Auglýsing

Helsta lang­tíma­vanda­mál Íslands er skortur á trausti milli almenn­ings og helstu stofn­ana sam­fé­lags­ins, sem leiðir af sér skort á sam­heldni. Því miður sýna kann­anir það ár eftir ár að lítið hefur gengið að end­ur­heimta þetta traust eftir að það hvarf að mestu við síð­asta efna­hags­á­fall, síðla árs 2008. 

Sitj­andi rík­is­stjórn ein­setti sér það að gera það að for­gangs­máli að end­ur­heimta þetta traust. Í stjórn­ar­sátt­mála hennar sagði að hún myndi „beita sér fyrir því að efla traust á stjórn­málum og stjórn­sýslu.“ 

Þetta mark­mið hefur vit­an­lega ekki náðst. Traust á Alþingi mæld­ist 29 pró­sent skömmu eftir að rík­is­stjórnin tók við völd­um. Lægst fór það í 18 pró­sent í byrjun árs í fyrra og í febr­úar síð­ast­liðnum stóð það í 23 pró­sent­um. Ein­ungis tvær sam­fé­lags­legar stofn­anir mæl­ast með minna traust en þjóð­þing­ið. Önnur er líka stjórn­mála­leg – borg­ar­stjórn Reykja­víkur (17 pró­sent) – og hin eru bankar (21 pró­sent). 

Þótt upp­skriftin að betra sam­bandi milli stjórn­mála og þjóðar sé í grunn­inn nokkuð ein­föld þá virð­ist okkur ekki fært að baka úr henni full­gerða afurð. Hrá­efnin eru aukið gagn­sæi, skýr­ari ábyrgð­ar­ferl­ar, betra aðstæður til aðhalds og eft­ir­lits með ákvörð­un­ar­töku og skýr­ari mörk fyrir aðgengi sér­hags­muna að ákvörð­unum sem á að taka með almanna­hags­muni í huga.

Það sem hefur verið bætt

Ýmis­legt hefur verið gert á liðnum árum sem er til þess fallið að auka þetta traust. 

Nú eru til að mynda kostn­að­ar­greiðslur til þing­manna birtar á Alþing­isvefnum mán­að­ar­lega. Afleið­ing þess hefur meðal ann­ars verið sú að ófor­svar­an­leg sjálf­taka á svoköll­uðum akst­urs­greiðsl­um, sem fjöl­miðlar höfðu árum saman reynt að fá upp­gefn­ar, hefur dreg­ist veru­lega saman um rúman fjórð­ung eftir að upp­lýs­ing­arnar voru gerðar opin­ber­ar. 

Fyrr í þessum mán­uði voru svo fyrstu heild­ar­lögin um upp­ljóstr­ara sam­þykkt á Alþingi og munu taka gildi um kom­andi ára­mót. Þau ná til upp­ljóstr­ara óháð því hvort sem þeir starfa hjá hinu opin­bera eða á einka­­mark­aði og gilda um starfs­­menn sem greina í góðri trú frá upp­­lýs­ingum eða miðla gögnum um brot á lögum eða aðra ámæl­is­verða hátt­­semi í starf­­semi vinn­u­veit­enda þeirra.

Auglýsing
Sam­kvæmt lög­­unum telst miðlun upp­­lýs­inga eða gagna, að upp­­­fylltum skil­yrðum frum­varps­ins, ekki brot á þagn­­ar- eða trún­­að­­ar­­skyldu starfs­­manns. Hún leggi hvorki refsi- né skaða­­bóta­­byrgð á hann og geti ekki heldur leitt til stjórn­­­sýslu­við­­ur­laga eða íþyngj­andi úrræða að starfs­­manna­rétti.

Þá er lagt sér­­stakt bann við því að láta hvern þann sæta órétt­látri með­­­ferð sem miðlað hefur upp­­lýs­ingum eða gögnum sam­­kvæmt skil­yrðum lag­anna. Lögð er sönn­un­­ar­­byrði á atvinn­u­rek­anda á þann hátt að ef líkur eru leiddar að órétt­látri með­­­ferð skal hann sýna fram á að sú sé ekki raunin og greiða skaða­bætur ef það tekst ekki. Þetta er stórt fram­fara­skref.

Frum­varpi for­sæt­is­ráð­herra um varnir gegn hags­muna­á­rekstrum hjá æðstu hand­höfum fram­kvæmda­valds­ins var útbýtt í byrjum þessa árs. Á meðal þess sem fram kemur í frum­varp­inu, er að skylda alla þá sem starfa í æðsta lagi íslenskrar stjórn­­­­­sýslu og í stjórn­­­­­málum að gefa upp hags­muni sína og gera ítar­­­lega grein fyrir fjár­­­hags­­­legum hags­munum sín­­­um. 

