Rjómaterturáðherrann

Umdeild ákvörðun sem Inger Støjberg fyrrverandi ráðherra innflytjendamála í Danmörku tók árið 2016 er nú til sérstakrar rannsóknar. Hún er varaformaður Venstre og kjör hennar í það embætti gæti reynst flokknum dýrkeypt í næstu kosningum.

Í mars 2017 fagnaði Inger Støjberg því sérstaklega að þá hefði hún, síðan hún varð ráðherra eftir kosningarnar 2015, samtals 50 sinnum hert reglur um málefni hælisleitenda og flóttafólks.
Í mars 2017 fagnaði Inger Støjberg því sérstaklega að þá hefði hún, síðan hún varð ráðherra eftir kosningarnar 2015, samtals 50 sinnum hert reglur um málefni hælisleitenda og flóttafólks.
Auglýsing

Meðal fyrstu ákvarðana ríkisstjórnar Mette Frederiksen, eftir að hún tók við völdum 27. júní á síðasta ári, var að fram skyldi fara rannsókn á  einni tiltekinni, og mjög umdeildri, ákvörðun sem Inger Støjberg hafði tekið árið 2016. Þá var hún ráðherra innflytjendamála í stjórn Lars Løkke Rasmussen. Ákvörðun um slíka rannsókn þarf að fara fyrir þingið, Folketinget, þar sem hún var samþykkt.

20. janúar síðastliðinn var gengið frá skipan þriggja manna rannsóknarnefndar undir forystu Peter Mørk Thomsen dómara við Eystri-Landsrétt. Nefndinni, sem á að ljúka störfum innan 18 mánaða frá skipunardegi, er ætlað að komast að því hver sagði hvað við hvern og hvort ákvörðun, sem ráðherrann bar ábyrgð á, hafi farið á svig við lög. Þessa dagana sitja embættismenn í ráðuneyti innflytjendamála og ráðherrann fyrrverandi fyrir svörum rannsóknarnefndarinnar.

Auglýsing

Umdeild

Inger Støjberg er einn umdeildasti stjórnmálamaður Danmerkur. Hún var kjörin á þing fyrir Venstre árið 2001 og varð strax talsvert áberandi innan flokksins. Anders Fogh Rasmussen, sem verið hafði forsætisráðherra frá árinu 2001, sagði af sér þingmennsku árið 2009 og gerðist framkvæmdastjóri NATO.

 Lars Løkkie Rasmussen sem þá tók við forsætisráðuneytinu fól Inger Støjberg ráðuneyti atvinnumála og jafnréttis. Eftir hrókeringar í stjórninni árið 2010 var hún ráðherra atvinnumála fram að kosningum 2011, en þá féll ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen. Á kjörtímabilinu þegar Venstre var í stjórnarandstöðu 2011 – 2015 var Inger Støjberg einn helsti talsmaður flokksins sérílagi varðandi málefni innflytjenda og flóttafólks.

Á þessum árum var mikill straumur flóttafólks til Evrópu, sem dæmi má nefna að árið 2014 óskuðu rúmlega 600 þúsund manns eftir landvistarleyfi í löndum Evrópusambandsins. Í þeim hópi voru Sýrlendingar fjölmennastir, næst flestir frá Eritreu, en flóttafólkið kom víða að.

Rjómaterta ráðherrans.

Innan Evrópusambandsins voru skiptar skoðanir á hvernig brugðist skyldi við. Sumir vildu hreinlega loka öllum landamærum og snúa fóki til baka, öðrum þótti það ófær leið. Enginn gat hinsvegar bent á  haldbærar lausnir. Innan einstakra ríkja voru skoðanir stjórnmálamanna mjög skiptar. Það lýsir kannski ástandinu best að það fékk nafnið „Flóttamannakrísa“ eða „Flóttamannavandamál“. 

Vildi fylgja harðri stefnu

Eftir kosningarnar 2015 varð Inger Støjberg ráðherra innflytjendamála í ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen. Það kom ekki á óvart og þótt hún væri umdeild í eigin flokki naut hún mikils stuðnings Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra.

Inger Støjberg hafði margsinnis lýst yfir, meðan flokkur hennar var í stjórnarandstöðu, að Danmörk gæti ekki „opnað flóttamannagáttirnar“ eins og hún komst að orði. Hún taldi stjórn Helle Thorning-Schmidt, sem var við völd 2011 -2015 fylgja stefnu sem hefði í för með sér svo mikla fjölgun flóttafólks að ekki yrði við neitt ráðið. Þessu vildi Inger Støjberg breyta og lét ekki sitja við orðin tóm.

Rjómatertan

Í mars 2017 fagnaði Inger Støjberg því sérstaklega að þá hefði hún, síðan hún varð ráðherra eftir kosningarnar 2015, samtals 50 sinnum hert reglur um málefni hælisleitenda og flóttafólks. Hún lét, af þessu tilefni, taka mynd af sér með stórri rjómatertu. Þetta vakti mikla athygli og ekki voru allir jafn hrifnir, það gilti líka um hennar eigin flokksfélaga. Einn þingmaður Venstre svaraði stutt og laggott þegar hann var spurður hvort hann hygðist fá sér sneið „ég er í megrun“. 

