Starfsmaður atvinnuvegaráðuneytisins hringdi tvívegis í Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara, annars vegar 18. desember og hins vegar 20. desember 2019, til að gera honum viðvart um að ráðuneytinu hefði borist tilkynning um að erlendur aðili hefði keypt alls 20,5 prósent hlut í Samherja hf.
Í skjali um samskiptin sem Kjarninn hefur fengið afhent frá atvinnuvegaráðuneytinu kemur fram að ástæða þess að haft var samband við við héraðssaksóknara var að ráðuneytinu væri „kunnugt um að það félag sem tilkynningin viðkemur og aðaleigandi þess og forstjóri eru til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara.“
Þar segir enn fremur að efni tilkynningarinnar sé til þess fallið að „geta haft áhrif á rannsókn héraðssaksóknara en ráðuneytið getur ekki gert sér grein fyrir því að hve miklu leyti eða hvaða þýðingu hún kunni að hafa. Efni hennar er þó slíkt að rétt er talið að gera héraðssaksóknara grein fyrir því.“
Fjárfesting félags sem Baldvin á 49 prósent í, K&B ehf., í Samherja var tilkynnt til atvinnuvegaráðuneytisins átta dögum áður en að Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera opinberuðu margra mánaða rannsóknarvinnu sem sýndi fram á meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherjasamstæðunnar í tengslum við veiðar hennar í Namibíu.
Í umfjöllun Kveiks, sem sýnd var 12. nóvember 2019, kom fram að fréttaskýringaþátturinn leitaði til Þorsteins Más um viðtal vegna umfjöllunar þáttarins um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja í Namibíu 15. október, tæpum þremur vikum áður en tilkynnt var um að hluturinn í Samherja hefði verið seldur til K&B ehf.
Þorsteinn Már hafnaði að mæta í viðtal en fékk svo skriflega beiðni tíu dögum síðar, 25. október eða níu dögum áður en atvinnuvegaráðuneytinu var tilkynnt um að 43 prósent hluturinn í Samherja hefði verið seldur til barna aðaleigenda félagsins, þar sem Kveikur greindi honum frá því í smáatriðum hvað var verið að fjalla um.
Í tilkynningu sem lögmaður á vegum Samherja sendi fyrir hönd fyrirtækisins í gær var því hafnað að tengsl væru á milli þess að tilkynnt væri um eigendabreytingarnar og umfjöllunar um athæfi Samherja í Namibíu. Þrátt fyrir það fannst atvinnuvegaráðuneytinu viðeigandi að láta héraðssaksóknara vita af þeim.
Stenst lög um erlenda fjárfestingu
Kjarninn greindi frá því í gær að þann 4. nóvember 2019 hefði atvinnuvegaráðuneytinu borist tilkynning um að félag í eigu einstaklings sem er skilgreindur erlendur samkvæmt íslenskum lögum ætti 49 prósent hlut í félagi, sem hefði eignast stóran hlut í sjávarútvegsfyrirtækinu Samherja hf. Um var að ræða Baldvin sem er með lögheimili í Hollandi og telst því erlendur aðili í skilningi íslenskra laga. Um eignarhald slíkra þarf að tilkynna til atvinnuvegaráðuneytisins samkvæmt lögum, enda erlendum aðilum settar miklar skorður þegar kemur að því að eiga hlut í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.
Baldvin á 49 prósent í félaginu K&B ehf.. Aðrir eigendur þess eru systir hans Katla, sem á 48,9 prósent, og faðir hans, sem á 2,1 prósent.
Lögmaður Samherja sendi tilkynninguna upphaflega til Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það átti hins vegar ekki að senda hana þangað, heldur til hins ráðherrans í atvinnuvegaráðuneytinu, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunar, sem fer með forræði laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
Í tilkynningunni kemur fram að Samherja hefði verið greint frá því með bréfi þann 1. nóvember 2019 að einn af hluthöfum félagsins, Eignarhaldsfélagið Steinn, í eigu Þorsteins Más og Helgu, hefði selt alls 163,8 milljónir hluti í Samherja til K&B ehf. sem hefði fyrir vikið eignast 43 prósent hlut í Samherja.
Við meðferð málsins varð það niðurstaða ráðuneytisins að eign erlenda aðilans, Baldvins, á Samherja bryti ekki í bága við lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Bein eign hans í Samherja væri til að mynda 20,5 prósent sem þýddi að erlent eignarhald væri undir því 25 prósent hámarki sem tilgreint er í lögum.
Rúmt hálft ár þangað til að breytingar voru opinberaðar
Opinberlega var ekki sagt frá því að eigendaskipti væru að eiga sér stað hjá Samherja fyrr en 15. maí 2020. Þá birtist tilkynning á heimasíðu Samherjasamstæðunnar um að Þorsteinn Már, Helga og Kristján Vilhelmsson væru að færa næstum allt eignarhald á Samherja hf., sem er eignarhaldsfélag utan um þorra starfsemi samstæðunnar á Íslandi og í Færeyjum, til barna sinna. Þau halda hins vegar áfram að vera eigendur að erlendu starfseminni, og halda á stórum hlut í Eimskip, sem hefur frá 2018 verið vistað inni í öðru eignarhaldsfélagi, Samherja Holding ehf.
Í tilkynningunni kom fram að Baldvin og Katla myndu eignast 43 prósent í Samherja hf. Samhliða var greint frá því að Dagný Linda, Halldór Örn, Kristján Bjarni og Katrín, börn Kristjáns Vilhelmssonar, myndu fara samanlagt með um 41,5 prósent hlutafjár. Í tilkynningunni sagði að með þessum hætti „vilja stofnendur Samherja treysta og viðhalda þeim mikilvægu fjölskyldutengslum sem félagið hefur ætíð byggst á og hafa verið hornsteinn í rekstrinum.“ Þar kom einnig fram að undirbúningur breytinganna á eignarhaldinu hafi staðið undanfarin tvö ár en áformin og framkvæmd þeirra voru formlega kynnt í stjórn félagsins á miðju ári 2019.
Framsal og arfur
Í maí, þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um með hvaða hætti framsal hlutabréfa foreldra til barna hefði átt sér stað, fengust þau svör hjá Björgólfi Jóhannssyni, annars forstjóra Samherja, að annars vegar hefðu börnin fengið fyrirframgreiddan arf, og hins vegar væri um sölu milli félaga að ræða.
Ekki hafa fengist upplýsingar hjá Samherja um virði þess hlutar sem tilkynnt var um að færður hefði verið á milli kynslóða né hvernig tilfærslunni var skipt milli fyrirframgreidds arfs og sölu. Engin skjöl hafa heldur verið send inn til fyrirtækjaskrár vegna viðskiptanna enn sem komið er. Einu upplýsingarnar sem þar er að finna um K&B ehf., fyrir utan eignarhaldið á félaginu og að það hafi verið stofnað í apríl 2019, er að hlutafé þess var aukið um 100 milljónir króna seint í september í fyrra.
Eigið fé Samherja hf. var 446,7 milljónir evra í árslok 2018, en ársreikningur fyrirtækisins fyrir árið 2019 hefur ekki verið skilað til fyrirtækjaskrár, enda frestur til slíks ekki útrunninn. Á gengi þess tíma var eigið féð um 60 milljarðar króna.
Baldvin heldur á svipað miklum kvóta og Ísfélagið
Í tilkynningu Samherja til atvinnuvegaráðuneytisins segir að Samherji hf. stundi „hvorki fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands né rekur fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi í eigin nafni en á að fullu eða að hluta fyrirtæki í slíkri starfsemi.“
Þetta er rétt. Samherji hf. á þó sannarlega dótturfélög sem það gera.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja hf, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,02 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 prósent hans. Síldarvinnslan, sem Samherji á beint og óbeint 49,9 prósent hlut í, er svo með 5,2 prósent aflahlutdeild og Bergur-Huginn, í eigu Síldarvinnslunnar, er með 2,3 prósent af heildarkvóta til umráða. Auk þess á Síldarvinnslan 75,20 prósent hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf., sem heldur á 0,62 prósent af úthlutuðum kvóta. Samanlagt er þessi blokk að minnsta kosti 17,1 prósent aflahlutdeild.
Baldvin á því hlut í félagi, sem á hlut í félagi sem á félög, að hluta eða öllu leyti, sem halda saman á stærri hluta af úthlutuðum kvóta í íslenskri efnahagslögsögu en nokkur önnur sjávarútvegssamstæða. Bein hlutur Baldvins í úthlutuðum kvótaheimildum er því um 3,5 prósent. Til samanburðar nemur heldarkvóti Ísfélags Vestmannaeyja 3,7 prósentum og Vísir í Grindavík heldur á 3,65 prósent úthlutaðra aflaheimilda.