Þá felur það í sér að hags­muna­verðir (e. lobbý­istar) sem eiga sam­­­skipti við stjórn­­­­­mála­­­menn og stjórn­­­­­sýslu verði gert að skrá sig sem slík­a. 

Það er gott að frum­varpið sé komið fram. Enn það er þó óaf­greitt, og þarf nauð­syn­lega að afgreið­ast.

Það sem er slæmt

Það sem hefur hins vegar gengið illa er að tryggja betur fullt aðgengi almenn­ings að upp­lýs­ing­um. Þar hafa aug­ljósir sér­hags­munir tafið mjög fyrir skrefum í rétta átt sem stíga hefði átt fyrir löngu síð­an.

Þar ber fyrst að nefna gjald­frjálst aðgengi að upp­lýs­ingum úr fyr­ir­tækja­skrá, árs­reikn­inga­skrá og hlut­hafa­skrá. Í nágranna­lönd­unum okkar hafa árum saman ver­ið ­starf­ræktar sér­­­stakar vef­­­síður þar sem hægt er að nálg­­­ast grunn­­­upp­­­lýs­ingar um fyr­ir­tæki á borð við eig­end­­­ur, stjórn­­­endur og lyk­il­­­tölur úr rekstri fyr­ir­tækj­anna.

Eins og staðan er í dag þá hagn­ast þriðju aðilar vel á því að taka við þeim upp­lýs­ingum frá rík­is­skatt­stjóra og selja þær áfram á óbil­gjörnu verði til fjöl­miðla, fyr­ir­tækja og almenn­ings alls. Um pils­fald­ar­kapital­isma í sinni tær­ustu mynd er að ræða. Kostnað sem fellur til vegna milli­göngu á upp­lýs­ingum milli ríkis og almenn­ings. Það liggur fyrir að í þessum skrám rík­is­skatt­stjóra eru lykil­upp­lýs­ingar um atvinnu­líf­ið, fjár­muna­eign og takt­inn í sam­fé­lag­inu öllu. Hindr­un­ar­laust aðgengi að þeim styrkir allt aðhald veru­lega, stuðlar að upp­lýstri umræðu og eykur þar af leið­andi traust. Fjár­hags­legir hags­munir þeirra örfáu fyr­ir­tækja sem hagn­ast á núver­andi fyr­ir­komu­lagi, eða hags­munir þeirra ein­stak­linga og fyr­ir­tækja sem vilja fá að vera með sitt í eilífu myrkri, geta vart trompað lýð­ræð­is­­legt mik­il­vægi þess að fjöl­miðlar og almenn­ingur allur hafi frjál­st, frítt og tak­­marka­­laust aðgengi að opin­berum upp­­lýs­ingum um fyr­ir­tæki sem starfa hér­­­lend­­is.

Málið hefur verið á dag­skrá stjórn­mál­anna frá því í byrjun árs 2017 hið minnsta. Þá greindi Bene­dikt Jóhann­es­son, þáver­andi fjár­mála­ráð­herra, frá því að hann vildi að þessar upp­lýs­ingar væru gjald­frjáls­ar. Píratar höfðu áður lagt fram frum­varp þess efn­is. 

Þremur árum síðar var staðan á nákvæm­lega eins. Ekk­ert hafði þok­ast í átt að gjald­frelsi og fjöl­miðl­ar, sem glíma þegar sem heild við miklar rekstr­ar­á­skor­an­ir, eru enn í þeirri stöðu að þurfa að velja gaum­gæfi­lega hvaða upp­lýs­ingar um atvinnu­leyfið eru keypt­ar. 

Rík­is­stjórnin lagði svo loks fram frum­varp þess efnis til sam­ráðs í lok febr­úar 2020. Þá lá reyndar þegar fyrir afar sam­bæri­legt frum­varp frá Pírötum sem var komið til nefndar til frek­ari úrvinnslu. Í stjórn­ar­frum­varp­inu er gert ráð fyrir að lögin taki gildi í byrjun næsta árs. Þá verða liðin fjögur ár frá því að það komst almenni­lega á dag­skrá þings­ins. Í þau fjögur ár hafa íslenskir fjöl­miðlar borgað fyrir upp­lýs­ingar sem þeir ættu að fá gjald­frjálst. 

Það sem er afleitt

Þegar einni hindrun að sjálf­sögðum upp­lýs­ingum er rutt úr vegi er reynt að reisa aðra. Um það mátti lesa í slá­andi frétt í Frétta­blað­inu fyrir nákvæm­lega viku síð­an. Þar kom fram að Sam­tök atvinnu­lífs­ins hefðu skilað inn umsögn um frum­varp um breyt­ingar á upp­lýs­inga­lögum þess efn­ist að þau vildu að tekið yrði upp gjald­taka fyrir aðgang að upp­lýs­ingum frá hinu opin­bera. Sá kostn­aður myndi vit­an­lega að uppi­stöðu falla á fjöl­miðla sem leggja fram nær allar beiðnir sem hinu opin­bera ber­ast um upp­lýs­ing­ar. 

Þetta er ber­sýni­leg til­raun til að reyna að hefta aðgengi fjöl­miðla að upp­lýs­ingum og draga úr aðhalds­hlut­verki þeirra. Á sama hátt og fjár­vana fjöl­miðlar þurfa að vega og meta öll kaup á opin­berum gögnum um fyr­ir­tæki í dag þá myndu þeir þurfa að fara að kostn­að­ar­meta allar upp­lýs­ing­ar­beiðn­ir. Það yrði fjar­stæðu­kennd staða og von­andi ber þing­mönnum gæfa til að sjá í gegnum þessa til­raun til að draga mark­visst úr gagn­sæ­i. 

Verði frum­varpið að lögum verður opin­berum aðilum skylt að leita eftir afstöðu þess sem upp­lýs­ing­arnar geta varð­að, til birt­ingar eða veit­ingar upp­lýs­inga, nema það sé ber­sýni­lega óþarft. Þá myndi úrskurð­ar­nefnd um upp­lýs­inga­mál þurfa að senda þriðja aðila afrit af úrskurði um afhend­ingu upp­lýs­inga, auk þess sem þriðja aðila er veittur réttur til að krefj­ast frest­unar rétt­ar­á­hrifa úrskurð­ar. Dæmi um þessa þriðju aðila eru til að mynda þær útgerðir sem stefndu í fyrra íslenska rík­inu og vildu tíu millj­arða króna í skaða­bætur fyrir að fá ekki þann mak­ríl­kvóta sem þær telja sig eiga rétt á. Kjarn­inn eyddi mörgum mán­uðum í að fá stefnur þeirra afhent­ar, í gegnum kæru­ferli úrskurð­ar­nefndar um upp­lýs­inga­mál og gegn vilja þriðju aðila, Þegar upp­lýs­ing­arnar komu loks fram þá skap­að­ist svo mik­ill sam­fé­lags­legur þrýst­ingur að allar útgerð­irnar nema þær allra óskamm­feiln­ustu hættu við mál­sóknir sín­ar. 

Sam­tök atvinnu­lífs­ins vilja reyndar að gengið verði lengra en stendur til, og að fjöl­miðlar sem eru að leita upp­lýs­inga verði gert að gera grein fyrir ástæðum þess að upp­lýs­ing­anna sé ósk­að. Að þeir upp­lýsi um frétta­vinnslu sína fyr­ir­fram.

Allt ofan­greint yrði mikil aft­ur­för og sýnir full­kom­inn skort á eðli og hlut­verki fjöl­miðla, en mik­inn áhuga á að þrengja aðgang þeirra og almenn­ings alls að upp­lýs­ing­um. 

Það sem veldur veru­legum áhyggjum

Það sem fjallað hefur verið um hér að framan bæt­ist við þá stað­reynd að mark­visst hefur verið unnið að því að draga tenn­urnar úr íslenskum fjöl­miðlum und­an­farin rúman ára­tug. Það ger­ist á sama tíma og geir­inn er að ganga í gegnum nær algjöra aðlögun vegna tækni- og notk­un­ar­breyt­inga með því að sýna full­komið sinnu­leysi gagn­vart alvar­legri þróun í rekstr­ar­um­hverfi þeirra sem mark­visst hefur veikt getu íslenskra fjöl­miðla til að vera sú mik­il­væga lýð­ræð­is­stoð sem þeir þurfa að vera ef við viljum búa í almenni­lega frjálsu og opnu sam­fé­lag­i. 

Þró­unin hefur leitt af sér kerf­is­bundna veik­ingu fjöl­miðl­anna sem birt­ist meðal ann­ars í því að úr stétt­inni hefur flykkst hæfi­leik­a­ríkt fólk sem lætur ekki lengur bjóða sér léleg laun, vondar starfs­að­stæð­ur, afleitan vinnu­tíma og það áreiti sem fylgir því að fjalla gagn­rýnið um þjóð­fé­lags­mál í örsam­fé­lag­i. 

Auglýsing
Hún birt­ist í því að ofsa­legur tap­rekstur stærstu fjöl­miðla­fyr­ir­tækja lands­ins er fjár­magn­aður úr botn­lausum vösum sér­hags­muna­afla sem sjá sér ein­hver hag í því að fá sín tök á umræð­una. Til þess að ná þeim árangri ráða þau menn til að stýra sem eru ekki að uppi­stöðu fjöl­miðla­menn og skilja ekki hlut­verk fjöl­miðla nægj­an­lega vel. Það er full­komin van­virð­ing gagn­vart blaða­mennsku sem fag­stétt og svipað því að setja múr­ara í að gera bók­haldið sitt. 

Það getur ekki hver sem er unnið í fjöl­miðl­um, og hvað þá stýrt þeim. Til þess þarf þekk­ingu, skiln­ing, reynslu og getu sem hentar fag­inu. Alveg eins og í öðrum sér­hæfðum fög­um. ­Fullt af fólki í íslenskum fjöl­miðla­heimi býr yfir þessum kost­um. Það er hins vegar snið­gengið í hags­muna­potinu.

Það sem vekur upp reiði

Stundum er maður síðan orð­laus yfir óheið­ar­leik­anum sem íslenska kerfið leyfir að grass­era. Nýverið var opin­berað að einn maður hefði í tvö og hálft ár fjár­magnað fjöl­miðla­fyr­ir­tækið sem hélt úti DV og tengdum miðlum án þess að hægt yrði að upp­lýsa um hver hann væri. 

Alls setti mað­ur­inn, rík­asti Íslend­ing­ur­inn Björgólfur Thor Björg­ólfs­son, að minnsta kosti 745 millj­ónir króna inn í algjör­lega ósjálf­bæran rekstur yfir áður­nefnt tíma­bil. Hann hefur ekki útskýrt hvað vakti fyrir hon­um, en allan þennan tíma neit­aði tals­maður Björg­ólfs Thors því stað­fast­lega að hann væri að fjár­magna rekstur DV. Þar var ein­fald­lega logið blákalt.

Þegar átti svo að renna DV og tengdum miðlum inn í útgáfu­fé­lag Frétta­blaðs­ins þá þurfti sam­þykki Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins fyrir sam­run­an­um. Í því ferli var leitað athuga­semda ann­arra fjöl­miðla við hon­um, meðal ann­ars Kjarn­ans. 

Í athuga­semd okkar stóð orð­rétt: „Það er mat okkar að sam­þykki Sam­keppn­is­eft­ir­litið sam­run­ann jafn­gildi það því að stofn­unin leggi blessun sína yfir það að leyna megi eign­ar­haldi á fjöl­miðli. Við óskum eftir því að Sam­keppn­is­eft­ir­litið setji það sem skil­yrði fyrir sam­run­anum að upp­lýst verði um raun­veru­lega eig­endur Frjálsrar fjöl­miðl­unar ehf. Leyndin yfir því hver raun­veru­legur eig­andi Frjálsar fjöl­miðl­unar er veldur öðrum fjöl­miðla­fyr­ir­tækjum miklum skaða og bjagar mark­aðs­stöðu óhjá­kvæmi­lega.“

Sam­keppn­is­eft­ir­litið tók mark á þess­ari athuga­semd, brást rétt við og fékk upp­lýs­ing­arnar fram. 

Það sem þarf að gera

Það er erfitt að álykta annað en að íslenskum stjórn­mála­mönnum hugn­ist þessi staða, að ríkir menn með hags­muni geti bara borgað fyrir ósjálf­bæran rekstur sem oft felur í sér miðl­un­ar­leiðir á efni sem eiga ekk­ert erindi í nútím­ann og hvað þá fram­tíð­ina, með til­heyr­andi skað­legri bjögun á sam­keppni á fjöl­miðla­mark­aði.

Ísland hefur verið að falla niður alþjóð­lega lista sem mæla fjöl­miðla­frelsi. Í ár sat Ísland til að mynda í 15. sæti yfir þau lönd sem hafa mest fjöl­miðla­frelsi á lista Reporters wit­hout border­s. 

Auglýsing
Nor­egur skip­aði efsta sæt­ið, Finn­land er í öðru sæti, Dan­­mörk í því þriðja og Sví­­þjóð í fjórða sæti. Hver er mun­ur­inn á Íslandi og þessum lönd­um? 

Í öllum þessum ríkjum mál rekja til dæmis rekja rekstr­ar­stuðn­ing hins opin­bera til einka­rek­inna fjöl­miðla aftur til árs­ins 1990. Í Nor­egi, Sví­þjóð og Dan­mörku hefur stuðn­­­ing­­­ur­inn verið auk­inn umtals­vert und­an­farin mis­­s­eri. Þessir styrkir eru ekki sér­stak­lega umdeildir heldur ríkir nokkuð breiður skiln­ingur á að þeir tryggi fjöl­breytni og getu í fjöl­miðl­un. Nær engin umræða er um að nor­rænir fjöl­miðlar séu undir hælnum á stjórn­mála­mönnum vegna þessa. Þvert á móti þykja þeir með þeim bestu í heimi og almennt er við­ur­kennt innan hinna Norð­ur­land­anna hversu mik­il­vægir sterkir fjöl­miðlar eru virku lýð­ræði.

Þeir sem standa í veg­inum

Hér á landi hefur hins vegar fámennur hópur fyr­ir­ferða­mik­illa þing­manna getað komið í veg fyrir að sett verði upp sam­bæri­legt styrkja­kerfi og í nágranna­löndum okk­ar. Ástæðan virð­ist vera að einn eða tveir minni fjöl­miðl­ar, þar á meðal Kjarn­inn, trufla þá og vegna þess að þeir vilja að nokkrir stórir miðlar sem neita að aðlaga rekstur sinn að nútím­anum þrátt fyrir millj­arða tap á örfáum árum, fái alla þá rík­is­styrki sem útdeila á. Þessir hópur nýtur svo stuðn­ings val­inna fjöl­miðla­manna og nafn­lausra pista­höf­unda sem hafa ham­ast á þeim sem styðja almennt styrkja­kerfi með það að leið­ar­ljósi að bæta lýð­ræð­is­lega virkni og gagn íslenskra fjöl­miðla. Fremst í þeim flokki er Við­skipta­blað­ið, með alla sína nafn­lausu eymd. Rík­is­styrkir reynd­ust svo mikið eitur í beinum þeirrar útgáfu að hún ákvað að setja sex eða fleiri starfs­menn sína á hluta­bóta­leið­ina, sem var ætluð fyrir fyr­ir­tæki í verulegum rekstr­ar­vanda. 

Fyrir þessa heift og óbil­girni gagn­vart miðlum sem geta átt von á því að fá í besta falli um þrjú pró­sent af heild­ar­styrkjum líða allir hinir fjöl­breyttu miðlar íslenskrar fjöl­miðlaflóru sem há enn frekar en áður erf­iða bar­áttu fyrir til­veru sinn­i.  

Vegna þessa hóps situr frum­varp um styrkja­kerfið fast í nefnd for­manns sem hafði ekki einu sinni fyrir því að vera við­staddur þegar hluti fjöl­miðla var kall­aður fyrir nefnd­ina vegna máls­ins. Af opin­berum yfir­lýs­ingum hans, sem byggja aldrei á rökum eða vísun í gögn heldur fyrst og síð­ast niðr­andi gíf­ur­yrð­um, þá nennir hann ekki mikið að hlusta á ein­hverja „blogg­ara“. 

Í stað­inn á að styrkja einka­rekna fjöl­miðla með ein­skipt­is­að­gerð sem hluta af COVID-við­brögð­um. Hvernig sá styrkur verður liggur ekki enn fyr­ir. Það verður til dæmis áhuga­vert að sjá hvort að gerð verði skýr krafa um gegn­sætt eign­ar­hald og hvort nýt­ing á öðrum COVID-­rík­is­styrkjum muni drag­ast frá væntu fram­lagi til þeirra þriggja fjöl­miðla­fyr­ir­tækja sem nýttu sér hluta­bóta­leið­ina. 

En aug­ljóst er að ein­hver sér hag í því að fyr­ir­sjá­an­leiki í fjöl­miðla­rekstri sé eng­inn og að ástæða sé til að halda þessu leik­riti um mögu­legan vilja til að takast á við ástand­ið, sem staðið hefur frá árinu 2016, áfram.  

Erfitt er að draga aðra ályktun en þá að það sé vegna þess að við­kom­andi vilji hafa stærstu fjöl­miðla lands­ins áfram í tap­rekstri sem kallar á áfram­hald­andi fjár­fram­lög sér­hags­muna­að­ila, með til­heyr­andi nei­kvæðum áhrifum á lýð­ræð­is­lega umræðu og sam­keppn­is­að­stæður á fjöl­miðla­mark­að­i. 

Það er mjög mið­ur.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari