Nokkrir menn með náin tengsl við Donalds Trump Bandaríkjaforseta hafa komist í kast við lögin á síðustu árum. Sumir þeirra hafa játað brot, verið dæmdir og afplánað fangelsisdóma, á meðan að aðrir neita sök, hafa fengið dóm sinni mildaðan af forsetanum sjálfum eða bíða þess að mál þeirra verði til lykta leidd.
„Þetta er leitt, þetta er mjög leitt,“ sagði Trump á blaðamannafundi fyrir helgi, spurður um nýjasta dæmið um fyrrverandi samstarfsmann sem lent hefur í klóm réttvísinnar og er ákærður fyrir lögbrot.
Þá var hann að sjálfsögðu að tala um mál Steve Bannons, en sá var handtekinn síðasta fimmtudag og er ákærður fyrir að hafa fjármagnað lystisemdalíf sitt með því að fóðra eigin vasa með frjálsum framlögum almennings sem safnað var á netinu. Hann og fleiri samverkamenn sögðu að féð ætti að renna óskipt í að byggja hluta múrsins á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Bannon var kosningastjóri Trumps árið 2016 og starfaði náið með honum fyrstu mánuðina sem hann sat í embætti. Hann hefur stundum verið kallaður heilinn á bak við herferð hans sem skilaði kosningasigrinum árið 2016, en nú gengur hann laus gegn því skilyrði að hann útvegi 5 milljón dala tryggingu fyrir 3. september.
Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að hann hafi verið handtekinn í samstarfsverkefni strandgæslunnar og rannsóknardeild bandarísku póstþjónustunnar, þar sem hann var um borð í skútu kínversks aukýðfings.
Mál Bannon er ekki einsdæmi, heldur hafa að minnsta kosti sex menn til viðbótar sem haft hafa sterk tengsl við Trump, ýmist áður eða eftir að hann tók við embætti, sem hafa verið dæmdir fyrir eða játað brot sín. Kjarninn rifjaði upp hvaða menn þetta eru og hvað þeir hafa gert.
Michael Flynn
Michael Flynn var ráðgjafi Trumps í kosningabaráttunni árið 2016 og starfaði svo sem þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna fyrstu 22 dagana af stjórnartíð forsetans. Þá þurfti hann að segja af sér fyrir að hafa sagt Mike Pence varaforseta ósatt um samskipti sín við rússneska sendiherrann í Bandaríkjunum.
Hann játaði svo í desember árið 2017 að hafa logið að bandarísku alríkislögreglunni FBI um sama efni.
Flynn samþykkti á sama tíma um að hjálpa Robert Mueller, sérstökum saksóknara, við rannsókn hans á tengslum framboðs Trumps við rússnesk stjórnvöld. Snemma á þessu ári dró hann þó játningu sína til baka og segir stjórnvöld hafa brotið gegn skilmálum samningsins sem hann gerði í skiptum fyrir játningu sína.
Bandaríska dómsmálaráðuneytið gaf það svo út í maí að það ætlaði sér að fella niður málið sem hafði verið í bígerð á hendur Flynn. Demókratar sökuðu Bill Barr dómsmálaráðherra í kjölfarið um að haga réttlætinu eftir því sem hentaði Trump-stjórninni best, en dómsmálaráðuneytið sagði ekkert benda til þess að Flynn hefði framið glæp, þrátt fyrir að hann hefði játað glæpinn, sem var sem áður segir að ljúga að alríkislögreglunni.
Þessi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins er þó enn ekki orðin endanleg, en áfrýjunardómstóll í Washington hefur ákveðið að taka mál hans til meðferðar.
Paul Manafort
Paul Manafort, sem hafði áratugum saman verið ráðgjafi innan Repúblikanaflokksins og stýrði framboði Trumps um tíma fyrir kosningarnar árið 2016, hefur verið dæmdur fyrir skattsvik og fjársvik og afplánar nú sjö og hálfs árs langan dóm fyrir glæpi sína. Hann sat í fangelsi frá júní 2018 og fram í maí á þessu ári, en þá var honum veitt leyfi til þess að afplána heima vegna hættu á COVID-19 smiti í fangelsinu sem hann dvaldi í.
Glæpir Manaforts komu í ljós, eins og svo mörg önnur brot sem fyrrverandi samstarfsmenn Trumps hafa orðið uppvísir að, vegna rannsóknar Muellers á áhrifum Rússlands á gang mála í forsetakosningunum árið 2016, án þess að tengjast störfum fyrir framboðið beint.
En það var þó orðið ljóst strax fyrir kosningarnar árið 2016 að sitthvað væri bogið við starfshætti Manafort. Hann sagði sig frá störfum sínum fyrir framboð Trumps í ágústmánuði fyrir kosningar, eftir að New York Times varpaði ljósi á að hann hefði fengið háar fjárgreiðslur fyrir störf sín í þágu Viktor Janúkóvits, fyrrverandi forseta Úkraínu og stjórnmálaflokka þar í landi.. Störf hans þar eru einnig lögbrot, þar sem hann gaf það ekki upp í Bandaríkjunum að hefði staðið í hagsmunagæslu fyrir erlent ríki, eins og skylt er að gera lögum samkvæmt.
Rick Gates
Rick Gates starfaði náið með Manafort bæði fyrir og á meðan hann var kosningastjóri Trumps og hélt síðan áfram störfum fyrir framboð Trumps eftir að Manafort sagði af sér.
Síðar kom upp úr krafsinu að hann hafði verið hægri hönd Manaforts í störfum hans í Úkraínu og hafði, ekki frekar en Manafort, gefið þá hagsmuni sína upp, en þær háu greiðslur sem þeir félagar fengu frá aðilum Úkraínu voru vandlega faldar með slóð skúffufélaga sem Gates sá um að setja upp og ekki nema að afar takmörkuðu leyti gefnar upp til skatts.
Gates játaði á sig brot sín og gerðist afar samstarfsfús í Mueller-rannsókninni, en hann bar vitni gegn Manafort og Roger Stone auk annarra, áður en hann sjálfur var í desember síðastliðnum dæmdur í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára.
Roger Stone
Roger Stone er gamall vinur Bandaríkjaforseta og hefur verið áhrifamaður í Repúblikanaflokknum áratugum saman. Skömmu fyrir aldamót, þegar Stone starfaði sem lobbíisti fyrir spilavíti Trumps í Washingon, var fjallað um það að hann hefði hvatt Trump til að gefa kost á sér í forvali flokksins fyrir kosningarnar árið 2000, en Trump ekki haft áhuga þá.
Hann hafði lengi starfað með áðurnefndum Paul Manafort, en þeir stofnuðu saman hagsmunagæslufyrirtæki í Wahsington á níunda áratugnum.
Stone var í formlegu ráðgjafahlutverki þegar framboð Trumps fór af stað árið 2015, en síðan rak Trump hann reyndar og sagðist ekki hafa nein not fyrir hann í framboðinu lengur. Hann sagðist ekki vilja hafa menn í sínu framboði sem væru sjálfir að leita sér að athygli.
En Stone átti þó eftir að koma meira við sögu og hélt áfram að styðja við aldavin sinn. Hann hefur verið sakaður um að hafa verið í tengslum við uppljóstrunarsíðuna WikiLeaks í aðdraganda þess að síðan birti þúsundir stolinna tölvupósta úr tölvupóstkerfum Demókrataflokksins skömmu fyrir kosningarnar árið 2016.
Hann var svo sakfelldur í nóvember í fyrra fyrir að ljúga um það mál frammi fyrir þingnefnd og einnig fyrir að reyna að hindra framgang réttvísinnar. Hann fékk einungis þriggja ára dóm, þrátt fyrir að saksóknarar sem fóru með málið hafi talið sjö til níu ára fangelsi hæfilega refsingu fyrir brot hans.
Trump var ákaflega ósáttur við dóminn yfir Stone. Fyrr í sumar, einungis nokkrum dögum áður en Stone átti að hefja afplánun, notaði forsetinn svo vald sitttil þess að milda dóminn sem Stone fékk. Hann er ekki í fangelsi í dag, en er þó dæmdur maður og hyggst ekki áfrýja dómi sínum.
George Papadopoulos
George Papadopoulos starfaði fyrir framboð Trumps í aðdraganda kosninganna árið 2016, sem ráðgjafi í utanríkismálum. Hann var sá fyrsti sem játaði á sig glæp í tengslum við Mueller-rannsóknina og afplánaði tólf daga í fangelsi árið 2018, fyrir að hafa sagt alríkislögreglunni ósatt um að hann hefði vitað til þess að rússneskir aðilar byggju yfir þúsundum tölvupósta frá framboði Hillary Clinton, áður en þeir litu dagsins ljós.
Hann gaf út bók í fyrra þar sem hann hélt því fram að hann teldi að hann, og raunar framboð Trumps í heild sinni, hefðu orðið fyrir barðinu á samsæri leyniþjónustustofnana sem miðað hafi að því að njósna um framboðið undir því falska yfirskini að það hefði tengsl við Rússland. Þessi kenning er stundum kölluð Spygate.
Michael Cohen
Michael Cohen, persónulegur lögmaður Trumps frá 2006 til 2018, var dæmdur í þriggja ára fangelsi í lok árs 2018 eftir að hafa, í tengslum við Mueller-rannsóknina, játað á sig bæði skattsvik og fjársvik.
Hann hefur lýst því yfir að hann hafi farið á svig við lögin og greitt tveimur konum fjármuni að beiðni Trumps til þess að tryggja að þær myndu ekki tjá sig opinberlega um sambönd sín við Trump.
Cohen fær, samkvæmt nýlegum fréttum, að afplána það sem eftir er af fangelsisdómnum heima hjá sér í New York með ökklaband vegna hættu á COVID-19 smiti í fangelsinu þar sem hann var.
Hann mun á næstunni gefa út bók um störf sín fyrir forsetann, sem mun bera titilinn „Disloyal“. Þar segist hann meðal annars ætla að færa sönnur á að Trump hafi svindlað í kosningunum árið 2016 og lýsa því hvernig hann starfaði, sem einn margra kóna í kringum forsetann.