðgang?
„Við munum aðeins stöðva COVID-19 með því að standa saman,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í gær. „Ríki, heilbrigðisyfirvöld, framleiðendur og einkageirinn verða öll að vinna saman og tryggja að uppskera vísinda og rannsókna geti gagnast öllum.“
Í tilkynningu sem WHO birti í gær er greint frá „fordæmalausri“ viljayfirlýsingu þjóðarleiðtoga, stofnanna og lyfjaframleiðanda um að flýta þróun bóluefna og lyfjameðferða og koma upplýsingunum til allrar heimsbyggðarinnar. Verkefnið er kallað ACT.
Veiran virðir engin landamæri en peningar, þekking og aðstaða er oft læst innan þeirra. Vestrænu ríkin eru því mun betur í stakk búin en önnur til að stunda rannsóknir af miklum móð og hefja framleiðslu lyfja þegar þar að kemur. Þau geta líka, með peningana að vopni, tryggt sér birgðir af lyfjum sem þegar er reynt að nýta til meðferðar hjá COVID-sjúklingum. Og hættan er sú að innan einstakra landa skapist þrýstingur á að finna fyrst og fremst lækningu fyrir þeirra eigin þjóð.
Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hafa þegar sett hömlur á útflutning varnarbúnaðar. Óttast er að slíkt hið sama verði gert með bóluefni. Í svínaflensunni árið 2009 varð útflutningur bóluefna að hápólitísku máli í Bandaríkjunum. Ástæðan er sú að bóluefni eru helsta langtímalausnin sem fyrirfinnst í faraldri smitsjúkdóms.
Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að nálgast málið á alþjóðavísu.
Hvernig á að forgangsraða?
Unnið hefur verið að því í margar vikur að fá sem flesta að borðinu. Ef það tekst verður þetta í fyrsta sinn í sögunni sem hægt verður að framleiða, ef allt gengur að óskum, bóluefni öllum til handa á mettíma, jafnvel um mitt næsta ár, ef bjartsýnustu spár ganga eftir.
Ýmis ljón eru þó í veginum. Þó að farið verði í mikla fjöldaframleiðslu á bóluefni er víst að framboðið verður að minnsta kosti til að byrja með takmarkað. Því er vilji til þess að gera áætlun um hvernig dreifingu þess verður forgangsraðað. Hún gæti falist í því að verja fyrst heilbrigðisstarfsmenn og annað framlínufólk og íbúa á stöðum þar sem virk hópsmit er að finna.
Mörg góðgerðasamtök og alþjóðastofnanir, sem sérþekkingu hafa á hjálparstarfi í fátækum löndum heims, tóku höndum saman með WHO um að gera áætlanir sem tryggja eiga jafnan aðgang að bóluefni og lækningu við COVID-19. Ríkisstjórnir margra landa eru einnig þátttakendur en eftir því hefur verið tekið að sú bandaríska er það ekki.
Meðal þeirra samtaka sem koma að verkefninu eru Gates-sjóðurinn og GAVI, sjóðir sem hafa lagt fjármagn í baráttuna gegn HIV, malaríu og berklum og hafa langa reynslu af því að glíma við heilsufarsógnir, m.a. með því að útvega lyf og koma þeim til þeirra sem mest þurfa á að halda.
Markmið samvinnunnar eru háleit en fjármögnun verkefnisins er ein helsta áskorunin. Vonast er til þess að ríkisstjórnir og stofnanir Sameinuðu þjóðanna muni leggja sín lóð á vogarskálarnar.
Andrew Witty, fyrrverandi forstjóri lyfjarisans GlaxoSmithKline, mun leiða bóluefnishluta ACT-verkefnisins. Það verður meðal annars í hans verkahring að velja bestu rannsóknarverkefnin, fjármagna þá þróunarvinnu – hvort sem hún skilar árangri eða ekki – og finna leiðir til að deila niðurstöðunum öllum til heilla.
„Okkar sameiginlega markmið er að tryggja að allir hafa aðgang að tólum til að fyrirbyggja, greina, meðhöndla og sigrast á COVID-19,“ sagði framkvæmdastjóri WHO. „Ekkert land og engin stofnun getur gert þetta ein.“
Tilraunir með bóluefni á mönnum gegn nýju kórónuveirunni eru þegar hafnar, m.a. við Oxford-háskóla. Alls óvíst er hvort að þær skili árangri og hvort það hafi borgað sig að freista þess að stytta sér leið með hjálp erfðavísindanna. Bjartsýnustu menn telja að bóluefni gæti verið tilbúið fyrir mitt næsta ár en aðrir telja að minnsta kosti tvö ár í það.
Enginn mun fagna eins og Þórólfur
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er einn þeirra sem hefur ekki miklar væntingar til þess að bóluefni komi á markað á næstu mánuðum.
„Þetta bóluefni sem menn eru að búa til núna er algjörlega nýtt bóluefni,“ sagði hann á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Þetta er bóluefni með algjörlega nýjum efnum sem enginn þekkir fyrir og menn verða að vera vissir um það, ef þeir ætla að fara að bólusetja stóran part af þjóðinni, að bóluefnið sé öruggt. Það verður að vera búið að rannsaka það á mjög stórum hópi og fá úr því skorið að það sé raunverulega öruggt. Ég bind ekki mjög miklar vonir við að það komi í bráð. Ef að það gerist, ef gott bóluefni kemur fram á sjónarsviðið mun enginn fagna því eins mikið og ég.“