Sú umtalsverða fylgisaukning sem stjórnarflokkarnir þrír fengu í könnunum MMR eftir að COVID-19 faraldurinn skall á Íslandi hefur að mestu gengið til baka. Á milli febrúar og mars kannana fyrirtækisins fór sameiginlegt fylgi Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks úr 38,6 prósentum í 45,3 prósent, og jókst því um 6,7 prósentustig. Það þýðir að stuðningur við ríkisstjórnarflokkanna þrjá jókst um rúmlega 17 prósent milli mánaða.
Mest munaði um mikla fylgisaukningu Sjálfstæðisflokksins sem bætti við sig 6,1 prósentustigi og mældist með 27,4 prósent í mars. Það var mesta fylgi sem flokkurinn hafði mælst með frá sumrinu 2017, eða frá því fyrir síðustu kosningar.
Fylgisaukning ríkisstjórnarflokkanna hélt sér að uppistöðu í könnun MMR sem birt var 7. apríl, þegar sameiginlegur stuðningur mældist 44,6 prósent. Tíu dögum síðar birtist önnur könnun sem sýndi 42,9 prósent sameiginlegt fylgi og í könnun MMR sem birtist 8. maí hafði það aukist á ný í 43,2 prósent.
Í könnun MMR sem birt var í gær var sameiginlegt fylgi Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks hins vegar komið niður í 40,5 prósent. Þar kom líka fram að stuðningur við ríkisstjórnina er aftur dottinn undir 50 prósent, í fyrsta skipti frá því að faraldurinn hófst, og mælist nú 47,5 prósent.
Allir stjórnarflokkarnir þrír mælast 12,3 prósentustigum undir því sameiginlega kjörfylgi sem þeir fengu haustið 2017 og ólíklegt sem stendur að þeir gætu myndað ríkisstjórn miðað við niðurstöður könnunar MMR. Það færi þó eftir því hversu stór hluti atkvæða myndi falla niður dauður.
Mælast saman með 11,2 prósentustigum meira en 2017
Frjálslynda miðjublokkin í stjórnarandstöðu: Píratar, Samfylking og Viðreisn, er nú sameiginlega með næstum sama sameiginlega fylgi og stjórnarflokkarnir, eða 39,2 prósent. Í fyrstu könnun MMR eftir að COVID-19 faraldurinn skall á mældust þeir með 34,6 prósent. Því hefur sameiginlegt fylgi þeirra aukist um 13 prósent, eða um 4,6 prósentustig, frá 20. mars.
Píratar eru nú stærsti flokkurinn í þeirri blokk með 14,6 prósenta fylgi, sem er næst mesta fylgi sem þeir hafa mælst með á kjörtímabilinu. Alls hefur flokkurinn bætt við sig 4,4 prósentustigum frá 20. mars og því ljóst að þorri fylgisaukningar til ofangreindra þriggja flokka, sem vinna náið saman að flestum málum í stjórnarandstöðu, hefur lent hjá Pírötum. Samfylkingin bætir við sig fylgi milli mánaða en er samt sem áður við lægri mörk þess sem hún hefur mælst með á kjörtímabilinu með 13,3 prósent fylgi. Viðreisn mælist síðan með 11,3 prósent.
Allir þrír flokkarnir mælast vel yfir kjörfylgi í síðustu kosningum og sameiginlega myndu þeir bæta við sig 11,2 prósentustigum ef kosið yrði í dag, miðað við niðurstöðu könnunar MMR.
Liggur ekki fyrir hvenær verður kosið
Miðflokkurinn var á miklu flugi fyrir faraldurinn og mældist meðal annars með 16,8 prósent fylgi í nóvemberlok og 15,1 prósent í janúar. Í síðustu könnunum hefur fylgið að mestu verið sitt hvoru megin við tíu prósentustigin og nú er flokkurinn nánast í kjörfylgi með 10,8 prósent mældan stuðning.
Flokkur fólksins, sem í dag er minnstur þeirra átta flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi, er ansi langt frá því að ná inn að óbreyttu og mælist með 3,6 prósent fylgi. Fylgi hans er rúmlega helmingur þess sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Sósíalistaflokkurinn mælist svo með 4,1 prósent sem er mjög svipað og í síðustu könnun en hann hefur aldrei boðið fram í Alþingiskosningum og mun því gera það í fyrsta sinn þegar kosið verður á næsta ári.
Í nýlegu viðtali við Kjarnann sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að hún væri ekki farin að hugsa um það hvenær næstu þingkosningar eigi að fara fram, en þær verða að gera það í síðasta lagi í lok október 2021.
Hún var áður búin að gefa það út að samtal myndi eiga sér stað um það á vettvangi Alþingis í sumar hvort þær verði aftur að hausti, sem er óvenjulegt í Íslandssögunni, eða hvort þær verði til að mynda haldnar að vori líkt og hefð er fyrir. Við það ætlar hún að standa þannig að allir stjórnmálaflokkar verði með skýra hugmynd um hvenær næst verði kosið þegar næsti þingvetur hefst.