Dönsku fjölmiðlarnir kölluðu Inger Støjberg „rjómaterturáðherrann“ en hún tók það ekki nærri sér. Sagðist vera stolt af ákvörðunum sínum, sem allar væru teknar með hag dönsku þjóðarinnar að leiðarljósi. Ráðherranum var mjög í mun að fylgja eftir hugmyndum sínum og var nánast daglega í fjölmiðlum þar sem ekki voru spöruð  stóru orðin. Sumar þeirra ákvarðana sem Inger Støjberg tók voru alveg á mörkum hins leyfilega, innan lagarammans og vitað er að hún lenti iðulega í deilum við embættismenn ráðuneytisins vegna þess. Ein af ákvörðunum ráðherrans er nú til sérstakrar rannsóknar.

Auglýsing

Tilkynningin frá 10. febrúar 2016

Eins og áður var nefnt samþykkti danska þingið, Folketinget, sl. haust (2019) að fram skyldi fara sérstök rannsókn á einni tiltekinni ákvörðun Inger Støjberg varðandi málefni flóttafólks í Danmörku. Um er að ræða tilkynningu sem send var út 10. febrúar 2016. Þar tilkynnti ráðuneyti innflytjendamála að hjón þar sem annað eða bæði væru undir 18 ára aldri, og byggju í búðum hælisleitenda skyldu ekki búa þar saman, heldur sitt í hvoru lagi, jafnvel þótt þau ættu börn. Án undantekninga. Hjón sem búið höfðu saman í búðum hælisleitenda skyldu þannig aðskilin. Embættismenn ráðuneytisins sögðu ráðherranum að þessi ákvörðun stæðist ekki lög, og væri þar að auki brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Ráðherra stóð fast á sínu. Lögum samkvæmt ber að vega og meta hvert einstakt tilfelli en samkvæmt ákvörðun ráðherrans skyldi eitt yfir alla ganga. Án undangengis mats.

Tilkynningin 10. febrúar 2016 vakti mikla athygli og mörgum þótti ráðherrann þarna hafa farið fram úr sér, eins og stundum er komist að orði. Ráðherrann sagðist hinsvegar gera þetta í góðum tilgangi sem væri sá að forða barnungum stúlkum úr þvinguðum hjónaböndum. 

Setið fyrir svörum 

Eins og nefnt var hér að framan sitja embættismenn og ráðherrann fyrir svörum rannsóknarnefndarinnar þessa dagana. Nefndarmenn ganga hart fram í spurningum sínum, sem helst líkjast yfirheyrslum, og sætta sig ekki við svör eins og „ég man þetta nú ekki“ og „mig minnir“. Danskir fjölmiðlar fylgjast grannt með því sem fram fer og mat þeirra er að vilji Inger Støjberg varðandi aðskilnaðartilskipunina hafi verið svo eindreginn að henni hafi nánast þótt embættismennirnir þvælast fyrir ákvörðunum hennar.

Sjálf á Inger Støjberg að mæta á fund rannsóknarnefndarinnar í dag, sunnudaginn 24. Maí, og aftur daginn eftir, 25. maí.

Margar skopteikningar af Inger Støjberg tengjsat kökumálinu. Mynd: Politiken

Hvað ef?

Ef niðurstaða rannsóknarnefndarinnar yrði sú að Inger Støjberg hafi brotið lög gæti svo farið að málið kæmi til kasta sérstaks dómstóls, landsdóms, (rigsret). Í Danmörku dæmir slíkur dómstóll eingöngu í málum sem varða starfandi, eða fyrrverandi ráðherra. Ef svo færi að málið færi fyrir landsdóm og niðurstaðan hans yrði að Inger Støjberg hafi gerst brotleg verður að teljast líklegt að þarmeð yrði pólitískur ferill hennar á enda.

Hvað með Venstre?

Ljóst er að Inger Støjberg málið, eins og það er kallað veldur forystu Venstre flokksins nokkrum vanda. Fréttamenn hafa gengið hart að Jakob Ellemann- Jensen formanni flokksins varðandi afstöðu hans til varaformannsins. Hann hefur verið fremur varfærinn í svörum en þó sagt að hann beri fullt traust til varaformanns flokksins, Inger Støjberg.

Á hverjum peningi eru tvær hliðar. Ef svo færi að Inger Støjberg hlyti dóm myndi það valda þeim sem fylgja hennar einörðu stefnu, varðandi útlendinga, vonbrigðum. Þeir gætu þá kosið að yfirgefa flokkinn í næstu kosningum. Færi svo að niðurstaða landsdóms yrði  að hún hefði ekki farið á svig við lög gæti það sömuleiðis haft áhrif í næstu kosningum. Þeir sem hafa fylgt Venstre að málum en eru ekki hlynntir afstöðu hennar, og voru ósáttir við kjör hennar í varaformannsembættið, myndu þá ef til vill hugsa sér til hreyfings og setja krossinn á kjörseðlinum annars staðar næst.    

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til af bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar