Í samskiptum við nemendur á nóttunni
Þegar samkomubann var sett á og fjarnám hófst í framhaldsskólum hafði Kristín Marín Siggeirsdóttir kennari í Kvennaskólanum ímyndað sér að hún gæti prjónað og bakað – dúllað sér heima við. En eitthvað varð lítið úr því. Vinnudagarnir urðu langir og hún vann margar helgar, flest kvöld og stundum langt fram á nótt.
Þetta byrjaði með ósköpum,“ segir Kristín Marín Siggeirsdóttir, kennari við Kvennaskólann í Reykjavík um lokapróf sem hún hafði nýverið lagt fyrir nemendur sína. „Þegar prófið átti að byrja þá fékk ég marga pósta og símhringingar frá nemendum sem komust ekki inn í INNU. Ég sagði þeim að hinkra, þetta myndi hrökkva í lag, sem það gerði.“
Þessa önnina eru prófin í Kvennaskólanum rafræn. Nemendur eru heima hjá sér og Kristín sömuleiðis. „Það voru smá hnökrar í upphafi en þetta tókst allt saman vel að lokum og allir nemendur skiluðu.“ Nemendur hennar hafa að hennar mati staðið sig gríðarlega vel í gjörbreyttum aðstæðum – sumir jafnvel betur en fyrir samkomubann. Sjálf segist hún hafa lært mjög margt og að eitt af því sé að einhverjum nemendum gæti í framtíðinni gagnast að fá að stunda nám sitt heima frekar en að mæta í kennslustundir í skólanum.
Kristín er líffræðingur. Eftir að hún útskrifaðist úr því háskólanámi ákvað hún að prófa að kenna þó að það hafi nú ekki verið planið í upphafi, eftir að hafa sjálf setið á skólabekk í mörg ár. Þetta var haustið 1985 og vinnustaðurinn var Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi. Samhliða kennslunni fyrstu árin tók hún kennsluréttindi. Haustið 1987 færði hún sig um set og hóf störf við Kvennaskólann í Reykjavík. „Og ég er búin að vera þar síðan,“ segir hún og bætir hlæjandi við: „Þannig að það má segja að ég sé kona með reynslu!“
Starfsandinn í Kvennaskólanum er að mati Kristínar framúrskarandi. Margir kennarar starfa þar árum saman. „Mér hefur ekki einu sinni dottið í hug á þessum rúmlega þrjátíu árum að hætta. Það segir sína sögu.“
Kristín hefur kennt líffræði alla tíð en einnig stundum önnur fög svo sem næringarfræði, heilbrigðisfræði, erfðafræði, stærðfræði, efnafræði, umhverfisfræði og svo mætti áfram telja. Raungreinarnar eru því hennar sérsvið. „Ég hef aldrei kennt eðlisfræði,“ segir hún hugsi.
Þú átt það eftir...
„Nei, ég held ekki,“ segir hún og hlær. „Ég á nú ekki mörg ár eftir í kennslu. Þetta fer að verða komið gott.“
Við upphaf skólaársins í haust mætti Kristín Marín til starfa með nýtt kennsluefni í farteskinu. „Það er alltaf mikil vinna að byrja að kenna nýtt efni, þannig að þó að skólaárið hafi byrjað með hefðbundnum hætti þá var haustönnin svolítið þung.“
Hún vonaði að vorönnin yrði auðveldari, „en það varð nú ekki alveg þannig. En það er eins og það er og maður tekur því sem að höndum ber“.
Þegar fréttir hófu að berast af skæðri veirusýkingu í Kína í byrjun árs nýtti Kristín tækifærið og tengdi atburðina inn í kennsluna. „Ég og nemendurnir fylgdumst vel með og vorum mjög áhugasöm og jafnvel svolítið spennt yfir öllu sem var að gerast þarna. Ég talaði sérstaklega um veirur, bólusetningar, smitvarnir og þess háttar í tímum. Og ég er ekki frá því að nemendur hafi tekið óvenjulega vel eftir að þessu sinni.“
En þegar faraldurinn blossaði upp á Ítalíu þá fóru að renna tvær grímur á Kristínu og nemendurna. „Þetta varð allt saman raunverulegra þegar veiran fór að greinast í Evrópu þar sem eru sambærileg heilbrigðiskerfi og hér á Íslandi,“ segir Kristín. „Á meðan faraldurinn var í Kína gat ég ekki ímyndað mér að hann ætti eftir að verða jafn alvarlegur á Vesturlöndum. En svo varð ástandið ekkert skárra hér í okkar heimshluta. Veirur virða engin landamæri.“
Nokkrum dögum áður en samkomubann var sett á voru kennarar í Kvennaskólanum undir það búnir að þannig gæti farið. Þegar það var tilkynnt um miðjan mars og allir nemendur þurftu að fara heim að læra ákvað Kristín að halda sínu striki og mæta í skólann þar sem hún er með góða vinnuaðstöðu. En svo veiktist kennari af COVID-19 og margir kennarar urðu að fara í sóttkví. „Og ég var ein af þeim.“
Kristín veiktist ekki en það gerðu nokkrir samstarfsmenn hennar. „Þannig að ég kom mér bara fyrir í sófahorninu heima og hef verið þar síðan,“ segir hún hlæjandi. „Það hefur verið mín vinnuaðstaða.“
Ein hefur hún þó ekki verið því kötturinn Grettir hefur haldið henni félagsskap. Hann hefur legið við hlið hennar í sófanum en helst vill hann þó leggjast ofan á lyklaborðið. Það fær hann ekki en stundum hefur hann „mjálmað svolítið inn á glærurnar,“ segir Kristín um þá „aðstoð“ sem Grettir hefur veitt.
Á árum áður vann Kristín oft heima en hætti því að mestu eftir að góðri vinnuaðstaða var komið upp í skólanum. „Þannig að núna varð ég að rifja upp gamla heimavinnutakta.“
Fjarkennslan óx henni alls ekkert í augum. Hún hefur kennt í áratugi og segist hafa lent í ýmsu á þeim tíma. „Ég hef lent í löngum verkföllum. Í verkfalli má maður ekki sinna nemendum en þó að ég hitti ekki nemendurna í eigin persónu núna þá má ég þó sinna þeim. Þannig að ég hugsaði með mér að fyrst við hefðum komist í gegnum sex vikna verkfall á sínum tíma, með því að bæta nemendum upp tapið með því að kenna á laugardögum, í páskafríi, fram á sumar, breyta námsmati og þar fram eftir götunum, þá getur nú kennsla í gegnum netið varla verið mikið mál.“
Mjög mikil vinna
Þegar Kristín lítur til baka segir hún síðustu vikur hafa gengið ágætlega en að fjarkennslan hafi kostað mjög mikla vinnu. „Helgin eftir að tilkynnt var um samkomubann fór í það að skipuleggja næstu þrjár vikur fram að páskafríi, setja nemendum fyrir, útbúa verkefni til að halda þeim við efnið í staðinn fyrir daglegar kennslustundir. Ég hef lært rosalega mikið en þetta hefur verið ofboðslega mikil vinna. Vinnudagarnir hafa verið langir. Ég hef unnið mörg kvöld, margar helgar og fram á nætur. Ég hafði ímyndað mér að ég myndi kannski getað prjónað, bakað og dúllað mér heima í samkomubanninu en það hefur verið frekar lítið um það. Ég hef verið hlaðin verkefnum tengdum kennslunni.“
Skilafrestir verkefna renna oft út á miðnætti og Kristín hefur stundum farið á netið á þeim tíma og séð þá að einhverjir eru ekki búnir að skila og ýtt þá á eftir þeim. „Það hefur komið fyrir að ég hef fengið svar frá þeim á þessum tíma sólarhrings, svo ég hef verið í tölvupóstsamskiptum við nemendur á nóttunni,“ segir hún skellir upp úr.
Kristín hélt nokkrar fjarkennslustundir í gegnum fjarfundarbúnað en annars notaði hún, eins og áður glærur við kennsluna. Fyrirlestrunum sem hún er vön að halda fækkaði því stórlega. „Mér til mikillar undrunar þá sögðust nokkrir nemendur mínir sakna fyrirlestranna minna en áður höfðu nú sumir hverjir kvartað yfir því að þeir væru of langir og of margir,“ segir Kristín og skellir upp úr.
Of mikið álag í fyrstu
Nokkra daga tók að finna taktinn í fjarkennslunni. Nemendur kvörtuðu fyrst í stað yfir því að álagið væri alltof mikið. „Þá voru auðvitað allir kennarar að leggja sig fram við að halda þeim að vinnu og sennilega höfum við gengið aðeins of langt til að byrja með. Mér skilst að sumir nemendur hafi setið við allan daginn og langt fram á kvöld sem var auðvitað ekki ætlunin. En við lærðum öll af þessu og í annarri viku var kominn sæmilegur taktur.“
Sjálfstæð vinnubrögð eru nauðsynleg í fjarnámi. Í staðnámi getur kennari gengið á milli, aðstoðað og ýtt við en heima er því ekki að heilsa. „Mér finnst þetta hafa sýnt okkur að nemendur eru ekki vanir að læra mikið heima,“ segir Kristín. „Þegar námi hvers dags sem áður fór fram í skólastofunni var bætt við hefðbundna heimavinnu reyndist sumum það erfitt. Þetta er mjög mikil breyting fyrir þau.“
Á síðustu vikum hefur Kristín tvisvar sinnum lagt könnun fyrir nemendur sína um fyrirkomulag kennslunnar. Nemendur sem eru að útskrifast í vor voru nokkuð stressaðir í upphafi og áttu erfitt með að sjá fyrir sér að geta komist yfir allt námsefnið við þessar breyttu aðstæður. „En þegar á leið þá fór mörgum að líka vel við þetta. Þeim fannst gott að geta skipulagt daginn sjálf, vita hvað þau ættu að gera á hverjum degi og í hverri viku, gátu vaknað þegar þeim hentaði og byrjað að vinna.“
Hluti nemenda stóð sig betur
Fjarnámið hentar hins vegar alls ekki öllum. Í nemendahópi Kristínar eru einstaklingar sem sögðust ekki vera ánægðir með fyrirkomulagið. „Þetta eru nemendur sem eru vanir að mæta í tíma, hlusta og gera það sem þeim er sett fyrir en læra kannski ekki mikið utan skólastofunnar. Þessum nemendum gekk ekki sérstaklega vel að aðlaga sig þessum breytta takti, sérstaklega til að byrja með.“
Svo voru nokkrir nemendur sem fram að samkomubanni höfðu mætt lítið í skólann og ekki skilað öllum verkefnum af ýmsum ástæðum, m.a. vegna veikinda. „Þetta eru þeir nemendur sem tóku mest við sér og fóru að skila verkefnum betur en fyrir bann.“
Það er mikið álag að sitja í skóla allan daginn. Sumir hafa ekki heilsu til þess og „þá getur hentað þeim vel að haga sínum vinnutíma eftir eigin höfði,“ segir Kristín. Hún segist halda að fyrirkomulag fjarkennslunnar gæti gagnast þessum nemendum áfram. „Ég hef sjálf lært mikið af þessu og sé núna fleiri möguleika í því að aðstoða þá nemendur sem eiga erfiðara með nám í skólanum.“
Kristín hafði ekki hugsað sér að gjörbylta sínum kennsluháttum síðustu árin í starfi. „Ég var ekkert rosalega spennt fyrir því að fara að tala inn á glærur og nota fjarfundarbúnað,“ viðurkennir hún. „En þegar samkomubannið var framlengt varð ég að tileinka mér þær aðferðir. Þannig að ég fór að tala inn á glærur sem ég sendi nemendunum og það reyndist vel.“
Hvað líðan nemendanna varðar segir Kristín það sína upplifun að hún sé almennt ágæt. „Þeim leiðist svolítið og sakna hvers annars.“
Ekkert brottfall
Að mati Kristínar er frammistaða þeirra í náminu almennt mjög góð. Hún veit ekki til þess að nokkur úr hennar nemendahópi hafi hætt námi á vorönninni. Hún segist hafa kynnst sumum nemendum betur en í kennslustofunni eða á annan hátt en öðrum minna. Nokkrum foreldrum hefur hún hins vegar kynnst betur en áður.
Ekki í boði að gefast upp
Hún er þegar farin að hlakka til að mæta í skólann næsta haust og hitta nemendur og samstarfsmenn. Mögulega mun hún nota einhver verkfæri úr fjarkennslunni áfram og segist stuðningsmaður þess að kennslustundum í stundatöflu sé fækkað. Þá kemur fjarkennsluformið sterkt inn.
Eftir rúma þrjá áratugi í starfi er hún enn að tileinka sér nýja hluti og reyna að finna nýjar leiðir og lausnir í kennslunni. Eitt stykki samkomubann sló hana því ekki út af laginu. „Í kennslu er það þannig að maður verður að einhenda sér í verkefni. Það þýðir ekkert að leggja árar í bát og gefast upp. Við verðum einfaldlega að taka því sem að höndum ber og leysa málin. Það er bara þannig.“