Hvaðan fólk er að koma en ekki hvar það er með ríkisborgararétt mun skera úr um hvort því verður hleypt inn fyrir landamæri ríkja Evrópusambandsins. Sambandið birti í gær lista yfir fimmtán lönd utan ESB sem sögð eru örugg og geta aðildarríkin, ef þau kjósa, byrjað að taka á móti gestum frá þeim í dag.
Bandaríkin, Brasilía og Rússland eru ekki í þeim hópi.
Stjórn ESB segist byggja ákvörðun sína á heilbrigðissjónarmiðum en ekki pólitík. Viðmiðin sem eru notuð eru fyrst og fremst sögð þrenns konar: Fjöldi nýrra COVID-19 tilfella síðustu fjórtán daga, þróun tilfella frá upphafi faraldursins og hvernig stjórnvöld hvers lands eru að takast á við farsóttina.
Um mikla jafnvægislist er að ræða: Að auka ferðalög fólks að nýju til að ýta við efnahagslífinu á sama tíma og hópsýkingar eru enn að koma upp í mörgum Evrópulöndum og víða annars staðar í heiminum. Að útiloka ferðamenn frá Bandaríkjunum þykir svo áfellisdómur yfir því hvernig Donald Trump forseti og hans stjórn hefur tekið á faraldrinum.
Ytri landamæri ESB verða frá og með deginum í dag, 1. júlí, opin fyrir ferðamönnum sem eru að koma frá eftirfarandi fjórtán ríkjum: Alsír, Ástralíu, Kanada, Georgíu, Japan, Svartfjallalandi, Marokkó, Nýja-Sjálandi, Rúanda, Serbíu, Suður-Kóreu, Taílandi, Túnis og Úrúgvæ.
Gestir sem eru að koma frá fimmtánda landinu, Kína, verða einnig boðnir velkomnir ef kínversk stjórnvöld opna sín landamæri með sama hætti fyrir fólki frá löndum ESB.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum voru þau fyrstu til að banna ferðalög fólks frá ESB-löndum í faraldri COVID-19. Þá tilkynningu gaf Trump út þann 11. mars. Þá var faraldurinn í hámarki í Ítalíu og var að breiðast hratt út í öðrum löndum Evrópu. ESB fordæmdi í fyrstu þá ákvörðun en ákvað svo sjálft nokkru síðar að setja á ferðabönn. Í dag verða ytri landamæri sambandsins opnuð og á listanum sem gefinn var út í dag eru þau lönd utan ESB (og Schengen-landa eins og Íslands) sem teljast „örugg“. Listinn verður í stöðugri endurskoðun.
Á síðustu vikum hefur ýmsum ferðatakmörkunum á ferðum fólks milli ákveðinna ríkja innan ESB verið aflétt. Sum lönd hafa tekið sig saman og opnað landamæri sín á milli eða gefið út sína eigin lista yfir „örugg lönd“ eða öllu heldur lista yfir „áhættusvæði“ sem ekki er tekið á móti ferðamönnum frá.
Þó að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi nú gefið út listann yfir „örugg lönd“ er ekki þar með sagt að öllum 26 aðildarríkjunum beri skylda til að taka á móti ferðamönnum frá þessum löndum. Í gær hafði rétt rúmur meirihluti þeirra þó samþykkt að gera það.
Lönd sunnar í álfunni vilja fleiri á listann
Ríkisstjórnir sumra landa innan ESB, svo sem Þýskalands, hafa viljað fara sérstaklega varlega. Þar hafa síðustu vikur komið upp hópsýkingar, m.a. meðal starfsmanna kjötvinnslufyrirtækja. Vildu þær hafa listann styttri frekar en lengri og að á honum væru lönd þar sem fjöldi daglegra smita væri lítill og færi lækkandi, lönd sem byggju yfir góðu heilbrigðiskerfi og gæfu út áreiðanleg gögn um gang faraldursins. Stjórnvöld landa sunnar í álfunni svo sem Grikklands og í Portúgal, landa sem reiða sig gríðarlega mikið á ferðamenn, vildu gera hið gagnstæða og hafa listann eins langan og mögulegt væri. Heimildir fjölmiðla herma að í síðustu viku, er drög að listanum voru enn í skoðun, hafi hann talið yfir 50 lönd.
Frönsk yfirvöld vildu svo að kröfur yrðu gerðar til þeirra landa sem lentu á listanum að þau opnuðu einnig sín landamæri fyrir fólki frá ESB. Það var almennt ekki gert, en þó í tilfelli Kína.
Stjórnmálaskýrendur segja fyrstu útgáfu listans, sem birt var í gær, því mikla málamiðlun. Hann verður í stöðugri endurskoðun og er aðeins ráðgefandi fyrir aðildarríkin sem þurfa ekki að fara eftir honum frekar en þau kjósa.
Það eru ekki aðeins áhyggjur af því að ferðamenn utan ESB komi með ný smit til Evrópu eftir þessa opnun landamæranna. Ekki eru minni áhyggjur af því að fólk sem heimsæki lönd á borð við Svíþjóð, Bretland og Portúgal, þar sem faraldurinn er enn útbreiddur, smitist þar.
Birta á endurskoðaðan lista á tveggja vikna fresti. Á listann munu smám saman bætast fleiri lönd en sá möguleiki er einnig fyrir hendi að einhver verði tekin af honum. Allar þessar ákvarðanir ætlar stjórn ESB að taka út frá heilbrigðissjónarmiðum, það er að segja hvernig faraldurinn þróast.
Fyrir utan löndin fimmtán (fjórtán + Kína á hliðarlínunni) hafa smáríki á borð við Andorra, Mónakó, San Marínó og Vatíkanið, einnig sinn sess á listanum yfir „öruggu löndin“.
Þá fylgja ákvörðuninni um opnun landamæra ESB fjölmargar undanþáguheimildir. Heilbrigðisstarfsmenn, fólk í hjálparstarfi, erindrekar erlendra ríkja, farþegar í tengiflugi, hælisleitendur og námsmenn eru meðal þeirra sem geta fengið undanþágur til ferðalaga þó að þeir séu að koma frá löndum sem ekki hafa unnið sér inn sess á listanum.
En Bandaríkin þurfa að bíða enn um sinn eins og fyrr segir. Þar breiddist faraldurinn aðeins seinna út en í Evrópu. Hann er enn í hámarki á mörgum stöðum og daglegur fjöldi greindra smita er enn að aukast. Í gær, þriðjudag, greindust þar yfir 48 þúsund manns með COVID-19. Það var fjórði dagurinn á einni viku þar sem mesti fjöldi smita var greindur frá upphafi faraldursins.