MYND:EPA

82 dagar í kosningar í sundruðum Bandaríkjunum

Joe Biden mælist með umtalsvert forskot á Donald Trump á landsvísu þegar minna en þrír mánuðir eru í bandarísku forsetakosningarnar. Hann er líka með yfirhöndina í flestum hinna mikilvægu sveifluríkja. En vika er langur tími í stjórnmálum og tæpar tólf vikur heil eilífð. Margt getur breyst og fordæmi eru fyrir því í sögunni. Kjarninn rýnir í kannanir um stöðu mála í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.

Næstu for­seta­kosn­ingar í Banda­ríkj­unum verða eftir 82 daga, eða 3. nóv­em­ber næst­kom­andi. Þær verða með óvenju­legu sniði og við for­dæma­lausar aðstæð­ur, þar sem heims­far­aldur geisar og fyr­ir­liggj­andi að stór hluti Banda­ríkja­manna mun ekki geta, eða ekki vilja, kjósa með því að mæta á kjör­stað. Mis­mun­andi er eftir ríkjum hvernig kosn­inga­fyr­ir­komu­lagi er hátt­að. En fyrir liggur að 76 pró­sent Banda­ríkja­manna mun geta kosið í með því að póst­leggja atkvæði sitt eða skila inn kjör­seðli sem er fylltur út ann­ars staðar en í kjör­klefa í þar til gerða kjör­kassa. 

Kosið er milli Don­ald Trump, full­trúa Repúblíkana­flokks­ins sem kjör­inn var for­seti Banda­ríkj­anna 2016, og Joe Biden, fram­bjóð­anda Demókra­ta­flokks­ins og fyrr­ver­andi vara­for­seta Barack Obama. Við hlið Trump á kjör­seðl­inum verður nafn vara­for­set­ans Mike Pence en Biden valdi í byrjun viku öld­unga­deild­ar­þing­mann­inn Kamala Harris sem vara­for­seta­efni sitt. Hún er þriðja konan í sög­unni sem teflt er fram sem vara­for­seta­efni og yrði sú fyrsta til að gegna emb­ætt­inu, ef hún og Biden sigr­a. 

Auglýsing

Kosn­ing­arnar eru að eiga sér stað á tíma þar sem klofn­ingur banda­rísku þjóð­ar­innar er greini­legri en lík­ast til nokkru sinni áður. Áferð fram­bjóð­end­anna er enda ger­ó­lík. Biden gerir út á að reyna að sam­eina sundraða þjóð á meðan að Trump, á sinn ein­staka hátt, elur á sundr­ungu með því að stilla nán­ast öllum málum upp í „við og þeir“ stöðu. Annað hvort fylgir fólk Trump, eða eru óvinir hans. Skiptir þar engu um hvort sé að ræða önnur þjóð­ríki, aðra stjórn­mála­menn eða sam­fé­lags­hópa innan Banda­ríkj­anna.

Þannig hefur hann stjórnað og þann val­kost leggur hann fyrir kjós­endur nú.

Biden með afger­andi for­skot á lands­vísu

Biden hefur lengi haft nokkuð afger­andi for­skot á Trump í skoð­ana­könn­unum þegar staðan á lands­vísu er skoð­uð. Sú staða teygir sig aftur fyrir þann tíma að fyrir lá að Biden yrði fram­bjóð­andi Demókrata. Sam­kvæmt FiveT­hir­tyEight, sem vigtar kann­anir og myndar úr þeim kosn­inga­spá, var Biden með 3,8 pró­sentu­stiga for­skot á Trump í lok febr­ú­ar. End­an­lega varð ljóst að Biden yrði mótherji sitj­andi for­seta í apríl síð­ast­liðn­um, og þá var auð­vitað COVID-19 far­ald­ur­inn skoll­inn á af fullum þunga og staðan mjög breytt. Í lok þess mán­aðar mæld­ist Biden með sex pró­sentu­stiga for­skot á lands­vís­u. 

Síðan þá hefur for­skotið mest farið upp í 9,6 pró­sentu­stig og mælist í dag 8,3 pró­sentu­stig.

Í byrjun viku var tilkynnt að Kamala Harris verði varaforsetaefni Joe Biden. Ef þau sigra þá yrði hún fyrsta konan til að setjast í það embætti.
Mynd: EPA

Þann vara verður þó að hafa á að FiveT­hir­tyEight mat stöð­una þannig á kjör­dag 2016 að 70 pró­sent líkur væru á því að Hill­ary Clinton myndi sigra og verða næsti for­seti Banda­ríkj­anna, en að líkur Trump væru 30 pró­sent. Og voru þó á meðal þeirra spálík­ana sem töldu líkar Trump einna best­ar.

Trump sigr­aði hins vegar í kosn­ing­unum með því að ná í 304 kjör­menn, en 270 þarf til að hljóta kjör, þrátt fyrir að hann hafi fengið 2,9 milljón færri atkvæði en Clint­on. Mun­ur­inn á þeim á lands­vísu varð á end­anum ein­ungis 2,1 pró­sentu­stig, Clinton í vil. Skoð­ana­kann­an­irnar voru því ekki að sýna rétta mynd af stöð­unni þá, og þeir sem fram­kvæma slíkar hafa farið í mikla sjálfs­skoðun á und­an­förnum árum til að bæta aðferð­ar­fræði sína.

Í dag er staðan þannig að vef­ur­inn telur 72 pró­sent líkur á sigri Biden en 28 pró­sent líkur á að Trump sitji annað kjör­tíma­bil. 

Á meðal þeirra spáa sem mest mark er tekið á er spá FiveT­hir­tyEight, líkt og 2016, sú sem gefur Trump einna mestar líkur á sigri. Sam­kvæmt kosn­inga­spá Economist eru líkur Trump til að mynda taldar ell­efu pró­sent, en að 89 pró­sent líkur séu á að Biden sigri.

Tryggt fasta­fylgi hjá Trump

Annar mæli­kvarði á stöðu Trump sem hægt er að styðj­ast við eru mæl­ingar á ánægju með störf hans. Sem stendur eru, sam­kvæmt FiveT­hir­tyEight, 54,5 pró­sent Banda­ríkja­manna óanægð með störf Trump, sem er mun meiri óánæg­kja en hún mæld­ist í apríl þegar óánægjan fór undir 50 pró­sent í fyrsta sinn í þrjú ár.

Alls segj­ast 41,8 pró­sent vera ánægð með störf Trump sem er nálægt með­al­tali hans á kjör­tíma­bil­inu, og gefur til kynna að hann eigi mjög tryggan grunn­hóp stuðn­ings­manna, svo­kallað „ba­se“, sem muni kjósa hann og styðja sama hvað. 

Stuðningur við Trump hjá kjarnanum í fylgishópi hans haggast lítið, sama hvað gengur á.
Mynd: EPA

Þegar mæl­ingar á stuðn­ingi við Trump eru bornar saman við stöðu fyrri for­seta þegar þeir höfðu setið jafn lengi og hann í emb­ætti kemur þó í ljós að sagan ætti ekki að stuðla að jákvæðni hjá for­set­anum um fram­hald­ið. 

Frá því að Harry S. Truman gegndi for­seta­emb­ætt­inu frá 1945 til 1954 hafa ein­ungis tveir for­setar mælst með minni stuðn­ing en Trump eftir 1.302 daga á for­seta­stóli. Þeir eru Jimmy Carter og George Bush eldri. Og þeir töp­uðu báðir bar­áttu sinni fyrir end­ur­kjöri.

Staðan í sveiflu­ríkj­unum Biden í vil

Á end­anum snýst for­seta­kjörið þó ekki endi­lega um hversu mörg atkvæði fram­bjóð­end­urnir ná í heilt yfir, heldur hvernig þau dreifast á ríkin 50. Líkt og áður sagði þarf ekki að fá flest atkvæði til að vinna, heldur flesta kjör­menn. Og þeir eru mis­mun­andi margir eftir ríkj­u­m. 

Í flestum þeirra er nokkuð meit­lað í stein hvor fram­bjóð­and­inn mun vinna. Það eru til að mynda engar líkur á að Trump muni vinna í stærsta ríki Banda­ríkj­anna, Kali­forn­íu, þar sem 55 kjör­menn eru í boði. Að sama skapi er nær öruggt að hann geti gengið að kjör­mönn­unum sem í boði eru í Okla­homa og Kent­ucky vís­um.

Trump sigr­aði 2016 með því að vinna með mjög litlum mun í svoköll­uðum sveiflu­ríkj­um. Þ.e. þeim þar sem mjótt er á mun­unum á stuðn­ingi við flokk­anna tvo og atkvæði óháðra geta ráðið úrslit­u­m. 

Árið 2016 vann Trump fjögur sveiflu­ríki með 1,2 pró­sentu­stigi eða minna. Um er að ræða Flór­ída (29 kjör­menn) og „ryð­belt­ið“ svo­kall­aða: Penn­syl­vaníu (20 kjör­menn), Wisconsin (tíu kjör­menn) og Michigan (16 kjör­menn). Ef Clinton hefði unnið í þessum ríkjum þá hefði hún fengið alls 307 kjör­menn og unnið örugg­lega. 

Auglýsing

Í ár eru mun fleiri ríki skil­greind þannig að það sé sam­keppni um að vinna þau. Að mati flestra grein­ing­ar­að­ila eru þau tólf tals­ins, þar með talin öll ofan­greind. Þar eru í boði 189 kjör­menn. Árið 2016 sigr­aði Trump í tíu af þessum tólf ríkjum og fékk 179 af kjör­mönnum þeirra. 

Nú gera spár ráð fyrir að Biden sigri í átta af ríkj­unum og fái 111 af kjör­mönn­unum sem eru í boði í þeim, en að Trump haldi fjórum ríkjum og fái 78 kjör­menn. Það sem meira er þá er for­ysta Biden nokkuð góð í flestum þeirra ríkja sem hann þykir lík­legur til að vinna, á meðan að for­skot Trump í ríkj­unum þar sem hann er með yfir­hönd­ina er lít­ið, sér­stak­lega í Georgiu og Ohio þar sem sam­tals 34 kjör­menn eru í boð­i. 

Í Texas, sem er með næst flesta kjör­menn á eftir Kali­forn­íu, alls 38 tals­ins, er Biden ekki langt á eftir Trump í könn­un­um, en meiri­hluti íbúa rík­is­ins hafa ekki kosið Demókrata í for­seta­kosn­ingum í 44 ár, eða síðan að Jimmy Carter sigr­aði þar naum­lega árið 1976.

Spálíkan Economist spáir því að Biden fái 348 kjör­menn, eins og staðan er nú, en Trump ein­ungis 190, eða 114 færri en í kosn­ing­unum 2016. 

Getur breyst hratt

Það er þó allt og snemmt að dæma Trump úr leik. Kosn­inga­bar­áttan á enn eftir að fara á fullt og fram­bjóð­end­urnir eiga til að mynda eftir að mæt­ast í kapp­ræðum þegar nær dregur kjör­degi. Frammi­staða þeirra þar gæti breytt stöð­unni, þótt sagan sýni að það sé sjaldn­ast þannig. 

John Kerry var með forskot á Georg W. Bush tæpum þremur mánuðum áður en kosið var á milli þeirra, en tapaði.
Mynd: EPA

Þá er auð­vitað í gangi heims­far­aldur og jákvæðar breyt­ingar á stöðu hans, og efna­hags­málum Banda­ríkj­anna sam­hliða, gætu styrkt Trump. Hann ætl­aði sér enda að gera efna­hags­mál og lítið atvinnu­leysi að sínum helstu kosn­inga­mál­um, áður en að COVID-19 kom til sög­unnar og leiddi af sér mesta efna­hags­sam­drátt í Banda­ríkj­unum í eitt hund­rað ár og fjölda­at­vinnu­leysi. 

Það hefur líka þrí­vegis gerst að sá for­seta­fram­bjóð­andi sem mæld­ist með for­skot á lands­vísu rúm­lega 80 dögum fyrir kosn­ingar hafi á end­anum fengið færri atkvæði en mót­fram­bjóð­andi sinn. Árið 1988 mæld­ist for­skot Mich­ael Dukakis á George Bush eldri að jafn­aði 5,6 pró­sentu­stig á þeim tíma­punkti. Árið 2004 var John Kerry með 2,5 pró­sentu­stiga for­skot á George W. Bush. Og sá síð­ar­nefndi mæld­ist með tíu pró­sentu­stiga for­skot á Al Gore árið 2000 en fékk á end­anum færri atkvæði, þrátt fyrir að næla sér í fleiri kjör­menn og verða kjör­inn for­set­i. 

82 dagar eru enda langur tími í póli­tík. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar