Auglýsing

Helsta langtímavandamál Íslands er skortur á trausti milli almennings og helstu stofnana samfélagsins, sem leiðir af sér skort á samheldni. Því miður sýna kannanir það ár eftir ár að lítið hefur gengið að endurheimta þetta traust eftir að það hvarf að mestu við síðasta efnahagsáfall, síðla árs 2008. 

Sitjandi ríkisstjórn einsetti sér það að gera það að forgangsmáli að endurheimta þetta traust. Í stjórnarsáttmála hennar sagði að hún myndi „beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.“ 

Þetta markmið hefur vitanlega ekki náðst. Traust á Alþingi mældist 29 prósent skömmu eftir að ríkisstjórnin tók við völdum. Lægst fór það í 18 prósent í byrjun árs í fyrra og í febrúar síðastliðnum stóð það í 23 prósentum. Einungis tvær samfélagslegar stofnanir mælast með minna traust en þjóðþingið. Önnur er líka stjórnmálaleg – borgarstjórn Reykjavíkur (17 prósent) – og hin eru bankar (21 prósent). 

Þótt uppskriftin að betra sambandi milli stjórnmála og þjóðar sé í grunninn nokkuð einföld þá virðist okkur ekki fært að baka úr henni fullgerða afurð. Hráefnin eru aukið gagnsæi, skýrari ábyrgðarferlar, betra aðstæður til aðhalds og eftirlits með ákvörðunartöku og skýrari mörk fyrir aðgengi sérhagsmuna að ákvörðunum sem á að taka með almannahagsmuni í huga.

Það sem hefur verið bætt

Ýmislegt hefur verið gert á liðnum árum sem er til þess fallið að auka þetta traust. 

Nú eru til að mynda kostnaðargreiðslur til þingmanna birtar á Alþingisvefnum mánaðarlega. Afleiðing þess hefur meðal annars verið sú að óforsvaranleg sjálftaka á svokölluðum akstursgreiðslum, sem fjölmiðlar höfðu árum saman reynt að fá uppgefnar, hefur dregist verulega saman um rúman fjórðung eftir að upplýsingarnar voru gerðar opinberar. 

Fyrr í þessum mánuði voru svo fyrstu heildarlögin um uppljóstrara samþykkt á Alþingi og munu taka gildi um komandi áramót. Þau ná til uppljóstrara óháð því hvort sem þeir starfa hjá hinu opin­bera eða á einka­mark­aði og gilda um starfs­menn sem greina í góðri trú frá upp­lýs­ingum eða miðla gögnum um brot á lögum eða aðra ámæl­is­verða hátt­semi í starf­semi vinnu­veit­enda þeirra.

Auglýsing
Sam­kvæmt lög­unum telst miðlun upp­lýs­inga eða gagna, að upp­fylltum skil­yrðum frum­varps­ins, ekki brot á þagn­ar- eða trún­að­ar­skyldu starfs­manns. Hún leggi hvorki refsi- né skaða­bóta­byrgð á hann og geti ekki heldur leitt til stjórn­sýslu­við­ur­laga eða íþyngj­andi úrræða að starfs­manna­rétti.

Þá er lagt sér­stakt bann við því að láta hvern þann sæta órétt­látri með­ferð sem miðlað hefur upp­lýs­ingum eða gögnum sam­kvæmt skil­yrðum lag­anna. Lögð er sönn­un­ar­byrði á atvinnu­rek­anda á þann hátt að ef líkur eru leiddar að órétt­látri með­ferð skal hann sýna fram á að sú sé ekki raunin og greiða skaða­bætur ef það tekst ekki. Þetta er stórt framfaraskref.

Frumvarpi forsætisráðherra um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdavaldsins var útbýtt í byrjum þessa árs. Á meðal þess sem fram kemur í frum­varp­inu, er að skylda alla þá sem starfa í æðsta lagi íslenskrar stjórn­­­sýslu og í stjórn­­­málum að gefa upp hags­muni sína og gera ítar­­lega grein fyrir fjár­­hags­­legum hags­munum sín­­um. 

Þá felur það í sér að hags­muna­verðir (e. lobbýistar) sem eiga sam­­skipti við stjórn­­­mála­­menn og stjórn­­­sýslu verði gert að skrá sig sem slíka. 

Það er gott að frumvarpið sé komið fram. Enn það er þó óafgreitt, og þarf nauðsynlega að afgreiðast.

Það sem er slæmt

Það sem hefur hins vegar gengið illa er að tryggja betur fullt aðgengi almennings að upplýsingum. Þar hafa augljósir sérhagsmunir tafið mjög fyrir skrefum í rétta átt sem stíga hefði átt fyrir löngu síðan.

Þar ber fyrst að nefna gjaldfrjálst aðgengi að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá, ársreikningaskrá og hluthafaskrá. Í nágranna­lönd­unum okkar hafa árum saman verið starfræktar sér­­stakar vef­­síður þar sem hægt er að nálg­­ast grunn­­upp­­lýs­ingar um fyr­ir­tæki á borð við eig­end­­ur, stjórn­­endur og lyk­il­­tölur úr rekstri fyr­ir­tækj­anna.

Eins og staðan er í dag þá hagnast þriðju aðilar vel á því að taka við þeim upplýsingum frá ríkisskattstjóra og selja þær áfram á óbilgjörnu verði til fjölmiðla, fyrirtækja og almennings alls. Um pilsfaldarkapitalisma í sinni tærustu mynd er að ræða. Kostnað sem fellur til vegna milligöngu á upplýsingum milli ríkis og almennings. Það liggur fyrir að í þessum skrám ríkisskattstjóra eru lykilupplýsingar um atvinnulífið, fjármunaeign og taktinn í samfélaginu öllu. Hindrunarlaust aðgengi að þeim styrkir allt aðhald verulega, stuðlar að upplýstri umræðu og eykur þar af leiðandi traust. Fjárhagslegir hagsmunir þeirra örfáu fyrirtækja sem hagnast á núverandi fyrirkomulagi, eða hagsmunir þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem vilja fá að vera með sitt í eilífu myrkri, geta vart trompað lýð­ræð­is­legt mik­il­vægi þess að fjöl­miðlar og almenn­ingur allur hafi frjál­st, frítt og tak­marka­laust aðgengi að opin­berum upp­lýs­ingum um fyr­ir­tæki sem starfa hér­lend­is.

Málið hefur verið á dagskrá stjórnmálanna frá því í byrjun árs 2017 hið minnsta. Þá greindi Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármálaráðherra, frá því að hann vildi að þessar upplýsingar væru gjaldfrjálsar. Píratar höfðu áður lagt fram frumvarp þess efnis. 

Þremur árum síðar var staðan á nákvæmlega eins. Ekkert hafði þokast í átt að gjaldfrelsi og fjölmiðlar, sem glíma þegar sem heild við miklar rekstraráskoranir, eru enn í þeirri stöðu að þurfa að velja gaumgæfilega hvaða upplýsingar um atvinnuleyfið eru keyptar. 

Ríkisstjórnin lagði svo loks fram frumvarp þess efnis til samráðs í lok febrúar 2020. Þá lá reyndar þegar fyrir afar sambærilegt frumvarp frá Pírötum sem var komið til nefndar til frekari úrvinnslu. Í stjórnarfrumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin taki gildi í byrjun næsta árs. Þá verða liðin fjögur ár frá því að það komst almennilega á dagskrá þingsins. Í þau fjögur ár hafa íslenskir fjölmiðlar borgað fyrir upplýsingar sem þeir ættu að fá gjaldfrjálst. 

