Úrskurðarnefnd um upplýsingamál (ÚNU) segir að frumvarp forsætisráðherra um breytingar á upplýsingalögum, sem á að efla traust og auka gagnsæi, muni gera framkvæmd laganna „bæði flóknari og óskilvirkari“. Einboðið sé að verði frumvarpið að lögum muni það valda enn tíðari og lengri töfum á afgreiðslu erinda á grundvelli upplýsingalaga.
Þetta kemur fram í umsögn nefndarinnar um frumvarpið sem birt var í gær. Þar segir enn fremur að ÚNU vilji árétta að „sambærileg ákvæði um aðkomu þriðja aðila að málsmeðferð stjórnvalds, eins og frumvarpið felur í sér, eru ekki í norrænni löggjöf um upplýsingarétt almennings. Síðastnefnda atriðið endurspeglar enn fremur að sjónarmið sem hafa komið fram opinberlega um að þörf sé á breytingum á upplýsingalögum vegna laga[...]um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, eiga ekki við rök að styðjast.“
Brugðist við beiðni Samtaka atvinnulífsins
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði frumvarpið fram í mars. Það er nú til meðferðar hjá stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd þar sem Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, er framsögumaður nefndarinnar.
Forsaga þess að frumvarpið var lagt fram eru athugasemdir sem Samtök atvinnulífsins skiluðu inn í fyrra, þegar lögum um upplýsingamál var breytt án þess að nokkur þingmaður greiddi atkvæði gegn því. Athugasemdir þeirra snéru að því að samtökin vildi að hinu opinbera yrði gert skylt að leita upplýsinga hjá þriðja aðila, t.d. skjólstæðinga Samtaka atvinnulífsins, um hvort þeir vildu að upplýsingar um þá yrðu gerðar opinberar. Nýlegt dæmi um slíka þriðja aðila er þegar Kjarninn og Viðskiptablaðið leituðu eftir að fá stefnur nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja á hendur ríkinu þar sem þau fóru fram á yfir tíu milljarða króna bætur vegna úthlutunar á makrílkvóta. Ríkislögmaður taldi sér ekki heimilt að afhenda stefnurnar þar sem sjávarútvegsfyrirtækið reyndust því mótfallin. Málið var kært til úrskurðarnefndar Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að stefnurnar ættu fullt erindi við almenning og skyldu afhentar.
Vildu að gjaldskylda yrði tekin upp
Í því frumvarpi sem forsætisráðherra lagði fram í mars, í þeim tilgangi að taka tillit til athugasemda Samtaka atvinnulífsins, stendur til að gera öflun umsagnar þriðja aðila að meginskyldu sem stjórnvöld geti aðeins vikið frá þegar það er „augljóslega óþarft.”
Samtök atvinnulífsins skiluðu inn umsögn um nýja frumvarpið líka og lýstu yfir ánægju með það en lögðu líka til frekari breytingar. Meðal annars vilja samtökin að tekin verði upp gjaldtaka fyrir aðgang að upplýsingum frá hinu opinbera. Sá kostnaður myndi að uppistöðu falla á fjölmiðla sem leggja fram nær allar beiðnir sem hinu opinbera berast um upplýsingar. Þau vildu líka að tími til að afgreiða beiðni yrði tvöfaldaður og að þeim sem leitast eftir að fá upplýsingar verði gert að útskýra tilgang beiðninnar fyrirfram.
Verður flóknara og óskilvirkara
Ýmsir aðilar hafa sent inn umsagnir og gagnrýnt frumvarpið. Siðfræðistofnun Háskóla Íslands sagði að hætt væri við því að með frumvarpinu yrði „stigið skref til baka“ þar sem að ekki væri tryggt að málsmeðferðartími vegna upplýsingabeiðna myndi ekki lengjast verði það að lögum. Blaðamannafélag Íslands leggst alfarið gegn samþykkt frumvarpsins og það gerir Félag fréttamanna RÚV einnig.
ÚNU skilaði síðan í gær umsögn sinni um frumvarpið þar sem það er gagnrýnt á ýmsan máta. Í henni segir að nefndin telji rétt að árétta að sú breyting sem lögð sé til, um að skylt verði að leita álits þriðja aðila á upplýsingabeiðnum, sé einsýnt að erindum sem stjórnvöldum berast á grundvelli upplýsingalaga „innheimta aukna vinnu starfsmanna og gera framkvæmd upplýsingalaga bæði flóknari og óskilvirkari.“
Nefndin vekur einnig athygli á því að öflun umsagnar þriðja aðila sé nú þegar ein af helstu ástæðum þess að beiðnir almennings um aðgang að upplýsingum tefjist. „Rétt er að taka fram að þau gögn sem óskað er eftir aðgangi að geta í vissum tilvikum varðað hundruð, jafnvel þúsundir þriðju aðila. í þeim málum þar sem stjórnvöld telja þörf á því að afla umsagnar [...]bregður því oftar en ekki við að þriðji aðili dragi að svara stjórnvaldinu með þeim afleiðingum að sú hraða málsmeðferð upplýsingabeiðna sem Alþingi hefur stefnt að er fyrir bí.“
Tíðari og lengri tafir
Í ljósi þessa telur ÚNU einboðið að verði breytingartillaga forsætisráðherra að lögum muni það valda enn tíðari og lengri töfum á afgreiðslu erinda á grundvelli upplýsingalaga. Þessu til stuðnings er bent á að í upplýsingalögum sé þegar, í undantekningartilfellum, heimild til að hafna beiðni ef meðferð upplýsingabeiðni ef álitið er að hún tæki svo mikinn tíma, eða krefðist svo mikillar vinnu, að ekki væri forsvaranlegt að verða við henni. „Fyrirséð er að stjórnvöld munu í auknum mæli beita fyrir sig ákvæðinu verði frumvarpið samþykkt og málsmeðferðin þannig þyngd og vinna við afgreiðslu beiðna aukin.“
Í frumvarpinu er líka kveðið á um skyldu úrskurðarnefndarinnar til að senda þriðja aðila afrit af úrskurðum nefndarinnar ef hagsmunir varða hann. Eins og sakir standa í dag fá einungis þeir sem kæra mál til nefndarinnar, og þeir sem eru kærðir, slíkt afrit. Ástæða þessa er, samkvæmt greinargerð frumvarpsins, að gefa þriðja aðila færi á að krefjast frestunar réttaráhrifa úrskurðarins en samkvæmt upplýsingalögum hefur málsaðili sjö daga til þess að setja fram slíka kröfu.
Í umsögn ÚNU segir að sá sem á rétt til aðgangs að upplýsingum samkvæmt úrskurði nefndarinnar getur því þurft að bíða eftir því að fá gögn afhent í sjö daga eða þar til aðili hefur tekið ákvörðun um hvort krafa um frestun réttaráhrifa er lögð fram og lengur ef slík krafa er lögð fram en nefndin tekur afstöðu til hennar með úrskurði. „Hafa ber í huga að sjö daga fresturinn byrjar ekki að líða fyrr en aðila hefur borist afrit úrskurðarins. Það blasir því við að fyrirhuguð breyting mun tefja afgreiðslu gagna sem úrskurðað hefur verið um aðgang að.“