Mynd: Skjáskot/RÚV

Ráðuneytið lét héraðssaksóknara vita af eigendabreytingum hjá Samherja

Samherji sendi upphaflega tilkynningu um eignarhald erlends aðila í félaginu á rangan ráðherra, Kristján Þór Júlíusson. Erlendi aðilinn, Baldvin Þorsteinsson, á 20,5 prósent beinan hlut í Samherja, sem hann eignaðist þegar 164 milljónir hluta í Samherja skiptu um hendur. Héraðssaksóknari var látinn vita af eigendabreytingunum í ljósi þess að aðaleigandi Samherja og forstjóri væru „til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara.“

Starfs­maður atvinnu­vega­ráðu­neyt­is­ins hringdi tví­vegis í Ólaf Þór Hauks­son hér­aðs­sak­sókn­ara, ann­ars vegar 18. des­em­ber og hins vegar 20. des­em­ber 2019, til að gera honum við­vart um að ráðu­neyt­inu hefði borist til­kynn­ing um að erlendur aðili hefði keypt alls 20,5 pró­sent hlut í Sam­herja hf. 

Í skjali um sam­skiptin sem Kjarn­inn hefur fengið afhent frá atvinnu­vega­ráðu­neyt­inu kemur fram að ástæða þess að haft var sam­band við við hér­aðs­sak­sókn­ara var að ráðu­neyt­inu væri „kunn­ugt um að það félag sem til­kynn­ingin við­kemur og aðal­eig­andi þess og for­stjóri eru til rann­sóknar hjá emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara.“

Þar segir enn fremur að efni til­kynn­ing­ar­innar sé til þess fallið að „geta haft áhrif á rann­sókn hér­aðs­sak­sókn­ara en ráðu­neytið getur ekki gert sér grein fyrir því að hve miklu leyti eða hvaða þýð­ingu hún kunni að hafa. Efni hennar er þó slíkt að rétt er talið að gera hér­aðs­sak­sókn­ara grein fyrir því.“

Fjár­fest­ing félags sem Bald­vin á 49 pró­sent í, K&B ehf., í Sam­herja var til­kynnt til atvinnu­vega­ráðu­neyt­is­ins átta dögum áður en að Kveik­ur, Stund­in, Wiki­leaks og Al Jazeera opin­ber­uðu margra mán­aða rann­sókn­ar­vinnu sem sýndi fram á meintar mútu­greiðsl­ur, pen­inga­þvætti og skatta­snið­göngu Sam­herj­a­sam­stæð­unnar í tengslum við veiðar hennar í Namib­íu. 

Auglýsing

Í umfjöllun Kveiks, sem sýnd var 12. nóv­em­ber 2019, kom fram að frétta­­skýr­inga­þátt­­ur­inn leit­aði til Þor­­steins Más um við­­tal vegna umfjöll­unar þátt­­ar­ins um meintar mút­u­greiðsl­ur, pen­inga­þvætti og skatta­snið­­göngu Sam­herja í Namibíu 15. októ­ber, tæpum þremur vikum áður en til­kynnt var um að hlut­ur­inn í Sam­herja hefði verið seldur til K&B ehf. 

Þor­steinn Már hafn­aði að mæta í við­tal en fékk svo skrif­­lega beiðni tíu dögum síð­­­ar, 25. októ­ber eða níu dögum áður en atvinnu­vega­ráðu­neyt­inu var til­kynnt um að 43 pró­sent hlut­ur­inn í Sam­herja hefði verið seldur til barna aðal­eig­enda félags­ins, þar sem Kveikur greindi honum frá því í smá­at­riðum hvað var verið að fjalla um. 

Í til­kynn­ingu sem lög­maður á vegum Sam­herja sendi fyrir hönd fyr­ir­tæk­is­ins í gær var því hafnað að tengsl væru á milli þess að til­kynnt væri um eig­enda­breyt­ing­arnar og umfjöll­unar um athæfi Sam­herja í Namib­íu. ­Þrátt fyrir það fannst atvinnu­vega­ráðu­neyt­inu við­eig­andi að láta hér­aðs­sak­sókn­ara vita af þeim.

Stenst lög um erlenda fjár­fest­ingu

Kjarn­inn greindi frá því í gær að þann 4. nóv­em­ber 2019 hefði atvinnu­vega­ráðu­neyt­inu borist til­kynn­ing um að félag í eigu ein­stak­lings sem er skil­greindur erlendur sam­kvæmt íslenskum lögum ætti 49 pró­sent hlut í félagi, sem hefði eign­ast stóran hlut í sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­inu Sam­herja hf. Um var að ræða Bald­vin sem er með lög­heim­ili í Hollandi og telst því erlendur aðili í skiln­ingi íslenskra laga. Um eign­ar­hald slíkra þarf að til­kynna til atvinnu­vega­ráðu­neyt­is­ins sam­kvæmt lög­um, enda erlendum aðilum settar miklar skorður þegar kemur að því að eiga hlut í íslenskum sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­u­m. 

Bald­vin á 49 pró­sent í félag­inu K&B ehf.. Aðrir eig­endur þess eru systir hans Katla, sem á 48,9 pró­sent, og faðir hans, sem á 2,1 pró­sent. 

Lög­maður Sam­herja sendi til­kynn­ing­una upp­haf­lega til Krist­jáns Þórs Júl­í­us­son­ar, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra. Það átti hins vegar ekki að senda hana þang­að, heldur til hins ráð­herr­ans í atvinnu­vega­ráðu­neyt­inu, Þór­dísar Kol­brúnar Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur, ráð­herra ferða­mála-, iðn­aðar og nýsköp­un­ar, sem fer með for­ræði laga um fjár­fest­ingu erlendra aðila í atvinnu­rekstri. 

Í til­kynn­ing­unni kemur fram að Sam­herja hefði verið greint frá því með bréfi þann 1. nóv­em­ber 2019 að einn af hlut­höfum félags­ins, Eign­ar­halds­fé­lagið Steinn, í eigu Þor­steins Más og Helgu, hefði selt alls 163,8 millj­ónir hluti í Sam­herja til K&B ehf. sem hefði fyrir vikið eign­ast 43 pró­sent hlut í Sam­herj­a. 

Við með­ferð máls­ins varð það nið­ur­staða ráðu­neyt­is­ins að eign erlenda aðil­ans, Bald­vins, á Sam­herja bryti ekki í bága við lög um fjár­fest­ingu erlendra aðila í atvinnu­rekstri. Bein eign hans í Sam­herja væri til að mynda 20,5 pró­sent sem þýddi að erlent eign­ar­hald væri undir því 25 pró­sent hámarki sem til­greint er í lög­um. 

Rúmt hálft ár þangað til að breyt­ingar voru opin­ber­aðar

Opin­ber­lega var ekki sagt frá því að eig­enda­skipti væru að eiga sér stað hjá Sam­herja fyrr en 15. maí 2020. Þá birt­ist til­kynn­ing á heima­síðu Sam­herj­a­sam­stæð­unnar um að Þor­steinn Már, Helga og Krist­ján Vil­helms­son væru að færa næstum allt eign­ar­hald á Sam­herja hf., sem er eign­ar­halds­fé­lag utan um þorra starf­semi sam­stæð­unnar á Íslandi og í Fær­eyj­um, til barna sinna. Þau halda hins vegar áfram að vera eig­endur að erlendu starf­sem­inni, og halda á stórum hlut í Eim­skip, sem hefur frá 2018 verið vistað inni í öðru eign­ar­halds­fé­lagi, Sam­herja Hold­ing ehf. 

Auglýsing

Í til­kynn­ing­unni kom fram að Bald­vin og Katla myndu eign­ast 43 pró­sent í Sam­herja hf. Sam­hliða var greint frá því að Dagný Linda, Hall­­dór Örn, Krist­ján Bjarni og Katrín, börn Krist­jáns Vil­helms­son­ar, myndu fara sam­an­lagt með um 41,5 pró­­sent hluta­fjár. Í til­kynn­ing­unni sagði að með þessum hætti „vilja stofn­endur Sam­herja treysta og við­halda þeim mik­il­vægu fjöl­­skyld­u­­tengslum sem félagið hefur ætíð byggst á og hafa verið horn­­steinn í rekstr­in­­um.“ Þar kom einnig fram að und­ir­bún­ingur breyt­ing­anna á eign­ar­hald­inu hafi staðið und­an­farin tvö ár en áformin og fram­kvæmd þeirra voru form­lega kynnt í stjórn félags­ins á miðju ári 2019.