Það sem er afleitt

Þegar einni hindrun að sjálfsögðum upplýsingum er rutt úr vegi er reynt að reisa aðra. Um það mátti lesa í sláandi frétt í Fréttablaðinu fyrir nákvæmlega viku síðan. Þar kom fram að Samtök atvinnulífsins hefðu skilað inn umsögn um frumvarp um breytingar á upplýsingalögum þess efnist að þau vildu að tekið yrði upp gjaldtaka fyrir aðgang að upplýsingum frá hinu opinbera. Sá kostnaður myndi vitanlega að uppistöðu falla á fjölmiðla sem leggja fram nær allar beiðnir sem hinu opinbera berast um upplýsingar. 

Þetta er bersýnileg tilraun til að reyna að hefta aðgengi fjölmiðla að upplýsingum og draga úr aðhaldshlutverki þeirra. Á sama hátt og fjárvana fjölmiðlar þurfa að vega og meta öll kaup á opinberum gögnum um fyrirtæki í dag þá myndu þeir þurfa að fara að kostnaðarmeta allar upplýsingarbeiðnir. Það yrði fjarstæðukennd staða og vonandi ber þingmönnum gæfa til að sjá í gegnum þessa tilraun til að draga markvisst úr gagnsæi. 

Verði frumvarpið að lögum verður opinberum aðilum skylt að leita eftir afstöðu þess sem upplýsingarnar geta varðað, til birtingar eða veitingar upplýsinga, nema það sé bersýnilega óþarft. Þá myndi úrskurðarnefnd um upplýsingamál þurfa að senda þriðja aðila afrit af úrskurði um afhendingu upplýsinga, auk þess sem þriðja aðila er veittur réttur til að krefjast frestunar réttaráhrifa úrskurðar. Dæmi um þessa þriðju aðila eru til að mynda þær útgerðir sem stefndu í fyrra íslenska ríkinu og vildu tíu milljarða króna í skaðabætur fyrir að fá ekki þann makrílkvóta sem þær telja sig eiga rétt á. Kjarninn eyddi mörgum mánuðum í að fá stefnur þeirra afhentar, í gegnum kæruferli úrskurðarnefndar um upplýsingamál og gegn vilja þriðju aðila, Þegar upplýsingarnar komu loks fram þá skapaðist svo mikill samfélagslegur þrýstingur að allar útgerðirnar nema þær allra óskammfeilnustu hættu við málsóknir sínar. 

Samtök atvinnulífsins vilja reyndar að gengið verði lengra en stendur til, og að fjölmiðlar sem eru að leita upplýsinga verði gert að gera grein fyrir ástæðum þess að upplýsinganna sé óskað. Að þeir upplýsi um fréttavinnslu sína fyrirfram.

Allt ofangreint yrði mikil afturför og sýnir fullkominn skort á eðli og hlutverki fjölmiðla, en mikinn áhuga á að þrengja aðgang þeirra og almennings alls að upplýsingum. 

Það sem veldur verulegum áhyggjum

Það sem fjallað hefur verið um hér að framan bætist við þá staðreynd að markvisst hefur verið unnið að því að draga tennurnar úr íslenskum fjölmiðlum undanfarin rúman áratug. Það gerist á sama tíma og geirinn er að ganga í gegnum nær algjöra aðlögun vegna tækni- og notkunarbreytinga með því að sýna fullkomið sinnuleysi gagnvart alvarlegri þróun í rekstrarumhverfi þeirra sem markvisst hefur veikt getu íslenskra fjölmiðla til að vera sú mikilvæga lýðræðisstoð sem þeir þurfa að vera ef við viljum búa í almennilega frjálsu og opnu samfélagi. 

Þróunin hefur leitt af sér kerfisbundna veikingu fjölmiðlanna sem birtist meðal annars í því að úr stéttinni hefur flykkst hæfileikaríkt fólk sem lætur ekki lengur bjóða sér léleg laun, vondar starfsaðstæður, afleitan vinnutíma og það áreiti sem fylgir því að fjalla gagnrýnið um þjóðfélagsmál í örsamfélagi. 

Auglýsing
Hún birtist í því að ofsalegur taprekstur stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins er fjármagnaður úr botnlausum vösum sérhagsmunaafla sem sjá sér einhver hag í því að fá sín tök á umræðuna. Til þess að ná þeim árangri ráða þau menn til að stýra sem eru ekki að uppistöðu fjölmiðlamenn og skilja ekki hlutverk fjölmiðla nægjanlega vel. Það er fullkomin vanvirðing gagnvart blaðamennsku sem fagstétt og svipað því að setja múrara í að gera bókhaldið sitt. 

Það getur ekki hver sem er unnið í fjölmiðlum, og hvað þá stýrt þeim. Til þess þarf þekkingu, skilning, reynslu og getu sem hentar faginu. Alveg eins og í öðrum sérhæfðum fögum. Fullt af fólki í íslenskum fjölmiðlaheimi býr yfir þessum kostum. Það er hins vegar sniðgengið í hagsmunapotinu.

Það sem vekur upp reiði

Stundum er maður síðan orðlaus yfir óheiðarleikanum sem íslenska kerfið leyfir að grassera. Nýverið var opinberað að einn maður hefði í tvö og hálft ár fjármagnað fjölmiðlafyrirtækið sem hélt úti DV og tengdum miðlum án þess að hægt yrði að upplýsa um hver hann væri. 

Alls setti maðurinn, ríkasti Íslendingurinn Björgólfur Thor Björgólfsson, að minnsta kosti 745 milljónir króna inn í algjörlega ósjálfbæran rekstur yfir áðurnefnt tímabil. Hann hefur ekki útskýrt hvað vakti fyrir honum, en allan þennan tíma neitaði talsmaður Björgólfs Thors því staðfastlega að hann væri að fjármagna rekstur DV. Þar var einfaldlega logið blákalt.

Þegar átti svo að renna DV og tengdum miðlum inn í útgáfufélag Fréttablaðsins þá þurfti samþykki Samkeppniseftirlitsins fyrir samrunanum. Í því ferli var leitað athugasemda annarra fjölmiðla við honum, meðal annars Kjarnans. 

Í athugasemd okkar stóð orðrétt: „Það er mat okkar að samþykki Samkeppniseftirlitið samrunann jafngildi það því að stofnunin leggi blessun sína yfir það að leyna megi eignarhaldi á fjölmiðli. Við óskum eftir því að Samkeppniseftirlitið setji það sem skilyrði fyrir samrunanum að upplýst verði um raunverulega eigendur Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. Leyndin yfir því hver raunverulegur eigandi Frjálsar fjölmiðlunar er veldur öðrum fjölmiðlafyrirtækjum miklum skaða og bjagar markaðsstöðu óhjákvæmilega.“

Samkeppniseftirlitið tók mark á þessari athugasemd, brást rétt við og fékk upplýsingarnar fram. 

Það sem þarf að gera

Það er erfitt að álykta annað en að íslenskum stjórnmálamönnum hugnist þessi staða, að ríkir menn með hagsmuni geti bara borgað fyrir ósjálfbæran rekstur sem oft felur í sér miðlunarleiðir á efni sem eiga ekkert erindi í nútímann og hvað þá framtíðina, með tilheyrandi skaðlegri bjögun á samkeppni á fjölmiðlamarkaði.

Ísland hefur verið að falla niður alþjóðlega lista sem mæla fjölmiðlafrelsi. Í ár sat Ísland til að mynda í 15. sæti yfir þau lönd sem hafa mest fjölmiðlafrelsi á lista Reporters without borders. 

Auglýsing
Nor­egur skipaði efsta sæt­ið, Finn­land er í öðru sæti, Dan­mörk í því þriðja og Sví­þjóð í fjórða sæti. Hver er munurinn á Íslandi og þessum löndum? 

Í öllum þessum ríkjum mál rekja til dæmis rekja rekstrarstuðning hins opinbera til einka­rek­inna fjöl­miðla aftur til árs­ins 1990. Í Noregi, Svíþjóð og Danmörku hefur stuðn­­ing­­ur­inn verið auk­inn umtals­vert und­an­farin mis­s­eri. Þessir styrkir eru ekki sérstaklega umdeildir heldur ríkir nokkuð breiður skilningur á að þeir tryggi fjölbreytni og getu í fjölmiðlun. Nær engin umræða er um að norrænir fjölmiðlar séu undir hælnum á stjórnmálamönnum vegna þessa. Þvert á móti þykja þeir með þeim bestu í heimi og almennt er viðurkennt innan hinna Norðurlandanna hversu mikilvægir sterkir fjölmiðlar eru virku lýðræði.

Þeir sem standa í veginum

Hér á landi hefur hins vegar fámennur hópur fyrirferðamikilla þingmanna getað komið í veg fyrir að sett verði upp sambærilegt styrkjakerfi og í nágrannalöndum okkar. Ástæðan virðist vera að einn eða tveir minni fjölmiðlar, þar á meðal Kjarninn, trufla þá og vegna þess að þeir vilja að nokkrir stórir miðlar sem neita að aðlaga rekstur sinn að nútímanum þrátt fyrir milljarða tap á örfáum árum, fái alla þá ríkisstyrki sem útdeila á. Þessir hópur nýtur svo stuðnings valinna fjölmiðlamanna og nafnlausra pistahöfunda sem hafa hamast á þeim sem styðja almennt styrkjakerfi með það að leiðarljósi að bæta lýðræðislega virkni og gagn íslenskra fjölmiðla. Fremst í þeim flokki er Viðskiptablaðið, með alla sína nafnlausu eymd. Ríkisstyrkir reyndust svo mikið eitur í beinum þeirrar útgáfu að hún ákvað að setja sex eða fleiri starfsmenn sína á hlutabótaleiðina, sem var ætluð fyrir fyrirtæki í verulegum rekstrarvanda. 

Fyrir þessa heift og óbilgirni gagnvart miðlum sem geta átt von á því að fá í besta falli um þrjú prósent af heildarstyrkjum líða allir hinir fjölbreyttu miðlar íslenskrar fjölmiðlaflóru sem há enn frekar en áður erfiða baráttu fyrir tilveru sinni.  

Vegna þessa hóps situr frumvarp um styrkjakerfið fast í nefnd formanns sem hafði ekki einu sinni fyrir því að vera viðstaddur þegar hluti fjölmiðla var kallaður fyrir nefndina vegna málsins. Af opinberum yfirlýsingum hans, sem byggja aldrei á rökum eða vísun í gögn heldur fyrst og síðast niðrandi gífuryrðum, þá nennir hann ekki mikið að hlusta á einhverja „bloggara“. 

Í staðinn á að styrkja einkarekna fjölmiðla með einskiptisaðgerð sem hluta af COVID-viðbrögðum. Hvernig sá styrkur verður liggur ekki enn fyrir. Það verður til dæmis áhugavert að sjá hvort að gerð verði skýr krafa um gegnsætt eignarhald og hvort nýting á öðrum COVID-ríkisstyrkjum muni dragast frá væntu framlagi til þeirra þriggja fjölmiðlafyrirtækja sem nýttu sér hlutabótaleiðina. 

En augljóst er að einhver sér hag í því að fyrirsjáanleiki í fjölmiðlarekstri sé enginn og að ástæða sé til að halda þessu leikriti um mögulegan vilja til að takast á við ástandið, sem staðið hefur frá árinu 2016, áfram.  

Erfitt er að draga aðra ályktun en þá að það sé vegna þess að viðkomandi vilji hafa stærstu fjölmiðla landsins áfram í taprekstri sem kallar á áframhaldandi fjárframlög sérhagsmunaaðila, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á lýðræðislega umræðu og samkeppnisaðstæður á fjölmiðlamarkaði. 

Það er mjög miður.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til af bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari