Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir er í 92. sæti yfir ríkustu menn Bretlands samkvæmt nýbirtum lista The Sunday Times. Alls er auður hans í lok síðasta árs var metinn á 1.563 milljónir punda, eða 275 milljarða króna.
Björgólfur Thor fellur um eitt sæti á listanum milli ára. Árið 2018 sat hann í 91. sæti og eignir hans voru metnar á 91 milljón pundum meira en í lok síðasta árs. Þær hafa því dregist saman um 16 milljarða króna milli ára.
Björgólfur Thor er því, samkvæmt listanum, á meðal 100 ríkustu íbúa Bretlands, en hann hefur búið í London árum saman. Hann er eini Íslendingurinn sem nær að vera á meðal þeirra 100 ríkustu enda almennt talið að hann sé ríkasti Íslendingurinn.
Björgólfur Thor birtist einnig á lista tímaritsins Forbes yfir ríkustu menn heims fyrr á þessu ári. Þar sat hann í 1.063 sæti og fór upp um nokkur sæti á milli ára
Með þorra sinna umsvifa erlendis en hefur beitt sér á Íslandi
Í umfjöllun Sunday Times um Björgólf Thor er saga hans undanfarin ár rakin. Þar er meðal annars fjallað um að langafi hans, Thor Jensen, og faðir hans, Björgólfur Guðmundsson, hafi báðir orðið gjaldþrota, sá síðarnefndi árið 2009.
Auður Björgólfs Thors er aðallega í gegnum eignir sem fjárfestingarfélagið Novator, sem hann á meirihluta í.
Björgólfur efnaðist fyrst á því að selja bjórverksmiðju í Rússlandi en fjárfesti svo mikið í lyfja- og fjarskiptaiðnaðinum auk þess að kaupa ráðandi hlut í Landsbanka Íslands ásamt föður sínum og viðskiptafélaga þeirra. Fjármálahrunið 2008 setti veldi hans í hættu.
Í ágúst 2014 var tilkynnt að skuldauppgjöri Björgólfs Thors væri lokið og að hann hefði greitt kröfuhöfum sínum, að mestu stórum alþjóðlegum bönkum, samtals um 1.200 milljarða króna. Það uppgjör tryggði honum mikinn auð þar sem hann, og Novator, fengu að halda góðum eignarhluta í Actavis að því loknu, sem hefur síðan verið seldur. Sá eignarhluti hefur gert Björgólf Thor og aðra eigendur Notavor mjög efnaða á ný. Björgólfur Thor gaf árið 2015 út bók um fall sitt og endurkomu. Kjarninn birti umfjöllun um bókina skömmu eftir að hún kom út.
Björgólfur Thor, og samstarfsmenn hans í Novator, þeir Birgir Már Ragnarsson og Andri Sveinsson, hafa farið mikinn í fjárfestingum síðastliðinn rúman áratug, að mestu annars staðar en á Íslandi. Á meðal fjárfestinga sem nefndar eru í umfjöllun Sunday Times eru í fjármálafyrirtækinu Stripe, heimsendingarþjónustunni Deliveroo og hjólreiðasýndarveruleikafyrirtækinu Zwift.
Novator er þó líka með umsvif hérlendis, og er meðal annars stór hluthafi í fjarskiptafyrirtækinu Nova. Þá tók Björgólfur Thor þátt í skuldabréfaútboði WOW air í september 2018, nokkrum mánuðum áður en að flugfélagið fór í þrot, en í gegnum eigin félag.
Fyrir helgi var svo opinberað að Novator hefði fjármagnað mikinn taprekstur útgáfufélags DV og tengdra miðla frá haustinu 2017 með því að lána því vaxtalaust að minnsta kosti 745 milljónir króna án vaxta. Árum saman var reynt að halda því leyndu hver borgaði þann brúsa og það opinberaðist ekki fyrr en að Samkeppniseftirlitið krafðist upplýsinganna þegar það fjallaði um samruna útgáfufélags DV, Frjálsrar fjölmiðlunar, og Torgs ehf., útgáfufélags Fréttablaðsins og tengdra miðla.
Hægt er að lesa ítarlega fréttaskýringu Kjarnans um málið hér.