Fram­sal og arfur

Í maí, þegar Kjarn­inn leit­aði eftir upp­lýs­ingum um með hvaða hætti fram­sal hluta­bréfa for­eldra til barna hefði átt sér stað, feng­ust þau svör hjá Björgólfi Jóhanns­syni, ann­ars for­stjóra Sam­herja, að ann­ars vegar hefðu börnin fengið fyr­ir­fram­greiddan arf, og hins vegar væri um sölu milli félaga að ræða. 

Ekki hafa feng­ist upp­lýs­ingar hjá Sam­herja um virði þess hlutar sem til­kynnt var um að færður hefði verið á milli kyn­slóða né hvernig til­færsl­unni var skipt milli fyr­ir­fram­greidds arfs og sölu. Engin skjöl hafa heldur verið send inn til fyr­ir­tækja­skrár vegna við­skipt­anna enn sem komið er. Einu upp­lýs­ing­arnar sem þar er að finna um K&B ehf., fyrir utan eign­ar­haldið á félag­inu og að það hafi verið stofnað í apríl 2019, er að hlutafé þess var aukið um 100 millj­ónir króna seint í sept­em­ber í fyrra.

Eigið fé Sam­herja hf. var 446,7 millj­ónir evra í árs­lok 2018, en árs­reikn­ingur fyr­ir­tæk­is­ins fyrir árið 2019 hefur ekki verið skilað til fyr­ir­tækja­skrár, enda frestur til slíks ekki útrunn­inn. Á gengi þess tíma var eigið féð um 60 millj­arðar króna. 

Bald­vin heldur á svipað miklum kvóta og Ísfé­lagið

Í til­kynn­ingu Sam­herja til atvinnu­vega­ráðu­neyt­is­ins segir að Sam­herji hf. stundi „hvorki fisk­veiðar í efna­hags­lög­sögu Íslands né rekur fyr­ir­tæki til vinnslu sjáv­ar­af­urða hér á landi í eigin nafni en á að fullu eða að hluta fyr­ir­tæki í slíkri starf­sem­i.“ 

Þetta er rétt. Sam­herji hf. á þó sann­ar­lega dótt­ur­fé­lög sem það ger­a. 

Auglýsing

Sam­herji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Sam­herja hf, er með næst mesta afla­hlut­­deild í íslenskri efna­hags­lög­sögu allra sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja á Íslandi, eða 7,02 pró­­sent. ­Út­­­gerð­­­­­­ar­­­­­­fé­lag Akur­eyr­­­­­­ar, sem er líka í 100 pró­­­­­­sent eigu Sam­herja, heldur svo á 1,3 pró­­­­­­sent kvót­ans og Sæból fjár­­­­­­­­­­­fest­inga­­­­­­fé­lag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 pró­­­­­­sent hans. Síld­­­­­­ar­vinnslan, sem Sam­herji á beint og óbeint 49,9 pró­­sent hlut í, er svo með 5,2 pró­­sent afla­hlut­­deild og Berg­­ur-Hug­inn, í eigu Síld­­ar­vinnsl­unn­­ar, er með 2,3 pró­­sent af heild­­ar­kvóta til umráða. Auk þess á Síld­ar­vinnslan 75,20 pró­sent hlut í Run­ólfi Hall­freðs­syni ehf., sem heldur á 0,62 pró­sent af úthlut­uðum kvóta. Sam­an­lagt er þessi blokk að minnsta kosti 17,1 pró­­sent afla­hlut­­deild. 

Bald­vin á því hlut í félagi, sem á hlut í félagi sem á félög, að hluta eða öllu leyti, sem halda saman á stærri hluta af úthlut­uðum kvóta í íslenskri efna­hags­lög­sögu en nokkur önnur sjáv­ar­út­vegs­sam­stæða. Bein hlutur Bald­vins í úthlut­uðum kvóta­heim­ildum er því um 3,5 pró­sent. Til sam­an­burðar nemur held­ar­kvóti Ísfé­lags Vest­manna­eyja 3,7 pró­sentum og Vísir í Grinda­vík heldur á 3,65 pró­sent úthlut­aðra afla­heim­ilda.

Lestu meira:

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar