Reykjavíkurborg innheimti alls 21,1 milljarð króna í fasteignaskatta á árinu 2019. Það var 2,9 milljörðum krónum meira en borgin innheimti í slíka skatta árið áður og 5,9 milljörðum krónum meira en árið 2017, þegar tekjur hennar vegna þeirra námu námu 15,1 milljarði króna.
Þetta má lesa út úr ársreikningi Reykjavíkurborgar sem var birtur í lok síðasta mánaðar.
Þessi þróun átti sér stað þrátt fyrir að fasteignaskattar hafi verið lækkaðir árið 2018. Ástæðan er einfaldlega sú að fasteignaverð í höfuðborginni hefur hækkað mikið og þar sem álagningin er hlutfall af fasteignamati þá fjölgar krónunum sem fasteignaeigendur í Reykjavík borga þrátt fyrir að skattprósentan hafi lækkað.
Tekjur Reykjavíkurborgar af fasteignasköttum voru þannig 11,6 milljarðar króna árið 2013 og hafa því hækkað um 82 prósent frá því ári. Frá ársbyrjun 2013 og út síðasta ár hækkaði húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu um 81 prósent.
Ætla að lækka skattinn um komandi áramót
Sveitarfélög landsins eru með tvo megintekjustofna. Annars vegar rukka þau útsvar, sem er beinn skattur á tekjur sem rennur til þess sveitarfélags sem viðkomandi býr í. Hins vegar rukka þau fasteignaskatt.
Slík gjöld eru aðallega tvenns konar. Annars vegar er fasteignaskattur (0,18 prósent af fasteignamati á íbúðarhúsnæði og 1,65 prósent af fasteignamati á atvinnuhúsnæði) og hins vegar lóðarleiga (0,2 prósent af lóðamati á íbúðarhúsnæði og eitt prósent af lóðamati á atvinnuhúsnæði). Auk þess þurfa íbúar að greiða sorphirðugjald og gjald vegna endurvinnslustöðva sem hluta af fasteignagjöldum sínum.
Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir að tekjur borgarinnar vegna fasteignarskatta yrðu 22,5 milljarðar króna í ár.
Viðbúið er að þær tekjur verði minni en áætlað var. Á meðal þeirra aðgerða til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin vegna efnahagslegra áhrifa útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, og borgarráð samþykkti í lok mars, var frestur á greiðslu allt að þriggja gjalddaga fasteignaskatta á þessu ári.
Þótt borgarráð hafi ákveðið að flýta áformum sínum um að lækka fasteignarskatta á atvinnuhúsnæði úr 1,65 í 1,60 prósent þá mun sú breyting ekki taka gildi fyrr en um næstu áramót.
Afkoma undir áætlun
Sá hluti rekstrar Reykjavíkurborgar sem fjármagnaður er með skatttekjum, svokallaður A-hluti, skilaði 1.358 milljón króna hagnaði í fyrra. Áætlun hafði gert ráð fyrir því að afkoma af rekstri hans yrði jákvæð um 3.572 milljónir króna. Því var afkoma A-hlutans 2.214 milljónum króna undir áætlun. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var svo umtalsvert lakari, var jákvæð um 930 milljónir króna en áætlanir hafi reiknað með að hún yrði rúmlega fjórir milljarðar króna.
Hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.
Meiri bókfærður hagnaður var af rekstri B-hlutans en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þar skiptir mestu að matsbreytingar fjárfestingaeigna Félagsbústaða skiluðu 3.454 milljóna króna hærri tekjufærslu en fjárhagsáætlun hafði reiknað með. Það þýðir að bókfært virði félagslegra íbúða í eigu dótturfyrirtækis borgarinnar hafi hækkað um þá upphæð umfram það sem vænst var á árinu 2019.
Þetta skilaði því að samanlögð rekstrarniðurstaða borgarinnar var 792 milljónum krónum lakari en í fjárhagsáætlun, eða 11,2 milljarðar króna.